<$BlogRSDURL$>

Thursday, May 31, 2007

Munnmælasögur#63
Þessi saga barst síðuhaldara frá hinum geðþekka íþróttafréttamanni Gaupa. Gerðist hún þegar Brasilíumaðurinn Pele sótti Ísland heim fyrir um fimmtán árum síðan, en Pele þessi er þekktur víða um heim fyrir boltaspark. Pele var á leið til Vestmannaeyja í opinbera heimsókn og Gaupi hringir í mann Stöðvar 2 og Bylgjunnar í Eyjum: Gísla Óskarsson. Gaupi tjáir honum að Pele sé á leið til Eyja og það þurfi að ná skemmtilegum myndum af honum þar sem hann sé að spjalla við krakkana og eitthvað í þeim dúr. Gísli var hinn hressasti og sagði þetta ekki vera neitt mál. Hann kveður Gaupa en hringir svo í hann síðar og spyr: "Hvernig lítur þessi Pele annars út? Hér er svo mikið af fólki að ég er ekki viss um að ég finni hann." Gaupi svaraði: "Ja hann er nú blökkumaður" Þá létti Gísla: "Ok þá finn ég hann."

Tuesday, May 29, 2007

Orðrétt
"Við þurfum ekki álit leikmanna, enda kemur þeim í sjálfu sér ekkert við hvað við gerum. Þeir eru í vinnu hjá okkur og þurfa að stunda hana, annars eru þeir að brjóta samninga sem við þá hafa verið gerðir."
- Björgólfur Guðmundsson þáverandi formaður knattspyrnudeildar KR í samtali við Morgunblaðið þann 8. júní 1997.

Thursday, May 24, 2007

Maður kosningasjónvarpsins
Geðmundur Eskil Gunnarsson fréttamaður í Eyjafirði var án efa maður kosningasjónvarpsins. Í fyrsta innslagi mætti hann gráhærður, og var svo sannfærandi að síðuhaldari gat ómögulega greint hvort þarna færi Bogi Ágústsson eða Jóhanna Sigurðardóttir. Geðmundur toppaði svo sjálfan sig síðar um nóttina þegar hann lét Jóhannes í Bónus halda að hann væri að fara í viðtal. Stóð á einhverju persneska teppinu inni á gafli hjá Jóhannesi, þóttist ætla að taka við hann viðtal en svissaði í staðinn yfir á fallega fólkið hjá Sjálfstæðisflokknum í Kraganum. Snilldarlega gert! 9,5 frá vestur-þýsku dómurunum.

Tuesday, May 22, 2007

Dansinn dunaði
Þau tíðindi hafa flogið yfir landið og miðin að síðuhaldari hafi stundað áfengisneyslu sína í beinni útsendinu í kosningasjónvarpi allra landsmanna. Telja sjónvarpsáhorfendur full víst að á sjötta tímanum um morguninn hafi síðuhaldari sést á spjalli við Andrés Magnússon blaðamann í eldhúsinu hjá Illuga og Binnu. Er það alveg víst? Hefur það ekki hvarflað að mönnum að Andrés og Egill Helga eru vinir? Gæti ekki alveg eins verið að þarna hafi Egill slett úr klaufunum og síðuhaldari hafi stálsleginn leyst hann af í þættinum daginn eftir?

Hvað um það þá gerðíst nokkuð skemmtilegt á meðan á viðtalinu við Illuga stóð þar sem Gísli Marteinn og Jakob Falur tóku nokkur spor til þess að reyna að fipa hinn nýkjörna þingmann. Nýliðinn lét sér hvergi bregða en ekki er annað að sjá en að Vestfirski Gleðipinninn kunni afar vel við sig í faðmi borgarfulltrúans geðþekka, og sjá má hér.

Orðrétt
"Þjálfari FH gæti hins vegar læra sitthvað í mannasiðum"
- Ussteinn Gunnassson íþróttafréttamaður í hálfleik á leik Keflavíkur og FH á Sýn í gærkvöldi.

Monday, May 14, 2007

Kosningaúrslitin
Kjósendur hafa talað. Niðurstaðan liggur fyrir. Meirihlutinn ræður. Sigur fyrir lýðræðið. Úrslitin voru afgerandi. Það er ekki flókið að túlka niðurstöðurnar: Þetta síðuhald er ekki á förum. Moggabloggið verður af feitum bita. Ritstjórn Bloggs fólksins þakkar lesendum fyrir þáttökuna.

Friday, May 11, 2007

Landsbankadeildin 2007
Þá er komið að hinni árlegu spá fyrir Landsbankadeildina í boltasparki sem svo mjög hefur verið kallað eftir af lesendum. Hún lítur þannig út í ár ásamt laufléttum rökstuðningi sem er engan veginn tæmandi:

1. FH
2. KR
3. Valur
4. Keflavík
5. ÍA
6. Fylkir
7. Víkingur
8. HK
9. Breiðablik
10. Fram

FH-ingar hafa unnið sannfærandi þrjú ár í röð og gera það einnig í ár. Þeir hafa meira að segja styrkt sig. Arnar og Bjarki eru heilir og liðið er bara mjög þétt. Andstæðingar þeirra hafa ekki enn fundið svör við 4-3-3 leikaðferð Hafnfirðinga. KR-ingar hafa fengið til sín sterka menn eins og Pétur Marteins sem verður mikill styrkur og Óskar Örn Hauksson er skemmilegur leikmaður. Einnig yrðu magnað að sjá Rúnar koma heim. Mótið er bara of stutt til þess að KR nái að pússla öllum þessum breytingum saman í tæka tíð. Valsmenn eru með þétt lið. Hafa góða breidd og verjast vel. Spurning hvort Helgi Sig sé peninganna virði. Keflvíkingar voru skemmtilegastir í fyrra og verða vonandi skemmtilegir áfram. Eru þó ekki meistaraefni. Skagamenn eru algert spurningamerki. Guðjón kann að láta lið sín pakka og vinna 1:0. Skagaliðið verður sennilega ekki skemmtilegt á að horfa en mun hala inn stígin jafnt og þétt. Þórður Guðjóns þarf að gera meira en í fyrra. Fylkir er einnig svolítið spurningamerki. Pressan sem var á þessu liði er ekki lengur til staðar sem gæti hjálpað. Sniðugir að næla í Gravesen sem var góður í fyrra. Gengið mun velta á reyndari mönnum liðsins eins og Hauki Inga, Óla Stígs og Vali Gísla. Víkingar komu mörgum á óvart í fyrra. Samkvæmt kenningunni er erfitt að fylgja slíku tímabili eftir og nú reynir á Magga Gylfa. Liðið er ágætlega mannað og ætti ekki að þurfa að falla. HK er með hæfileikaríkasta markvörð deildarinnar og ef varnarleikurinn verður vel skipulagður mun liðið halda sér í deildinni. Mest allt uppaldir leikmenn sem væntanlega spila með hjartanu. Gömlu mennirnir, Jón Gasgrímur og Hörður Már, þurfa að draga vagninn í sóknarleiknum. Blikar hanga uppi samkvæmt þessu en aðeins eitt lið fellur í ár. Forvitnilegt að sjá hvort eitthvað púður sé eftir í Arnari Grétars, uppáhalds knattspyrnumanni Halla Pé. Ef þeir setja Kristján Jónatans í markið þá verða þeir í toppbaráttunni.Fram er hér spáð falli af gömlum vana. Hef ekkert séð til þeirra síðan 2005 og það var ekki merkilegt, enda féllu þeir þá samvkæmt spá síðuhaldara. Spurning hvort Sjálfstæðismaðurinn Óli Þórðar nái að berja einhvern anda í þessa menn ásamt Reyni Leós.

Tuesday, May 08, 2007

Á síðuhaldari að færa sig á Moggabloggið?
Já það er greinilega hátíska að vera á Moggablogginu. Og búið að vera í marga mánuði. Síðuhaldari hefur verið að bræða það með sér hvort Blogg fólksins eigi að færa sig um set að því gefnu að gamlar færslur flytji með manni. Gæti verið kostur að setja dagskrárliði eins og Munnmælasögur í flokka. Og Mósaíksgluggann að sjálfsögðu. Velti því fyrir mér hvernig þetta vinadæmi virkar. En ég er að spá í að leyfa lesendum að ráða þessu. Atkvæðagreiðsla á commentakerfinu til klukkan 22 þann 12. maí, sum sé samhliða kosningum til Alþingis. Meirihlutinn fær að ráða.

Monday, May 07, 2007

Orðrétt
,,Einhver viðbrögð?" var það fyrsta sem ég spurði æskuvinkonu mína, sem hefur verið hamingjusamlega gift trygglynda tilfinningaríka og ástríðufulla manninum í fjögur ár, þegar hún hringdi í mig eldsnemma í morgun

"Nei. Engin viðbrögð. Skil ekkert í honum því hann er sjúkur í mig," sagði þessi vel skapaða kona sem hefur óaðfinnanlegan líkamsvöxt á við súpermódel.

"Ég trúi þér ekki," svaraði ég og lagið Hit The Road Jack með Ray Charles var farið að hljóma í eyrum mínum. "Ekki segja mér að þú hafir farið úr að ofan?" spurði ég meðvituð um gríðarlega þörf hennar fyrir vald.

"Jú ég fór alla leið! Sýndi þeim öll 800 grömmin sem hann gaf mér síðustu jól. Ellý, ég sætti mig ekki við þetta ástand deginum lengur," hrópaði hún áköf og nánast gráti næst. Elsku stelpan viðurkenndi með sárum ekka að henni þætti heldur alls ekkert að því að sýna tútturnar sem eru reyndar að mati vinahópsins dúndur flottar eftir aðgerðina.

"Ég stóð við mitt. Ákvað að kýla bara á þetta eins og ég sagði við þig í gær. Fór úr öllu nema fjaðrabuxunum sem klikka aldrei. Þessar nærbuxur koma honum alltaf í stuð," útskýrði þessi fallega gáfaða kona sem beitir óhikað kynlífinu til að skora mörk, sigra andstæðinginn eða, eins og í þessu tilfelli, auka áhrif sín inn á heimilinu.

"Ekki segja mér að vinir hans hafi verið þarna líka?" spurði ég nánast hneyksluð á athæfinu. "Jú. Þeir voru allir heima. Með bjórinn og snakkdraslið út um allt," svaraði hún reið. Leikar fóru þannig að Liverpool tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í annað sinn með því að bera sigurorð af Chelsea og vinnufélagarnir og ástríðufulli eiginmaðurinn brugðust ekki sem skyldi við samkeppninni heldur báðu nakta vinkonu mína með óaðfinnanlega vöxtinn vinsamlegast um að færa sig aðeins frá sjónvarpinu.

"Ég mun aldrei Ellý! Aldrei aftur dúlla við hann í gegnsæju fjaðrabuxunum," sagði hún skælandi en reyndi eftir því sem leið á símtalið að anda jafnt, tæma hugann og drífa sig af stað í vinnuna..."

- Ellý Ármannsdóttir næstvinsælasti bloggari landslins á bloggi sínu á dögunum.

Saturday, May 05, 2007

Munnmælasögur#62
Verndari Bloggs fólksins, Halldór Magnússon, átti marga góða spretti í MÍ á sínum tíma eins og komið hefur fram í Munnmælasögum. HáEmm vann einstætt afrek í MÍ í fagi sem á mínum tíma var kallað tjáning og þótti ekki sérlega spennandi ef mig misminnir ekki. HáEmm þótti tjáning heldur ekki spennandi og gat ekki með nokkru móti skilið tilganginn með faginu. Eitt sinn lenti bekkurinn í skyndiprófi í faginu og HáEmm ákvað í þrjóskukasti að svara ekki einni einustu spurningu á prófinu. En eitthvað varð hann að gera til að drepa tímann og þá kom sér vel að HáEmm er fyrirtaks skopteiknari og getur rissað upp skemmtilegum myndum á stuttum tíma. Kennarinn fletti bók að meðan prófið fór fram og HáEmm var einstaklega ánægður með hvað kennarinn hreyfði sig lítið á meðan. Þessi lestur kennarans gerði okkar manni því kleift að rissa upp fyrirtaks skopmynd af kennaranum á forsíðu prófsins. Taldi HáEmm að hann hefði sérstaklega náð vangasvipnum vel og skilaði stoltur verkinu til kennarans þegar próftímanum lauk. Á þessum árum voru einkunnir gefnar í bókstöfum í MÍ: A, B, C, D hafa væntanlega verið einkunnirnar ef fólk stóðst próf. F og G hafa líklega verið á meðal lægstu einkunna sem sáust. HáEmm setti hins vegar nýtt met sem aldrei verður slegið en mögulega jafnað. Kennarinn í tjáningunni var greinilega ekki smekksmaður á skopmyndateikningu því Verndarinn fékk Ö í einkunn !!!

Friday, May 04, 2007

Dónabrandari
Ríkisstofnanir ákváðu um daginn að setja sameiginlegar reglur um netföng starfsmanna. Öll netföng skyldu sett saman á sama hátt. Fyrstu þrír stafirnir í nafninu, fyrstu þrír í eftirnafninu og fyrstu þrír í starfsheitinu. Allt í einu orði og svo bætist að sjálfsögðu við @einhver stofnun. Rúnar Karlsson sérfræðingur hefur sagt upp störfum vegna þessa.

Tuesday, May 01, 2007

Orðrétt
,,Reglan um hvenær maður er í vík og hvenær maður er á vík er ekki beinlínis málfræðiregla heldur þarf að þekkja sig svolítið í landafræði Íslands til að beita henni. Fyrir fáeinum árum var þetta sýnt á korti í einhverju dagblaðanna. Þannig er að frá Vík í Mýrdal og vestur eftir suðurstöndinni og svo norður vesturströndina er talað um að vera í vík. Þannig er sagt í Vík, í Grindavík, í Keflavík, í Njarðvík, í Reykjavík, í Ólafsvík og í Bolungavík. En þegar komið er til Hólmavíkur breytist þetta og þá er talað um að vera á Hólmavík, á Grenivík, á Dalvík, á Húsavík og á Breiðdalsvík. Sem sagt: Suður- og Vesturland = í og Norður- og Austurland = á."
- Kalli Hallgríms tónlistarmaður á bloggi sínu þann 29. apríl 2007.

Nýjir vendir sópa best !
Það er kominn tími til að breyta. Það er vor í lofti. Tími breytinganna. Nýir vendir sópa best. Ferska og fríska takk. Verðum að fá á nýtt blóð. Vinstra vorið er runnið upp. Já nýir vendir sópa sko best. Og ekki vanþörf á eða hvað? Valdaþreytan er jú alveg gríðarleg og leggst hún mun þyngra á fólk í landsmálunum en borgarmálunum, sem kunnugt er af umræðu undanfarinna ára. Þessi umræða er byrjuð. Kominn er grein á bb.is undir þessari yfirskrift auk þess sem síðuhaldari sá eitthvað Samfylkingarmyndband þar sem hamrað var á því hve Sjálfstæðisþingmenn væru þreyttir eftir langan feril.

Í því vinstra vori sem við eigum víst að vera að upplifa, þá hljóta ráðherraefni vinstri flokkanna að vera hinir nýju vendir sem sópa best. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir settist á þing árið 1991 og í borgarstjórn árið 1983. Þá var varaformaður hennar Ágúst Ágústsson 6 ára. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hlýtur að vera ráðherraefni, hefur setið á þingi síðan 1978. Þá var Daníel Passarella fyrirliði Argentínumanna sem sigruðu á HM og menn höfðu vart heyrt af Maradona. Össur Skarphéðinsson hefur setið á þingi síðan 1991 sem er jafn langur tími og hjá mörgum núverandi ráðherrum, Árna, Einari og Sturlu.

En ef við kíkjum á hinn ferska andblæ stjórnmálanna Steingrím Sigfússon, þá getur hann nú aldeilis bætt um betur. Steingrímur settist á þing árið 1983 þá 28 ára gamall. Þá var Vigdís búin að vera forseti í þrjú ár. Eftir það sat hún í þrettán ár og síðan hefur Ólafur Ragnar setið í ellefu. Þann tíma hefur Steingrímur verið alþingismaður og ráðherra. Hann er hvergi nærri hættur enda eru það nýju vendirnir sem sópa best. Annað ráðherraefni VG, Ögmundur Jónasson, hefur setið síðan 1995. Þá var hinn ágæti varaformaður VG, Katrín Jakobsdóttir, 19 ára. Já nýjir vendir sópa best. Ég held að maður fari ekki yfir strikið þó maður segi að það sé ekki þessi umræða sem muni gulltryggja vinstra vorið þann 12. maí.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?