<$BlogRSDURL$>

Wednesday, January 31, 2007

Orðrétt
"Samfylkingin fékk ekki nógu góða útkomu í skoðanakönnun Fréttablaðsins á dögunum. Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, notaði það til að koma á mig snyrtilegum hælkrók í umræðum á þinginu í dag. Þingmaður Framsóknar, Guðjón Ólafur Jónsson, hafði þá þráspurt stjórnarandstöðuna hvort þeir ætluðu að bera ábyrgð á því að leiða Frjálslynda flokkinn inn í ríkisstjórn. Ég svaraði meðal annars á þá lund, að stefna Framsóknar í Íraksmálinu væri mér ógeðfelld, og ég væri harðlega andsnúinn skattastefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég gæti þó ekki fræðilega útilokað að í framtíðinni kynnu að skapast aðstæður sem leiddu til þess að jafnaðarmenn færu einhvern tíma í ríkisstjórn með þessum flokkum.Í lok tölu minnar - sem var örstutt og hófstillt að vanda - sagði ég að spurningar þingmannsins endurspegluðu að í nýlegri skoðanakönnun hefði birst vaxandi fylgi við að stjórnarandstöðuflokkarnir myndi næstu ríkisstjórn. Miklu færri vildu hins vegar ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka - en áður. Að því búnu vatt ég mér snöfurmannlega úr ræðustóli og á því augnabliki algerrar þagnar sem ég var úr stólnum stiginn og gat ekki lengur svarað - gall við í Sigurði Kára: "Samfylkingin þarf að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af of miklu fylgi!" "
-Össur Skarphéðinsson alþingismaður á bloggi sínu á mánudaginn.

Ísland - Danmörk
Ekki var leikið á HM í handkasti í gær vegna veðurs.

Orðrétt
"Þróunarráði Indlands er ætlað að móta tillögur um hvernig Indverjar geta styrkt efnahagslíf sitt og velferð þjóðarinnar án þess að umhverfið bíði varanlegt tjón af eða gæðum náttúrunnar verði stefnt í hættu. Ólafur Ragnar var valinn vegna sérþekkingar sinnar af efnahagsmálum hér á landi, en sem fjármálaráðherra fyrir nokkrum árum náði hann eftirtektarverðum árangri við að hækka skatta og skerða lífskjör almennings."
-Vef-þjóðviljinn þann 25. janúar 2007.

Gunni Samloka hleður haglabyssuna enn á ný
Gunnar Samloka Sigurðsson, Ólsari, Vinstri Grænn og þjóðareign, er tekinn til við að tvista í bloggheimum á mbl blogginu. Þetta gæti orðið forvitnilegt því Gunnar stóð fyrir afar vinsælu síðuhaldi á HÍ svæðinu á sínum tíma. Mun þetta vera í annað sinn sem hann hættir við að hætta. Að þessu tilefni verður hér endurbirtur gestapistill Gunnars á Bloggi fólksins sem birtist hér þann 7. maí 2004.

"Sæll eilífðarstúdent og takk fyrir fjögur orð í garð síðuhalds míns. Verð þér að segja að þó slíkt teljist ekki til íþróttar, þá varð ég vitni að svo stórmerkilegum atburði s.l. fimmtudag að ég sé mér ekki annað kleift en að snúa mér enn frekar að Bakkusi. Þannig æxlaðist það að síðuhaldari var staddur í Laugadalnum sér til mikillar undrunar. Samkvæmt skilyrtum hugsunum síðuhaldara þá lá leiðin á bikarúrslitaleik í einhverri íþrótt, jahhh í bezta falli á stjörnuleik Ómars Ragnarssonar í einhverri íþrótt, kannski var jú Flösi Vala og dóttir hans Völt Flasa, hin ítursænska og hástökkshoppari með stöng, í stemningu með Erekki Núll tugþrautarEistanu, Jón Fugli tvíþrautarkappa Breiðabliks, Hóran GrEdda súluhoppari og prikavinur Flösudóttur, á íslandsmeistaramóti ÍR í frjálsum, án atrenu. Nei minn kæri Bol C vikki (Bolungur! var það landnámsmaður ykkar sveitar)SÍÐUHALDARI varð vitni að einstökum atburð, sem jú...kannski...já..nei, má tengja til íþótta að mati allavega Sammúls Garnar, íþróttafréttakonu Rúf. Íþróttaviðbjóðurinn sem boðið var upp á í höll Lauga Dal var listdans á háum hælum. Samlókur síðuhaldari settis á bekk 41 í 12. röð stúku M og var því nánast fyrir miðju. Eftir dágóða bið tók ég eftir því að meðalaldurinn þarna inni var um 50 ár og síðuhaldari eins og blökkumaður í eggjatýnslugengi LátraBjargsmanna, einn meðal 4000 50 ára gamalla kvenna. Fór þá hrollur um grannan mann. Síðuhaldari missti síðan legvatn þegar stjörnótt hetja kvöldsins steig fram. Mexíkanskur dvergur í háhælum skóm, með sítt hár (eða stutt v/stærðar hans) og magavöfð (sem leit út eins og sexpakki á venjulegum manni um 160 cm). Kvöldið leið og leið og aldrei hætti mexíkaninn að stinga niður háum hælum sínum hratt í gólfið við undirleik spænskra tónlistarmanna og gaulara. Til að undirstrika smæð mexíkanans þá setti húsvörður hallar Lauga í Dal uppstórskjái sem sýndi dverginn í stækkaðri mynd. Allt ætlaði samt um koll að keyra þegar dvergurinn fór úr að ofan, vegna hitamollu og raka frá 4000 50 ára gömlum konum og einum grönnum síðuhaldara. Og ekki leiddist tittinum uppklapp áhorfenda. Stangaði hann niður háum hælum sínum svo hratt að ógerlegt var að sjá hvort smávaxni dverguxinn í háu hælunum væri í miklu flogaveikiskasti eða gjörsamlega við það að missa saur í buxur sínar (stuttbuxur á venjulegum manni um 160cm). Síðuhaldari finnst þessi íþrótt leiðinleg með eindæmum og ráðleggur smávöxnu fólki að snúa sér frekar úr hálslið. Kvöldið endaði eins og það einkenntist af...helvítis góli og klappi. Síðuhaldari launar ekki manni sem borðar mikinn ís með ís og lét það því ógert að klappa fyrir mexíkanska dvergnum, í háhælu skónum, og spænsku ræsisvinum hans. Fyrir þetta missti síðuhaldari af stórgóðum texta í bók stjórntæki stjórnvalda, The Tools of Government (Kynfæri Paul Ince). Síðuhaldari þakkar fyrir að fá að rista pistil sinn á bjarg Bol c vikkans. guð gefi mér frið í hjartanu og þökk fyrir stærð sína og val á skóm. þinn einlægur Samlókur Síðuhaldari"

Tuesday, January 30, 2007

Orðrétt
„Ég hef lengi verið hrifinn af bít-skáldunum. Þegar ég var í Smugunni fyrir nokkrum árum var ein myndin um borð Naked Lunch eftir samnefndri bók William S. Burroughs. Eftir að hafa horft á hana nokkrum sinnum í sjóveikispilluvímu er ég ábyggilega aðeins nær um hvernig þessir kallar hugsuðu."
-Örn Elías Guðmundsson, a.k.a Mugison, í Fréttablaðinu eftir að hafa samþykkt að gera tónlist fyrir kvikmynd brasilíska leikstjórans Walter Salles sem byggð verður á bók bít-skáldsins Jack Kerouac.

Síðuhaldara í HM stofuna
Vilji lesendur taka þátt í skemmtilegum þorraleik síðunnar þá geta þeir sent tölvupóst á Baldvin Þór Bergsson á netfangið hm2007@ruv.is og hvatt til þess að síðuhaldara verði boðið í HM stofuna. Skemmtilegt væri að færa þar umræður á upp á hærra og skemmtilegra plan auk þess sem hrár kynþokkinn myndi njóta sín vel í settinu. Einnig má nefna að síðuhaldari er einn landsleikjahæsti leikmaður landsins með um 300 landsleiki úr kjallaranum á Traðarstígnum ásamt Kalla Hallgríms, Halla Pé og Ragga Ingvars.

Nú liggja Danir í því eða hvað?
Þar sem íslenska handkastlandsliðið er enn í fullu fjöri á HM er eins gott að halda áfram að fabúlera um næstu andstæðinga. Liðið fær Dani í átta liða úrslitum og vinnist sá leikur fær liðið sigurvegara úr leik Pólverja og Rússa. Það verður að segjast eins og er að miðað við þetta, þá hafa möguleikarnir á því að komast í úrslitaleik aldrei verið jafn góðir. Það er bara svo einfalt, þó svo að Danir og Pólverjar séu með aðeins betri lið en við. Það magnað í átta liða úrslitum skuli raðast saman: Króatía-Frakkland og Þýskaland - Spánn. Ef við vinnum Dani þá losnar liðið við tvær óþarflega góðar handboltaþjóðir.

Eins og áður sagði er danska liðið aðeins betra en okkar. Með toppleik gerðum við jafntefli við þá á EM í fyrra og töpuðum í bronsleiknum gegn þeim á EM 2002. Lengi hafa verið miklar væntingar til þessarar kynslóðar hjá Dönum enda valinn maður í hverju rúmi. Sá hvíti í markinu, Kasper Hvidt er frábær. Lars Christiansen hefur lengi verið besti vinstri hornamaður heims þó færa megi rök fyrir því að Gaui sé orðinn betri. Línumaðurinn Michael Knudsen er frábær í vörn og sókn. Tveir klassa miðjumenn, Joachim Boldsen og Jesper Jensen. Bo Spellerberg og Lars Möller Madsen eru góðar skyttur vinstra megin en þar vantar Jeppesen. Sören Stryger frábær í hægra horninu o.s.frv. Auk þess hafa leikmenn danska liðsins meiri reynslu en þeir íslensku af titlabaráttu í Þýskalandi, á Spáni og í Meistaradeild.

En möguleikinn á að vinna Dani er til staðar og liðin þekkjast auðvitað mjög vel. Vinni Íslendingar Dani, þá spáir síðuhaldari því að Ísland fari þá alla leið í úrslitaleikinn. Eiginlega er nauðsynlegt að vinna Dani bara vegna þess hve þjálfarinn þeirra virðist vera einstaklega leiðinlegur náungi. Vonandi verður súmað á eplakinnarnar hans ef Ísland vinnur.

Saturday, January 27, 2007

Orðrétt
"Kristján Jónsson á Morgunblaðinu er einhver gleggsti blaðamaður landsins - frumlegur í hugsun og athugull."
- Egill Helgason sjónvarpsmaður á bloggi sínu á visir.is þann 25 janúar 2006.

Slóvenar á morgun
Leikur gegn Slóvenum á morgun. Svo fór gegn Pólverjum eins og síðuhaldari óttaðist í síðustu HM færslu. Ekki var gengið nægilega vel út í skyttur þeirra og markmennirnir því varnarlausir. Ísland þarf að klára Slóvena á morgun og tryggja sig inn í átta liða úrslitin. Það væri ekki skemmtileg staða að þurfa að vinna heimamenn á sunnudag til þess að komast áfram. Eina sem ég hef séð til Slóvenana er kafli úr síðasta leik þeirra gegn Frökkum. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þeir verði ekki jafn slakir á morgun og þeir voru þá. Trúlega lítið að marka þann leik sem þeir töpuðu með fjórtán mörkum. Margir leikmanna Slóvena hafa mikla reynslu úr Meistaradeildinni þar sem slóvenska liðið Celja Lazko hefur brillerað á undanförnum árum. Þeirra besti leikmaður, Sergei Rutenka, lék með Celje og er nú samherji Óla Stef hjá Ciudad. Hann varð markakóngur EM fyrir ári síðan. Aðal málið fyrir strákana er að vera tilbúnir að slást við Slóvenana án þess að láta skapið hlaupa með sig. Slóvenarnir eru oft á tíðum grófir og óheiðarlegir. Síðuhaldari óttast til dæmis mjög að þeir muni byrja leikinn á því að berja Óla í öxlina og afgreiða hann. Margir lykilmenn Íslands fara tæpir á meiðslum inn í þennan leik og það er ekki heppilegt; Óli, Logi, Gaui og Alex a.m.k. Ef Fúsi lemur saman almennilegan varnarleik þá ætti að vera hægt að keyra yfir þetta lið, því Slóvenar virðast hægir. En það voru Úkraínumenn svo sem einnig. Það þýðir lítið að vera mikið hraðaupphlaupslið ef menn eru ekki tilbúnir að standa vörnina. Vonandi verður Vignir notaður í vörninni á morgun.

Nýaldarliðið afgreitt
Móðursystir mín Dr. Sjöfn Kristjánsdóttir afgreiddi nýaldarliðið eftirminnilega í svona þremur setningum í fréttatíma RÚV á miðvikudagskveldið. Málið snérist um einhverjar hreinsanir varðandi þarmana og Sjöfn var spurð hvaða áhrif þetta hefði þar sem hún er sérfræðingur í meltingarsjúkdómum: "Í besta falli gerist ekkert og fólk skaðast ekki á þessu. Í versta falli skaðast það mikið á þessu." Hressandi að einhver skuli koma í sjónvarpið án þess að tala út um rassgatið á sér, á tímum þegar pólitískur rétttrúnaður er allt lifandi að drepa.

Addi Katti Nova vs Dóri Hermanns
Ekki vildi ég vera í sporum Guðjóns Arnars Kristjánssonar á landsþinginu um helgina þegar fyrrum kollegi minn, Halldór Hermannsson, fer að ræða við hann um varaformannskjör "Frjálslynda" flokksins, og afskipti formannsins af því.

Wednesday, January 24, 2007

Nördismi
Ritstjórnin fékk línu frá tónlistarmanni á Suðurlandi um að vera með reglulegt blogg um HM í Þýskaland, innblásð af meðfæddum nördisma. Ísland kom sér sem sagt í afskaplega góða stöðu með því að vinna gott lið Túnisa í þessum skrifuðum orðum. Mér fannst eins og Túnasarnir hafi sprungið þegar korter var eftir. Ef Mham brennir af tveimur vítum þá er hann orðinn þreyttur. Gott að klára þennan leik því síðuhaldari er ekki sérlega bjartsýnn fyrir morgundaginn en þá mætum við pólskum farandverkamönnum. Eftir að hafa séð Pólverjana vinna gestgjafana á mánudaginn þá líst mér nú ekki of vel á þá. Þeir eru með rosalegar sleggjur fyrir utan og eins gott að Róló eða Birkir verði í formi gegn þeim. Líklega hentar Róló betur gegn svo öflugum skyttum eins og Bielecki. Svo er spurning hvort liðin í keppninni fari ekki að hafa vit á því að spila 6-0 vörn gegn okkur því við eigum greinilega ekki í neinum vandræðum gegn 3-2-1 vörn. Hinni nýji Patti, Logi Geirsson, er að bjarga miklu í sóknarleiknum. Hann er bara í sama hlutverki og Patti var, maðurinn sem þorir að skjóta. Það sást líka gegn Frökkum að Markús er alveg klár í að leysa hann af auk þess sem Markús er miklu betri varnarmaður.

Monday, January 22, 2007

Héldu þið að Alli Gísla væri á heimleið?
Alli Gísla er snillingur. Hann ákvað að láta liðið tapa fyrir geislavirkum Úkraínumönnum og koma Frökkunum á óvart í staðinn. Sem þýðir að Ísland fer skrefinu á undan Frökkum í milliriðil, með tveimur stigum meira en þeir. Leikurinn gegn geislavirku mönnunum í Svíabúningunum gildir því einfaldlega ekki neitt. Þetta er eitthvert rosalegasta rebbabragð sem ég man eftir síðan Helga Jóns borgarritari fékk sérstaka leyniaðild að Samfylkingunni til þess að fella Össa.

Thursday, January 18, 2007

Framboðsmál Sleggjunnar
Mikið er nú rætt um ritað um þá ákvörðun Framsóknarflokksins að kljúfa sig út úr Kristni H. Gunnarssyni og fara í sérframboð gegn honum í vor. Ólíklegasta fólk fabúlerar nú um hvar, og fyrir hverja, Kristinn muni fara fram. Enginn virðist velta því fyrir sér hvort hann fari fram enda sagði hann á stöð2 í gær að hann ætlaði sér að starfa áfram á þingi. Ég tel engar líkur á því að Kristinn fari í sérframboð. Hann næði aldrei 5% og það veit hann ábyggilega sjálfur. Hann er því mest orðaður við "Frjálslynda" og meðal annars er talið líklegt að hann leiði annan Reykjavíkurlistann. Að því tilefni hafa þeir Andrés Magg og Freyr Eyjólfs sett saman skemmtilega mynd af Sleggjunni á Kaffibarnum en hana má finna á bloggi Andrésar

Orðrétt
"Núna sjást prestar sjaldnast þannig búnir, nema helst þeir séu á leiðinni til eða frá embættisverkum. Algengara er að þær klæðist nankinsbuxum og mislitri skyrtu, opinni í hálsinn, einstaka lítur út eins og hún hafi sloppið út af einslags stofnun."
- Séra Gunnar Björnsson í nýjasta tölublaði Kirkjublaðsins.

House og Boston Legal
Þetta eru tveir uppáhaldsþættir mínir í sjónvarpi um þessar mundir. Mér til mikilliar ánægju eru nýjar seríur byrjaðar á Skjá1 á báðum þessum þáttum. Þættirnir eiga það sameiginlegt að aðalpersónurnar eru stórfurðulegir snillingar. Vonlausir í mannlegum samskiptum og rekast illa í umhverfi pólitísks rétttrúnaðar. Hugh Laurie er að ég held tvívegis búinn að fá verðlaun fyrir túlkun sína á Dr. Gregory House. Mæli með þessu stöffi. Fyrirtaks tvíbökur.

Monday, January 15, 2007

Orðrétt
"Hver kannast ekki við það þegar maður fær sér hinu klassísku máltíð, ristaða brauðsneið með smjöri, marmelaði og osti að marmelaðiskeiðin verður útötuð í bráðnuðu smjöri? Þetta er alþekkt vandamál og hafa menn verið býsnast út í smjörklessurnar oní marmelaðikrukkunni en ekki verið að einblína á lausnina á þessu hvimleiða vandamáli. Í stað þess að að smyrja brauðsneiðina með smjöri og setja svo marmelaðið oná (og þarna er komið að kaflanum þar sem skeiðin útbíast) þá er lausnin komin í ostsneiðunum. Einfaldlega smyrjið marmelaðinu á sneiðarnar og leggið þær snyrtilega oná smurðu brauðsneiðina (sjá meðfylgjandi skýringarmynd). Ekki á ég að þurfa að minnast á það en geri það samt að vitaskuld á marmelaðið á ostsneiðinni að snúa niður. Ef marmelaðið snýr upp er hætta á að marmelaðið klístrist á vörunum og t.d. í yfirvaraskeggi sem getur verið mjög hvimleitt. Með þessu er máltíðin hin gleðilegasta og án smjörklessna og hverskonar marmelaðiklísturs. Þetta húsráð er alveg ókeypis og í boði ritstjórnar Krissrokk, verði ykkur að góðu!"
-Trymbillinn geðþekki Kristján Freyr Halldórsson á bloggi sínu á dögunum.

Friday, January 12, 2007

Óður til Njálu
Um nokkurt skeið hefur síðuhaldara þótt það skammarlegt að hafa ekki tekið sér Brennunjálssögu í hönd og kynnt sér málavexti í því goðsagnakennda riti. Af alkunnri framtakssemi hefur síðuhaldari nú lokið því verki og mun hann af lestri þessum hljóta nokkra sæmd. Enda er verkið vel til allra fræða fallið og má þar nefna lögfræði, stjórnmálafræði og trúarbragðadeilur svo fátt eitt sé nefnt. Má segja að lestur hennar sé ígildi nokkurra háskólagráða. Eigi er örgrannt um að fjöldinn allur af orðatiltækjum og orðaforða nútíma Íslendingsins sé þaðan sprottinn. Mun og svo verða áfram fái síðuhaldari þar einhverju um ráðið.

(Hér gæti skort á orðskýringar til handa Playstation kynslóðinni en skítt með það)

Wednesday, January 10, 2007

Orðrétt
"Hitti Axel flugþjón á Kaffi kósí á laugardagskvöld. Fyrir mér var þetta mikill viðburður, enda gat ég ekki verið fullviss um að hann væri til í reynd nema sannreyna. Þannig er það bara með sumt fólk, það hefur náð slíkri bestun í sjálfu sér að maður heldur að það sé jafnvel tölvuteiknað. Minnist í þessu sambandi Báru, heitinnar, Bleiku sem mér auðnaðist að hitta og síðan náttúrlega Birgis Ármannssonar sem hefur ekki síðri stöðu.

Í sem stystu máli þá sá ég manninn og safnaði kjarki í að spyrja hvort hann héti Axel. Það stóð heima og þá lýsti ég yfir aðdáun minni á frammistöðu hans í heimildarþætti sem hét Airport, ef ég man rétt, og sagði frá lífinu í kringum flugið á Heathrowflugvelli í London. Í þætti Axels voru Flugleiðir að lesta Ólaf Ragnar Grímsson og enginn annar en flugþjónn nr. 1 fékk það hlutverk að sjá um sjálfan forseta lýðveldisins. Í þættinum var tekið viðtal við Axel um hvernig væri að þjónusta Ó.R.G. og klipptar inn myndir af kallinum að lesa blað um borð í vélinni. Síðan er sýnt hvernig okkar maður leggur lokahönd á undirbúninginn áður en forsetinn stígur um borð. Áður en hann stillir sér upp við landganginn er tekin síðasta pússun á skónum og þulurinn segir frá því hvernig Axel teygir sig eftir minnsta smáatriði til að allt verði fullkomið fyrir forsetann.

Ég lýsti aðdáun minni á þessu tiltekna atriði við Axel á laugardagskvöld. Hann sneri sér að mér og svaraði að þetta væri það sem þau kölluðu í bransanum "shine and smile"! Fleiri urðu þau orð ekki."

-Embættismaðurinn Kristinn Hermannsson, a.k.a Ebenezer Scrooge, á bloggi sínu í gær.

Sunday, January 07, 2007

Munnmælasögur#56
Saga númer 56 átti sér stað í Öskjuhlíðinni fyrir mörgum árum síðan, nánar til tekið í Keiluhöllinni. Gleðipinnarnir Halldór "HáEmm" Magnússon og Ólafur "Veltir" Sigurðsson höfðu ákveðið að skella sér í keilu en þeir eru báðir hávaxnir og þreknir. Hefð er fyrir því í keiluspili að gestir þurfa að fá sérstaka skó til þess að taka þátt eins og kunnugt er. Fyrst spyr afgreiðslustúlkan Dóra um skónúmer og kom nokkuð fát á hana er hann tilkynnti henni stærðina 47. Varð hún frá að hverfa um stund en kom til baka sigri hrósandi með skópar númer 47. Tjáði hún honum að ekki væri ýkja auðvelt að finna svo stór númer í húsinu en taldi hún þetta vera til vitnis um góða þjónustu í Keiluhöllinni. Því næst vatt hún sér að Óla og spurði um skónúmer og var henni víst ekkert sérstaklega skemmt þegar Óli svaraði: 48! Við þetta má svo bæta að Dóri kallar skóbúnað Óla iðulega fiðlukassa.

Wednesday, January 03, 2007

Gleðilegt árið
og takk fyrir það liðna. Í stuttu máli má segja að margt hafi gerst á liðnu ári og einnig má spá því að margt muni gerast á nýju ári. En ætli ekki sé best að birta brot úr áramótaannáli Vef-þjóðviljans til þess að rifja upp það athyglisverðasta á árinu 2006:

Endurskoðandi ársins: Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður Strætós, gaf rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Hún vildi nefnilega „ekki eyðileggja jákvæða umfjöllun með neikvæðri umræðu um fjárhagsstöðu fyrirtækisins.“

Kynningarlag ársins: Flugleiðir hvöttu fólk óspart til ferðalaga með skemmtilegri sjónvarpsauglýsingu. Í bakgrunni hennar söng Pálmi Gunnarsson hið sígilda lag, Hvers vegna varstu ekki kyrr?

Dulargerfi ársins: Eins og margir frægir menn, gerir Göran Persson allt sem hann getur til að halda einkalífi sínu utan við sviðsljósið. Þannig fer hann aldrei á íþróttaleiki nema dulbúinn sem Júlíus Hafstein. Árvökulir blaðamenn Fréttablaðsins létu þó ekki blekkjast.

Þyrlupallur ársins: Stöð 2 lét þyrlu lenda ofan á þjóðargrafreitnum á Þingvöllum, til að spara sér tíma þegar haldinn var blaðamannafundur í þjóðgarðinum.

Samningur ársins: Umhverfisráðuneytið og veðurstofan gerðu með sér „árangursstjórnarsamning“. Þó fyrr hefði verið.

Staðalfélag ársins: Talsmaður Femínistafélags Íslands sagði að félag sitt hefði frá upphafi ákveðið að það hefði ekki aðeins merki, heldur lit. Bleikan lit nánar tiltekið, því bleikur væri litur stelpna en blár litur stráka. Megintilgangur félagsins er að berjast gegn „staðalímyndum“.

Klofningur ársins: Samfylkingin hristi af sér hlekkina og gekk úr Valdimari Leó Friðrikssyni. Hún mun stefna á sérframboð gegn honum næsta vor.

Ánægja ársins: Valdimar Gunnarsson íslenskukennari við Menntaskólann á Akureyri var í kvöldfréttum Stöðvar 2 spurður álits á væntanlegri brottför varnarliðsins. Íslenskukennarinn sagðist vera afskaplega ánægður og bætti við: „Nú hlakkar mig til prófa.“

Talning ársins: Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis stóð fyrir mikilli auglýsingaherferð. Hún hófst auðvitað á orðunum: „Aldamótin 2000 mörkuðu ekki heimsendi eins og sumir héldu heldur nýtt upphaf. Á þeim sjö árum sem liðin eru...“.

Leiðbeiningar ársins: Kastljós Ríkissjónvarpsins bauð upp á vandaða fræðslu um skyndihjálp sem beita skal „ef maður kemur að einhverjum sem hefur drukknað“. Kom fram hjá umsjónarmanni að sá sem kæmi „að manneskju sem hefur drukknað“ yrði að „bregðast hratt og rétt við“. Ekkert var hins vegar sagt um hvort nokkuð lægi á skjótum viðbrögðum þegar komið væri að manni sem einungis væri nálægt því að drukkna en ætti sér enn lífs von.

Arftaki ársins: Árni Magnússon sagði að stjórnmál væru „heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti“. Það væri hann hins vegar ekki lengur og viki því fyrir framtíðarmanni sem væri „fullur eldmóði“ og myndi gefa sig allan í baráttuna. Við starfi hans tók villingurinn úr heilbrigðisráðuneytinu, Jón Kristjánsson.

Leynivopn ársins: Landsbanki Íslands ákvað að beita nýrri aðferð, áður óþekktri hjá íslensku viðskiptabönkunum, og gekk undir sama nafni allt árið.

Oddviti ársins: Dagur B. Eggertsson, sem á síðasta ári lýsti því yfir að ef R-listinn myndi ekki bjóða fram til borgarstjórnar þá myndi hann sjálfur ekki gera það heldur, og sem lýsti því jafnframt yfir að hann myndi ekki ganga í Samfylkinguna, leiðir nú Samfylkinguna í nýrri borgarstjórn.

Kvenstaða ársins: Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri missti af oddvitasæti Samfylkingarinnar en ungur karlmaður náði því. Ríkissjónvarpið sagði frá úrslitunum en minntist ekki orði á það að þar hefðu „konur“ misst spón úr aski sínum. Í sama fréttatíma var hins vegar þrívegis tekið fram, að konur væru „ekki nema“ svo og svo hátt hlutfall af efstu mönnum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði sem fram hafði farið daginn áður.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?