<$BlogRSDURL$>

Saturday, December 30, 2006

Orðrétt
"Það þarf ekki hrísgrjón hvort sem er. Hrísgrjón eru tákn um frjósemi og þau þurfa ekki á því að halda"
- Einar Þór Jónsson mastersnemi, í giftingu Ásgeirs Þórs og Ásu í dag.

Monday, December 25, 2006

Gleðilega hátíð

Blogg fólksins óskar lesendum sínum til sjávar og sveitar gleðilegrar hátíðar. Hvernig væri nú að dusta rykið af kærleikanum? Guð blessi okkur öll.

Friday, December 22, 2006

Orðrétt

"Lukas Rossi er leiðindasöngvari. Hann er gjarn á að væla textana sína í stað þess að syngja þá og tilgerðin hreinlega drýpur af honum. Hann minnir mig einna helst á pervisnu geldingana sem sýndir voru í kvikmyndinni Amadeus. Ýmis fólskuleg upptökutækni er notuð við gerð laganna, en útkoman verður einhver ofhlaðinn hræringur. Ekki kaupa þennan disk, plís. Mér líður eins og einhver hafi rekið við í eyrað á mér."
-Niðurlag plötudóms eftir einhvern Dóra DNA á Fréttablaðinu (trúlega meinafræðingur) um plötu Supernova.

Helgaði líf sitt vændiskonum!
Ég tók eftir því í einhverjum bókaauglýsingunum að þar segir Flygering eitthvað á þessa leið: "...helgaði líf sitt vændiskonum..." Þetta mun vera úr auglýsingu á bók um einhverja skotthúfukvensu sem Sigríður Dúna skrifaði. Ég held að maður hefði nú tekið virkilega við sér ef ævisaga einhvers karlmanns hefði verið auglýst með orðunum: "helgaði líf sitt vændiskonum". Það hefði nú eitthvað hreyft við hysteríuliðinu og rétttrúnaðarliðinu en allar líkur hefðu verið á mjög skemmtilegri lesningu.

Monday, December 18, 2006

Orðrétt
"Þú ert bara lítill tappi, krumpaður að innan og ert í vandræðum"
Ásbjörn Morthens, fyrrum starfsmaður JFE að eigin sögn, í sjónvarpsþættinum Tekinn.

Tilviljanir
Tilviljanir í lífinu geta oft verið skrýtnar. Um daginn fylgdi ég gömlum fjölskylduvini til grafar. Hann fór út úr íbúð sinni í síðasta skipti 20. nóvember 2006 og á sjúkrahús. Þá vissi hann vitanlega ekki að hann myndi ekki snúa til baka. Þann dag voru nákvæmlega þrjátíu ár upp á dag, frá því að hann flutti inn í íbúðina með konu sinni.

Thursday, December 14, 2006

West Hamur
Ætli West Ham væri í fallbaráttu og í eigu Íslendinga ef þeir hefðu haldið í þá leikmenn sem þeir hafa alið upp á undanförnum árum? Hópurinn væri eitthvað sterkari með þessa menn innanborðs: Rio Ferdinand, Glen Johnson, Michael Carrick, Frank Lampard, Joe Cole og Jermain Defoe.

Wednesday, December 13, 2006

Orðrétt
"Er þetta ekki örugglega HERRA Ísland keppni? Mér finnst þessi metrósexúalpæling vera komin til helvítis þetta er bara úrkynjun. Karlmaðurinn er að deyja og við er að taka einhver hárlaus glansvera sem þrífst best í fríhöfnum flugvalla innan um ilmvötn og fersk bindi. Ég vil þá láta skrá þessi kvikindi sem nýtt kyn. Karlar, konur og metró."
-Vilhjálmur Goði upptökumaður á bloggi sínu 25. nóvember 2006.

Stefán Ólafsson í fortíð og nútíð
Stundum er sagt að pólitíkin hafi gjörbreyst við fall Sovétríkjanna og eftir að RR og MG bundu enda á kalda stríðið. Jafnvel ganga sumir spekingar svo langt að segja ekki sé lengur til neitt sem sé hægri og vinstri í pólitík. Ég gef nú ekki mikið fyrir slíkar fullyrðingar. Ágætt dæmi er Stefán Ólafsson hugmyndafræðingur stjórnarandstöðunnar í skattamálum. Þegar þátturinn með honum, Birgi Birni, Sameiningartákninu og Milton Friedman var endursýndur á mánudagskvöldið, þá rann upp fyrir mér ljós að umfjöllunarefni Stefáns nú á dögum er það nákvæmlega sama og þegar þátturinn fór í loftið árið 1984. Þetta segi ég alls ekki til að lasta Stefán, heldur til þess að benda á að sum þrætueplin deyja ekki út hvort sem kalt stríð er í gangi eða ekki. Eins og stærð ríkisvaldsins, skattpíninginu og fleira og fleira.

Orðrétt
"Frásögn Margrétar Frímannsdóttur af veru sinni í þingflokki Alþýðubandalagsins er helst að líkja við sögu konu, sem rýfur margra ára þögn og segir frá linnulausu pólitísku heimilisofbeldi.....Margrét skefur ekki utan af því. Hún segir það hafa verið "heilt helvíti" að sitja þingflokksfundi. Vanvirðan, sem Steingrímur J. Sigfússon hafi sýnt henni "var yfirgengileg". Meira að segja, eftir að hún hefur skorað Steingrím á hólm í formannskosningum 1995 og haft betur, heldur meirihluti þingflokksins áfram að sniðganga hinn nýkjörna formann.....Svavar Gestsson skoraði á Margréti að draga framboð sitt til baka í nafni flokkshollustunnar. Og fráfarandi formaður, Ólafur Ragnar, studdi hana ekki - fyrr en eftir á, þegar ljóst var, að hún hafði sigrað, að hennar eigin sögn."
-Jón Baldvin Hannibalsson, guðfaðir góðærisins og höfundur internetsins, í blaðagrein í Morgunblaðinu á sunnudag.

Monday, December 11, 2006

Vissir þú....?#10
Vissir þú að síðuhaldari og Jón Steinar Guðmundsson frá Seljanesi voru á meðal stofnenda körfuknattleiksdeildar UMFB?

Sunday, December 10, 2006

Var Ronaldinho einn af þeim bestu 2006?
Mér finnst þessi spurning eiga rétt á sér eftir að Ronaldinho hefur verið tilnefndur sem besti knattspyrnumaður ársins. Að mínu mati byrjaði hann árið vel og er að enda árið vel. Hann lék hins vegar ekki vel frá mars - nóvember. Það er drjúgur tími. Auk þess er þetta HM ár og ég er þeirrar skoðunar að þessi verðlaun eigi að miðast við frammistöðu á HM. Það er sviðið sem allir knattspyrnumenn vilja leika á og tækifærið kemur aðeins á fjögurra ára fresti. Varlega áætlað var Ronaldinho ekki á meðal 100 bestu manna keppninnar og þegar við bætist, að hann sást ekki í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, þá finnst mér rökin fyrir því að verðlauna hann sérstaklega vera fremur veik.

Thursday, December 07, 2006

Munnmælasögur#55
Saga númer 55 er af þeim frændum og Gleðipinnum, Ásgeiri Þór og Heimi Jónatans en mér var bent á þessa sögu fyrir skömmu af góðum vinstrimanni í innsveitum suðurlands. Mun hún hafa gerst þegar þeir voru komnir til vetursetu í Reykjavík eftir MÍ árin. Í janúar þótti þeim gjálífið í sódómunni í Reykjavík hafa um haustið verið hálfu verra/betra en á MÍ árunum, og töldu nú gæfulegt að finna sér einhverja létta hreyfingu fram til vorsins. Skunduðu þeir niður í TBR þar sem þeir þóttust vita að margir heldri menn á höfuðborgarsvæðinu stunduðu hnit sér til heilsubótar. Þegar þangað var komið var þeim tilkynnt að þeir yrðu að gerast félagar í TBR og borga ársgjald, til þess að geta pantað fasta tíma. Veltu þeir þessu nokkuð fyrir sér þarna í andyrinu sem bendir nú kannski til þess að ekki hafi endilega hugur fylgt máli þegar taka átti til við íþróttaiðkun. En eftir að hafa brætt þetta aðeins með sér ákvaðu þeir að borga ársgjaldið en rétt áður en Ásgeir rétti afgreiðslustúlkunni/manninum kortið spurði hann til öryggis: "Er nokkuð búið að halda árshátíðina?"

Monday, December 04, 2006

Eyrnamergurinn málsins
Það hlýtur að vera örlítið sérstakt að vakna timbraður með eyrnamerg á augntönnunum eins og þessi ágæti maður hefur væntanlega gert.

Sunday, December 03, 2006

Herkænska Ingibjargar Sólrúnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir getur verið mjög sniðug þegar vel liggur á henni og sérstaklega koma klókindi hennar í ljós þegar kemur að innanflokksátökum. Í ræðu á einhverri flokkssamkomunni kvað hún upp þann úrskurð að kjósendur treystu ekki þingflokki Samfylkingarinnar fyrir landsstjórninni. Sjálfsagt er þetta alveg hárrétt hjá henni en flokkurinn hefur verið í frjálsu falli í könnunum síðan hún fékk góða kosningu í formannsembættið og Ágúst Ágústs fékk yfirnáttúrulega kosningu í varaformanninn. Þegar flokkur fær ekki meðbyr er spjótunum stundum beint að forystu hans og stuðningsmenn Ingibjargar hikuðu ekki við það þegar Össur var formaður. Nú hafa einhverjir pískrað laumulega um hver gæti orðið næsti formaður Samfylkingarinnar og hefur til dæmis Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Straumsvíkinga verið nefndur í því sambandi. Einnig hefur heyrst að Gunnar Valþórsson sé hættur á blaðinu Blaðið og kemur hann því einnig til greina. En nú hefur Ingibjörgu líklega tekist að beina umræðunni um vanda Samfylkingarinnar frá forystu hans, því þingflokkurinn skal bera ábyrgðina allur sem einn. Þetta er dæmi um pólitísk klókindi því þessi áhersla hennar komst í hámæli hjá fréttastofum allra fjölmiðla.

Orðrétt
"Ég hef áður sagt að ef innviðir Frjálslynda flokksins eru svo fúnir að þeir þoli ekki atlögu Jóns Magnússonar, þá má flokkurinn fara Guði á vald í grátt brókarhald eins og séra Snorri á Húsafelli sagði við Jón Hreggviðsson."
- Sverrir Hermannsson Guðfaðir "Frjálslynda" flokksins og laxveiðiáhugamaður í Morgunblaðinu í gær.

Atvinnustjórnmálamanni sagt upp
Margrét Sverrisdóttir atvinnustjórnmálamaður virðist hafa misst 50% vinnu sinnar og er ekki lengur framkvæmdarstjóri þingflokks "Frjálslynda" flokksins. Eins og alltaf þegar atvinnustjórnmálamenn missa vinnu sína hefur þetta farið illa í Margréti. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur hún sem framkvæmdarstjóri flokksins og framkvæmdarstjóri þingflokksins verið atvinnustjórnmálamaður árum saman. Ég öfunda ekki Guðjón Arnar Kristjánsson fyrrverandi varaþingmann Sjálfstæðisflokksins af þeirri stöðu sem hann er lentur í. Öðru megin við sig er hann með þingmenn sína; sprengjusérfræðinginn og Sigurjón Goða og hinu megin eru mæðginin; Guðfaðirinn og vonarstjarnan. Margrét mun víst eiga mikið persónufylgi í röðum "Frjálslyndra" og því líklegra mikilvægara fyrir Guðjón að halda henni góðri heldur en Jóni sæta Magnússyni. Hún gæti hæglega boðið sig fram gegn honum á næsta landsfundi flokksins.

Orðrétt
"Enda þótt sparkleg líkindi séu með Giggs og George Best varð snemma ljóst að hann myndi ekki glepjast af gjálífinu líkt og forveri hans. Sennilega hefur honum líka verið létt þegar annað ungmenni af sömu kynslóð hjá United hafði af honum athyglina - David Beckham. Fljótlega eftir að hann kom fram á sjónarsviðið féll Giggs í skuggann - líkt og allir aðrir sparkendur, lífs og liðnir. Allar götur síðan hefur Giggs látið fæturna tala og nýtur lífsins utan vallar fjarri kastljósi miðlanna ásamt sambýliskonu sinni Stacy og börnunum Liberty og Zach."
- Orri Páll Ormarsson í grein um Ryan Giggs í Morgunblaðinu í gær.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?