<$BlogRSDURL$>

Friday, July 29, 2005

Ekki á Þjóðhátíð
Það er enginn Þjóðhátíð hjá manni þetta árið. Hef reyndar ekki farið síðan 2001 sem er til skammar eftir að hafa náð fimm skiptum í röð frá 97-01. Golf í borg óttans er því á teikniborðinu um helgina. Þar sem ég var atvinnubílstjóri til skamms tíma fyrir áramót þá er spurning hvort ég ætti að taka þátt í mótmælunum og loka Grandaveginum með Micrunni.
Gangið á Guðs vegum.

Thursday, July 28, 2005

Orðrétt
"Í Blaðinu er birt grein Ögmundar Jónassonar alþingismanns vinstrigrænna, þar sem hann fjallar um þá áríðandi spurningu hvern, eða hverja, hann vilji fá sem útvarpsstjóra. Í grein sinni fjallar Ögmundur um þá tvo útvarpsstjóra sem hann hafði kynni af sem starfsmaður Ríkisútvarpsins, þá Andrés Björnsson og Markús Örn Antonsson. Sérstaklega fer hann fögrum orðum um Andrés, störf hans, menntun og framsýni, og ekki skal Vefþjóðviljinn standa í að fara að draga það í efa. Ögmundur ætti líka að vita nokkuð um málið, enda er hann tengdasonur Andrésar þó hann stilli sig auðvitað um að geta þess í greininni."
-Vef-þjóðviljinn síðastliðinn laugardag.

Wednesday, July 27, 2005

Nýtt útlit hjá Baggalúti
Rétt er að benda lesendum á að Baggalútur er kominn með nýtt útlit, þrátt fyrir að síðuhaldarar verði formlega séð í sumarfríi til 15. ágúst. Þeir eru þó búnir að henda inn nokkrum gullmolum svona til þess að halda manni volgum.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Sigþór braut þarna á Viktori viljandi - ja þetta var í það minnsta ekki óvart"!
-Gaupi í lýsingu á sama leik.

Orðrétt
"Búið var að afskrifa Guðmund Benediktsson vegna erfiðra meiðsla. Það hefði verið nær að setja rennilás á hnéið honum því hann var svo oft skorinn upp"!
-Logi Ólafsson í lýsingu á leik Vals og Fylkis á Sýn.

Tuesday, July 26, 2005

John Daly
Ég heyrði frábærar sögur af einum uppáhaldskylfingi okkar Trausta Salvars, John Daly, um daginn. Sögur frá opna breska. Daly er feikilega vinsæll og vekur mikla athygli á risamótunum. Á mótum sem opna breska eru kapparnir að mæta svona um 2 tímum áður en þeir eiga rástíma. Á opna breska, rennur Daly upp að klúbbhúsinu einn daginn, í gallanum og tekur settið úr bílnum ásamt kylfusveini sínum. Þaðan rölti hann rakleiðis á 1. teig, teygði aðeins úr sér og sló! Á blaðamannafundi var hann spurður hvort hann hefði fengið góðan fisk í bænum (á St. Andrews svæðinu). Nei ekki gat hann sagt það en hann hrósaði pizzunum mikið! Það er kannski ekki að ástæðulausu að bakið á ævisögu hans er með mynd af hamborgarastaffla.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Það er ljóst að það eru erfiðir tímar framundan hjá þessu sögufræga félagi (Everton). Liðið hafnaði í 17. sæti úrvalsdeildarinnar í fyrra...og miðað við stöðu þess í dag er það ekki líklegt til afreka á komandi tímabili."
-Félagi minn og Everton aðdáandi, Magnús Geir Eyjólfsson í Morgunblaðið 19. júlí 2004.

Monday, July 25, 2005

Braut múrinn
Braut lífseigann múr í golfinu í gær þegar ég mjakaði mér undir 10 í forgjöf. Er núna í 9,8 og þar með er fyrsta golfmarkmiði sumarsins náð. Nú er maður loksins kominn í fullorðinna manna tölu í þessu sporti.
Gangið á Guðs vegum.

Sálarballið
Ég rakst á stjórnmálafræðinemann Stefan Hilmarz í gær og spurði hann út í dansiballið í Víkinni. Hann fór strax að spyrja út í golfvöllinn í Víkinni en hann ætlar að taka settið með og taka hring. Ég held að maður verði að skella sér vestur og kíkja á þennan dansleik. Sperning um að reyna að fá Frú Margréti og Jón Friðgeir til þess að vera með heimboð fyrir ball!
Gangið að Guðs vegum.

Vel heppnaðir útgáfutónleikar
Hljómsveit okkar Eiðs Smára hélt vel heppnaða útgáfutónleika á Gauknum á laugardagskvöldið. Vel mætt og gríðarleg stemning. Gítarundrið Baldur Sívertsen var mættur frá Kópaskeri og Andri á trommunum þannig að liðið var fullskipað. "Pláta ársins" er komin í verslanir og kostar einungis 2000 krónur. Drífið ykkur á ná ykkur í eintak áður en hún selst upp.
Gangið á Guðs vegum.

Skemmdarverk á Old Trafford
Knattspyrnuáhugamaðurinn Ásgeir Þór var að senda mér þetta.
Gangið á Guðs vegum.

Friday, July 22, 2005

Sálarball á heimavelli
Ég var að reka mig á að Sálin verður með ball í Víkinni þann 26. ágúst næstkomandi, ef eitthvað er að marka heimasíðuna þeirra. Ég efast stórlega um að Sálin hafi áður verið með ball í Bolungarvík, þó það sé ekki útilokað. Þorlákur getur þá leiðrétt mig ef ég fer með fleipur.
Gangið á Guðs vegum.

Útgáfutónleikar
Á morgun laugardagskvöld, verður hljómsveitin Ég með útgáfutónleika á Gauki á Stöng í tilefni af útkomu plötunnar, "Plata ársins" sem inniheldur meðal annars sumarsmellinn "Eiður Smári Guðjohnsen". Lesendur eru hvattir til þess að mæta.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Sumir virðast alveg missa sig ef þeir fá að rasa út undir dulnefni á netinu. Ég var orðinn svo leiður á nafnlausu skítkastinu að ég tók gestabókina út hérna enda pirrandi að liggja undir rassgatinu á dulbúnum fávitum. Meistari Guðbergur varð fyrir meinlegu skítkasti en mér sýnist það hafa verið tekið út og kúkandi fífl láta Egil Helgason heyra það annað slagið. Svo ekki sé nú talað um hraunverkið á Málefnin eða "kaffistofan á Kleppi" eins og ég kýs að kalla þann umræðuvettvang. Jú jú auðvitað er gaman að vera kjaftfor í leynum. Einu sinni datt ég óvart inn á símtal tveggja kerlinga þegar ég tók upp símtólið, hlustaði á þær um stund en fór svo að klæmast af alefli, eða því alefli sem ég réði við 15 ára hreinn sveinninn. Þetta var unaðsleg útrás og kerlingarnar urðu fúlar. Ég hef því miður ekki haldið áfram að klæmast í kerlingum í gegnum símann (vonlaust verk nú á tímum símabirtana) en ég ætti kannski að skrá mig á Málefnin og byrja að ausa skít hægri vinstri undir nafninu Bruno Ganz II, til dæmis. Örugglega voða gaman."
-Dr. Gunni á vefsíðu sinni þann 21. júlí 2005.

Ferðasaga frá Grenivík
Ég var staddur í Eyjafjarðarhreppi á Jónsmessunni. Ákvað þá í samráði við annan mann, Geðmund Gunnars, að heimsækja hinn sögufræga stað Grenivík. En það vill svo skemmtilega til að félagi okkar Valdimar Víðisson er þar skólastjóri, og olli sú ráðning ekki svo litlu fjaðrafoki í plássinu. Við GG ákváðum því að fara með hvít flögg og bera klæði á vopnin. Systir Valgerðar Sverris sem stjórnar sveitarfélaginu var ekki við, svo við fórum í sjoppuna/matvörubúðina. Spurðum hvar finna mætti skólastjórabústaðinn. Fengum fínar leiðbeiningar en þar var enginn svo við héldum í Grunnskólann. Þar var skólastjórinn að leggja kapal í tölvunni og tók okkur með kostum og kynjum. Fengum við stutt ágrip af sögu skólans og á bekkjarmyndum á veggnum mátti sjá dáðustu dóttur skólans: Díönu Omel. Mikið var um að vera hjá Valda um vorið þar sem hann útskrifaði nemanda á skólaslitunum (þessi eintala er ekki villa). Þessi nemandi sópaði því að sér öllum verðlaunum fyrir framúrskarandi árangur í 10. bekk. Einnig stiklaði skólastjórinn á stóru í sögu hreppsins og þar sem meðal annars kom fram að staðurinn hefði lagt undir sig íslenskan borðtennisheim um tíma. En þetta var afskaplega fróðleg og skemmtileg ferð og við Geðmundur erum tvímalælaust betri menn á eftir. Einnig var ágætt að fá staðfestingu á því að Valdimar Víðisson væri í raun skólastjóri þarna, og þetta hefði ekki verið úthugsað og þaul skipulagt gabb.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, July 19, 2005

Orðrétt
"Líklega bera fá samtök nafn sitt betur en Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins. Samtök þessi hafa heill stofnunarinnar Ríkisútvarpsins í fyrirrúmi. Velferð stofnunarinnar, kerfisins og báknsins er þeim mikið kappsmál. Hagmunir hlustenda, áhorfenda og greiðenda afnotagjalda skipta samtökin hins vegar engu máli. Ef Hollvinir Ríkisútvarpsins hefðu snefil af áhuga á hagsmunum hins almenna hlustanda myndu þau auðvitað berjast fyrir því að losa hann undan þeirri nauðung að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins. Það er ekki hlaupið að því að gera ríkisrekstur bæði lýðræðislegan og faglegan. Hins vegar mætti færa valdið til fólksins með því að gefa áskrift að RÚV frjálsa. Öllu meira verður lýðræðið ekki en að hver og einn taki ákvörðun um hvort hann hafi áhuga á dagskrá RÚV. Hinir faglegu starfsmenn RÚV geta svo eignast félagið og sýnt landslýð hvernig á að reka það svo faglega að allir vilji gerast áskrifendur."
-Vef-þjóðviljinn 19. júlí 2005.

Monday, July 18, 2005

Do you like service?
Ég hef rekið mig á að ýmis þjónustufyrirtæki vilja þjónusta mig með því að láta mig vinna fyrir sig kauplaust. Um daginn lenti ég í því í búð Bakkusar að tölvukerfið lá niðri einn daginn. Ég hringdi í fyrirtækið sem átti að þjónusta búðina með tölvumál og nettingingu. Nafnið á fyrirtækinu er dottið úr mér í bili. Fyrsta sem stelpan spyr mig er ég tjáði henni þessi válegu tíðindi: "Er kveikt á rádernum?" Ég svaraði af minni alkunnu stillingu; "Hver djöfullinn er það?" Kom þá nokkuð hik á hana. Í þessu hafði hún greinilega ekki lent áður. Útskýrði hún fyrir mér hvernig ráderinn liti út og gaf mér svo idoitprove-leiðbeiningar til þess að gera ýmsar tilraunir á rádernum þar til tölvukerfið datt í gang. Lauk þá málinu að hennar hálfu, en væntanlega hafa eigendur Bakkusar fengið svimandi háan reikning vegna sérfræðiráðgjafar. Ég hef nokkuð brotið heilann um svona þjónustu síðan. Hvað ef líkkistusmiðir myndu haga sér svona? Ef ég myndi hringja í líkkistusmiðinn og segja að botninn hafi dottið úr kistunni. Myndi hann þá koma og gera við eða myndi hann bara segja í símann; "Er nokkuð hamar þarna nálægt þér?" Ég segi nú bara eins og BO sagði við þjóninn þegar hann fékk ekki steikina á indverska veitingastaðnum í London: "Do you like service?"
Gangið á Guðs vegum.

Ég í Fréttablaðinu
Róberto skjólstæðingur minn í hljómsveitinni Ég er á bls 30 í Fréttablaðinu í dag, enda er diskurinn "Plata ársins" að koma út um þessar mundir. Nánar greint frá því síðar.
Gangið á Guðs vegum.

Hækkun
Spilaði illa í Meistaramótinu, hækkaði í forgjöf alla dagana. Þarf að láta Andrés sveiflulækni kíkja á mig. Þetta gengur ekki.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, July 12, 2005

Munnmælasögur#28
Maður er nefndur Árni Svavarsson og er þekktastur fyrir að vera Verndari Vestfirskra Sleikipinna. Árni mun lengi hafa haldið því fram við sína nánustu fjölskyldumeðlimi að hann væri búinn að vera í sömu þyngd í mörg ár. Svona eitthvað lítillega yfir kjörþyngd manns á besta aldri sem Árni er vissulega á. Frúin og synir þeirra, Orri einbýlishúseigandi og Bjarni kvikmyndaframleiðandi, efuðust stórlega um að síðustu tölur frá Árna væru réttar og ráku hann á vogina. Var Árna mjög brugðið við niðurstöðuna sem sýndi töluvert meira en hann hafði áætlað á sig. Nú voru góð ráð dýr. Árni lýsti því yfir að nú skyldi sultarólin hert, hann væri farinn í aðhald. Orri er ákaflega seinn að meðtaka allar upplýsingar og vildi því fá nánari skýringar á því í hverju aðhaldið fælist nákvæmlega. Ekki stóð á svarinu hjá Árna: "Nú er ég steinhættur að nota mjólk út í kaffið".

Vinsældir...og þó.
Grein mín "Lýsi yfir heilögu stríði" var sú mest lesna á sus.is í júní. Það er ánægjulegt að fólk kafi ofan í visku mína, svona rétt til þess að vera gjaldgengt í þjóðfélagsumræðunni. Ekki virðist þó vera fyrir sömu vinsældunum að fara hér, en aðsóknin á þessa síðu hefur nú dottið hressilega niður í sumar. Er ég of latur við að uppfæra? Eða er maður bara sprunginn blaðra? Næsti Limahl? Gott væri að fá viðbrögð við þessu.
Gangið á Guðs vegum.

1. dagur í Meistaramóti
1. dagur í Meistaramótinu hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ var í dag. Ekki byrjaði það nú of vel, 89 högg. Er með síðustu mönnum í 2. flokki sem er skipaður mönnum með forgjöf 9,5 - 14,4. Raggi Ingvars var á 85 höggum en hann er að spila í 1. flokki. Frí hjá mér á morgun en Raggi fær frí á fimmtudag. Mótið klárast á laugardag en spilaðar verða 72 holur. Við þurfum að spila næstu tvo hringi vel og koma okkur í baráttuna.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Fátækt Afríku má því rekja til skorts á framleiðslu og litlum viðskiptum með vörur. Stór svæði sunnan Sahara eru lítið sem ekkert ræktuð. Svæði sem eru ræktuð eru einungis ræktuð með sjálfþurftarbúskap í huga. Þannig er lítið svigrúm fyrir viðskipti með þær vörur sem eru þó framleiddar. Erfitt er að fjárfesta í landsvæði þar sem eignarrétturinn er ekkert skilgreindur á stórum svæðum og því lítið um hvata til að hefja framleiðslu sem skilar hagnaði. Litlir peningar eru í umferð þannig að ekkert verður úr stærri framkvæmdum sem gætu ýtt bolta iðnvæðingunnar af stað. Óstöðugt stjórnmálaástand gerir hlutina ekki einfaldari. Til að bæta gráu ofan á svart er peningum dælt inn í álfuna í formi alls konar þróunaraðstoðar og rata þeir peningar sjaldnast, ef ekki aldrei, í gáfulegan farveg."
-Teitur Björn Einarsson á sus.is 12. júlí 2005.

Sunday, July 10, 2005

Auður Haralds
Blogg fólksins mælir með viðtali við Auði Haralds í Tímariti Morgunblaðsins í dag á bls 10. Auður er afskaplega hressandi á tímum rétttrúnaðar og fyrirsjáanlegra álitsgjafa og þjóðfélagsrýna. Ég fer alltaf að hlæja þegar ég les eitthvað eftir hana.
Gangið á Guðs vegum.

Saturday, July 09, 2005

Fagnað of snemma?
Mér hefur borist til eyrna að formanni Einherjaklúbbsins: Kjartani L. Pálssyni hafi verið nokkuð skemmt er hann rýndi í skorkortið mitt vegna draumahöggsins. Einherjaklúbburinn er félagsskapur fyrir þá Íslendinga sem hafa farið holu í höggi og fengið það formlega skráð. Hann hafði víst á orði að skriftin á kortinu hefði bent sterklega til þess að menn hefðu byrjað snemma að fagna afrekinu. Hann gat bara lesið kennitölu út úr kortinu og fór í þjóðskrá. Hringi að svo búnu í formann Golfklúbbs Bolungarvíkur og spurðist fyrir. Mín hlið á málinu er sú að ég skilaði inn kortinu til Golfsambands Íslands eins og lög gera ráð fyrir og þar var ekki gerð athugasemd við útfyllingu kortsins. Vangaveltur um ótímabær fagnaðarlæti verða því látnar liggja á milli hluta.
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, July 06, 2005

Orðrétt
"Fékk svo SMS í gær frá litlu systur minni......það stendur í DV að þú hafir sofið hjá MELLU í Köben þegar þú varst 14 ára. Ég sprakk úr hlátri, þvílíkir hálfvitar. Ég veit að tónleikarnir voru teknir upp, ég hendi þeim hérna inn í næstu viku og þá getið þið hlustað á þetta. Ég sagðist hafa komið til Danmerkur fyrst þegar ég var 14 ára vegna þess að ég græddi svo mikla peninga á sjó. Ég hafi talað við frænda minn og hann sagt mér að koma til Danmerkur afþví að Danskar konur væru svo fallegar og ég hafi einmitt komið til Danmerkur til þess að dást að dönskum konum. Og svo tileinkaði ég þeim næsta lag. Veit ekki alveg hvernig gaurinn sem skrifaði greinina náði að troða mellu inní söguna mína, en verði honum að góðu, ég fullyrði þá á móti að hann hefur KANNSKI verið á einhverjum eiturlifum, allavega með slappa heyrn, í versta falli góður djókari, ég held nú mikið uppá DV en vildi óska að þeir biðu uppá ókeypis þjónustu við að svara SMSum þegar þeir djóka svona með mann, mér finnst svo helvíti leiðinlegt að pikka á símann, er svo lengi af því. Það er lágmarkskrafa að ef Íslenskir fjölmiðlar eru að senda blaðasnápa á erlenda grundu þá séu þeir Mellufærir í erlendum tungumálum svo þeir misskilji ekki það sem sagt er."
-Mugison á heimasíðu sinni 3. júlí 2005.

Tuesday, July 05, 2005

Guðbergur byrjaður að blogga
JPV útgáfan hefur nú fengið flaggskip sitt Guðberg Bergsson til þess að hugsa upphátt á hverjum degi á vef sínum jpv.is. Guðbergur er vissulega ekki allra en pistlar hans eru þó mikill fengur fyrir okkur sem erum leið á pólitískum rétttrúnaði og fyrirséðum skrifum. Guðbergur er verulega hressandi þó maður sé ekki alltaf sammála honum frekar en öðrum. Hér er örstutt tóndæmi:
"Annað merkilegt í Reykjavík: Fiskbúðir hverfa. Fyrir bragðið virðist ekki bara rassinn stækka á borgarbúum heldu breytist lögun kinnanna. Upp hafa risið hrikaleg rassgöt. Til hefur orðið rasskinnastíll. Stílbrögð miðbæjarrassins eru ólík hlemmformi Austurbæjarrassins. Og eins og til er undirhaka á fólki, hafa sumir í úthverfunum komið sér upp hlaupkenndum undirrassi."

Pistlar Guðbergs.
Gangið á Guðs vegum.

Sprell í kvöld
Þeir lesendur sem aðgang hafa að Baugsmiðlinum Sirkus eru minntir á að skjólstæðingur minn Gunnar Sigurðsson verður með sprell í kvöldþætti Gumma Steingríms í kvöld. Einnig skilst mér að hægt sé að nálgast spaugið á veftv á Baugsmiðlinum Vísi.is. Viðkvæmir, hjartveikir og hneykslunargjarnir eru vinsamlegast beðnir um að virða dagskrárliðinn að vettugi.
Gangið á Guðs vegum.

Sunday, July 03, 2005

Orðrétt
"Fréttablaðið kaus í vikunni að koma systurblaði sínu Hér og nú, fylgiriti DV, til varnar þegar það var gagnrýnt fyrir umfjöllun um einkalíf þekkts tónlistarmans og einstaklinga sem honum tengjast. Í dálki á leiðarasíðu Fréttablaðsins var sagt frá því að Eiríkur Jónsson frá Hér og nú hafi mætt í sjónvarpsþætti til að ræða málið og þar hafi honum mætt stjórnendur sem Fréttablaðið fullyrðir að hafi allir verið fyrir fram búnir að taka ákveðna afstöðu í málinu. Ekki veit Vefþjóðviljinn hvort þessi fullyrðing stenst og veit ekki hvaðan Fréttablaðið hefur þessar upplýsingar, en Fréttablaðið er í öllu falli greinilega mjög hneykslað á því að fjölmiðlamenn taki afstöðu og endar umfjöllun sína á orðunum: Um hlutleysi blaðamanna má lesa í siðaskrá Blaðamannafélagsins sem allir stjórnendur höfðu að eigin sögn vel á hreinu. Nú þurfti ekki frekari vitna við og lesendur áttu greinilega að láta sannfærast um að stjórnendur sjónvarpsþáttanna hefðu brotið siðareglur Blaðamannafélagsins og að gagnrýni á systurblöð Fréttablaðsins væri bæði óréttmæt og ósanngjörn.

Þeir sem lesið hafa siðareglur Blaðamannafélagsins, sem má kynna sér á vef þess, vita að þar er ekki stafkrókur um „hlutleysi blaðamanna“ og fullyrðing Fréttablaðsins því algerlega úr lausu lofti gripin. En fyrst Fréttablaðið sér ástæðu til að beita siðareglum Blaðamannafélagsins fyrir sig og systurmiðla sína má að ósekju vitna í nokkur atriði sem þar koma fram. Í 5. grein siðareglnanna segir meðal annars: „Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns.“ Hvernig skyldi ofangreind umfjöllun Fréttablaðsins nú koma heim og saman við þessi ákvæði siðareglnanna?

Og hvernig ætli systurblöð Fréttablaðsins, DV og Hér og nú, falli að ákvæði 3. greinar siðareglnanna, sem hér fer á eftir? „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Þá er það 4. greinin, ætli fyrrgreindir fjölmiðlar hafi hana ævinlega í huga í skrifum sínum? Í 4. grein segir meðal annars: „Blaðamenn skulu hafa ríkt í huga hvenær almennt öryggi borgaranna, sérstakir hagsmunir almennings eða almannaheill krefst nafnbirtingar. Í frásögnum af dóms og refsimálum skulu blaðamenn virða þá meginreglu laga að hver maður er talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.“ Falla nafn- og myndbirtingar þessara miðla vel að þessari grein?

Fréttablaðinu, DV, Hér og nú og öðrum miðlum er auðvitað frjálst að fara ekki eftir siðareglum Blaðamannafélagsins, en það er öllu verra þegar því er haldið fram að aðrir fjölmiðlar brjóti siðareglurnar með því að vísa til ákvæða sem þar er alls ekki að finna. Eigendum blaða er líka frjálst að láta þau fylgja einhverjum allt öðrum viðmiðum en þessum siðareglum, en það er þá þeirra ákvörðun og þeir bera ábyrgð á henni. Með sama hætti er það ákvörðun neytenda hvort þeir vilja stuðla að slíkri útgáfu með því að eiga viðskipti við útgefendurna og ákvörðun fyrirtækja hvort þau vilja tengjast útgáfunni með því að auglýsa í henni. Allt er þetta sem betur fer frjálst og á ábyrgð hvers og eins."
-Vef-þjóðviljinn 2. júlí 2005

Friday, July 01, 2005

Dr. Gunni heldur vart vatni yfir hljómsveitinni Ég
Skjólstæðingar mínir í skemmtanabransanum gera það ekki endasleppt þessa dagana. Gunnar Group búinn að slá í gegn á Sirkus og Hljómsveitin Ég búin að heilla Dr. Gunna helsta álitsgjafann í íslensku tónlistarlífi. Spurning hvað er orsök og hvað afleiðing í þessu en svo skemmtilega vill til að ristjóri Bloggs fólksins er umboðsmaður þessara manna. Ef maður á ekki bara eftir að fá fálkaorðuna fyrir umboðsmennsku. Dr.Gunni er búinn að velja "Plötu ársins" með hjómsveitinni Ég eina af plötum fyrri hluta árs þó hún sé enn óútkominn. Þar er Ég í félagsskap Emelíönu, Trabant og fleiri þekktra stærða. Jafnframt er lagið Evrópukeppnin á topp 5 listanum hjá Doktornum þessa vikuna, fyrir þá sem þekkja til rafræns tilverustigs Drs.Gunna. Á vef Doktorsins sem linkað er á hér hægra megin stendur meðal annars:
"Róbert Örn Hjálmtýsson er snillingur og "Plata ársins" með Ég er skemmtileg. Eins og Spilverk þjóðanna á sýru með pönk í rassinum. Platan ku væntanleg og Róbert væntanlegur gestur í Tónlistarþáttinn."
Gangið á Guðs vegum.

Mark og spjald á tíu mínútum hjá Danna
Danni Gísla opnaði í gærkvöldi markareikning sinn í Landsbankanum þetta sumarið. Fyrir þá sem ekki hafa borið tilþrifin augum þá skoraði hann með vinstri fótar skoti fyrir utan teig. Sjaldgæf sjón leyfi ég mér að fullyrða en glæsilega að verki staðið engu að síður. Á sínum tíu mínútum tókst Hálfdáni einnig að næla sér í gult spjald vegna uppsafnaðra brota! og telst það ekki síður merkilegt afrek! Til hamingju með þetta.
Gangið á Guðs vegum.

Duran Duran blaðamannafundurinn með súrasta móti
Mér skilst að blaðamannafundurinn sem Duran Duran hélt hafi verið hreint og beint glataður vegna vanhæfni íslenskra blaðamanna og súrrealískrar kímnigáfu þeirra. Heyrði einhver staðar að Andrea Jóns og einhver Daddi diskó hafi verið sammála um að frammistaðan hafi verið íslenskum blaðamönnum til skammar. Þó beturvitrarar eins og Andrea séu yfirleitt ekki minn tebolli þá er ég nú sammála þessu. Þegar þú hefur takmarkaðann aðgang að Duran Duran í klukkutíma eða svo, þá nennir þú ekki að eyða því í að hlusta á píkuskræki í "blaðamönnunum" Jónsa og Margréti Eir.
Gangið á Guðs vegum.

Duran lifir
Þá er maður búinn að sjá Duran Duran live. Þá er það frá. Annars virðist maður ætla koma ýmsu frá þetta árið, Duran, Alice Cooper, hola í höggi og Humarhátíð svo eitthvað sé nefnt. Sérstök tilfinning að sjá Duran loksins live. Mögnuð stemning þegar þeir tóku gömlu smellina. Það mátti engu muna að ég félli í yfirlið þegar Andy Taylor tók gítarsóló í Planet Earth sem var númer 3 á dagskránni. Hann lét Angus Young líta út eins og götusópara í samanburðinum. Tók eftir því að það er nettur rokkarafílingur í nýja efninu þeirra. Það er hið besta mál. Þetta voru ljómandi fínar tvíbökur, hverrar krónu virði. Jafnframt sýndi undirritaður áður óþekkta fyrirhyggju og var á undan umferðarþunganum báðar leiðir. Og bláedrú sem varla þarf að taka fram ólíkt mörgum öðrum tónleikagestum, ussssssss.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?