<$BlogRSDURL$>

Friday, February 27, 2004

Tilvistarkreppa
Mér finnst geysilega spaugilegt að fylgjast með söngvaranum í 700 þúsund naglaspýtum í hlutverki sínu sem þáttastjórnandi í sjónvarpsþáttunum @. Mér sýnist kappinn vera í ákveðinni tilvistarkreppu. Það má segja að hann sé klofinn persónuleiki þegar hann er á skjánum. Þetta tvennt sem virðist togast á í honum er annars vegar að vera þessi mælski og þenkjandi sjónvarpsmaður (það er nú reyndar deyjandi fyrirbæri á Íslandi) eða þá rokkarinn mikli (frá Kasmír). Það er spaug sem vert er að fylgjast með þegar hann skiptir eldsnöggt úr "political correct" týpunni yfir í "fuck the system týpuna". Þetta fer einfaldlega ekki saman að mínu mati, hann verður að velja annað hvorn persónuleikann, annars endar hann bara vælandi í sófanum hjá Sirrý á Skjá 1. En þar fyrir utan þá óska ég lesendum góðrar helgar og megi gott djamm og lágmarksþynnka verða á vegi ykkar um helgina.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Skilnaður aldarinnar
Barbie er kominn aftur á markaðinn. Þetta er rosalegt. Þetta hlýtur bara að vera hjónaskilnaður aldarinnar en hún hefur sagt skilið við Ken, meðreiðarsvein sinn til margra áratuga. Enn hafa mér ekki borist neinar heimildir fyrir því hvað veldur en málið virðist allt saman vera afar dularfullt. Mér finnst ólíklegt að hún verði lengi á markaðnum en það er óneitanlega skemmtilegt að velta fyrir sér hver muni fylla skarð Kens. Ætli He-Man viti af þessu? Ég man ekki betur en að hann hafi verið einhleypur. Það yrði nú match made in heaven eins og Engilsaxarnir segja.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, February 25, 2004

Sögufölsun
Íslenskir sósíaldemókratar voru með fund um daginn sem fjallaði aðallega um efnahagsmál að mér skilst. Þar héldu framsögu Gylfi hjá ASÍ, Ingibjörg Sólrún borgarfulltrúi og varaþingmaður og Þorvaldur Gylfason að sjálfsögðu. Þorvaldur sem þekktastur er fyrir að predika ágæti þess sem hann kallar blandað hagkerfi, og á mjög að vera í ætt við þriðju leið Tony Blairs. Þorvaldur sagði að íslenskt hagkerfi væri ekkert opnara nú en fyrir 40 árum hvað varðar vöru og þjónustu. Það kemur ekki stórkostlega á óvart að hann skyldi reyna að finna eitthvað sem honum fyndist vera að í efnahagsstjórninni en ég sé ekki alveg hvernig þetta á að standast hjá honum. Ég las þetta í Mogganum á mánudag og rökstuðningur Þorvaldar fylgdi ekki með í fréttinni.

En mestu plássi var að sjálfsögðu eytt að fjalla um hvað Ingibjörg hefði að segja um efnahagsmál. Af henni mátti skilja að ástæðan fyrir batnandi lífsskjörum á Íslandi síðasta áratuginn væri annars vegar þjóðarsáttinni 1990 að þakka og hins vegar EES samningnum. Þar hefðu jafnarmenn verið í fararbroddi en Sjálfstæðisflokkurinn í áhorfendahlutverki eins og hún orðaði það. Sem sagt sögufölsun hjá sagnfræðingnum, sem var aðal talsmaður á stofnfundi samtaka gegn aðild að EES á áttunda áratugnum. Núna virðast jafnaðarmenn vera upphaf og endir alls góðs í heiminum að mati Ingibjargar. Fyrst var hún sósíalisti og herstöðvarandstæðingur, því næst kvennalistakona, þar á eftir samnefnari þriggja flokka í borgarstjórn og núna er hún sko jafnarmaður. Ég held að hún sé búinn að vera í jafn mörgum liðum og Mark Duffield. En ISG er að sjálfsögðu ekki tækifærisinni, nei nei, það er bara svo mikil krafa að hún sé í framboði af því hún er svo vinsæl. Og af hverju er hún svona vinsæl? Af því hún er sko klár kona sem kemur svo rosalega vel fyrir. Það skiptir engu máli hvaða steypu hún lætur út úr sér, þetta er allt jafn frábært sem frá henni kemur.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, February 24, 2004

Örðuleikar tækninnar
Í gær lá bloggheimurinn niðri. Komst ég því hvorki lönd né strönd þegar ég ætlaði að uppfæra síðuna. Ég bið lesendur síðunnar afsökunar á þessum óþægindum sem væntanlega hafa valdið nokkru raski á athöfnum þeirra sem fara daglega inn á hana. Er það einlæg ósk síðuhaldara að slíkt muni ekki endurtaka sig.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, February 18, 2004

Tæknilegir örðuleikar
Þeir sem standa að þessari bloggsíðu hafa átt í smávægilegum tæknilegum örðuleikum, eða öllu heldur hef ég átt í erfiðleikum með tæknina. Þannig er mál með vexti að þessi bloggsíða hefur fengið gríðarlega mikil viðbrögð úti í þjóðfélaginu og á sér traustan lesendahóp sem er afar fjölmennur. Ýmsum hefur þó sviðið að ekki sé hægt að leggja orð í belg á síðunni enda bryddar síðuhaldari reglulega upp á vitsmunalegum umræðuefnum sem snerta alla þjóðina. Yfir mig hefur rignt svívirðingum á tölvupóstinum um að ég eigi að setja inn á síðuna eitthvað sem heitir "comment". Þar sem ég er afskaplega tæknilega þenkjandi þá mun það nú varla vefjast mikið fyrir mér. Ég bið því lesendur að sýna örlitla þolinmæði því úr þessu verður bætt von bráðar.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Útihátíðarinnar í Viðey minnst
Politica félag stjórnmálafræðinema við HÍ hefur ákveðið að halda árshátíð sína í Viðey næstkomandi föstudag. Legg ég þann skilning í þessa staðsetningu að verið sé að minnast útihátíðarinnar frægu sem haldin var í Viðey árið 1984. Eins og glögg stærðfræðiséni átta sig á þá eru liðin 20 ár síðan sá frægi atburður átti sér stað og um áramótin fylgdi í kjölfarið mitt uppáhalds áramótaskaup. Það mætti segja mér að maður eigi eftir að láta einhverja frasana fljúga þegar líður á kvöldið. Fyrirmenni munu heiðra samkomuna með nærveru sinni, Felix Bergsson mun halda utan um veislustjórn og Vigdís Finnbogadóttir verður heiðursgestur . Minna má það nú ekki vera fyrir pínulitla deild innan HÍ.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, February 16, 2004

Raðstrípari
Ég var að fletta gömlu DV og rakst þar á stórskemmtilega grein um Englending að nafni Mark. Seinna nafnið var Robins eða eitthvað í þá áttina (ekki þó sá er spilaði með United.) Þessi ágæti maður hefur unnið sér það til frægðar að vera heimsins snjallasti strípari. Hann hefur bókstaflega lyft strípihneigð í nýjar hæðir og hefur strípast á um 300 stórviðburðum. Nýjasta afrek hans var að hlaupa nakinn inn á völlinn í umtöluðum Super bowl leik í Bandaríkjunum um daginn. Segir Mark það vera hápunkt ferils síns en hann geti þó toppað það í sumar því hann hafi sett stefnuna á "þáttöku" á Ólympíuleikunum í Aþenu. Auk þess segir Mark að árið 2002 hafi verið einkar gott ár, því þá hafi hann meðal annars hlaupið nakinn inn á leik í úrslitaleik Meistaradeildinnar í knattspyrnu, og úrslitaleik Wimbledon tennismótsins ásamt fleiru. Hann segist jafnframt hafa sett heimsmet fyrir um tíu árum síðan er hann hljóp tvívegis inn á í sama leiknum í Hong Kong.

Þessum mikla afreksmanni er greinilega fátt óviðkomandi og spannar afrekaskrá hans viðburði af ýmsum toga, svo sem landsþing stjórnmálaflokka og beina lottóútsendingu svo fátt eitt sé nefnt. Af þessu hefur þó hlotist mikill kostnaður í gegnum tíðina, því auk farseðla og hótelreikninga þá er Mark jafnan sektaður fyrir atferli sitt. Hefur hann oft á tíðum verið vistaður í fangaklefum sökum fjárskorts en hann er atvinnulaus þar sem strípið er eingöngu sjálfboðavinna. Lögfræðingur hans segir að flestum finnist uppátækin vera fyndin og því hafi hann ekki verið dæmdur í fangelsisvist. Það hafi þó verið reynt en kvenkyns dómari hafi hlegið allan tímann er talsmaður ákæruvaldins flutti mál sitt. Mun henni hafa þótt sérlega fyndið þegar talsmaðurinn fullyrti "að samfélaginu stæði ógn af Mark þar sem hann væri raðstrípari!!!"
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Saturday, February 14, 2004

Evrópumeistararnir tóku Ragga úr umferð
Ánægður með Ragga vin minn Óskars núna. Skoraði sex mörk á miðvikudagskvöldið gegn toppliðinu Montpellier í leik sem Dunkerque vann með tveimur mörkum. Hjá Montpellier eru ekki neinir pappakassar enda sigraði liðið í Meistaradeildinni síðasta vor. Maðurinn með krullurnar var víst í stuði og var tekinn úr umferð á lokakafla leiksins. Í markinu hjá Montpellier er aðalmarkvörður Frakka; Omeyer, en Ragga virðist ganga ótrúlega vel gegn stóru liðunum, hann setti til dæmis 11 mörk gegn Chambery þar sem króatíski landsliðsmarkvörðurinn; Sola leikur. En þetta er auðvitað ekki nægilega sannfærandi til þess að fá tækifæri með landsliðinu. Brunahaninn í gallabuxunum þarf ekki á mönnum að halda sem geta skorað hjá sterkum vörnum og góðum markvörðum, því sóknarleikurinn hefur verið svo geysilega sannfærandi á síðustu tveimur stórmótum. Eitthvað virðast blaðamennirnir í Frakklandi hafa rýmri reglur heldur en kollegar þeirra hérlendis, því eitt franska blaðið sagði eftir Montpellier leikinn að "litli djöfullinn frá Íslandi hefði átt stórleik"!!! Ég er nú hræddur um að slík ummæli kæmust ekki í gegnum próförkina á Mogganum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, February 13, 2004

Titillinn til Nallanna
Það má mikið ganga á ef Arsenal verður ekki enskur meistari þetta árið. Lið sem er taplaust þegar komið er fram í febrúar hlýtur að verða meistari. Ekki eru mínir menn í United sannfærandi. Ferdinandlausir munu þeir ekki þvælast mikið fyrir Nöllunum. Sir hrossatemjari ætti kannski að einbeita sér meira að boltanum og minna að veðreiðunum. Hann er nú kominn á þann aldur þar sem menn þurfa að fara að velja hvaða íþróttagrein þeir ætla að setja á oddinn. En maður verður bæði að kunna að taka tapi jafnt sem sigri. Því segi ég bara til hamingju Arsenal, well done.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

The office lofar góðu
Bresku verðlaunaþættirnir The Office hafa hlotið mikla athygli. Nú er verið að sýna fyrstu seríuna á RÚV og sá ég þátt nr. 2 af 6 í vikunni en ég missti af fyrsta þættinum. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum enda hefur breskur húmor lengi höfðað til mín. Sérstaklega ef John Cleese og Rowan Atkinson hafa verið í stórum hlutverkum. Þeir eru reyndar ekki í Office þáttunum og raunar þekkti ég ekki einn leikara í þættinum. En ég get hlegið mikið að þessu rugli og fannst þetta vera í ætt við Fóstbræður og Svínasúpuna á köflum. Súrealískt spaug inn á milli. Mæli eindregið með þessum þáttum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, February 11, 2004

Micran stenst samanburðinn
Í fyrirspurnartíma á Alþingi á dögunum kom fram að bíll Forsætisráðherra er elstur af ráðherrabílunum sem nú eru í notkun. Mun þetta vera Audi frá árinu 1995 og er hann því ekki nema tveimur árum eldri en Micran sem ég þeysist um á. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að Micran er á besta aldri og á nóg eftir enda vel með farin. Auk þess finnst mér ótrúlegt að forsætisráðherrabíllinn hafi unnið til jafn margra verðlauna árið 95 eins og Micran gerði árið 93.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, February 10, 2004

Djöfullinn danskur.
Já ég segi nú bara eins og maðurinn sagði; djöfullinn danskur! Ég var að fylgjast með morgunsjónvarpinu um daginn og þá var pistill frá fréttaritara þeirra í Danmörku, sem ég man ekki hvað heitir en nafnið er afskaplega danskt/íslenskt. Nema hvað, pistillinn var sérlega skemmtilegur, aðallega vegna fréttar um athafnasemi danskra glæpamanna. En dæmdir danskir glæpamenn eru svo störfum hlaðnir að þeir bara mega ekkert vera að því að sitja af sér dóma. Þá grípa þeir að sjálfsögðu til þess augljósa ráðs að borga mönnum fyrir að sitja inni fyrir sig. Mun þetta ekki vera mjög snúinn aðgerð þar sem ekki er athugað hvort nýir fangar séu þeir sem þeir gefa sig út fyrir að vera. Þeir trítla inn í fangelsin með einhvers konar vottorð frá dómstólum um að þeir hafi fullan rétt á því að búa tímabundið í viðkomandi fangelsi og þeir sem raunverulega eiga að sitja inni, geta haldið áfram að sinna sínum störfum utan veggja fangelsins. En þar sem Danir eru í einstaklega góðu andlegu jafnvægi þá láta þeir ekki smámuni sem þessa raska ró sinni, og mun þetta trix glæpamanna hafa verið alkunna þar um slóðir í nokkurn tíma, án þess að ástæða hafi þótt til þess að bregðast sérstaklega við þessu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, February 09, 2004

Offramboð af Svanfríði
Ég sá að Svanfríður Jónasdóttir var mætt í Kastljósið um daginn, væntanlega sem fulltrúi Samfylkingarinnar. Mér finnst merkilegt að eftir að hún hætti þingmennsku þá er ég alltaf að sjá hana í einhverjum spjallþáttum. Hún var ekki svona áberandi á meðan hún var á þingi. Þetta er eitthvað alveg nýtt að fólk kúpli sig út af þingi og baði sig svo í sviðsljósinu. Með tilliti til þessa þá getur verið að Davíð hætti í pólitík í haust og snúi sér bara alfarið að spjallþáttunum. Það hefur nú ekki verið svo lítið grenjað yfir því að hann sé ekki mættur í hvert einasta skipti sem ljósvakamiðlar falast eftir því að hann mæti. Hvað sem hann gerir í haust að þá munu vafalaust margir gleðjast ef hann verður áfram í sviðsljósinu. Mér dettur strax í hug einstaklingar sem hafa Davíð algerlega á heilanum eins og Gunnar Smári Egilsson, Guðmundur Andri Thorsson, Eiríkur 6. Bergmann Einarsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og fleiri vitsmunaverur væri svo sem hægt að telja upp hefði maður lyst á því. Þetta fólk hefur sjálfsagt hugsað til þess með hryllingi ef Davíð hyrfi af sjónarsviðinu, því þá myndi það ekki hafa neitt fyrir stafni lengur.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, February 05, 2004

Hornsteinar landsins braka
Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meirihluti.
- Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, 8. grein.

Forsetamálið hefur tröllriðið íslenskum fjölmiðlum undanfarna daga og skal alla undra. Er það til marks um hversu lítið er að gerast í íslenskri pólitík, þegar reynt er að gera stórmál úr því að sonur Gríms rakara sé ekki viðstaddur 7 mínútna fund. Fólk virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að alþýðumenn eins og hann verða að fá frið til þess að velta fyrir sér stöðu fátækra á Íslandi. Færa má fyrir því sannfærandi rök að forsetaembættið sé yfirleitt óþarft og sé eingöngu byrði á skattborgurum. Slík umræða hlýtur að eiga eftir að komast á flug þegar sá sem nú gegnir embættinu sér ekki ástæðu til þess að vera viðstaddur hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis heimastjórnarinnar. Það að hann sé ekki beinn þáttakandi í hátíðarhöldunum gerir hann ekki sjálfkrafa að píslarvætti sem neyðist til þess að sleikja sár sín erlendis. Forsetinn hefur margoft verið viðstaddur knattspyrnulandsleiki þrátt fyrir að hann fái ekki að vera við hlið Eiðs Smára í framlínunni.

Annað sem pirrar mig varðandi þetta embætti er það að sigurvegari forsetakosninga á Íslandi þarf ekki að hafa áhyggjur af frekari kosningum ef hann er á annað borð kominn á Bessastaði. Því hinni óútreiknanlegu íslensku þjóðarsál finnst nefnilega dónaskapur að einhver bjóði sig fram gegn sitjandi forseta. Það er nefnilega það. Einkar lýðræðislegt sjónarmið. Til þess að einhver gæti boðið sig fram gegn sitjandi forseta og átt raunhæfa sigurmöguleika þá þyrfti viðkomandi forseti að gyrða niður um sig á blaðamannafundi. Þar fyrir utan skiptir nánast engu máli hvernig hann veldur embættinu. Ef þú ert Forseti Íslands þá er nóg að "koma vel fyrir". Auðvitað er mótframboð það besta sem getur komið fyrir sitjandi forseta á hverjum tíma. Þá fær hann viðbrögð frá kjósendum um hvernig hann er að standa sig.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.


Wednesday, February 04, 2004

BRJÓSTumkennanlegt
Gasalega er ég ánægður með að hafa barið hægra brjóst Janet(ar) Jackson(ar) augum. Mér finnst ég vera betri maður fyrir vikið, þrátt fyrir að það hafi nú reyndar verið hulið að hluta með einhvers konar jólastjörnu. Í kjölfarið fylgdi mikill darraðadans erlendra fjölmiðla eins og við var að búast. Voru ummæli þeirra sem hlut áttu að máli í þessu skemmtiatriði fremur BRJÓSTumkennanleg, sérstaklega útgáfan þar sem því var haldið fram að þetta hefði komið þeim gersamlega í opna skjöldu. Maður er nú eldri en tvævetur þegar kemur að svona sjónvarpsbrellum og lét ég mér því hvergi bregða, enda minnist ég þess ekki að hafa áður séð kvenfólk klæðast fatnaði þar sem sérstakar smellur eru í kringum brjóstin. Að minnsta kosti ekki á íþróttaviðburðum. En framtakið var auðvitað djarft og hefur söngkonan líklega þurft að innbyrða nokkra BRJÓSTbirtu áður en þau létu til skarar skríða. Ég hresstist óneitanlega nokkuð við að fá svona atriði í hálfleik á Ofurskálinni (Super bowl) en fram að þessu hafði ég verið að velta því fyrir mér að láta mér renna í BRJÓST enda leikurinn á fremur ókristilegum tíma hérlendis.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Blogg fólksins
Kæru 90% þjóðarinnar. Jæja, þá er landsbyggðarskúnkurinn bara farinn að nýta sér alnetstæknina í sína þágu. Búinn að henda frá sér fjöðrinni og sestur fyrir framan lyklaborðið. Er það reyndar ekki komið til af góðu, heldur vegna þess að ég er að taka áfanga sem heitir textagerð og tilheyrir Hagnýtri fjölmiðlun. Þar hefur okkur verið falið það verkefni að halda dagbók fram í apríl. Ég mun því deila með ykkur hugrenningum mínum, eða blogga eins og unga fólkið í dag kallar þetta, reglulega fram í apríl. Ef mér líkar og ef lesendum verður gróflega misboðið þá kann að verða framhald á þessu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?