<$BlogRSDURL$>

Friday, May 30, 2008

Munnmælasögur#80
Saga númer áttatíu er af einum uppáhaldsfrænda mínum, Pétri Guðmundssyni. Stínu Mass þótti, og þykir sjálfsagt enn, synir sínir keyra full geyst. Hefur hún oft og mörgum sinnum komið þeim skilaboðum áleiðis til þeirra með misjöfnum árangri eins og gengur og gerist. Pétur var jafnan með skemmtilega aðferð til þess að draga úr skömmunum frá mömmu sinni þegar hann var að keyra vestur úr höfuðborginni. Fyrir klukkan þrjú á daginn þá hringdi Pétur vestur og tilkynnti Stínu að hann væri að leggja af stað. Síðan fór Pétur í 3 bíó og kíkti á einhverja góða bíómynd. Í kjölfarið lagði hann af stað eða rúmum tveimur tímum síðar en tilkynnt brottför. Þegar til Ísafjarðar var komið voru jafnan teknir nokkrir rúntar, fengið sér pylsu og spjallað við fólkið á rúntinum. Þegar út í Vík var komið biðu hans svo skammir hjá Stínu fyrir það hve fljótur hann hefði verið vestur.

Wednesday, May 28, 2008

Latabæjarvæðingin tekur á sig nýjar myndir
Eitt það allra erótískasta sem fyrir augu Vesturbæinga ber nú á vorkvöldum, eru Kiddi Vill og Biggi Tjörvi, svífandi um í svörtum spandexgöllum. Síðuhaldari spókaði sig á sápustykkinu í kvöldsólinni en hann hafði frekar spilað 18 holu golf heldur en að hlaupa um á malbiki í kafarabúningi.

Þreföldun
Þessum háskólamenntuðu aumingjum fyrir sunnan þykir merkilegt að tvöfalda vegi eins og Reykjanesbraut eða Suðurlandsveg. Í Víkinni þykir það nú ekki ýkja merkilegt því þess verður varla langt að bíða að Sandvegurinn verði þrefaldaður.

Tuesday, May 27, 2008

Orðrétt
"Og svo er ég svo lánsamur að þekkja Magnús Pálma. Hann vinnur í Glitni og þar eru mörg hundruð tölvur sem hægt er kjósa úr. Ég nefni Magnús Pálma sérstaklega því mér er svo minnisstæð framganga hans í að hjápa Herberti Guðmundssyni, sem hafði verið söngvari KAN, hljómsveitar okkar Bolvíkinga. Herbert leitaði eftir stuðningi bolvískra krakka við að koma laginu hans, Can´t walk away, inn á vinsældarlista Rásar 2. Bolvísk ungmenni lögðust mörg á árarnar með Herberti og hringdu og hringdu og hringdu og komu laginu á toppinn, fyrst íslenskra laga. Ég man ekki lengur töluna á símtölum Magnúsar Pálma í vinsældarlistann, en þau voru mörg. Magnús - fjölpóstur á vinnufélagana- núna!"
- Kalli Hallgríms, poppari og wannabe sjómaður, í smölun á heimasíðu sinni vegna keppni Rásar2 um Sjómannalag ársins.

Hamfarir eða framfarir í Hádegismóum?
Nýr ristjóri Morgunblaðsins ætlar greinilega ekki að setjast í stólinn bara til þess að vera ritstjóri heldur er hann greinilega með skoðanir á því hvernig eigi að gera hlutina í Hádegismóum. Nokkrar mannabreytingar hafa þegar átt sér stað á mikilvægum stöðum og gleðst ég sérstaklega yfir því að Bjöggi Guðmunds sé að snúa aftur á Moggann. Vefsíðan Orðið á götunni tekur jafnan fyrir breytingar sem þessar og hef ég rekið mig á það æ oftar hversu lítið er varið í skrifin á þeim vef. Vitaskuld gefur nafnið það svo sem til kynna enda fátt gáfulegt við það að standa á götunni og skiptast á slúðri. Þetta var ritað á vefinn um daginn:

"Orðið á götunni er að sterk, persónuleg bönd séu milli Ólafs og þessara þriggja nýju lykilstarfsmanna. Þeir eru: Kolbrún Bergþórsdóttur, sem verður ný skrautfjöður í menningarumfjöllun Morgunblaðsins. Ólafur hefur unnið afar náið með Kolbrúnu eftir að hann tók við ritstjórn 24 Stunda. Ragnhildur Sverrisdóttir, sem hætti á Mogganum fyrir um það bil ári en snýr nú aftur upp í Hádegismóa og tekur við umsjón með Sunnudagsblaði Moggans undir stjórn nýja ritstjórans. Ráðning Ragnhildar í þetta hlutverk vekur athygli enda hefur Karl Blöndal, aðstoðarritstjóri Moggans haft helgarblaðið á sinni könnu. Ólafur og Ragnhildur hafa unnið saman í áratugi og eru miklir vinir og nágrannar í Fossvoginum. Ragnhildur hefur unnið meira og minna á Mogganum í 25 ár og er öllum hnútum kunnug og verður Ólafi áreiðanlega mikill styrkur að henni.Loks er það Björgvin Guðmundsson, sem var ráðinn til að hafa umsjón með viðskiptaumfjöllun Moggans. Þeir Ólafur eiga það sameiginlegt að tilheyra þeim exklúsíva hópi manna sem hafa verið formenn Heimdalls, félags ungra sjálfstæðismanna. Í þeim hópi eru reyndar einnig Þór Sigfússon, nýr stjórnarformaður Árvakurs og auðvitað líka sjálfur Styrmir Gunnarsson. Björvin Guðmundsson hefur undanfarið verið ritstjóri Markaðarins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins."

Ekki þekki ég þær Kolbrúnu og Ragnhildi en gæti trúað að þessi sterku persónulegu bönd á milli Óla og Bjögga séu svona álíka mikil og á milli Stormskersins og Stefans Hilmarz. Í greininni er líka ýjað að því að með þessum ráðningum ætli Óli sér að halda utan um alla þræði á ritstjórninni. Sá sem þarna hélt um lyklaborð þekkir greinilega ekki Bjögga vin minn vel ef hann heldur að hægt sé að fjarstýra hans skrifum.

Saturday, May 24, 2008

Þegar á móti blæs
Það er undarleg staðreynd að þegar sænskar söngkonur stíga á svið í Eurovísion söngvakeppninni þá er undantekningarlaust mótvindur.

Friday, May 23, 2008

Enginn er spámaður í eigin föðurlandi
Nú þegar þrjár umferðir eru búnar í Landsbankadeildinni þá eru Keflavík og Fjölnir á toppnum með fullt hús stiga. Gaman að segja frá því að á þessu annars ágæta bloggi spáði síðuhaldari Fjölni neðsta sætinu. Þetta eru því ekki skekkjumörk upp á nema ellefu sæti eða svo. En svona til þess að vega upp á móti þessu þá var hér ýjað sterklega að sigri United í Meistaradeildinni í færslu í byrjun mars:

"Arsenal steig í gærkvöldi stórt skref í þá átt að hjálpa Manchester United að sigra í Meistaradeild Evrópu. Ljóst má vera að Milan hafi verið síðasta liðið sem United vildi mæta, enda hefur Milan tvívegis slegið United sannfærandi út úr keppninni á undanförnum árum. Þarft framtak hjá Nöllunum og fallegt til þess að hugsa að þeir beri hag United fyrir brjósti á alþjóðlegum vettvangi. Nú virðist leiðin vera nokkuð greið fyrir United í Meistaradeildinni..."

Svo mörg voru þau orð.

Tuesday, May 20, 2008

Handbolti.is að hætta ?
Eyjamaðurinn Hlynur Sigmarsson mun hafa gefið það út að hann ætli að hætta afskiptum af handbolta. Held að hann hafi meðal annars látið þetta flakka í þættinum hjá umboðsmanni mínum, honum Henry. Kominn er í gang undirskriftarlisti á netinu þar sem Hlynur er hvattur til að halda afskiptum sínum af handbolta áfram. Þetta er í sjálfu sér svolítið loðið; hvort þar sé átt við annað formannsframboð eða halda áfram að starfa fyrir ÍBV eða hvað. En það sem skiptir kannski mestu máli er hvort handbolti.is deyji drottni sínum með Hlyni, sem hefur verið aðalmaðurinn í því að halda þeim vef á lofti eftir því sem ég best veit. Frábært framtak og löngu tímabært. Það er náttúrulega ekki hægt að pína menn til þess að halda sjálfboðavinnu áfram, ef þeir vilja á annað borð hætta, en hins vegar er mjög mikilvægt að handbolti.is starfi áfram með svipuðum formerkjum.

Monday, May 19, 2008

Einarshús
Vek athygli á vefsíðunni einarshusid.is. Frábært framtak og ekki þarf að fjölyrða um hvers lags grettistaki Ragna, Jón Bjarni og co hafa lyft til þess að færa húsið til vegs og virðingar á ný. Væri ég með hatt þá tæki ég ofan. Það er einnig skemmtilegt að húsið og vefsíðan skyldu vera komin í þennan farveg þegar 110 ára afmæli afa rann upp þann 17. maí.

Sunday, May 18, 2008

Óður til Ólafs
Ég hef verið að reyna að melta það sem ég varð vitni að í gegnum imbann fyrir viku, þegar Ólafur Stefánsson snéri niður Evrópumeistara Kiel við annan mann, Árpád Sterbik að nafni. Bara nafnið Sterbik gefur einhvern veginn til kynna að þarna sé tröll á ferðinni sem hefði getað átt heima í Njálu. Hann sá um að verja þegar mikið lá við og hans þáttur var ekki lítill í þessum sigri Ciudad á Kiel. Hinn aðilinn sem sá vann þrekvirki var náttúrulega Óli Stef. Ég hafði forðast það að ráðast fram á ritvöllinn strax að leik loknum, þar sem maður væri kannski að einhverju leyti blindaður af þjóðernisrembingi og áralangri aðdáun á þessum íþróttamanni. En í fullri yfirvegun og lágmarksþynnku þá er hægt að segja að Óli hafi gert nokkuð sem ég, (og kannski fleiri), taldi að væri ekki hægt.

Að mæta til Þýskalands með tveggja marka tap á bakinu og taka titilinn af ríkjandi Evrópumeisturum á þeirra eigin heimavelli er í sjálfu sér nógu mikið afrek. En þá á eftir að setja inn í jöfnuna að Ciudad var með laskað lið. Það vantaði fjóra sterka menn: Metlicic sem getur hvílt Óla, Davis, Rutenka og Urios sem spilaði svo gott sem ekkert. Allir teljast þeir yfir meðallagi frambærilegir handboltamenn og er þá ekki fast kveðið að orði. Ofan á þetta bætist að leikmenn sem gefa sig út fyrir að vera alvöru handboltamenn eins og Entrerios og Pajovic, þeir voru ekki að gera mikið. Í það minnsta ekki gæfumuninn. Það gerði hins vegar 35 ára gamall heimsspekingur, sem ýmsir sjálfskipaðir spekingar, nánast afskrifuð í ræðu og riti fyrir nokkrum árum síðan. Það er ekki síður merkilegt að horfa til þessarar frammistöðu með það til hliðsjónar. Tólf mörk á móti Kiel í úrslitaleik Meistaradeildar, eitt skot í stöng og eitt varið. Í markinu gegnt Ólafi stóð Thierry Omyer sem er ekki að stíga sín fyrstu spor í íþróttinni. Sá maður hefur gegn lykilhutverki í sigri tveggja liða í Meistaradeildinni á undanförnum árum; Kiel og Montpellier. Þegar allt er lagt saman þá var frammistaða Óla í raun lygileg og verður vart leikinn eftir. Auk hans lagði Kallmann sitt af mörkum í sókninni og skoraði að mig minnir í kringum tíu mörk. En þau voru nánast öll úr dauðafærum. Hraðaupphlaupum og galopnum hornafærum. Óli skoraði mörg sinna marka utan punktalínu, bæði með uppstökkum og af gólfinu. Nokkur úr vítum, tvö hraðaupphlaup og eitt gegnumbrot ef ég man rétt. Auk þess að fiska vítaköst og leggja upp mörk. Það var yfirgengilegt að horfa á þetta og í kjölfarið nokkuð fyndið að sjá Ciudad taka á móti bikarnum með 11 þúsund Þjóðverja bauland í höllinni.

Var sonur Gríms rakara ekki örugglega búinn að næla í hann Fálkaorðunni?

Orðrétt
" Á dögunum var 17 ára skólastúlka, Rand Abdel-Qader, að nafni, barin til dauða. Morðinginn var faðir hennar og ekki þarf að spyrja að því að hann gengur enn laus og veitir blaðaviðtöl af og til. Í samtali við breska blaðið Observer segist hann sjá eftir því einu að hafa ekki komið dótturinni fyrir kattarnef strax við fæðingu hennar. Og hvað ætli stúlkan hafi gert svo skelfilegt að jafnvel hennar eigin föður þótti hún réttdræp? Jújú, þau bjuggu í Basra í Írak og stúlkan tók upp á því að vingast við breskan hermann. Faðirinn, Abdel-Qader Ali, brá skjótt við, barði hana og stakk þar til hún gaf upp öndina. Og ekki var faðirinn einn við þetta, því í viðtalinu segir hann stoltur frá því að synir sínir tveir hafi verið næg karlmenni til að ljúka verkinu með honum. Að vísu var Abdel-Qader Ali handtekinn og yfirheyrður en látinn laus tveimur tímum síðar. Lögreglumennirnir stóðu með mér allan tímann og óskuðu mér til hamingju, segir Abdel-Qader Ali hæstánægður, og bætir því við að vinir sínir og kunningjar séu algerlega sammála sér í málinu. Þeir viti að gjörðir stúlkunnar hafi verið umfram allt sem nokkur múslimi, sem taki íslam alvarlega, geti sætt sig við.

Ef bara svona frétt væri einsdæmi. Og viðtalið við föðurinn færi nú fram í öryggisfangelsi en ekki í sólríkum garði hans. En það er bara ekki svo. Víða í heiminum býr fólk, ekki síst konur og stúlkur, við skelfilega kúgun og yfirgang, ósjaldan misþyrmingar sem geta orðið að hreinum aftökum. Og frá Vesturlandabúum berst lítill stuðningur, jafnvel ekki þó þetta ástand sé tekið að skjóta rótum á Vesturlöndum, hraðar en margir átta sig á. Eða kannski ekki síður: hraðar en margir vilja viðurkenna fyrir sér."
- Vef-þjóðviljinn þann 14. maí 2008.

Wednesday, May 14, 2008

Hningnun stórveldis
Lítill stórveldisbragur er á KR þessa dagana ef marka má fréttir dagsins. Í þessum töluðum orðum er Vesturæbæjarstórveldið að útnefnda Orra Örn Árnason sem hnitmann ársins hjá KR og þar af leiðandi er hann tilnefndur sem íþróttamaður KR. Forvitnilegt verður að heyra um afrekaskrá kappans sem væntanlega mun fylgja rökstuðningi fyrir valinu.

Tuesday, May 13, 2008

Orðrétt
"ByrgisGvendur blindaðist af ást sinni við tilraunir sínar á líkamlegur atgervi í tengslum við leiðslu rafmagns og dró með sér í svaðið með Bellisbrögðum hnátur sem minna máttu sín. ByrgisGvendur getur líka lært frekari rafiðn á Bryggjunni Kvígja."
- Útvarpsmaðurinn Gunni samloka á bloggi sínu þann 9. maí 2008.

Monday, May 12, 2008

Munnmælasögur#79
"Skömmu eftir viðburðarrík ár í Menntaskólanum á Ísafirði, héldu Vestfirzku Gleðipinnarnir, Halldór Magnússon og Jón Áki Leifsson, í menningarreisu til meginlands Evrópu. Í ferðinni komu þeir meðal annars við í París en á þeim tíma hélt til í borginni, þeirra gamli skólameistari Björn Teitsson. Var hann í árs leyfi frá störfum sínum við MÍ. Í lestinni á leiðinni til Parísar spurði áhyggjufullur HáEmm ferðafélagann að því, hvort þeir ættu nokkuð á hættu að rekast á Björn í París. Jón taldist veraldarvanari af þeim félögum og hélt nú ekki. Hafði hann gaman af þessum áhyggjum HáEmm og benti honum á að um ellefu milljónir manna byggju á Parísarsvæðinu. Ekki þyrfti því sérfræðing til þess að sjá að líkurnar á því að rekast á lágvaxinn skólameistara væru því harla litlar. Róaðist HáEmm nokkuð við þetta og hófust þeir handa við að drekka í sig menninguna í heimsborginni. Allar götur síðan hefur þessi ferð þeirra félaga reyndar gengið undir nafninu "Paris by night" sem vísar að sjálfsögðu til fótferðatíma þeirra. París í dagsbirtu fór sum sé fram hjá þeim í þessari atrennu en HáEmm hefur skellt skuldinni á lifurstarfssemi Jóns.

Fyrsta kvöld þeirra í París fóru þeir á einhverja Íslendingasamkomu - afar menningarlega að sjálfsögðu. Fyrsti maðurinn sem þeir hittu þar var einmitt téður Björn Teitsson. "Ellefu milljónir manna segirðu !" rumdi í HáEmm en Jón Áki lét háðsglósur HáEmm sér í léttu rúmi liggja og benti félaganum á að ekki væri hægt að telja Íslendingasamkomur með í þessu reiknisdæmi. HáEmm tók þau rök góð og gild. Síðasta kvöld þeirra í París eru þeir félagar að rölti á hinni víðfrægu Champs-Élysées götu. Heyra þeir bankað á rúðu innan frá og líta við. Er þar staddur Björn Teitsson inni á veitingastað og ekki lítið upprifinn yfir því að rekast aftur á gamla nemendur. "Ellefu milljónir manna segirðu !" rumdi aftur í HáEmm."

Orðrétt
"Fjarstýringin bjargar manni löngum heima í stofu frá dýrkun samtímans á afþreyingu, kunnáttuleysi og "hressinu" – og mikið skelfing langaði mig oft að vera með hana í farteskinu á þessari sýningu. Nema þegar áhugaleikarinn Sverrir Þór Sverrisson birtist á sviðinu. Það er eitthvað við þann dreng sem fær mann til að trúa á lífið og hæfileika allra manna til listsköpunar. Hann ætti þó að hafa meiri metnað en Þjóðleikhúsið og afla sér frekari þekkingar."
- María Kristjánsdóttir, í ritdómi um söngleikinn: Ástin er diskó - lífið er pönk, í Morgunblaðinu þann 4. maí 2008.

Friday, May 09, 2008

Spá fyrir Landsbankadeildina
Um leið og árlegri spá síðuhaldara er hér kastað fram þá er rétt að vekja athygli á þykkum og safaríkum aukablöðum um Landsbankadeildirnar sem fylgir Morgunblaðinu í dag. Tæplega fimmtíu blaðsíður þar.

Spáin:
1. Valur
2. FH
3. KR
4. ÍA
5. Breiðablik
6. Fylkir
7. Keflavík
8. Fram
9. Grindavík
10. Þróttur
11. HK
12. Fjölnir

Nánast engar breytingar hafa orðið á Valsliðinu og það hjálpar mikið í svona stuttu móti. FH-ingar verða góðir eins og undanfarin ár og ég hef trú á Heimi sem þjálfara. KR-ingar eru ekki með síðri leikmannahóp en tvö efstu liðin og pressan er lágmarki miðað við Vesturbæinn. Breytingarnar eru þó of miklar til þess að liðið smelli í meistaragírinn. Skagamenn eru með flott byrjunarlið og gætu þess vegna orðið meistarar. Hins vegar eru ákvðnir menn svo mikilvægir fyri liðið að það er enginn til þess að leysa þá af ef meiðsli koma upp. Leikmenn eins og Bjarni og Cingel. Blikarnir voru flottir í fyrra og verða flottir núna. Gasic er einn öflugasti varnarmaður deildarinnar og Princinn fær Marel með sér í sóknina. Fylkir er með leikreynda menn og spurning hvort Leifur nær að kveikja almennilegan neista. Einhvern tíma hefði þótt fínt að vera með Guðna Rúnar, Val Fannar, Óla Stígs og Hauk Inga en spurning hversu hungraðir þessir menn eru. Miklar breytingar hjá Keflavík og einnig meiðsli í gangi á undirbúningstímabilinu. Framarar gætu svo sem orðið ofar en þessi spá gefur til kynna. Eru svolítið óskrifað blað enda með nýjan þjálfara. Grindvíkingum er spáð falli eins og alltaf af forráðamönnum liðanna. Þeir þurfa að sleppa við meiðsli til þess að mín spá rætist. Ef útlendingarnir þeirra eru góðir þá falla þeir ekki. Þróttarar eru með ágætis lið. Spurning hvernig sambataktar virka á Valbjarnarvellinum. Vonandi koma Köttararnir frískir til baka í deildina. Hér er nú einfaldlega hent fram klisju um að annað árið sé alltaf erfiðast og þess vegna fær HK fall spá. Fjölnismenn hafa aldrei spilað í efstu deild og þeir þurfa bara að sýna að þeir eigi heima þar eins og aðrir nýliðar. Hef ekki séð þá í vor og þær gætu svo sem verið miklu sprækari en maður heldur.

Wednesday, May 07, 2008

Orðrétt
"Hann er einn æðsti maður samkynhneigðra í Bretlandi"
- Ólsarinn Viðar Pétursson fræðir hlustendur um bresk stjórnmál í Hljóðvakanum Grútvarp á X-inu síðastliðinn laugardag 3. maí 2008.

Monday, May 05, 2008

Golfið og þyngdin
Sigurður Elvar Þórólfsson er búinn að skrifa lærða grein á bloggið sitt um fylgni karlmannlegrar líkamsþyngdar og góðs árangurs í golfi. Guð láti gott á vita. Svona í upphafi golftímabilsins er vert að benda á þessa grein Elvars sem þarna hefur tekið sér smá pásu frá því að sannfæra lesendur Morgunblaðsins um að dómsdagur íslensks handknattleiks sé handan við hornið.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?