<$BlogRSDURL$>

Wednesday, August 31, 2005

Flimtingamenn athugið!
Síðuhaldari er nú staddur í Villta vestrinu og verður fram yfir helgi. Á Traðarstígnum hef ég lagst í margvíslegar rannsóknir. Meðal annars hef ég rannsakað nokkuð gamlar eigur og rakst meðal annars á skóladót frá upphafi skólagöngu minnar. Skoðaði ég stundatöflur sem ég var með þegar ég var 7 og 8 ára. Vakti það athygli mína að ég þurfti yfirleitt ekki að mæta fyrr en eftir hádegi, og alveg í fyrsta lagi klukkan 11. Nokkuð hefur borið á því í gegnum tíðina að fólk hafi gert athugasemdir við svefnþörf af minni hálfu og tímasetningar á fótferðatímum. Nú hef ég komist að því hvað er orsök og hvað afleiðing. Börnin læra sem fyrir þeim er haft og snemma beygist krókurinn. Svefnvenjur mínar eru því einfaldlega tilkomnar af venjum úr miðstýrðu opinberu skólakerfi sem ég aldist upp við. Það er líka allt í lagi, heilinn fer ekki í gang fyrir hádegi hvort sem er eins og rannsóknir Georgs Gírlausa sýna. En Geðmundur Gunnars og aðrir flimtingamenn eru beðnir um að hafa þessar upplýsingar hugfast og beina glósum sínum í aðra farvegi en þá sem tengjast fótferðatímum síðuhaldara.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, August 30, 2005

ESB við sama heygarðshornið*
Stefna Evrópusambandsins virðast ekkert vera að færast til aukins lýðræðis. Valdsmenn í Brussel eru enn sannfærðir um að þeim beri að hafa vit fyrir íbúum aðildarríkjanna og best sé að auka á reglugerðafarganið með boðum og bönnum. Nýjasta dæmið og eitt hið óhugnalegasta er verndarvængur sem stjórnmálamennirnir hafa breitt út með velferð kvenna í afgreiðslustörfum í huga. ESB hefur nú áhyggjur af því hvernig sólin getur leikið konur sem sinna þjónustustörfum utandyra. ESB hefur ekki enn tekist að setja lög um sólina og því skulu eigendur bara, veitingastaða og kaffihúsa tæklaðir. Þeir sem reka útikaffihús, -bari og -veitingahús sjái til þess að kvenkyns starfsfólk sem þjónar úti við sé þannig klætt að ofanverður barmur þeirra sé vel hulinn. Vitanlega er konunum sjálfum ekki treystandi fyrir því að hugsa um líkama sinn og því er gott að vita af sósíaldemókratískum stjórnmálamönnum á vaktinni.
Gangið á Guðs vegum.

*Fyrir þá sem ekki vita hvaðan þetta orðatiltæki á uppruna sinn er bent á Magnús Pálma Örnólfsson umboðsmann Nasdaq vísitölunnar á Íslandi.

Sunday, August 28, 2005

Orðrétt
Jón Gnarr toppar sig í leiðindum í Fréttablaðinu í dag. Ef hann skrifaði þetta þá. Finnst líklegra að Jóna Hrönn miðbæjarpresturinn hafi skrifað þennan mærðarlega vælupistil. Ég vona samt að Jón hafi ekki alveg tapað húmornum þótt hann hafi fundið Jesú. Tvíhöfði birtist víst aftur á Stöð 2 í kvöld. Vona innilega að Sigurjón hafi ekki gerst trúaður líka. Margir spyrja sig hvort hægt sé að vera trúaður vísindamaður (rétt svar: Nei), en það má líka spyrja hvort hægt sé að vera trúaður grínisti.
- Dr.Gunni á heimasíðu sinni 25. ágúst 2005.

Mótmæli mótmælum mótmælenda
Yfirleitt er mér nokkuð sama þótt einhverjir apakettir príli upp á þak á stjórnarráðinu, fái sér banana og skipti um flagg á fánastönginni. En ég verð að mótmæla mótmælum mótmælendanna á föstudaginn síðastliðinn. Þá brá svo við að flaggað hafði verið í hálfa stöng á stjórnarráðinu í virðingarsskyni við fyrrverandi ráðuneytisstjóra sem jarðsunginn var þennan dag. Fáninn hafði verið hífður upp í heila stöng og fengið að standa þannig í 2 mínútur þegar fáninn var dreginn niður af mótmælendum og annar fáni settur í staðinn sem á stóð "ekkert helvítis álver". Þó þessi skilaboð eigi vissulega rétt á sér og séu frábærlega tímasett þá er ágætt að hafa gamalt máltæki á bak við eyrað þegar lagt er af stað í leiðangur sem þennan: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar hvort sem hún hefur yfirgefið líkamann eða ekki".
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Hagnibal", hagsmunafélag mannætna hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hvalveiðum er harðlega mótmælt. Í yfirlýsingunni kemur fram að sú uppbygging í ferðaþjónustu sem hér hefur orðið undanfarin ár sé í stórhættu þar sem ferðamönnum fækki verulega vegna hvalveiðanna."Þetta hefur náttúrulega gífurleg áhrif á hráefnisframboð", sagði Skúli Nansen, gjaldkeri félagsins í samtali við blaðamann Baggalúts. "Auk þess höfum við verið að ná tökum á "alþjóðlegri matargerðarlist" og nú er þessu öllu stefnt í voða!"
- Baggalútur

Friday, August 26, 2005

Er Bjarni Fel genginn í Fram?
"Það er allt að verða vitlaust" - segir í laginu. Það er einhvern veginn allt á hvolfi þessa dagana. Nokkur dæmi: Sálin er að fara halda dansleik í Bolungarvík en ekki í Hnífsdal. Kalli Hallgríms var í félagsheimili Sjálfstæðismanna í sterkasta víginu (Seltjarnarnesi) og stjórnaði fjöldasöng á KR-laginu. Heimir Már Pétursson hótar því í Fréttablaðinu í dag að kjósa D-listann í borginni. Pascal Cygan skoraði ekki einu sinni heldur tvívegis fyrir Nallana í gær og þannig mætti lengi telja. En í óútreiknanlegum heimi þá er gott til þess að vita að sumt breytist aldrei; en Halldór Magnússon er aftur farinn að skopast að síðuhaldara í commentakerfinu eftir sumarfrí.
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, August 24, 2005

Næsta stopp: Bolungarvík
Á morgun skal haldið sem leið liggur í Villta vestrið, nánar tiltekið til Bolungarvíkur þar sem fólk hefur nú kynferðismök í stórum stíl án þess að nota verjur. Stórsveit Stefáns stjórnmálafræðinema mun standa fyrir dansleik í félagsheimili okkar þar sem menn eru með krossvið í gluggum í stað glers, enda löngu búnir að gefast upp á því. Ég ætla að fá mér snúning. Í þessari ferð mun ég jafnframt reyna að kenna Rögga, Gunnari Má og Jóni Steinari hrl. að spila golf. Á afmælisdegi G.Bjöss er ég svo boðinn í brúðkaup hjá Torfa Jó og Eyrúnu. Það verður fínt að komast í Vestrið, anda að sér fersku lofti og taka sér frí frá gatnamálum Error-listans.
Gangið á Guðs vegum.

Engir sjénsar teknir
Ég tók eftir því á Alice Cooper tónleikunum að þegar fólk keypti sér gos þá var tappinn skrúfaður af í sjoppunni og honum hent hið snarasta! Í þessum hópi af fólki skyldi engum treyst. Þarna hefði ekkert þýtt að segja hinn fræga brandara "Eina kók. Ekki taka hana upp." Enda þorði ég því ekki og fékk mér bara epli.
Gangið á Guðs vegum.

Drakk 10 kílómetra
Gunnar Group gerir það ekki endasleppt þessa dagana og var með rosaleg öndlit í gær og fyrradag í kvöldþættinum. Hann mætti í Reykjavíkurmaraþonið og drakk stanslaust á meðan hlaupið var 10 kílómetra og tók svo viðtöl. Hægt er að kíkja á þetta á veftv á visi.is.
Gangið á Guðs vegum.

Gullplata frá Lúdó
Lúdó og Stefán eru búnir að senda frá sér meistaraverk en þessir menn hafa verið í rokkinu í 45 ár, (hverjir eru þessir Rolling Stones?) Skólastjórinn á Grenivík var reyndar svekktur yfir því að Berti Möller væri ekki með á þessari plötu, en það er ekki á allt kosið. Mér hefur áskotnast eintak af þessari plötu og þarna eru nokkrir slagarar sem eiga eftir að verða ódauðlegir. Stebbi í feiknaformi miðað við aldur og fyrri störf. Blogg fólksins hefur fyrir því öruggar heimildir að plötunni hafi verið stillt upp á besta stað í Samkaup á Ísafirði. Mæli með þessu stöffi.
Gangið á Guðs vegum.

Friday, August 19, 2005

Orðrétt
"Ásgeir Friðgeirsson, ráðgjafi og 1. varaþingmaður Samfylkingar mun ekki taka sæti á Alþingi í haust í stað Guðmundar Árna Stefánssonar, enda segist hann þurfa að „sinna alvöru starfi næsta vetur“. 2. varaþingmaður, Valdimar L. Friðriksson hefði þá með réttu átt að taka sæti Guðmundar. Hann kveðst þó því miður verða að „vinna eins og maður í vetur“, en hann er 3. gjaldkeri hjá útibúi Landsbankans í Grafarvogi. Það sama gildir um 3. varaþingmann, sem kveðst hafa verið búinn að lofa sér í skúringar hjá KB-banka og 4. varaþingmaður segir hag sínum og fjölskyldu sinnar talsvert betur borgið starfi hann áfram í mötuneyti Íslandsbanka. Sá 5. telur firru að fara af atvinnuleysisbótum eins og ástandið sé í dag og sá 6. segir viðskiptin á Hlemmi hreinlega blómstra eftir að nýtt leiðakerfi Strætó var tekið í notkun og hann fari ekki fet."
-Baggalútur.

Gunni Valþórs á Vatnsenda?
Maður er nefndur Gunnar Valþórsson og er frændi Bryndísar Hlöðversdóttur. Gunnar þessi hafði gjarnan uppi stór orð á háskólasvæðæðinu um ókosti þess að búa fyrir utan Höfuðborgarsvæðið. Þegar Gunnar var í stuði þá bombederaði hann líka Véstein félaga okkar (Hjalti III) fyrir að leyfa sér að búa á Vatnsenda sem væri algerlega fyrir neðan Hellu, og allar hellur ef út í það er farið. Var okkur Steiner því nokkuð skemmt er faðir Gunnars var á meðal þeirra sem fengu úthlutað lóð á Vatnsenda fyrir skömmu. Það skal þó áréttað að Valþór er ekki tengdafaðir Flosa Eiríkssonar en þau hjónin fengu einnig lóð í þessum úrdrætti Lóðó.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Annars er ég núna búinn að vera að taka upp í bráðum mánuð (á milli þess sem ég hef verið að spila á tónleikum) tónlist fyrir Little trip to heaven sem Baltasar var að klára að gera, þetta er þarna myndin með öllu fansí hollívúd liðinu, frábær mynd og geðveikt tjallens að gera tónlist við hana, mjög mikil vinna og mjög skemtilegt."
-Mugison á vefsíðu sinni.

Gunni á X-inu
Eins og fram hefur komið hér er Gunnar Group nú dottinn í útvarpsþátt á X-inu alla virka morgna ásamt einhverjum Mána. Ég hlustaði á lok þáttarins í morgun þar sem þessir gullmolar meðal annara ultu af vörum Gunnars sem var einn í þættinum í morgun í fyrsta skipti vegna barneigna hins þáttastjórnandans: "Drekkið í ykkur menningu um helgina og dreypið vel af veigum Bakkusar." Hann endaði á þessum nótum og bætti við: "Þessi morgun hefur verið eins og heilablóðfall vegna þess að hann Máni minn var að fæða barn." Þar hafið þið það. En ég hjó eftir því að Gunnar ætlar að vera með forsprakka Fazmo-klíkunnar í viðtali á þriðjudagsmorguninn...það verður eitthvað.
Megi mikil ölvun verða á vegi ykkar á menningarnótt og fáum flugeldum skotið upp á kostnað orkunotenda.
Gangið á Guðs vegum.

Monday, August 15, 2005

Orðrétt
"R-listinn fékk heldur kaldar kveðjur frá Ágústi Ágústssyni, nýkjörnum varaformanni Samfylkingarinnar, í Ríkisútvarpinu á föstudaginn. Ágúst sagði að í kosningaundirbúningi Samfylkingarinnar þyrfti að bjóða upp á ný og spennandi málefni og vonaðist líka eftir einhverri endurnýjun í mannskapnum. Síðar í viðtali ítrekaði hann þetta og talaði um nauðsyn þess að fá inn í borgarmálin nýjar hugmyndir og nýtt fólk. Þetta er vissulega umhugsunarefni fyrir borgarfulltrúana, þau Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann flokksins, og Stefán Jón Hafstein, formann menntaráðs Reykjavíkur og fyrrverandi formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar."
-Vef-þjóðviljinn 15. ágúst 2005.

Sunday, August 14, 2005

Bikarinn í Mosó
Golfklúbburinn minn varð Íslandsmeistari í golfi í dag. Frábært hjá ekki stærri klúbbi þó svo að við þessu hafi verið búist. Ég lagði mín lóð á vogaskálarnar með því að draga fyrir fyrrverandi mág Strandagraðs: Inga Rúnar Gíslason, á föstudaginn. Uppeldisklúbburinn minn GBO vann 4. deildina þannig að þetta var góð helgi. Ég held að hamingjuóskir til klúbbanna séu við hæfi.
Gangið á Guðs vegum.

Alice rocks you in the face!
Fór á tónleikana með Alice Cooper í gærkvöldi. Var svo sem ekkert á síðasta snúningi með miðakaup þar sem ég tryggði mér aðgang í byrjun apríl. Þarna var verulega skemmtileg samsetning af fólki. Allt frá Finni Jóhanns til Eyjólfs Kristjánssonar og allt þar á milli. Alice Cooper eða Vincent Fournier er með sprækari 57 ára mönnum sem ég hef séð. Hélt uppi hörku keyrslu allan tímann, nema rétt á meðan hann tróð sér í nýjan búning, en þeir voru nokkrir. Gamalkunn hjálpartæki voru á svæðinu eins og spennitryjan og fallöxin. Hjúkkan með sprautuna var hins vegar hvergi sjáanleg en hins vegar er dóttir Vincents í sýningunni. Hún er ballerína og sýndi skemmtileg tilþrif, sem voru eins konar kokteill af ballet, fimleikum og karate. Gömlu slagarnir, Schools Out, No more Mr. Nice guy, I´m Eighteen og Under my Wheels voru allir í prógramminu og Poison var uppklappslag. Varð því ekki fyrir vonbrigðum. Virkilega fínar tvíbökur.
Gangið á Guðs vegum.

Thursday, August 11, 2005

Orðrétt
"En skot Bo var víðsfjarri markinu, eða eins og nafni hans úr Hafnafirðinum hefði sagt; Þetta var glatað!"
-Gaupi í lýsingu á sama leik.

Gunni Samloka á X-inu
Nú er maður búinn að koma skjólstæðingi sínum Gunnari Group að á X-inu. Gunnar er ásamt einhverjum pappakassa með morgunþátt á X-inu 97.7 alla virka daga. Þetta ætti að geta verið gott spé.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Þetta eru mjög hafnfirsk nöfn hjá Dönunum í Fram: Bo og Mathiesen"
-Gaupi í lýsingu á leik Fram og Vals á Sýn.

Wednesday, August 10, 2005

Ammmæli
Síðuhaldari átti afmæli í gær þann 9. bara svo þið vitið það. Varð rúmlega tvítugur. Una frænka mín átti afmæli þremur dögum áður eða þann 6.. Hún varð tæplega þrítug. Afmælisdagar okkar eru einmitt kjarnorkusprengjudagarnir frægu, Hirósíma 6. ágúst og Nagazaki 9. ágúst. Það er eitthvað truflandi við þessa staðreynd. En við Una erum samt ágæt, svona inn við beinið. Erum ekki að drepa neina Japani, alla vega ekki nema rík ástæða sé til.
Gangið á Guðs vegum.

Monday, August 08, 2005

Orðrétt
"Alþingi hefur samþykkt að ríkissjóður skuli ábyrgjast allar lántökur Stoke City í tilraunum þeirra til að komast upp í fyrstu deild, en þeir hyggjast kaupa nokkra snjalla leikmenn fyrir útileikinn gegn Cardiff. "Þetta er einstakt tækifæri til að komast upp um deild og skapa þannig atvinnu fyrir fleiri íslenska knattspyrnumenn", sagði Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Hann bætti því við að önnur lið gætu ekki vænst sliks hins sama, "sérstaklega ekki KR." "
-Baggalútur.

Stal ánamöðkum í Búðardal
Geðmundur Gunnars sendi mér þessa frétt um daginn og lét fylgja með: "hvar endar þessi glæpa-skálmöld????"
Gangið á Guðs vegum.

Sunday, August 07, 2005

Skandall
Ég var sendur á leik Fylkis og ÍA fyrir Moggann í kvöld. Ágætis skemmtun en ég hef sjaldan séð annan eins skandal eins og þegar Skagamenn fengu víti undir lok leiksins. Hans nokkur Scheving flaggaði þá vítaspyrnu þegar Marka-Hjössi kingsaði og gengur nú undir nafninu Hans Skelfing í Árbænum!
Gangið á Guðs vegum.

Plata ársins vekur athygli
Hef heyrt í nokkrum sem ég þekki sem eru búnir að festa kaup á "Plötu ársins" með hljómsveit okkar Eiðs Smára. Láta vel af kaupunum enda var ekki svo lítið barist fyrir því að hún myndi kosta 2000 kall í staðinn fyrir 2500 eins og flestar íslenskar plötur. Drífið ykkur í að tryggja ykkur eintak, verslunarstjórinn í Samkaup hlýtur að vera búinn að stilla plötunni upp á besta stað. Dr. Gunni segir að Róbert Hjálmtýsson sé snillingur og "Plata ársins" með. Verð hissa ef mér tekst ekki að koma Robba í kvöldþáttinn og jafnvel Kastljósið á næstunni.
Gangið á Guðs vegum.

Thursday, August 04, 2005

Grein á SUS-vef
Ég get glatt ykkur elskurnar mínar með því að ný grein eftir ristjóra Bloggs fólksins birist á SUS-vefnum í dag og ber titilinn Eru hryðjuverkamenn öðruvísi en aðrir fjöldamorðingjar?".
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, August 03, 2005

Heldur HM með United í vetur?
Michael Owen er nú sterklega orðaður við Manchester United. Það held ég að myndi nú gleðja Liverpool-stuðningsmenn að sjá gullkálfinn sinn aftur í enska boltanum. Þó svo hann yrði í 45 mínútna fjarlægð frá Anfield þá er það nú ekki aðalmálið. Eða hvað? Eru HM, Baldur Smári og Raggi Ingvars farnir að svipast um eftir United-treyjum?
Gangið á Guðs vegum.

Gunni Samloka í Blaðinu
Blaðið Blaðið er með skjólstæðing minn Gunnar Group í örstuttu spjalli á bls 26 í dag en Gunnar er með innslög sem kallast Öndlit í þætti Sviðmundar Dritgríms á Sirkus. Þættina má nálgast á veftv á visi.is. Mæli ég sérstaklega með innslagi Gunna síðastliðinn fimmtudag þar sem hann spjallaði við ungt fólk sem var á leiðinni um borð í Herjólf.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, August 02, 2005

Hættur í hinu akademíska samfélagi
Vésteinn Ingibergsson (Hjalti III) er viðbeinsbrotinn. Í ljósi þess að óhappið varð um verslunarmannahelgi þá er frásögn hins slasaða afar ótrúverðug. Að hans sögn brá hann sér í fótknattleik á gervigrasi í Kópavogi með nokkrum félögum sínum. Var honum brugðið á ógnarhraða upp kantinn er hann var að taka mann og annan á með fyrrgreindum afleiðingum. Mér þykir nú líklegra að maðurinn hafi verið á nösunum (úr orðabók Guðjóns Hannibals Þórðarsonar) einhvers staðar í útilegu. Reyndar skal þess getið að vinnuumhverfi Vésteins er afar hættulegt en hann starfar bæði í smáríkjasetri Baldurs Þórhallssonar auk þess að kenna eitt fag í Félagsvísindadeild. Áverkarnir gætu því verið einhver eftirköst eftir rektorsslaginn í HÍ. Getur verið að starfsfólki í Félagsvísindadeild hafi orðið full heitt í hamsi? Skjólstæðingur minn: Gunnar Group, telur líklegast að nemendur hans hafi buffað hann og stolið af honum matarpeningunum. Hvað veit maður hvað gengur á í hinu akademíska samfélagi?
Gangið á Guðs vegum.

Fatastyrkur?
Nei þetta gengur ekki svona. Nú sæki ég um fatastyrk til Sporthússins. Þegar ég keypti kortið í þessum útrýmingarbúðum þá var mér aldrei tilkynnt um það að ég myndi ekki lengur passa í fötin mín eftir örfár vikur. Sagi farir mínar ekki sléttar. SS-porthúsið verður að útvega mér nýjar spjarir ellegar setur maður á sig aftur. Þarf maður að fara að grafa upp gömlu Hughes-treyjurnar? Eða UMFB treyju með EG framan á? Kannski að ég eigi einhvers staðar karrígula Spaugstofujakkann sem ég fermdist í.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Ég þarf endilega að fá mér blaðið Tíbrá-Dulræn málefni. Sérstaklega er ég spenntur fyrir greininni Líf og afkoma huldufólks, en þar skráir höfundurinn Þórunn Kristín Emilsdóttir, "upplifun sína og kynni af verum, sem ekki lifa í sömu vídd og við". Margskonar spurningar vakna í smabandi við álfana, t.d. eru þeir hættir að vera í álfafötum og komnir í eitthvað kúl? Er mikið atvinnuleysi í álfheimum? Hvernig er dagskrá álfasjónvarpsins? Ég er viss um að Þórunn er með öll þessi svör og ég trúi ekki öðru en að álfarnir hafi þróast og séu orðnir nútímalegir. Varla enn eins og einhverjir afdankaðir Færeyingar með rímnakjaftæði og hestarugl."
-Dr. Gunni á heimasíðu sinni 2. ágúst 2005.

Eignaskatturinn í síðasta sinn í bili
Alþingi er loksins búið að afnema eignaskattinn, þ.e.a.s fólk greiddi hann nú í síðasta sinn, á þessu kjörtímabili að minnsta kosti. Kominn tími til að afnema þennan skatt, sem er sérlega ógeðfelldur að mínu mati. Hefur bitnað að miklu leyti á eldri borgurum. Fyrir það fyrsta þá sé ég ekki sterk rök fyrir því að fólk greiði ríkisvaldinu fyrir eignir, auk þess sem fólk er gjarnan margbúið að greiða ríkisvaldinu hina og þessa skatta í tengslum við eignina. Engu að síður þá treysti enginn þingmaður vinstri flokkanna til þess að greiða þessu framfaramáli atkvæði sitt. Ekki einn. Líklega ekki nægilega nútímalegt.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Færeyingar hafa tekið íslenska konsúlinn í Klakksvík höndum og flutt hann til fjalla. Líklegt þykir að hann verði pyndaður til sagna um fyrirhugaða árás varðskipsins Hænis á færeyska skemmtiferðaskipið og kasínóið Skerpi sem rekið hefur stjórnlaust inn í íslenska lögsögu undanfarnar vikur, en það hefur staðið autt í rúman áratug, eða frá sjósetningu þess. Ekki er vitað hvaða lúabrögðum Færeyingarnir hyggjast beita konsúlinn, en að sögn sérfræðinga verður hann líklega látinn drekka appelsíusafa eftir að hafa burstað tennurnar, kvölds og morgna."
-Baggalútur - Njósn frá útlöndum.

Tarfur bloggar
Maður er nefndur Jón Smári Jónsson og er hann byrjaður að blogga. Þetta gæti orðið forvitnilegur gluggi inn í flókinn hugarheim sálfræðinema sem og samfélagsspegill fyrir Eyjafjarðarhrepp þar sem fólk er meira á móti ofbeldi en annars staðar. Óhætt að mæla með þessu stöffi.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?