<$BlogRSDURL$>

Thursday, May 25, 2006

Munnmælasögur#47
Nú hafa kannski einhverjir haldið að ritstífla væri komin upp í Munnmælasögunum enda fáranlega langt síðan að síðasta saga birtist. En svo er aldeilis ekki og hér kemur ein klassísk frá Alabamafylki:

Fyrir einhverjum tíu árum síðan hélt Ásgeir Þór utan til Alabama og náði sér í gráðu frá háskóla í Montgomery. Ekki var nú félagslífið í líkingu við það sem Ásgeir hafði kynnst í MÍ á sínum tíma og var því frekar lítið um skemmtanir hjá þeim fjölmörgu Íslendingum sem þarna voru við nám. Í eitt af fáum skiptum sem þeir "fóru í bæinn" þá var Helloween í gangi hjá Könunum en Ásgeir hafði þó bara hnýtt á sig slifsið eins og hann er vanur. Skemmst er frá því að segja að fjöldinn allur af fólki var samankomin í bænum og allir í grímubúningum. Ásgeir kemur auga á biðröð sem hann taldi að hlyti að liggja inn á næsta skemmtistað og hann fer því í röðina. Þegar hann er búinn að vera þar dágóða stund, áttar hann sig á því að röðin liggur upp á svið þar sem fólk gerði grein fyrir búningi sínum. Ásgeir kunni ekki við að flýja úr röðinni og lét sig hafa það að fara upp á svið enda hefur gamla ræðuskörungnum sjaldan orðið orða vant. Þegar þangað var komið og Ásgeir stóð þar í jakkafötunum svaraði hann því einfaldlega til að hann væri að leika anorexíusjúkling!

Wednesday, May 24, 2006

Orðrétt
"Eftir því sem fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað í könnunum hafa loforð flokksins aukist í fjölmiðlum og jafnvel á skiltum á götuhornum. Væri mjög forvitnilegt að vita hversu langt mætti komast að endimörkum hvors um sig, hvort þróunin gæti fræðilega endað á síðasta samfylkingarmanninum lofa ostsneiðum tunglsins niðursneiddum á brauðið sem sá næstsíðasti bauð frítt í öll hús daginn áður. En hvað sem því líður, og þó fylgistap Samfylkingarinnar hljóti eins og flest annað að eiga einhver takmörk, þá er álitamál hvort þessari þróun verði snúið við með kosningaloforðum. Það eru nefnilega allmargir kjósendur sem átta sig á því hversu illa vinstrimenn og kosningaloforð fara saman. Eða öllu heldur, átta sig á því hvernig er um efndir kosningaloforða vinstri manna, í þau skipti sem þeir hafa komist í þá stöðu að geta efnt nokkuð. Saga R-listans er að mörgu leyti saga loforða sem ekkert er gert með eftir kosningar. Loforð um lækkun gjalda, loforð um að hækka ekki skatta, loforð um íbúalýðræði, loforð um þetta og loforð um hitt. Jafnvel persónulegt loforð um að borgarstjóri færi ekki í þingframboð, loforð sem Dagur B. Eggertsson sagði að væri lykilspurning um trúverðugleika viðkomandi stjórnmálamanns; það var svikið."
-Vef-þjóðviljinn þann 24. maí 2006.

Tuesday, May 23, 2006

Golfið
Golftímabilið er farið að rúlla. Búinn að fara í þrjú mót: Var á 82 í Leirunni, fékk svo 30 punkta á Skaganum og svo 38 punkta á Korpunni um síðustu helgi þar sem síðuhaldari spilaði með Rögga, Ragga og Bjarti. Forgjöfin var í 8,9 í upphafi sumars en er nú í 8,6 sem er personal best so far. Upp á Skaga um daginn spilaði ég með Sigurði Elvari vini mínum af Mogganum. Á einni fallegustu holu landsins: (ég veit að Salvar mun snúa út úr þessu) 3. holunni, skellti Elvar sér holu í höggi í fyrsta skipti. Það var skemmtilegt að verða vitni að þessu enda höggið með glæsilegasta móti: eða bakspuna, fyrir þá sem skilja það. Ekki var síður skemmtilegt að sjá Elvar taka upp bjórinn í kjölfarið klukkan 10 að morgni. Svona eiga pennar að vera.

Friday, May 19, 2006

Gylfi Ægis í stuði
Gylfi Ægis er alltaf í góðu stuði. Í færslu þann 14. maí býður Dr.Gunni lesendum upp á lag af nýjustu plötu meistarans á síðunni sinni, en hana er hægt að finna hérna HÆGRA megin á síðunni. Lag Gylfa heitir að sjálfsögðu: "Í stuði" !

Benni Sig í stuði
Benni Sig frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins er alltaf í góðu stuði.

Thursday, May 18, 2006

Meistaradeildin
Hvað eru menn búnir að vera að þvæla um að Ronaldinho og Eto séu einhverjir sérstakir sparksnillingar þegar Henke Larsson er miklu betri eins og sást glögglega í kvöld.

Wednesday, May 17, 2006

Auglýsing ungra jafnaðarmanna
Ungir jafnaðarmenn er jafnan skemmtilegir. Þá sérstaklega þegar þeir eru í kosningaham. Ég skemmti mér ágætlega yfir auglýsingu þeirra sem átti að sýna einhvern þumba gagnrýna Samfylkinguna í borginni. Hann átti að vera mjög hallærislegur, sérstaklega með því að gagnrýna Samfylkinguna fyrir að búa til fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Þegar ég sá þetta þá velti ég því fyrir mér hvort þessi garður hefði ekki verið kominn til sögunnar áður en R-listanum var falið að stjórna borginni. Ég hef nú fengið grun minn staðfestann því fjölskyldu- og húsdýragarðurinn var opnaður af borgarstjóra Sjálfstæðismanna árið 1993 eða ári áður en R-listinn komst til valda. Það er því vandséð hvernig ungir jafnaðarmenn geta fundið einhvern sem gagnrýnir Samfylkinguna fyrir að opna fjölskyldu- og húsdýragarðinn. En vissulega er slíkt hlægilegt.

Sunday, May 14, 2006

Orðrétt
"Ég er byrjaður að naga tölvuborðið og búinn að gleypa tölvuskjáinn"
-Ásbjörn Morthens í lýsingu á hnefaleikum á Sýn í kvöld.

Wednesday, May 10, 2006

Landsbankadeildin 2006
Þá er komið að hinni árlegu spá Bloggs fólksins fyrir Björgólfsdeildina í tuðrusparki karla. Mótið byrjar að mér skilst um helgina og því rétt að kasta inn spá með laufléttum rökstuðningi:

1. Akranes
2. Valur
3. FH
4. KR
5. Keflavík
6. Víkingur
7. Fylkir
8. Gríndavík
9. ÍBV
10.Breiðablik

Ég verð að hryggja Kristján Jónatans frænda minn með því að spá Blikum botnsætinu. En þeir eru nýliðar og verða þá bara að sýna að þeir eigi heima uppi. En ég held að liðið sem þeir eru með núna muni ekki hreinsa félagið af jójó stimplinum. Eyjamenn börðust fyrir lífi sínu í fyrra og munu gera það áfram. Held samt að þeir hafi ekki mannskapinn í það að hanga uppi. Kannski að þeir hafi gott af því að fara niður og byggja upp að nýju. Siggi Johnson mun halda Grindavík uppi en félagið hefur aldrei fallið niður um deild. Einn skemmtilegasti leikmaður mótsins í fyrra Óskar Örn Hauksson verður mikilvægur fyrir sóknarleik þeirra. Þetta verður millibilstímabil hjá Fylki en undanfarin ár hafa þeir verið betur mannaðir en núna. Gravesen bróðirinn er víst góður en það vantar fleiri slíka. Víkingur verður spútnikliðið í ár en þeir eiga nægan mannskap til þess að eiga inni fyrir þessari spá. Sá leik með þeim í fyrra og miðvarðaparið þeirra er geysisterkt auk þess sem Grétar Sig er kominn til baka. Keflvíkingar munu stríða toppliðunum en vantar stöðugleika til þess að gera atlögu að titlinum. Skemmtilegt lið. KR-ingar verða í 4. sæti enda sprungnir eftir æfingar vetrarins. Verða óstöðvandi á köflum en hafa ekki breiddina til þess að klára þetta. Grétar Hjartar verður samt markakóngur. Íslandsmeistarar síðustu tveggja ára, FH, verða að gera sér bronsið að góðu. Leikstjórnandi þeirra, Heimir Guðjóns er hættur og liðið verður ekki á sama flugi og í fyrra. Valsmenn verða aftur í öðru sæti. Mikið af nýjum mönnum í liðunu og það gæti tekið nokkra leiki að komast í fluggírinn. Einnig veltur sóknarleikurinn nokkuð á einu 32 ára gömlu hnépari sem gæti unnið mótið fyrir þá. Skagamenn verða Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í fimm ár. Mennirnir sem þeir voru að landa í vetur er einfaldlega stærri en gengur og gerist í þessari deild. Auk þess geta bræðurnir Bjarni og Þórður spilað hvaða stöður sem er og það vegur þungt. Arnar Gull gæti skilað þeim 10 mörkum sofandi.

Fjölmiðlar 2005
Út er komin bókin Fjölmiðlar 2005 eftir Ólaf Teit Guðnason blaðamann á Viðskiptablaðinu. Fyrir þá sem ekki vita þá skrifar hann vikulega pistla um vinnbrögð fjölmiðla, aðallega íslenskra fjölmiðla. Bókin er því samansafn þessara pistla frá árinu 2005. Einnig hefur komið út bókin Fjölmiðlar 2004. Er þetta eina reglulega gagnrýnin sem íslenskt fjölmiðlafólk fær opinberlega. Það var því vægast sagt einkennilegt að ENGINN íslenskur fjölmiðill fjallaði um fyrri bókina með ritdómi og eru þó fjallað um ósköpin öll af íslenskum bókum með þeim hætti. Það virðist vera að bragarbót verði gerð á þessu því í dag eyddi Blaðið einni blaðsíðu í viðtal við Ólaf vegna bókarinnar. Ég las fyrri bókina og var bæði hrifinn og sleginn. Hún er skyldulesning fyrir alla sem fylgjast vel með íslenskum fjölmiðlum. Bækurnar eru fáanlegar í bóksölu andriki.is fyrir tæplega tvö þúsund krónur og er sendingarkostnaður hvert á land sem er innifalinn í verðinu. Dúnna á þetta sjálfsagt líka á bókasafninu.

Monday, May 08, 2006

Orðrétt
"Fljúgandi diskur lenti í kvöld á Reykjavíkurflugvelli. Það væri vart í frásögur færandi nema fyrir það að diskurinn er hvergi skráður, hvorki til farþega- né fragtflutninga. Eru starfsmenn flugvallarins afar ráðvilltir því hvorki vita þeir hvað á að gera við farm disksins, 80.000 ólöglega fjölfölduð eintök af safndisk Gylfa Ægissonar, 20 bestu köstin, né heldur hvernig skuli róa flugmanninn, fjögurra rúmmetra illkynja kvikasilfursmassa sem lætur ófriðlega og hefur þegar sogað til sín og innbyrt um helming flugvallarsvæðisins. Mun þetta í fyrsta skipti á 513 ára hnökralausu flugsamskiptaferli Íslendinga við önnur sólkerfi sem óútskýranlegur fljúgandi furðuhlutur lendir hér."
-Baggalútur þann 7. maí síðastliðinn.

Rokland
Er að spá í að fara að lesa Roklandið hans Hallgríms Helgasonar. Ég held að hún sé fyndin. Örugglega skemmtilegri en draumalandið hans Andra Snæs. Hallgrímur er nefnilega oft fyndin þó mér finnist hann stundum ímyndunarveikur þegar hann fjallar um þjóðmál. En það þarf alls ekki að skaða rithöfund að vera ímyndunarveikur. Nýlega skemmti ég mér vel yfir frumlegri blaðagrein frá Hallgrími þar sem hann tekur fyrir Styrmi og Morgunblaðið. Hallgrímur virðist um fátt annað getað hugsað en Styrmi eftir að Davíð hætti í stjórnmálum. Af mörgum greinum hans um Morgunblaðið í vetur þá er þessi nú mun skemmtilegri en hinar.

Orðrétt
"Fréttir NFS um það að helstu eigendur þeirra séu á einhverjum voða fínum bílum að slefa utan í b-klassa selbryta í þessum hallærislega Gömbollkappakstri minnir á bómullarekruþræla að sleikja sér upp við húsbændur sína. Hvað kemur okkur það við þó þetta nýríka pakk eigi 5.9 milljónir til að splæsa í hugsanlegt tott á búgarði Hjú Hefner?"
-Dr. Gunni á heimasíðu sinni þann 3. maí síðastliðinn.

Friday, May 05, 2006

Óvissa með Danna
Dáðasti knattspyrnumaður okkar Bolvíkinga frá því að Bensi Einars var upp á sitt besta, Hálfdán Gíslason, þjáist nú af Rooney-cindrominu svokallaða. Danni, sem einnig er andlit Glitnis, var skorinn upp við kvillanum fyrir um tveimur vikum síðan. Er þetta nokkuð ný staða fyrir hann enda óvanur hnjaski sem fylgt getur knattspyrnuiðkun. Spekingar telja alls endis óvíst hvort Hálfdán verði búinn að ná sér þegar HM í knattspyrnu hefst í Þýskalandi. Blogg fólksins óskar Danna góðs bata.

Thursday, May 04, 2006

Vissir þú....? #8
Vissir þú að skattgreiðendur verða rukkaðir um 600 milljónir króna á ári næstu 37 árin til þess að eiga fyrir tónlistarhúsinu? Segjum að síðuhaldari sé 28 ára gamall, þó hann sé í raun miklu yngri, þá verður hann orðinn 65 ára gamall þegar hann er búinn að leggja sitt af mörkum til þessa sérhagsmunahóps sem heimtar þetta hús af almenningi.

Wednesday, May 03, 2006

Orðrétt
"Fortíð Finns var öll með þeim hætti, að hann þótti hið bezta fallinn á Framsóknarvísu til að vera settur yfir viðskipta- og bankamál á Íslandi. Þar hefir hann nú starfað í skjóli Sjálfstæðisflokksins við orðstír, sem mun eiga eftir að halda nafni hans lengi á því lofti, sem honum hæfir. En skuldadægur Lindar hf. færist óðfluga nær og fleira enn, svo að rígmontna rembumennið á Degi fær áfram sem mest að vinna í vörn og sókn fyrir rangan málstað, ásamt Birgi sínum Guðmundssyni, einhverjum ógeðslegasta penna sem stungið hefur verið niður á Íslandi og rakinn skíthæll hlýtur að stýra. Við hann verður talað í tómi. En svo kynni að fara að úr fýsibelgnum Stefáni Hafstein yrði golubelgur, þegar fram líða stundir í Landsbankamálinu. Annars er augljóst, að fyrir þeim vakir að klína sem mestum óþverra á fyrrverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins ef það kynni að gagnast R-listanum. Tilgangurinn helgar meðalið hjá tíkarsonunum."
-Sverrir Hermannsson í grein sinni "Ég ákæri" í Morgunblaðinu 1. maí 1998.

Hættulegir tímar
Sveitarstjórnarkosningar geta verið hættulegar. Sérstaklega fyrir skattgreiðendur. Nú fara í hönd hættulegir tímar fyrir skattgreiðendur. Frambjóðendur keppast við að lofa hinu og þessu, nánast öllu því sem þeim dettur í hug án þess að fjölmiðlafólk spyrji nokkurn tíma hvaða skatta eigi að hækka til að eiga fyrir loforðunum. Nú er búið að finna upp nýtt tískuorð fyrir pólitíkusa sem vilja slá í gegn á kostnað almennings, en það er orðið: gjaldfrjálst. Ekki hefur farið fram hjá neinum umræðan um gjaldfrjálsa leikskóla. Það þýðir þá væntanlega að enginn þurfi að borga fyrir starfsemi þessara leikskóla, enda gjaldfrjálsir. Leikskólakennarnir munu vinna frítt og húsnæðið mun detta af himnum ofan á lóð sem engum tilheyrir. Þetta verður að teljast mikið happ fyrir barnafólk. Þau öfl sem ráðið hafa ferðinni í borginni síðan 1994 hafa þegar kýlt útsvarið upp í leyfilegt hámark, auk þess að leggja á fólk sérstakan skatt fyrir að fara á klóið. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða gjaldi verður skellt á næst um leið og því verður harðlega mótmælt að skattar hafi hækkað í borginni. Stefán Ólafsson Félagsfræðingur mun kannski kveða upp þann dóm að næsta gjald sem borgin mun búa til verði í raun skattalækkun.

Orðrétt
"Samfylkingin ætlar ekki að vera neitt í slagorðunum þetta árið! Nú er það ekki tal út í loftið eða ódýrir orðaleikir sem gilda, heldur hreinar og klárar línur. Flokkurinn birtir nú heilsíðuauglýsingar í blöðum með þeim upplýsingum að einu sinni hafi Reykjavík verið smábær - og kemur það auðvitað mjög á óvart - en sé nú frábær, og er það vafalaust Samfylkingunni á einhvern hátt að þakka, þó það sé nú ekki útskýrt í auglýsingunni með öðru en mynd af Degi B. Eggertssyni.

Það er auðvitað ekki auðvelt að keppa við stjórnmálaflokk sem er svona hlaðinn röksemdum. Og ekki mun það batna hjá hinum flokkunum þegar næsta skothríð kemur frá Samfylkingunni og afsannar í eitt skipti fyrir öll þá þjóðtrú að einu sinni hafi Dagur B. Eggertsson verið voða frakkur, en sé nú froðusnakkur.

Þegar á borgarbúum dynja svo auglýsingar þar sem bent verður á það að áður hafi Reykjavík verið sveit en sé nú heit, verið græn en sé nú væn, verið möl en sé nú svöl, verið svæði en sé nú æði og verið svört en sé nú björt, þá eru úrslitin ráðin."
-Vef-þjóðviljinn þann 1. maí 2006.

Tuesday, May 02, 2006

Flettingar
Það styttist skuggalega í flettingu númer 50 þúsund frá því mælingar hófust á þessari bloggsíðu. Ætli sé ekki best að láta lesendur um að ákveða verðlaun fyrir þann sem sýnir fram á heimsókn númer 50.000.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?