<$BlogRSDURL$>

Friday, August 29, 2008

Munnmælasögur#87
Þrátt fyrir að tileinka sér heilsusamlegt líferni þá áttu Vestfirskir Gleðipinnar það til að gera sér dagamun hér á árum áður þegar verslunarmannahelgi gekk í garð. Ef lagt var í hann á annað borð þá var það jafnan gert með stæl. Alls kyns fylgihlutir eins og merktar peysur og heimatilbúnar söngbækur urðu skyndilega að nauðsynjavöru. Einhverju sinni voru Gleðipinnarnir í Atlavík á verslunarmannahelgi. Urðu þeir fyrir því að einhverjir apakettir brutust inn í tjaldborg þeirra. Var það ferð til fjár því þar fundu þjófarnir ýmsa dýrgripi til þess að hnupla.

Gleðipinnarnir settu málið í hendurnar á lögregluyfirvöldum á Egilsstöðum. Gáfu þeir upp nafn Ásgeirs Þórs og símanúmerið í verslun JFE enda voru GSM símar ekki komnir til sögunnar þegar HáEmm og Veltirinn voru ungir. Nokkrum dögum síðar hringri síminn í versluninni og verður Einar Þór til svara. Var fjölmennt í búðinni og þegar Einar kemur úr símanum gerir hann sér að leik að garga yfir búðina þar sem ófáir Bolvíkingar og Ísfirðingar voru staddir: "Ásgeir! Lögreglan á Egilsstöðum er í símanum." Ásgeir fer í símann og óhætt er að fullyrða að eyru viðskiptavinanna stækkuðu talsvert við þetta og yfirgaf engin þeirra búðina meðan á símtalinu stóð. Ásgeir henti þetta á lofti og þegar lögreglumaðurinn var búinn að fræða hann um stöðu mála varðandi þjófnaðinn, þá bíður Ásgeir með að leggja tólið á. Þegar lögreglumaðurinn var farinn úr símanum öskrar Ásgeir þannig að allir í búðinni heyrðu auðveldlega: (enda lágu þeir allir á hleri hvort sem var) "Hver andskotinn! Nú þá verð ég bara að koma austur og sitja þetta af mér" !!! Við svo búið skellti hann tólinu á með miklum tilþrifum. Viðskiptavinir verlsunarinnar héldu því heim á leið með safaríka kjaftasögu til þess að smjatta á.

Orðrétt
"Þegar Ólafur F. Magnússon borgarstjóri fór á öldurhús saup fólk hveljur. Fyrir örfáum árum voru tíðar klausur í blöðum um það hve Steinunn Valdís Óskarsdóttir væri alþýðlegur borgarstjóri með því að vera tíður gestur á Ölstofunni."
- Vef-þjóðviljinn þann 22. ágúst 2008.

Góður árgangur
Fann roðlaust og beinlaust inni í frysti hjá mér. Hafði komið þessu fyrir þarna á því herrans ári 2005 og steingleymt þessu. Sauð þetta því hið snarasta í skaftpottinum. Þetta var ljómandi gott. Fyrir vandláta neytendur þá get ég hiklaust mælt með ýsunni frá árinu 2005. Greinilega mjög góður árgangur.

Tuesday, August 26, 2008

Orðrétt
"Þegar ég kom út af sýningunni biðu mín kveðjur frá tveimur góðum færeyskum vinum mínum. Björn Kalsö fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja sendi mér heillaóskir í smáskilaboðum í símann minn. Síðan hringdi í mig núverandi starfsbróðir minn í Færeyjum, Thorbjörn Jacobsen, sömu erinda. Ég spurði hann hvort Færeyingar fylgdust almennt með handboltanum. Hann hélt það nú! Ríkisstjórn Færeyja var sest á fund um það leiti sem leikurinn við Spán var að hefjast. Og sá merkisatburður setti allan landsstjórnarfundinn úr skorðum. Menn sóttu sér stóran sjónvarpsskjá, lögðu fundarstörfin til hliðar og stukku hæð sína í loft upp í landsstjórnarherkæðunum þegar sigur Íslands var í höfn. Sem sannar enn og aftur að Færeyingar eru frændur okkar og vinir."
- Einar Kristinn á heimasíðu sinni þann 26. ágúst 2008

Monday, August 25, 2008

Ólympíuhorn Gönna Seg#2
Gunnar Samloka Sigurðsson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur frá Ólafsvík, hefur sent síðuhaldi annan Ólympíupistil. Gunnar er ávallt í leit að uppbyggilegum ábendingum fyrir íþróttahreyfinguna á Ísland og hefur undanfarna daga fagnað árangri íslenska landsliðsins í laumi, enda handbolti óþekktur í Ólafsvík. Þar sem Gunnar er hrifnæmur maður þá hafa silfurverðlaun Íslands fyllt hann bjartsýni og hér bregður hann óvæntri birtu á íþróttagreinar sem hann telur að Íslendingar gætu náð árangri í.

Olympiskt horn i hauk. Annar hluti. Vidbotarverdlaun

"Þegar litið er yfir farinn veg kemur í ljós að Íslendingar fengu verðlaun á Kínaleikum. Silfurverðlaun urðu raunin og er svo komið að bæði forseti landsins og einstaka ráðherrar sem og jú sótsvartur almúginn heldur vart vatni yfir stórkostlegu tapi landsliðsins í keppni um gullverðlaunin. Áður höfðu frónverjar unnið til silfurverðlauna sem og Frakkar en þessar þjóðir þurftu að spila um hvort gullverðlaun. Í þeim leik skeit landsliðið í ræpuna á sér.

Eins og gestaskrifari hefur oft bent á þá hafa frónverjar lagt tönn að verðlaunagripum ólympískra leika eða fjórum sinnum núna, ef frá eru teknir allir þeir gómar sem skipa síðustu verðlaun.

Það er hins vegar hægt að velta því fyrir sér hvort viðunandi árangur LÍ (liðs Íslands) á kínaleikum hafi náðst. Ekki skal tíunda aftur vitleysuna að senda Árbæjarlaug á leikana eða hálfslasaða frjálsíþróttakempur né aðra sem aldrei áttu vonargníst um verðlaun.

Til að viðunandi árangur hefði náðst hefði verið skynsamlegt að senda kraftlyftingamenn okkar á leikana. Gestaskrifara þykir það furðu sæta að allir þeir tröllvöxnu landshetjur sem halda á steinvölum, lyfta vöruflutningabílum og halda hrossum uppi öll sumur hafi ekki verið sendir á leikana. Oftar en ekki höfum við heyrt um styrk frónverja en aldrei hefur það verið áreint hvort fótur sé fyrir þessum styrk eður ei.

Sú íþrótt sem flestir frónverjar hafa ástundað síðustu hagsældarár er trampólínhopp. Í slíkri hagsældaríþrótt er keppt á ólympískum leikum. Það snýr við öfugt að ekki hafi fundist einn einasta ungmenni til að keppa í íþróttinni hér á landi.

Hrossavesen hefur verið mikið hér á landi. Frónverjar eiga hvurn heimsmeistarann á skeifu hverrri. Hross skipa sess á ólympískum leikum. Þar hoppa sum yfir rár og slár en ljóst er, sökum stærðar íslenskra hrossa, að ekki myndi nást gríðarlega góður árangur í þeirri íþrótt. Hinsvegar eru hross á ólympískum látin gera kúnstir. Þar stendur íshrossið sig vel enda búin fleiri gírtegundum en önnur hross. Þetta hefur sýnt sig og sannað á hrossadögum sem haldnir eru með góðu millibili í hrossahöllum landsins.

Ein er sú íþrótt sem á hvað best við um landann. Hér er átt við um þríþraut. Hér gætu Ermasunds Benediktar komið sterkir inn og með nokkurri þjálfun á reiðfákum þá ætti reiðhluti þrautarinnar varla að reynast ljár í þúfu, enda hafa fleiri orðið úti á hjólum sínum á hringvegi en ástunda þríþrautina í heiminum. Skokkhlutinn er léttur leikur. Glitnis- jónsmessu, áramóta og nýárs maraþon eru þreytt í sífellu.

Annar hver maður drepur dýr með byssum hér á landi. Þannig hafa þeir einstaklingar þurrkað upp fleiri tugi fuglategunda svo sem rjúpu og annan pinnamat. Hreindýr fá blý oftar en ekki í augntóftina enda nýtur drápsíþrótt mikilla vinsælda hér á landi. Í drápsíþróttum er keppt á ólympískum. Ef gefið er að nær 100 þús manns séu í skotveiði þá er Íslands stærsta skotveiðiþjóð heims á eftir Bandaríkjamönnum og Finnum. Per Capita.

Ekki þarf að tíunda heldur með kajakróður en menn sigla strandlengju frónverja á hverjum degi einungis til þess eins að safna klinki fyrir sjúka.

Að síðustu má ekki gleyma langhlaupum. Þar eru Keníubúar fremstir í heimi en Gestaskrifari man ekki betur en að stjórnvöld eigi möguleika á því að næla í einn slíkan, fyrir skít og kanill. Sá gæti keppt á næstu ólympískum enda óvitað um aldur hans.

Með fyrirfram þökkum
Gestaskrifari"

Sunday, August 24, 2008

Munnmælasögur#86
Einhvern tíma var einkaklipparinn Eiríkur Ingi Lárusson á leið frá Reykjavík til Bolungarvíkur. Hann ákveður að fljúga til Ísafjarðar. Innanlandsflugið á Íslandi þykir með dýrasta móti en Eiríkur er séður í fjármálum eins og fleiri í hans fjölskyldu. Eiríkur hringdi því í frænda sinn Þorlák Ragnarsson starfsmann Flugfélags Íslands á Ísafirði. Þorlákur reyndi á sínum tíma að berja Arsenal uppeldi inn í litla frænda sinn með bókstaflegum hætti en þrátt fyrir það er Eiríkur harður stuðningsmaður Newcastle United. Bað Eiríkur frænda sinn um að bóka sig og finna fyrir sig ódýrt fargjald. Eftir einhverjar samningaviðræður fær Eiríkur frænda sinn til þess að beygja reglurnar á laufléttan hátt og bóka sig á ÍSÍ fargjaldi. Þegar Eiríkur mætir á Reykjavíkurflugvöll þá finnur starfsmaðurinn á vellinum enga bókun í nafni Eiríks Inga Lárussonar. "Þessi bókun hefur eitthvað skolast til því þú ert ekki bókaður," sagði starfsmaðurinn. Þá benti Eiríkur á að bókunin hefði varla getað skolast til því það hefði verið starfsmaður Flugfélagsins á Ísafirði sem hefði bókað hann. Hann hefði því ekki verið að gera þetta sjálfur á netinu. Eiríkur bendir starfsmanninum á að þetta sé jafnframt á ÍSÍ fargjaldi. Starfsmaðurinn heldur áfram að leita en finnur enga bókun á Eirík Inga Lárusson og spyr hvort mögulegt sé að bókunin sé á öðru nafni. Eiríki fannst afar ólíklegt að svo væri. Þá spyr starfsmaðurinn nokkuð hikandi: "Eeeeehhhh Ert þú nokkuð Obafemi Martins ???"

Þorlákur hafði þá sum sé bókað frænda sinn undir nafni knattspyrnumanns frá Nígeríu.

Thursday, August 21, 2008

El victoro las islandias
Eitthvað segir mér að brotlendingin í Madríd hafi verið táknrænn fyrirboði fyrir brotlendingu spænska handboltaliðsins á Ólympíuleikunum. Kannski er bjartsýniskastið að bera mann ofurliði eins og gjarnan gerist þegar þjóðarrembingurinn sem handboltalandsliðið framkallar nær hámarki. En stemmningin er klárlega til staðar okkar megin. Nú er þetta bara spurningin um drápseðlið. Nýta meðbyrinn til þess að keyra yfir Spánverjana á gleðinni og hraðanum. Hingað til hafa þessar tvíbökur verið alveg til háborinnar fyrirmyndar.

Annars finnst mér merkilegt að nú mætum við Spánverjum þegar þjóðarsorg ríkir í landi þeirra. Við mættum einnig Rússum örfáum dögum eftir að þeir fóru í stríð við Georgíu. Þessir hlutir skipta ekki öllu máli en það þarf engin að segja mér að þetta hafi ekki áhrif á stemmninguna í leikmannahópi þessara liða.

Í versta falli er landsliðið búið að jafna sinn besta árangur á Ólympíuleikum frá árinu 1992. Þá hólkuðust við í undanúrslit á massívri 6-0 vörn. Mig minnir að þar hafi þeir Geir Sveins, Héðinn Gils, Júlli Jónasar og Einar Gunnar staðið vaktina. Ekki árennilegur veggur nema fyrir mestu masókista eins og Laurent Munier. Einnig var merkilegt að liðið var án örvhentrar skyttu á leikunum og Júllí lék hægri bakk allt mótið. Þetta var náttúrulega mun agaðra lið heldur en það sem við erum með í dag og íþróttin allt öðruvísi.

Munurinn á þessum undanúrslitaleik á morgun og þeim sem við lékum árið 1992 er fyrst og fremst sá að nú eigum við mun meiri möguleika. Árið 92 lentum við á móti liði gömlu Sovétríkjanna sem kölluðu sig tímabundið: Samveldi sjálfstæðra ríkja. Í raun áttum við litla möguleika gegn því liði enda státuðu þeir af Dujshebaev, Kudinov, Yakimovich og Lavrov. Gegn Spánverjum eigum við hins vegar góða möguleika. Þeir eru mjög svipaðir að styrkleika og Þjóðverjar og Pólverjar. Bæði liðin höfum við unnið í mótinu. Say no more.

Wednesday, August 20, 2008

Munnmælasögur#85
Fyrir nokkrum vikum síðan hóaði Doktor Ólína saman sérsveitinni og varaliðinu þar sem hún þóttist sjá ísbirni í hverjum firði norður á Ströndum. Bolvíkingurinn Jens Þór Sigurðsson fór í eftirlitsflug á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Er hann ásamt fleiri mönnum í þyrlunni að svipast um eftir bjarnaferðum og hvort einhver hætta sé á ferðum. Þegar Jens er að fljúgja yfir bæinn Dranga á Seljanesi þar sem synir Kristins á Dröngum halda mikið til á sumrin segir Jens við félaga sína: "Þessir munu ekki þurfa neina hjálp - nema þá bara til þess að flá björninn !"

Tuesday, August 19, 2008

Ólympíuhorn Gönna Seg
Maður er nefndur Gunnar Sigurðsson frá Ólafsvík og er fjölmiðlamaður. Hann er gestapenni á þessu síðuhaldi þegar honum sýnist svo. Hann hefur nú sent okkur lauflétta hugvekju í tilefni Ólympíuleikanna enda áhugamaður um íþróttir og heilbrigt líferni almennt. Sem fyrr tekur síðuhaldari enga ábyrgð á skrifum Gunnars enda er hann fullorðinn maður. Viðkvæmum og lesendum með auðsærða blyggðunarkennd er vinsamlegast bent á að slökkva á tölvunni:

Ólympísk gestaskrif, 1. hluti; litið yfir farinn veg

"Gestaskrifta hefur síðan 1984 fylgst rækilega með íslensku íþróttafólki sýna hvað í því býr á alþjóðlegum grundum. Aldrei hafa íslenskir keppendur unnið neitt nema þó helst á ólympískum leikum pínþjóða, þjóða með pínlega fá íbúa, þjóða útrýmingarhættu.

Væntingar til þeirra hátt í 3ja tug íslenskra keppenda hafa aldrei verið meiri en núna. Íþróttasambandið sendi nær alla sem komu í Árbæjarlaug til keppni á Kínaleikunum. Allt kom fyrir ekki, enginn náði að synda með þeim lágmarkskröfum um hraða til að fá leyfi til að stinga sér aftur til sunds í sömu grein. Þess má þó geta að allir keppendurnir náðu að synda tilskylda vegalengd, sem um var krafist af Kínakallinum.

Í þeirri íþrótt sem komin er frá útrýmingum á flugum, eða hnit (lesist með kröftugu nefhljóði), sendi Íþróttasambandið einn keppanda. Sá keppandi hefur unnið alla hér á landi og aðra sem eru í útrýmingarhættu. Þessi sama er í 60. sæti á heimslistanum og átti því auðvitað raunhæfa möguleika að ná tilætluðum árangri. Fyrir utan þá hvimleiðu staðreynd að hún hefur verið með slitið krossband í mjöðm undanfarin tvö ár og spilar á annarri. Mjöðmin gaf sig vissulega þegar einhver kínahnitari lét frónverjan hlaupa og danglast um allan völl þar til líkaminn gaf sig.

Fyrir fjölmörgum árum datt konu í huga að hoppa með stöng. Ein af frumkvöðlum þessara hugdettu var Íslendingur og var verðlaunuð með bronsverðlaunum í ólympískum í Kengúrulandi fyrir nokkrum árum. Þessi árangur varð til þess að ungur bæjarpólitíkus úr Kópavogi tók sér stöng í hönd og fór að hoppa eins og vindurinn. Sú hin sama var við það að sigra gullverðlaun fyrir land og þjóð þegar austantjaldslönd fóru að ástunda þessa sömu íþrótt. Af þeim sökum hefur aldrei verið möguleiki að ná verðlaunum aftur í þessari hugdettu kvenna. Stangarhopparinn var svo langt frá því að hoppa hæð sem Kínakallinn sætti sig við að hún ákvað að hætta í íþróttinnni og snúa sér aftur að bæjarpólitíkinni. Hvort heldur sé betra skal ósagt látið.

Á þremur mínútum féllu Íslands einu vonir úr keppni. Júdómaður var snúinn svo rækilega niður af Írana að sá hinn sami ákvað að hætta því ekki myndi hann standa í þessu lengur fjárhagsins vegna. Íraninn hefur eflaust bent honum á að skynsamlegara væri fyrir hann að læra að auðga úran í staðinn fyrir að vera með einhverja kraftadellu. Á öðrum stað í skítugustu borg veraldar, skeit Hafnfirðingur í ræpuna á sér. Sá keppti í verkfærakasti en náði varla að kasta verkfærinu í átt að mælingarmönnum. Hann náði varla að kasta af sér vatni eftir kastið og skildi fáa undra, nema þó fólk í útrýmingarhættu.

Gestaskrifari hélt að hér væri listi tæmdur en að fráskildu Handkasti, sem best er að láta liggja hér til hvílu þar til ídrullið verður það mikið að hægt c að ræða það eitthvað frekar, þá skaust fram á stjörnuhiminn útrýmingafólks kona sem kastar ekki bara vatni heldur einnig spjóti. Það er ein göfugasta íþrótt sem til er enda hægt að nota íþróttina við hreindýraveiðar og fleiri veiðar. Hér er að sjálfsögðu rætt um spjótkast. Kona þessi, sem er Íslendingur, hefur dvalið lengi í æfingarbúðum í Japan. Hún sagði við fjölmiðla að ekki ætti neinn að búast við einu né neinu af henni því hún væri með brotinn olnboga en ætlaði sér samt að vera með. Bara svona til að láta Kínakallinn hafa eitthvað að gera við skráningu. Hreindýraveiðarinn stóð við orð sín og kastaði ekki mælanlegt fyrr en í síðasta kasti sem var einni Breiðholtsblokk frá lágmarksviðmiðun Kínakalls.

Gestaskrifari ætlar að enda þennan fyrsta hluta umfjöllunar sinnar á því að leiða lesendur í útrýmingarhættu í ljós sannleikans; Kínverska Tapei hefur unnið til verðlauna. Landið er ekki viðurkennt af neinni þjóð í heiminum. Sérstaklega ekki á þessum Ólympíuleikum. Tajikistan hefur unnið til verðlauna. Landið er fjallahérað sem fékk sjálfstæði þegar Sovétkallinn lést. Síðan þá hefur borgarastyrjöld ríkt en landið er auðugt af bómul og áli. Panama sem er skurður hefur hlotið ein gullverðlaun
og lokst hafa frændur okkar Finnar sem sendu um helmingi fleiri keppendur en Íslendingar á leikana búnir að skila 3 verðlaunum til lands og þjóðar.

Gestaskrifari þakkar lestur. "

Er ekki kominn tími á að vinna Pólverja ?
Ég er á því. Við töpuðum fyrir þeim í vor í jöfnum leik á þeirra heimavelli og við töpuðum fyrir þeim á HM í Þýskalandi 2007 í jöfnum leik. Þetta eru það svipuð lið að ég held að Pólverjar vinni okkur ekki þrisvar í röð í alvöru leik. En auðvitað er þetta bara 50/50 dæmi.

Nokkur atriði sem þurfa að vera í lagi:

- Diddi HE-MAN þarf að ganga duglega út í skytturnar þegar þeir leita inn á miðjuna. Hann er með nægilega hraða fótavinnu til þess.

- Hreiðar þarf að sýna að hann sé með hreðjar. Ekki kannski bókstaflega en taka eitthvað af skotum frá skyttunum, sérstaklega ef varnarmennirnir ná að pressa þá í erfið skot

- Sóknarleikurinn þarf að vera mjög hraður

- Lið sem eru með miklar skyttur eru stundum sein til baka í vörnina. Við þurfum að keyra í bakið á þeim þar sem sendingargeta Óla Stef nýtist vel.

- Halda áfram að stimpla einfalt fyrir Gaua þegar við erum manni fleiri.

Einfalt á blaði - erfitt í framkvæmd

Friday, August 15, 2008

Orðrétt
"Já, ég er með tvær tuskudúkkur hérna úti á stétt við búðina. Hef þær úti meðan veðrið er svona gott. Rosalega krúttlegar. Önnur er alveg eins og Geir Haarde og hin eins og Ingibjörg Sólrún.....Þessi sem er eins og Geir er api sem er eiginlega alveg hreint með andlitssvip Geirs. Með víðan munnsvip. Ef Geir væri indíáni þá væri hann kallaður Big face. Hin dúkkan er ljót og frekjuleg dúkka og minnir mjög á Ingibjörgu Sólrúnu.....Þau eru voðalega krúttleg þar sem þau sitja saman á tröppu hérna úti á stétt. Og stundum fær Össur að vera hjá þeim. Hann er lítill, ljótur, svartur bangsi en hann er oftast hafður inni á borði svo hann fari sér ekki að voða. Hann vill svo mikið ver’ann."

- Bragi Kristjónsson fornbókasali í mögnuðu spjalli í Fréttablaðinu 14. ágúst 2008.

Monday, August 11, 2008

Þurfa fimm sigra
Skagamenn eiga átta leiki eftir í Landsbankadeild. Þeir eru með sjö stig en næsta lið fyrir ofan þá Fylkir er með þrettán stig. Mér sýnist á öllu að Skaginn þurfi að vinna fimm af þessum átta leikjum sem eftir eru til þess að eiga möguleika á að halda sér uppi. Þá færu þeir í tuttugu og tvö stig. Þeir geta náttúrulega ekki reiknað með því að hin liðin tapi öllum leikjunum sem eftir eru.

Saturday, August 09, 2008

25 mínútur á stóra sviðinu
Ragna Ingólfsdóttir hefur æft og keppt í Badminton svona sex sinnum í viku í átta ár til þess að komast á Ólympíuleika. Eftir 25 mínútur á leikunum gaf hnéð sig. Var einhver að tala um að keppnisíþróttirnar væru harður heimur ?

Thursday, August 07, 2008

Nýr pistill á Víkaranum
Nýr pistill frá síðuhaldara er kominn inn á Víkarann ef einhverjir skyldu nenna að lesa þetta. Alvega þokkalegar tvíbökur. Annars bíður maður spenntur ef pistli Ragga rúsínu sem búið er að skora á í Virkjum Víkara. Hef haft gaman af þeim dagskrárlið undanfarið en það kom mér og sjálfsagt mörgum fleiri á óvart hvað Halli laug lítið í sínum pistli.

Saturday, August 02, 2008

Orðrétt
"Eins og hlustendur Útvarps Sögu hafa eflaust tekið eftir þá var þátturinn með mér og Guðna Ágústssyni ekki endurtekinn klukkan 4 í dag einsog til stóð og búið var að auglýsa villt og galið. Ég hef sjálfur ekkert heyrt í Arnþrúði vinkonu minni og fæ yfirleitt síðastur manna að vita hvenær þáttur minn er endurtekinn, en ég trúi því ekki að óreyndu að Arnþrúður láti framsóknarforkólfana beygja sig og breyta sinni frjálsu og óháðu útvarpsstöð í ófrjálsa og háða. Ef að þátturinn verður endurtekinn þá vona ég fyrir hönd hlustenda að það verði ekki á einhverjum fáránlegum tíma þegar allir eru í móki. Ef hann verður hinsvegar ekki endurtekinn þá er ég hættur med det samme því ég myndi aldrei undir nokkrum kringumstæðum vilja starfa á fjölmiðli sem væri í vasanum á stjórnmálamennum sem reyndu að hefta mitt tjáningarfrelsi. En sem ég segi: Ég trúi því ekki að kröftug spaugsöm manneskja einsog Arnþrúður láti einhverja grafalvarlega sveppi segja sér fyrir verkum.

Ég þykist vita að Halldór E og Markús Þórhallsson séu ekki beint ánægðir með það frekar en ég að hafa verið að kynna endurflutning þáttarins á tilteknum tíma sem svo var ekkert að marka, og ég hef aldeilis fengið að heyra það í mín eyru að hlustendur eru ekki par ánægðir heldur. En ég get því miður ekki beðist afsökunar á einhverju sem ég ræð engu um.

Guðni fór fram á það við Arnþrúði strax eftir viðtalið að þátturinn yrði ekki endurfluttur og að ég yrði rekinn. Ef að Guðni og litlu framsóknardindlarnir í kringum hann vilja meina að ég hafi orðið mér til skammar í þættinum en ekki Guðni sjálfur hversvegna er þeim þá svona mikið í mun að þátturinn verði ekki endurtekinn? Framsóknarmenn og aðrir stjórnmálamenn verða að fara að skilja að þeir eiga ekkert með að vera að grauta í frjálsum fjölmiðlum og reyna að hafa áhrif á hvað þar er sagt og gert. Læt meira heyra í mér síðar um þetta mál.Þátturinn verður kominn inná heimasíðu mína á mánudaginn: www.stormsker.net hvað svo sem afturhaldssamir framsóknarstrumpar reyna að röfla í mér."

- Sverrir Stormsker á bloggsíðu sinni í dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?