<$BlogRSDURL$>

Monday, October 31, 2005

Munnmælasögur#32
Saga númer 32 átti sér stað í Bolungarvík um miðjan tíunda áratuginn. Eitt sinn bar svo til að fyrirtæki föðurs míns JFE átti vörur hjá vöruflutningafyrirtæki Ármanns Leifssonar. Var yngsti sonur Jóns Friðgeirs sendur á staðinn á Nissan Micra til þess að sækja varninginn sem var á bretti inni í horni í rúmgóðri vöruskemmunni. Ármann bað hann um að bakka inn að brettinu sem strákur og gerði. Vandaði hann sig nokkuð við að bakka, enda hefði því líklega verið illa tekið ef hann hefði keyrt utan í einhverjar vörur. Ármanni fannst þetta eitthvað taka of langan tíma og sparaði ekki glósurnar. Sagði hann meðal annars þannig að starfsmenn og aðrir viðskiptavinir heyrðu glögglega: "Ja, ekki myndi ég vilja hafa þig í vinnu sem bílstjóra". Stráksi var nú ekki sérstaklega viðkvæmur fyrir því að skotið væri á aksturshæfileika hans en gat þó sjaldnast stillt sig um að svara fyrir sig ef honum þótti að sér vegið með einhverjum hætti. Missti hann því út úr sér við þetta tilefni: "Þér hefur svo sem aldrei staðið það til boða".

Friday, October 28, 2005

Kjartan í 3. sætið
Síðuhaldari er þessa dagana að vinna fyrir framboð Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa, sem sækist eftir 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, 4. og 5. nóvember. Ef einhverjir lesendur skyldu vera kjörgengir í þessu prófkjöri, þá er rétt að minna á eftirfarandi: kosið í Valhöll á skrifstofutíma föstudaginn 4. og í hverfunum laugardaginn 5. Kjartan er sá eini sem sækist eftir 3. sætinu en hins vegar eru fjögur að sækjast eftir sætum fyrir ofan hann. Það verður því spennandi að sjá niðurstöðuna, en reikna með mikilli þáttöku í prófkjörinu. Líklega mæta lágmark 10 þúsund manns, þannig að það þarf að ná til margra.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, October 27, 2005

Hnífsdalur inn í framtíðina
Það er greinilegt að þrýstihópurinn Kristján og Gísli group eru sestir að á heimaslóðum eins og sést á þessari frétt. Þeir eru greinilega byrjaðir að setja brjóstkassana í ráðamenn og berja í borðið. Sperning hvort þeir hafi fengið liðsinni háttvirts formanns Fylkis sem er uppeldisfélagi þeirra úr dalnum. Eða er það tilviljun að um leið og Pésiverður formaður Fylkis þá kemur ADSL tenging í Hnífsdal? Ég held ekki. Þeir eru spilltir þessir pólitíkusar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, October 24, 2005

Orðrétt
"Kona dagsins er kellingin sem fann upp uppþvottavélina. Hún hét Josephine Cochrane og sló í gegn með vélinni á Heimsýningunni 1893. Það var þó ekki af umhyggju fyrir húsmæðrum sem hún fann vélina upp heldur af því að hún var svo þreytt á að vinnufólkið hennar var alltaf að brjóta leirtauið. Áfram stelpur!"
-Dr. Gunni á heimasíðu sinni í dag.

Sunday, October 23, 2005

Er síðuhaldari skrifta hjá Spaugstofunni?
Lesendur Bloggs fólksins kunna að spyrja sig þessarar sperningar eftir spaugstofuþátt laugardagsins, þar sem fjallað var um flóðin á Hornafirði undir heitinu Feneyjar norðursins. En það var einmitt nafn og umfjöllunarefni færslu á þessari síðu síðastliðinn mánudag, sem fjallaði um sama efni. Getur verið að spaugarastofan hafi fengið glensið að láni frá síðuhaldara og gleymt að spyrja um leyfi? Nú hugsa kannski margir að síðuhaldari sé farinn að taka helst til stórt upp í sig, en ég vil minna á að Pálmi frændi minn Gestsson commentaði hér á þessari síðu fyrir um ári síðan. Sá möguleiki er því fyrir hendi að hann hafi rambað hér inn í þessari viku og fengið andagift. Hvað veit maður? Lesendahópur síðunnar og áhorfendahópur Spaugstofunnar er líklega á svipuðu róli, hvort sem er. En ég skal alveg játa að á laugardaginn, rýndi ég í fyrsta sinn, sérstaklega í þakkarlistann eftir þátt Spaugstofumanna, síðan að Trausti frændi minn var þar aðalmaðurinn bak við tjöldin. Hjalti III benti mér reyndar á að hugsanlegt væri að Spéstofumenn hefðu fengið spéið sent í tölvupósti frá Jónínu Ben. Hvað veit maður?
Passið ykkur á myrkrinu.

1. vetrardagur
Það var víst fyrsti vetrardagur í gær. Ætli það sé þá ekki best að fá aftur að láni kveðju Jónasar Jónasonar yfirtöffara:
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, October 21, 2005

Faldo og ég
Ekki veit ég hvað þið höfðuð fyrir stafni í dag lesendur góðir en ef ég á að tala við mig þá spjallaði ég í dag við Nick Faldo í rólegheitunum. Ligga ligga lá lá eins og þar stendur.
Gangið á Guðs vegum.

Nýr Móði?
Gunnlaugur Jónsson eða Guspy Johnson er genginn í vesturbæjarstórveldið og er það vel. Hans bíður það hlutverk að fylla skarð Þormóðs nokkurs Egilssonar en síðan hann hætti hefur KR-liðið verið eins og höfuðlaus her. Móði hafði kannski ekki mestu tæknina, smurði sig kannski ekki með brúnkukremi og sást kannski ekki mikið á næturlífinu, en hann var engu að síður jafn besti maður liðsins tímabil eftir tímabil. Gulli hefur marga svipað eiginleika, leiðtogahæfileika, leikskilning og ósérhlífni. Þetta gætu orðið bestu kaup KR í áraraðir.
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, October 19, 2005

Orðrétt
"Vinstri mönnum ætlar seint að skiljast hvaða áhrif skattahækkanir hafa. Þeir tala eins og skattahækkanir séu bara ekkert mál og hafi engin áhrif nema þau að auka tekjur ríkissjóðs eða borgarsjóðs eftir því hvar menn eru staddir þá stundina. Skattahækkanir eru kannski léttvæg aðgerð fyrir einhverja stjórnmálamenn en þær eru það ekki fyrir almenning. En þótt sumir stjórnmálamenn geti hækkað skatta eins og að drekka vatn er ekki þar með sagt að áhrifin verði þau sem til er ætlast. Það er auðvitað rétt sem formaður Sjálfstæðisflokksins bendir á að það hefði áhrif á sparnað í landinu ef skattur á sparnað yrði hækkaður. Helsta ástæðan fyrir því að hér var lengi lítill sparnaður er að ríkið skattlagði hann óhóflega, bæði með beinni skattlagningu og svo því árlega verðfalli ríkisgjaldmiðilsins sem nefnt er verðbólga á ársgrundvelli. Aukinn skattlagning sparnaðar hefði þau áhrif að menn eyddu fjármunum sínum til að mynda fremur í „innfluttan lúxus“ - svo vitnað sé í annan ráðagóðan formann Samfylkingarinnar - en sparnað. Skatturinn myndi ýta mönnum í annan farveg með peningana sína. Samfylking ætlar að vísu að setja upp flókið kerfi með persónuafslætti svo að þeir sem minnst spara þurfi ekki að greiða hærri fjármagnstekjuskatt. Það er sumsé ekki nóg með að skattleggja eigi sparnað heldur verður lítill sparnaður verðlaunaður sérstaklega og búið til flókið kerfi utan um allt saman. Þeirri spurningu er svo ósvarað hvaða áhrif hærri fjármagnstekjuskattur hefði til að mynda á leigumarkaðinn. Ef leigusali þarf að greiða hærri fjármagnstekjuskatt af leigutekjum liggur beint við að leiga hækki. Samfylkingin hefur auglýst sig sérstaklega sem málsvara leigjenda en það er ekki víst að leigjendur kæri sig um liðveislu af þessu tagi."
-Vefþjóðviljinn þann 14. október 2005.

Tuesday, October 18, 2005

Vissir þú...?#1
Blogg fólksins kynnir með stolti dagskrárliðinn "vissir þú...?" en í honum mun síðuhaldari leggja einhverjar staðreyndir fram sem honum finnst vanta í umræðuna á hverjum tíma. Vér skulum taka dæmi:
Vissir þú að fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, '91-'95, vildi setja löggjöf gegn einokun og hringamyndun eins og sagði í stjórnarsáttmála hennar en Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu stjórnina. Hugmyndir í þá veru eru því ekki nýjar af nálinni hjá Davíð Oddssyni eins og ætla mætti af umfjöllun fjölmiðla.

Orðrétt
Markús Magnússon, netagerðarmeistari, hefur safnað munnvatni í á fjórða mánuð gagngert til að skyrpa því framan í bandaríska leikarann Brad Pitt. "Mér fannst bara hræðilegt hvernig hann fór með hana Jenniferi", sagði Markús í samtali við Baggalút. "Fín stelpa hún Jennifer. Vesturíslensk - vissirðu það? Ættuð úr Flóanum, eins og ég. Langalangafi hennar var Ísleifur kjaftur, sjómaður á Stangarhóli í Flóa. Helvíti fín stelpa. Svo kemur einhver drullusokkur og fer svona með hana Jenniferi, einhver svona... persónuleikalaus súkkulaðistrákur. Með sína upphandleggi... það vita það ekki margir, en hann er vampíra strákurinn. Ég sá það í sjónvarpinu".Markús heldur vestur um haf í fyrramálið þar sem hann hyggst láta til skarar skríða gegn leikaranum kunna: "Svo ætla ég að koma mér fyrir á góðum stað þarna vestur í Ameríku, sitja fyrir kvikindinu og látu slummuna vaða í smettið á honum - við skulum sjá til hvað hann verður sætur í framan þá djöfulsins auminginn".
-Baggalútur þann 17. október 2005.

Monday, October 17, 2005

Albatros í Bolungarvík
Maður er nefndur Gunnar Már Elíason og er ótrúlegur. Hann er meðal annars ótrúlegur þegar kemur að golfíþróttinni. Gunnar fór holu í höggi á Syðridalsvelli í dag. Ekki nóg með það heldur gerði hann það á 4. holu sem er par 4. Hann lék holuna því á þremur undir pari og fékk því albatros. Albatros er vægast sagt sjaldgæfur í golfinu og líklegast gerist það um einu sinni á ári á Íslandi. Orðið albatros hefur ekki verið notað í Bolungarvík síðan um miðjan 9. áratuginn þegar Jón Steinar frá Seljanesi var upp á sitt besta í flugsundinu og var þá iðulega líkt við Michael Gross. Elvar Þórólfs á golfvef Moggans er glettilega vakandi fyrir fréttum úr Víkinni eins og sjá má hér. Blogg fólksins óskar Gunnari frænda mínum til hamingju.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Mér finnst vanta "Fréttir í æð", sérstakan þátt þar sem stórum hluta þjóðarinnar er boðið upp á fréttir dagsins á auðskyldu máli. Mogginn er með vísi að þessu á sunnudögum, "Auðlesið efni" kalla þeir það, en það var athyglisvert að ekkert var minnst á Baugs-málið á sunnudaginn þrátt fyrir að síðasta vika hafi hreinlega verið lögð undir það rugl (enda blaðamenn almennt með hjartað í buxunum út af því máli og allir keppast við að halda sér í náðinni). Kannski er bara ekki hægt að auðvelda fólki að skilja þessa vitleysu, allavega treysti Mogginn sér ekki til þess."
-Dr. Gunni á heimasíðu sinni.

Feneyjar norðursins
Hjalti Þór Vignisson vinur minn og bæjarritari á Höfn í Hornafirði þykir hafa farið afskaplega nýstárlegar leiðir til þess að styrkja stöðu bæjarins gagnvart ferðamannaiðnaðinum. Mikla athygli vakti um helgina þegar Hjalti setti plássið undir vatn undir slagorðinu "Feneyjar norðursins". Til þess að fylgja þessu eftir hefur bæjarsjóður keypt upp leigubíla staðarins og látið þeim í té Gondóla í staðinn, gegn því að leigubílsstjórarnir sæki söngtíma. Hjalti segist í samtali við horn.is hafa fengið við þessu gífurlega góð viðbrögð og þá sérstaklega frá samtökunum "andstæðingar einkabílsins". Einnig hafi Norræna þingmannaráðið reiknað út fyrir sig að styttra væri fyrir skandinavíska ferðamenn að sækja Feneyjar norðursins heim heldur en Feneyjar á Ítalíu. "Auk þess skilst manni á heimsendaspám veðurfræðinga að Vatnajökull bráðni álíka hratt og keppendur í íslenska bachelornum þannig að það er nóg framboð af vatnsflaumi í framtíðinni", er haft eftir Hjalta á horn.is. Getspakir menn á suðausturhorninu telja nú allar líkur á því að með þessu hafi Hjalti tryggt sér nafnbótina Hornfirðingur ársins annað árið í röð. Takist honum að koma fram með annað snilldarbragð á næsta ári þá gæti hann hæglega unnið nafnbótina til eignar, sem ekki hefur gerst síðan Ejub Purisevic kom Sindra upp um tvær deildir með glimrandi sóknarbolta og sambaknattspyrnu.
Gangið á Guðs vegum.

Thursday, October 13, 2005

Myndatexti
Það benti mér góður maður á óborganlegan myndatexta á bb.is um daginn. Fréttin fjallaði um tvo báta sem sukku í Ísafjarðarhöfn, en bátarnir hafa verið notaðir í kappróðri á sjómannadaginn. Stjörnuljósmyndarinn Dóri Sveinbjörns hafði verið sendur á staðinn og tekið mynd af hafnarstæðinu þar sem bátarnir höfðu verið. Myndin fylgdi að sjálfsögðu fréttinni en með þessum meistaralega myndatexta: "Eins og sjá má eru bátarnir tveir sokknir og sjást ekki lengur" !!!!!
Gangið á Guðs vegum.

Saturday, October 08, 2005

5 sjokkerandi játningar
DJ Base og D.E.A. hafa báðir klukkað mig og nú er bara að standa sig. Eftir að hafa lagst í nokkra rannsóknarvinnu þá hef ég fundið út að í þessu felast fimm játningar sem ólíklegt er að aðrir viti af og óþægilegt sé að játa:

- Ég fékk 10 í stærðfræði þegar ég var 10 ára. Einkuninn hafði lækkað um helming á samræmdu og hélst sú sama í öllum framhaldsskólaáföngum í greininni.
- Ég hef orðið flughræddur með aldrinum, eitthvað sem hrjáði mig aldrei þegar ég var upp á mitt besta. Ég hef mjög sterkt á tilfinningunni að örlög misskildra snillinga eins og mín séu í dramatískari kantinum.
- Ég á ekki til 12 milljónir króna. Ef ég ætti þær þá léti ég Hannes frænda fá þær.
- Ég er með Superman-sjón þegar kemur að því að lesa blöð eða glápa á tölvuskjá. En þegar ég þarf að rýna í eitthvað í fjarlægð þá er allt í móðu.
- Mér finnst ég geysilega skemmtilegur með víni og geng út frá því að öðrum finnist það líka.

Gangið á Guðs vegum.

Munnmælasögur#31
Maður er nefndur Hjalti Þór Vignisson og er ráðamaður á Hornafirði. Fyrir nokkrum árum ákváðu nemar í Stjórnmálafræði og Hagfræði að taka frá einn föstudag á ári og reyna með sér í ýmsum greinum og sigurvegari fengi verðlaunagripinn Hólmsteininn. Eitt sinn var ég í ræðuliði stjórnmálafræðinema á þessum degi og var þar sómi deildarinnar, sverð hennar og skjöldur. Fékk flest stig í síðari umferð en Eyrún í Kastljósinu, þáverandi Hagfræðinemi, var ræðumaður kvöldsins. Í vikunni áður en keppt var um Hólmsteininn hitti ég Hjalta á göngum Odda en hann var þá aðstoðarmaður Baldurs Þórhalls. Ég tjáði honum að ég myndi keppa í ræðukeppni. Hann spurði í hvaða fleiri greinum yrði keppt, og ég svaraði því til að einnig yrði keppt í bjórdrykkju og í sjómanni. Hjalti svaraði að bragði: "Núúú þetta verður bara þríþraut hjá þér!"

Thursday, October 06, 2005

Klukk!
Bandlur Nári og Trausti D.E.A. klukkuðu mig víst um daginn. Hver djöfullinn er það eiginlega? Er þetta ekki einhvers konar leyndóupplýsingaflæði? Ég bið unga fólkið að upplýsa mig aðeins betur um þetta klukk á commentakerfinu og þá tékka ég á þessu drasli fyrir helgi.
Gangið á Guðs vegum.

Ég í fimm stjörnu fans
Árni Matthíason tónlistarskríbent Moggans til margra ára gagnrýndi Plötu ársins með hljómsveitinni Ég síðastliðinn laugardag. Fyrirsögnin var hreinræktuð snilld og gaf hann plötunni fimm stjörnur af fimm mögulegum. Áður birtist neikvæður dómur í DV, en hann var svo stuttur að ekki var pláss fyrir rökstuðning! Fréttablaðið var með ágætan dóm, en neikvæðu punktarnir snérust um fjölda laga og of mikið léttvægi. Þið sem ekki eruð búin að kaupa plötuna: Rífið ykkur upp af rassgatinu og náið ykkur í eintak. Platan fæst hjá Kristjáni Frey í Mál og Menningu Laugavegi. Ef þið eruð úti á landi þá er hann örugglega til í að senda í pósti.
Gangið á Guðs vegum.

Fréttafárið
Það er víst eitthvað Baugsmál búið að vera í gangi. Fyrir mína parta þá finnst mér ekkert fréttnæmt við það að Kjartan Gunnarsson þekki bæði Styrmi Gunnarsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og tali við þá. Það lá alveg fyrir. Ég ætla hins vegar að taka aðeins fjölmiðlavinkilinn á þetta. Ef maður ber saman umfjöllun dagblaðanna þriggja á fyrstu dögum "málsins" þá er athyglisvert að ekkert þeirra er með sama fréttamatið. Fréttablaðið Fréttablaðið reynir markvisst að gera Sjálfstæðisflokkinn tortryggilegan og fjallar aðallega um samband þessara þriggja manna. Blaðið Blaðið fjallar aðallega um að tölvupósti hafi verið stolið og hvaða viðurlög liggi við slíku. Morgunblaðið Morgunblaðið fjallar aðallega um umfjöllun um ristjóra blaðsins. Ef menn vilja telja DV með í blaðaflórunni þá lögðu þeir að sjálfsögðu áherslu á persónulegar árásir. Sama hvaða afstöðu fólk tekur(ef það þá tekur einhverja afstöðu) þá er athyglisvert að bera þetta saman. Ljóst er að blöðin eru öll að reyna að ná fram einhverju markmiði með fréttunum í stað þess að greina bara frá. Þau hafa öll lagt af stað með einhverjar forsendur sem unnið er útfrá. Sú staðreynd finnst mér merkileg, sérstaklega í ljósi þess hve margir hafa galað hátt um að fréttastofur séu hlutlausar og viti svo gott sem ekkert af því eignarhaldi sem þau starfa undir. Það eina sem mér fannst fréttnæmt í þessu er það að ristjóri Morgunblaðsins sé að hjálpa manni að fara í mál við menn sem reka fjölmiðil sem eru í samkeppni við Morgunblaðið. En allar þær langsóttu tilraunir sem gerðar hafa verið til þess að renna stoðum undir dylgjur varðandi bláu höndina hans Hallgríms Helgasonar finnast mér vera sóun á pappír og prentverki.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?