<$BlogRSDURL$>

Tuesday, July 29, 2008

Svandís sker úr um olíuhreinsunarstöðina
Svandís Svavarsdóttir er á meðal þeirra pólitísku hugsuða sem skera sig frá fjöldanum og gnæfir yfir samlanda sína eins og Himmelbjerget yfir dönskum völlum. Hún er fljót að hugsa og snögg að mynda sér skoðanir eins og þegar hún var tilbúinn að fara í meirhlutasamstarf með manni sem hún hafði fullyrt örfáum dögum áður að væri spilltur. Hvert viðtal við Svandísi er því happafengur fyrir almúgann sem tekur fegins hendi hverju færi sem gefst til að kynnast hugarheimi hennar. Eitt slíkt færi gafst nú á fimmtudaginn en þá gaf Svandís vísi.is kost á stuttu viðtali. Svandís hafði nefnilega verið á ferðalagi á sunnanverðum Vestfjörðum. Verandi meðvitaður stjórnmálamaður þá ákvað hún að virða fyrir sér það svæði sem helst hefur verið nefnt til sögunnar sem staðsetning ólíuhreinsunarstöðvar eða reykspúandi ferlíkis" eins og þetta heitir víst í þeirri yfirveguðu opinberu umræðu sem fram hefur farið um málið. Svandís segir svo frá í viðtalinu: "Við fórum og skoðuðum Hvestu þar sem verið er að tala um að setja olíuhreinsunaarstöð, það er fallegt svæði sem ekkert vit er í að fórna." Já þá vita Vestfirðingar það. Ekki fylgdi þessu frekari rökstuðningur eða hvaða "fórnun" hún var að tala um. En fyrst Svandís kíkti þarna við í sumarfríinu þá hlýtur þetta að vera borðleggjandi. Eins og við vitum fyrir vestan þá er alltaf gott að fá sérfræðinga að sunnan í heimsókn.

Thursday, July 24, 2008

Orðrétt
"Ursula Andress, eða Ursula Undressed eins og gárungarnir kölluðu hana, hafði á þessum tíma látið að sér kveða sem fyrirsæta og leikkona á Ítalíu en var óþekkt með öllu í Bandaríkjunum. Það breyttist á einni nóttu þegar hún fékk hlutverk Honey Ryder í fyrstu James Bond-myndinni, Dr. No, árið 1962. Án fyrirhafnar dró hún karlpening þessa heims opinmynntan fram á sætisbrúnina þegar hún steig eins og gyðja upp úr Karabíska hafinu klædd hvítu bikiníi með hníf í belti."
- Stjörnublaðamaðurinn Orri Páll Ormarsson í Morgunblaðinu 20. júlí 2008.

Einn Ísfirðingur í Eyjum ?
Kylfingur.is er með merkilega frétt frá Vestmannaeyjum undir fyrirsögninni: Eini keppandi Ísfirðinga í Eyjum. Fréttin fjallar um Gunnstein Jónsson, sem vissulega er frá Ísafirði, en hann hefur ekki sést á Íslandsmótinu í langan tíma enda búsettur í Kanada. Í fréttinni segir meðal annars: "Ísfirðingar eiga einn keppanda á Íslandsmótinu í höggleik í Eyjum, en það er Gunnsteinn Jónsson. Hann býr í Kanada og kom hingað sérstaklega til að taka þátt í mótinu, en síðast tók hann þátt í Íslandsmóti fyrir sex árum þegar það var haldið í Grafarholti."

Síðuhaldari er hræddur um að afrekskylfingnum Auðunni Einarssyni þyki þetta undarleg staðhæfing og ólíklegt verður að teljast að Ísfirðingurinn Valur Jónatansson hafi skrifað fréttina.

Orðrétt
Skemmtilegur og nýr fróðleikur birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku. Þar skrifa skyndilega grein þeir Þorvarður Helgason og Jón Böðvarsson og fræða landsmenn um atburðina á Austurvelli hinn 30. mars 1949, þegar árás var gerð á alþingishúsið til að reyna að hindra inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Samkvæmt grein þeirra Þorvarðar og Jóns er það allt misskilningur. "Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar með sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í þinghúsinu."

Þannig var þetta nú allt börnin góð. Og ekki nóg með það, því einhver illyrmi höfðu þaulskipulagt ögranir gagnvart hinum saklausu borgurum sem komnir voru á Austurvöll, hinu "grunlausa fólki" sem skiljanlega varð "felmtri slegið". Þegar þeir Þorvarður og Jón horfa til baka, þá kemur "í ljós mynstur, kerfi" og var "augsýnilega stefnt að árekstri, óeirðum" - en vitanlega ekki af hinu grunlausa fólki á Austurvelli heldur af þeim sem inni í þinghúsinu voru. Þeir sem köstuðu á alþingishúsið þeir tilheyrðu ekki mótmælendunum og auk þess er þeim Jóni og Þorvarði kunnugt um það að þeir hafi aðeins kastað að gamni sínu, eggjum og moldarkögglum, og enginn skaði orðið nema "líklega" hafi ein rúða brotnað.

Þetta eru mikilvægar upplýsingar og af því að minnsta kosti annar greinarhöfunda er áhugasamur um fleiri atburði en þessa, þá vill Vefþjóðviljinn láta þess getið að nýlega barst blaðinu yfirlýsing sem er litlu ófróðlegri en Morgunblaðs-grein þeirra Þorvarðar Helgasonar og Jóns Böðvarssonar. Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Örfáir náungar, sem ekki voru með okkur í för og við þekkjum ekki, stóðu upp við Bergþórshvol þegar við félagarnir komum þangað til að fylgjast með morgunrakstri húsbóndans. Einhverjir þessara manna voru af stráksskap farnir að fikta við það að reykja og munu hafa kveikt sér í vindlingum þarna á hlaðinu, en það olli engu tjóni. Þó er líklega rétt að hálfbrunnin eldspýta hafi fallið í arfasátu er þar stóð fyrir ofan húsin. Hitt er verra, að inni á bænum voru ýmsir óþurftarmenn sem allt gerðu til að æsa upp grunlausa gestina á hlaðinu. Helgi, sonur hjónanna á bænum, ögraði mönnum til dæmis með því að búast kvenfötum og grátur og kveinstafir Skarphéðins bróður hans trufluðu lýðræðislega umræðu á hlaðinu. En við létum ekki eggja okkur til óhæfuverka og fórum fljótlega leiðar okkar, enda var þarna orðið heitt og reyksamt. Er það krafa okkar að mál þetta verði allt rannsakað ofan í kjölinn þar til ofangreindur sannleikur finnst.
Svínafelli, 1. júlí 2008
Flosi Þórðarson.

- Vef-þjóðviljinn þann 2. júlí 2008.

Wednesday, July 23, 2008

Yfir um
Það situr maður við hliðina á mér hérna í tölvustofunni á Þjóðarbókarhlöðunni sem virðist vera búinn að missa það. Fyrir það fyrsta þá lítur hann út fyrir að hafa verið rekinn úr hljómsveitinni Hjálmum fyrir óreglu. Auk þess er hann með stór og dökk sólgleraugu inni í byggingu þar sem gluggarnir eru með minnsta móti og þar fyrir utan er hann inni í tölvustofu þar sem sólin ei skín. Látum það vera en það sem hræðir mig mest er að hann ríkur upp úr stólnum á svona fimm mínútna fresti og gengur um gólf! Síðustu tvo tímana er hann búinn að ganga meira inni í tölvustofunni en Martha Ernsdóttir skokkaði á Ólympíuleikunum í Sydney. Mér sýnist að Ægir Finnboga þurfi að fara að herða gæsluna hérna. Ég brá mér á salernið áðan í nokkrar mínútur en þorði ekki að skilja símann og segulbandið eftir! Ef ég verð ekki búinn að uppfæra blogg fólksins á morgun þá megið þið gjarnan senda víkingasveitina og varaliðið á Hlöðuna.

Það er bara ein skoðun í boði
Þessi ummæli eru alveg dæmigerð fyrir umræðu um umhverfismál. Það er bara ein rétt skoðun samkvæmt þeim sem hæst gala. Samkvæmt þessum manni þá skortir Möllerinn annað hvort skilning eða hann er hræddur. Að sjálfsögðu kemur ekki til greina að Möllerinn sé einfaldlega ósammála að vel athuguðu máli. Getur ekki verið að Möllerinn sé einfaldlega ósammála því að "þarna séu verulegir náttúruverndarhagsmunir í húfi" ? Nei ekki samkvæmt þessu. Sá möguleiki er bara einfaldlega ekki í stöðunni.

Svona er umræðunni reyndar einnig háttað um Evrópumál. Það er ekki í boði að vera á móti aðild að Evrópusambandinu af prinsippástæðum, t.d. vegna aukins skrifræðis og aukins embættismannaræðis á kostnað lýðræðis. Ef einhver er svo ógæfusamur að vera þeirrar skoðunar, þá er því lýst í fjölmiðlum sem skoðanaleysi eða að viðkomandi hafi bara ekki sett málið á dagskrá. Samkvæmt þessu þá liggur það í hlutarins eðli að sé maður ekki hlynntur Evrópusambandsaðild þá hafi maður ekki kynnt sér málið.

Monday, July 21, 2008

Ógiftur
Einhvers misskilnings hefur gætt undanfarið varðandi hjúskaparstöðu síðuhaldara. Því skal áréttað að síðuhaldari var ekki að gifta sig í Grikklandi um daginn eins og einhverjir virðast telja.

Thursday, July 17, 2008

Árnaðaróskir
Í dag er sextugur Ögmundur Jónasson fyrrum fréttamaður. Blogg fólksins óskar honum allra heilla á þessum merkisdegi.

Munnmælasögur#84
Þessi saga er glóðvolg úr villta vestrinu en Baldur Smári vinur minn hefur í sumar hreiðrað um sig í foreldrahúsum á Holtastígnum, þar sem yfir standa framkvæmdir á heimili hans á Völusteinsstræti. Foreldrar hans hafa verið talsvert að heiman í sumar og hefur Baldur séð um húsið og sem að því snýr. Garðurinn hjá þeim sómahjónum Einari og Gurrý er með þeim snyrtilegri í Víkinni. Um daginn höfðu þau verið að heiman í einvern tíma þegar Baldur gefur sig á tal við þá Hagbarð Marínósson og Elías Jónatansson. Þeir félagar spjölluðu um daginn og veginn eins og gengur. Talið berst að heimkomu Baldurs á Holtastíginn og lætur hann í ljós áhyggjur sínar af því að hann væri ekki búinn að gera neitt í garðinum síðan foreldrar hans fóru úr bænum. Hafði Baldur af þessu nokkrar áhyggjur: "Ég bara verð að fara að taka til hendinni. Þetta er hrikalegt." Baldur er nú samviskusamur eins og hann á kyn til og höfðu þeir Hagbarður og Elías því ekki mikla trú á að komin væri órækt í túnið á Holtastígnum. Eins og endranær var Hagbarður snöggur til svars: "Já ég tók einmitt eftir því um daginn að það voru tvö strá lögst á hliðina !"

Orðrétt
"Ég sagði; ef það verður ekkert fyrir mig að gera í smíðinni þá á ég góðan vin hérna, Guðbjart Flosason, og ég hefði snúið upp á eistun á honum til þess að láta taka mig annað hvort á sjóinn eða í fiskinn."
- Jón Steinar Guðmundsson, húsasmiður, í útvarpsþættinum "Flækingur" á Rás1 mánudaginn 14. júlí 2008.

Saturday, July 12, 2008

Munnmælasögur#83
Tölvupóstar hafa verið sendir síðuhaldara héðan og þaðan úr heiminum þar sem óskað er eftir því að birt sé sagan af því hvers vegna Jakob Falur Garðarsson sé kallaður "Kobbi nánös". Eftir lauflétta rannsóknarvinnu getur síðuhaldari boðið upp á söguna á bak við nafnið.

Árið 1993 var haldið sögulegt SUS-þing á Selfossi og þangað fjölmenntu Vestfirskir Gleðipinnar. (Síðar verður hér birt saga af Jóni Áka Leifssyni frá þessu sama þingi.) Jakob Falur og HáEmm, verndari bloggs fólksins, fóru suður með Óla Velti. Þeir voru komnir í töluverða tímapressu, en þeirra beið herráðsfundur hjá stuðningsmönnum núverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins sem bauð sig fram til formanns ásamt núverandi heilbrigðisráðherra. Var því Óli fenginn til þess að keyra. Vissara er að vera ekki með miklar fullyrðingar um hversu langan tíma tók að keyra frá Ísafirði og á Selfoss, en til vísbendingar má benda á að Kobbi og HáEmm fengu sér hjartastyrkjandi á leiðinni til að koma í veg fyrir offsahræðslu. En þeir eru að öðru leyti stakir bindindismenn. Kobbi lagði línurnar fyrir helgina: "Svo skiptum við þessu bara í þrennt. Deilum kostnaði." Kobbi vildi greinilega að fyllstu sanngirni yrði gætt. Gerðu Óli og HáEmm engar athugasemdir við það. Þegar kom að Kobba að borga bensín í Búðardal greip hann hins vegar í tómt. "Strákar, veskið mitt hefur orðið eftir á Ísafirði !" sagði Kobbi vandræðalegur. Þá gall við í Óla þannig að heyrðist um alla Dalina: "Nú nú ! Átti ekki að deila kostnaði ??"

Á þessu augnabliki hefur Kobbi væntanlega gert sér grein fyrir því, að þessar yfirlýsingar hans um kostnaðaráætlun og í kjölfarið veskisleysi, myndi ekki falla í gleymskunnar dá hjá þeim Óla og HáEmm. Það kom honum því sennilega ekki á óvart að þeir skyldu kalla hann "Kobba nánös" alla helgina á Selfossi. En líklega hefur Kobba ekki rennt í grun að fimmtán árum síðar yrði hann enn þekktur víða um land sem "Nánösin".

Friday, July 11, 2008

Orðrétt
"Guðmundur Þóroddsson er einstakur embættismaður. Hann ætlaði að skammta sjálfum sér kauprétti í opinberu fyrirtæki upp á hátt í 100 milljónir króna. Ekkert þoldi hann verr en að gefa stjórnmálamönnum upplýsingar um fyrirtækið sem hann stjórnaði - og taldi greinilega að væri í einkaeigu sinni. Bygging Orkuveituhússins er hneyksli - það hefði átt að sæta opinberri rannsókn - og í raun ekki of seint að gera það. Og nú telur Guðmundur að pappírar í eigu fyrirtækisins séu sín eign. Sem og sími og lúxusbifreið frá fyrirtækinu. Svo heyrir maður gamla bandamenn Guðmundar úr R-listanum reka upp ramakvein vegna brottrekstrar hans. Er ekki allt í lagi?"
- Egill Helgason, meintur tvífari, á bloggi sínu þann 10. júlí 2008.

Thursday, July 10, 2008

Krúttlegur Chris
Ragga Ingvars fannst þetta krúttlegt og sendi mér. Ætli það sé ekki í lagi fyrir síðuhaldara að vera á krúttlegum nótum svona einu sinni. Annars er það að frétta af Ragga að hann er að spila á Meistaramóti GKJ og spilaði á 84 fyrsta daginn. Einföld íþrótt fyrir Ragga. Þar er Orri Örn Árnason einnig að leika listir sínar og byrjaði fyrsta daginn á 100 höggum. Ávallt steady.

Tuesday, July 08, 2008

Blekbóndi bregður búi
Hið svokallaða bloggsamfélag hefur misst spón úr aski sínum. Blekbóndinn í Reykhólasveit, Hlynur Þór Magnússon, skrifaði um daginn kveðjuorð á bloggið sitt og segist hættur. Minn gamli þýskukennari er afsakaplega fær penni og kemur auk þess auga á skemmtilega vinkla í þjóðmálaumræðunni. Þó svo að hann hafi lagt þetta form til hliðar þá er hann varla hættur að skrifa. Hann hlýtur að gera það áfram á öðrum vígstöðum.

Orðrétt
"Þá er hægt að setja spurningarmerki við stöðu Björgólfs Takefusa í byrjunarliðinu, en hann hefur ekki komist á blað í fyrstu þremur leikjunum."

- Hinn seinheppni blaðamaður, Kristján Jónsson, í Morgunblaðinu þann 21. maí 2008. Síðan þá hefur Björgólfur þessi ekki hætt að skora og er nú markahæstur í deildinni.

Thursday, July 03, 2008

Orðrétt
"Það var líka sagt að kirkjan hafi hjálpað til við þá bábilju að ekki mátti taka með sér mat á sjó því þá fengist ekki matur úr sjó. En það var hægt að semja við himnafeðgana að taka með sér drykk á sjó. Menn máttu því taka mér sér drykk, þó það hafi ekki verið vín, eins og það sem smiðssonurinn bruggaði, heldur sýrublanda sem var drykkur búinn til úr súrri mysu og skyri. Það hefur komið í ljós í dag þetta er próteinríkur drykkur og allir þessi apar sem eru að hjóla og lyfta lóðum í heilsuræktarstöðvum í stað þess að taka til í garðinum hjá sér eða gera eitthvað ærlegt, eru að drekka skyrdrykki til að verða gamlir og graðir. En það er ekki nokkuð gagn í þessu því það er búið að gerilsneyða þetta allt og blanda út í aldinsöfum og sykri. En í gamla daga drukku þeir sýrunna úr ógerilsneyddri mjólk og fengu nóg af próteinum."

- Finnbogi Bernódusson, safnvörður í Ósvör, í opnuviðtali í Bæjarins Besta þann 27. september 2007.

Leiftursnöggur vindmyllusérfræðingur
Einhverjum hefur sjálfsagt fundist að forsetakosningar í Bandaríkjunum væru búnar að eiga sér langan aðdraganda. Helstu skrautfjaðrir demókrata hafa hlaupið langhlaup til þess að fá úr því skorið hver fái að verða forsetaefni flokksins. Eftir taktísk mistök Rúdólfs þá varð þetta eins konar spretthlaup hjá Rebúblikönum. En mörgum hefur jú fundist baráttan taka langan tíma hjá demókrötum og ekki hefur vantað fréttaflutning af úrslitum í einstökum ríkjum og "fréttaskýringar" af stöðu mála. Allt hugsandi fólk virtist hafa skoðun á því hvort Obama eða Clinton væri heppilegri sem forsetaefni. Og fæstir víluðu fyrir sér að flíka þeim skoðunum. Já - nema kannski þungavigtarmenn í sjálfum demókrataflokknum. Þeir hafa verið þráspurðir og virtust ekki hafa á þessu nokkra skoðun eða fannst algerlega óviðeigandi að stjórnmálamenn mynduðu sér skoðanir á stjórnmálamönnum. Bill Clinton var nú reyndar ansi hallur undir Clinton en fátt var um svör hjá Jimmy Carter, Al Gore og John Kerry, a.m.k svo ég viti til. En við skulum ekki vera of fljót á okkur. Þrátt fyrir að einhverjum hafi fundist forkosningarnar taka langan tíma þá dugðu þær ekki Al Gore til að gera upp hug sinn. En hann hefur nú gert það upp við sig að hann styður Obama! Æ Al Gore þið vitið. Sá sem mætti á Bessastaði sem sérfræðingur í umhverfismálum og hrósaði okkur Íslendingum fyrir vindmylluvæðingu okkar.

Tuesday, July 01, 2008

Orðrétt
"Sigurður hefur ekki getað leikið handknattleik í fjóra mánuði sökum nárameiðsla. Hann segir ferðina ekki síst ætlaða til þess að leita lækninga við meinum sínum. „Ég hef heyrt því fleygt að maður geti læknast ef maður sefur hjá hreinni mey," segir Sigurður og bætir við: „Ég er búinn að reyna allt annað. Valsmenn treysta nú á hreinu meyjarnar."

Sigurður ber smávægilegan kvíða í brjósti hvað sjúkdóma varðar. „Þessar sprautur voru svo dýrar að ég sleppti tveimur. Svo gat ég valið um tvær tegundir af malaríutöflum. Ein hafði þær aukaverkanir að hún kostaði 30 þúsund. Hin kostar fjögur þúsund en veldur martröðum og þunglyndi. Ég sá meiri hag í þeirri síðarnefndu."

- Brot úr viðtali við fagmanninn Sigurð Eggertsson Þorleifssonar í Fréttablaðinu í dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?