<$BlogRSDURL$>

Sunday, January 27, 2008

Orðrétt
"Stundum er sagt að góðir hornamenn geti komið boltanum í gegnum bréfalúgu. Ivano Balic getur farið sjálfur í gegnum bréfalúgu!"
- Adolf Ingi Erlingsson í lýsingu á undanúrslitaleik Króata og Frakka á EM í Noregi.

EM í Noregi#6
Nú lágu Danir ekki í því. En munu sennilega liggja í því í kvöld, þ.e.a.s í Carlsberg og Tuborg. Mörgum þótti merkilegt að Danir skyldu stefna á gullið fyrir keppnina. Málið er bara það að í landsliði Dana er hluti af gullkynslóð þeirra sem urðu að mig minnir Evrópumeistarar í annað hvort 20 ára eða 18 ára landsliði. Mjög heilsteypt lið sem þarf ekki að treysta algerlega á ákveðna lykilmenn. Helst mætti nefna Kasper Hvidt og Michael Knudsen sem erfitt væri að leysa af hólmi. Þeir eiga fjórar rétthentar skyttur og þurftu ekki einu sinni að nota Íslandsbanann Lars Möller Madsen. Ég held að það sé fínt fyrir handboltann að þeir skyldu vinna. Nú er þessi slagari við hæfi.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, January 24, 2008

Orðrétt
"Rosalega get ég verið vitlaus. Stundum á lífsleiðinni hef ég vonast til þess að rekast á endimörk heimsku minnar. En svo blasa sífellt við mér nýjar víddir. Mér og öðrum. Núna álpaðist ég inn á fótboltavefinn ESPNsoccernet þar sem hægt er að fylgjast með framvindu leikja. Þegar leikmenn skjóta á markið birtist nafnið þeirra ásamt tölustöfum innan sviga fyrir aftan, sbr. t.d. Wayne Rooney (60). Ég hélt að þetta væri aldur leikmanna enda er það með þeim hætti í Séð og heyrt, en það er eina blaðið sem ég les hin síðari ár. Það var seinni hálfleikur í ensku úrvalsdeildinni þegar ég kíkti þarna inn. Mér hætti að lítast á blikuna þegar allir skotmenn voru komnir um og yfir fimmtugt og sumir á sjötugsaldurinn. Hápunkturinn var þegar Cristiano Ronaldo (90) skoraði fyrir Manchester United gegn Reading. Nú er mér tjáð, að þetta sé mínútan þegar skotið er eða skorað. Alltaf nýjar víddir."
- Blekbóndinn, Hlynur Þór Magnússon, á bloggi sínu þann 19. janúar 2008.

EM í Noregi#5
Alli er hættur. Svo sem engin furða þar sem maðurinn er í fullu starfi í Þýskalandi. Heldur snautlegur endir á ferli hans sem landsliðsþjálfari þó auðvitað sé ekki útilokað að hann taki aftur að sér starfið síðar. Hvorki hefur gengið né rekið hjá liðinu á mótinu en menn voru orðnir ansi góðu vanir eftir góða spretti á síðustu tveimur stórmótum. Hins vegar eru þjóðirnar sem við töpuðum fyrir allt handboltarisar: Svíþjóð, Frakkland, Þýskaland og Spánn. Það segir þó ekki alla söguna, því þrjú þessara liða hafa oft verið sterkari en einmitt núna auk þess sem allir þessir leikir töpuðust óþarflega stórt. Líklega gengur það ekki að fara inn í mót með svo marga menn í meiðslum og í lítilli leikæfingu. Kannski er hægt að draga þann lærdóm af þessu að skynsamlegra sé að velja þá frekar leikmenn sem eru að spila á fullu og með sjálfstraustið í lagi, þó svo þeir séu lægra skrifaðir á pappírum. Miðað við þetta mót þá sýnist mér stefna í stór vandræði með að fylla þau skörð sem Óli og Fúsi skilja eftir sig, en þess er varla langt að bíða að þeir hætti með landsliðinu. En þrátt fyrir allt þá trúi ég ekki öðru en við séum lang bestir ef miðað er við höfðatölu og hæð yfir sjávarmáli.
Passið ykkur á myrkrinu

Wednesday, January 23, 2008

Orðrétt
"Tveir menn stóðu og horfðu á Kastljós. Þegar ég sá að bróðir minn var gestur í Efstaleitinu slóst ég í hópinn. Eftir svona 30 sek snéri annar maðurinn sér að mér og sagði: "Þetta eru nú meiri helvítis vitleysingarnir" Ég svona hummaði það af mér, sagði bara já finnst þér það. Maðurinn hélt áfram frekar pirraður út í Árna og Sigga og sagði mér nokkrar sögur af Árna. Svo kom að því að hann sá sig knúinn til að segja mér frá stuttbuxnadrengnum Sigurði Kára. "Vissir þú að hann er lögmaður?" Ég sagðist nú hafa einhverja hugmynd um það. Svo bætti hann við: "Þessi maður hefur aldrei unnið erfiðisvinnu, hvorki lyft hamri né spýtu" Ég spurði hann hvort að hann væri nú viss um það - hann hélt það nú. Svo hélt hann áfram: "Drengurinn er fæddur með silfurskeið í munni, ólst bara upp við að hafa allt til alls" Þarna var ég farin að glotta aðeins. Sagði manninum að þetta væri nú ekki alveg rétt, amk ekki samkvæmt mínum heimildum. Maðurinn var nú ekki sáttur við það. Sagðist þekkja vel til. Á þeim tímapunti þótti mér afskaplega skemmtilegt að segja; Hann er nú reyndar bróðir minn!! Maðurinn var hvítur í framan og um það bil á sama tíma og ég hélt að væri að líða yfir hann þá horfði hinn maðurinn á mig og sagði: "já ég sé svipinn" Hann hafði vart lokið setningunni þegar sá óheppni var þotinn út."
- Hafrún Kristjánsdóttir á bloggi sínu þann 21. janúar 2008.

Pressan á lögregluyfirvöldum og dómstólum
Eftir að hafa horft á Kompás þátt gærkvöldsins á visi.is þá sýnist mér að nú sé búið að setja ákveðna pressu á lögregluyfirvöld og dómstóla. Lögreglan hefur kallað eftir því að fólk kæri hótanir um handrukkun og gefið í skyn að hægt sé að vernda viðkomandi fórnarlömb. Nú hefur slíkt verið gert frammi fyrir sjónvarpsmyndavélum og því er pressan nú á löggunni og dómstólum. Þessir aðilar munu verða undir smásjá fjölmiðla í framhaldi þessa máls. Ekki ósvipað og með Hafrannsóknarstofnun sem kallaði eftir því að farið væri eftir þeirra ráðleggingum.

Annað sem ég tók eftir í þættinum var að læknir á bráðamóttöku minnti mig á lækninn í Simpsons sem hlær alltaf á vandræðalegum augnablikum. Læknirinn var í viðtali og brosti alltaf um leið og hann lýsti alvarlegum og ljótum áverkum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, January 22, 2008

Orðrétt
"Það eru aðeins sex sekúndur eftir af leiknum og þessar sex sekúndur verða fljótar að líða"
- Geir Magnússon í lýsingu á leik Frakka og Spánverja á RÚV í dag.

Monday, January 21, 2008

Orðrétt
"Hvað er í gangi, ertu ad tala um handkast á Rúv! Og er þetta konan þín þessi Hanna?"
- Útvarpsmaðurinn Gunnar Sigurðsson í SMS skilaboðum til síðuhaldara í gær.

Henry heim
Segiði svo að það sé ekkert púður eftir í Silfri Egils. Jón Guðs átti í gær einhvern rosalegasta einleik sem maður hefur séð í annan tíma. Kalli Halla Kitta Júll segist upplifa það mjög sterkt í sveitinni á Suðurlandi að Framsókn muni aldrei deyja. En ég held að það sé samt vissara fyrir þá að kalla Þingeyinginn með sixpensarann heim frá Þrándheimi, til að bera klæði á vopnin í Reykjavík. Nýbakaður faðir, Gummi Bjöss, er illa fjarri góðu gamni þar sem hann er í orlofi og gerir það stöðuna enn alvarlegri.
Passið ykkur á myrkrinu.

Kynþokki í EM stofunni
Sagt er að sjónvarpsmyndavélarnar bæti alla vega fimm kílóum á þann sem er í sviðsljósinu. Rétt er að taka fram að í EM stofunni í gær voru fjórar eða fimm slíkar myndavélar í gangi.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, January 20, 2008

EM í Noregi#4
Leikur við Evrópumeistarana á eftir. Síðuhaldari spáir því að Frakkarnir vinni en þar sem hann er nú enginn Nostradamus þá klikkar vonandi sú spá. Mér varð ekki að ósk minni að Einar Hólmeirsson færi í gang í leiknum í gær en vörnin og markvarslan var í fínu lagi og það skiptir mestu máli. Forvitnilegt að sjá hvort Hreiðar fylgi þessu eftir í dag. Takið eftir manninum með slöngulíkamann í hægra horninu hjá Frökkum, Luc Abalo. Hann liðast einhvern veginn fram hjá mönnum. Frábær leikmaður og fínn drykkjumaður.
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, January 19, 2008

EM í Noregi#3
Lykilleikur í dag á móti Slóvökum. Svíadæmið var endursýning á flestum landsleikjum þjóðanna á tímabilinu 1985 - 2005. Nokkuð jafnt í fyrri hálfleik og síðan keyrt yfir Íslendinga í síðari hálfleik. Í dag eiga þetta þó að vera nokkuð jöfn lið. Liðið gerði reyndar í brók gegn Úkraínu í fyrra og vann svo Frakkana sannfærandi í næsta leik. Það er því ekki útilokað að liðið rífi sig upp gegn Slóvökum sem voru betri en maður bjóst við gegn Frökkum. Evrópumeistararnir voru reyndar kærulausir í færunum en engu að síður, þá er greinilegt að það er andi og vilji í þessum Slóvökum. Síðuhaldari kannaðist nú bara við einn leikmanna í því liði, sem er línumaðurinn en hann var keyptur til Ivry á sama tíma og krulli Óskars. Frekar slakur drykkjumaður en ágætur línumaður. Ég vona að grjótkastarinn úr Breiðholtinu láti til sín taka á hægri vængnum í fjarveru Óla Stef. Nauðsynlegt að fá nokkur mörk frá honum á 120km+ hraða.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, January 18, 2008

Síðuhaldari í EM-stofuna
Raggi Ingvars er búinn að vera með undirskriftalista í gangi um að síðuhaldara verði boðið í EM-stofuna. Margir hafa komið að máli við síðuhaldara vegna þessa og hvatt hann til þess að senda tölvupóst á Baldvin Þór Bergsson sem sér um EM stofuna hjá RÚV. Síðuhaldari hefur nú gert það og birtir hér tölvupóstinn sem hann sendi í dag:

"Heill og sæll Baldvin

Nú tel ég að það sé kominn tími á að bjóða kynþokkafullum Bolvíkingi í
EM-stofuna. Það bara verður að koma til móts við landsbyggðina.

Er ég þá að sjálfsögðu að tala um sjálfan mig. Sökum ólæknandi nördisma
get ég boðið þér upp á umfangsmikla þekkingu á frönskum handknattleik en
þeir eru jú ríkjandi Evrópumeistarar. Félagar mínír á Mogganum hafa nú
ekki gert svo lítið grín að því að ég skyldi skrifa heila opnu um Jackson
Richardson síðastliðið sumar. Hef náttúrulega einnig skrifað um deildina
hér heima í mörg ár.

Þar fyrir utan tel ég að sú upplifun að láta sminka sig sé eitthvað sem
allir gagnkynhneigðir karlmenn þurfi að ganga í gegnum.

með góðri kveðju
Kristján Jónsson"

Mínútu síðar barst þetta svar frá Baldvin og er það birt hér án leyfis sendanda:

"Sæll

Ég tek þig á orðinu. Kíktu á mig á sunnudaginn upp úr 4.

Baldvin"

Baldvin Þór Bergsson er hér með orðinn uppáhaldsfréttamaður þessa síðuhalds. Put that in your pipe and smoke it Guðmundur Gunnarsson.

Thursday, January 17, 2008

Foringinn sextugur
Dabbi kóngur er sextugur í dag. Blogg fólksins óskar honum til hamingju.

Wednesday, January 16, 2008

Orðrétt
"Hann gerir góðan mat og mamma er bara nokkuð glöð og ánægð með lífið og nýja kærastann. Það er gott. Gott að mamma sé hamingjusöm en sonurinn hefur svolitlar áhyggjur af nýja pabba sínum. Mamma segir mér að hún hafi kynnst honum í New York. Hún svaf hjá honum í Central Park. Mamma segist hafa áhyggjur, hún heldur jafnvel að hann eigi hvergi heima. Ég hugsa, er hann kannski róni? Kannski á einhver bandarísk kona eftir að koma til Íslands, sofa hjá Tryggva róna í Hljómskálagarðinum og skrifa bók. Kannski ný grein sé að skapast í bókmenntaheiminum. Nei, fjandinn hafi það. Pabbi minn er ekki róni, hann er hattagerðarmaður, trommari, syngur í hljómsveit og eldar magnaðan mat, og hann er kærasti mömmu. Pabbi minn."
- Kristjón Kormákur Guðjónsson, rithöfundur, í magnaðri færslu um bók móður sinnar, á bloggi sínu 22. desember 2007.

EM í Noregi#2
Fyrsti leikur gegn Svíum á morgun. Svíarnir eru byrjaðir með sálfræðitaktík sína þar sem þeir og fjölmiðlamenn þeirra tala um hvað þeir óttast Íslendinga mikið. Það er svo sem engin furða, því þetta hafa þeir alltaf notað á okkur í gegnum tíðina með góðum árangri. Þar til fyrir einu og hálfu ári síðan þegar við unnum báða leikina gegn þeim í undankeppni HM. Ég er ekki einn af þeim sem tel að við EIGUM að vinna Svía heldur lít ég á þetta sem 50/50 dæmi. Ég geri svo sem ekki lítið úr því að núna eigum við meiri möguleika á því að vinna þá heldur en fyrir nokkrum árum þegar þeir vorum einfaldlega nokkrum númerum of stórir. Það hjálpar óneitanlega að Lövgren og Vranjes eru ekki leikfærir og Gentzel er hættur. Af gömlu köllunum þá eru tveir eftir; Thomas Svensson markvörður og Johan Pettersson. Vonandi er lítið púður eftir í Svensson, en ef hann byrjar leikinn á því að verja vel, þá legg ég til að Belli hlaupi inn á og roti hann, og fórni sér þannig fyrir málstaðinn. Það virðist nefnilega vera einhverjar óskráðar reglur hjá handboltahreyfingunni að sænskir markverðir séu í heimsklassa, og þá sérstaklega rétt á meðan leikið er gegn Íslendingum. Varðandi aðra spámenn þá eru Svíar með tvo burðarása hjá Kiel sem er annað af tveimur bestu félagsliðum heimsins. Skyttan Kim Andersson og Marcus Ahlm sem af mörgum er talinn einn allra sterkasti línumaður heims. Einnig eru Svíar með vinstri hornamanninn hjá Ciudad Real, Jonas Kellman. Jonas Larholm er leikstjórnandi sem spilar með Barcelona en ég sá hann spila gegn Haukum í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum. Þá spilaði hann með Savehoff sem Hreiðar spilar með í dag. Þar var Kim Anderson reyndar einnig. Larholm raðaði inn mörkunum fyrir utan með því að koma beint á vörnina. Síðan þá hef ég ekki séð mikið til hans og vonandi verður hann rólegur á morgun.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, January 15, 2008

EM í Noregi#1
Þá er búið að velja hópinn sem fer til Noregs. Þetta er svo sem eftir bókinni. Hefði verið ákjósanlegt að Arnór og Roland væru til staðar, en miðað við öll meiðslin sem hrjáðu hópinn í haust þá er þetta ágætlega sloppið. Síðuhaldari hefur ekki verið með neinar væntingar vegna mótsins, einfaldlega vegna allra þeirra leikmanna sem voru í meiðslum fyrr í vetur. Er hræddur um að þetta verði erfitt þegar leikjaálagið fer að segja til sín. Er sáttur við að Bjarni Fritz fari með þar sem Alex virðist vera með illa farinn ökkla. Meira bit í því sóknarlega að setja þá Bjarna niður heldur en Ásgeir Örn eða Einar Hólmgeirs þó þeir séu betri varnarmenn. Annars er merkilegt að það er enginn leikmaður í öllum hópnum sem er í grunninn hornamaður: Gaui spilaði sem skytta í meistaraflokki með Gróttu/KR og KA, Logi var skytta hjá FH og Hannes leikstjórnandi hjá Val. Hinu megin þá var Alex skytta hjá Gróttu/KR og var Bjarni Fritz skytta í yngri flokkkum hjá ÍR og í meistaraflokki áður en hann fór í atvinnumennsku. Einar Hólmgeirs var skytta og Ásgeir Örn líka.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, January 11, 2008

Munnmælasögur#73
Þó svo að Playstation kynslóðin átti sig ekki á því, þá vitum við gamla fólkið að ekki er ýkja langt síðan að byrjað var að selja roðlaust og beinlaust út í heim. Þegar markaðurinn var farinn að gera kröfu um að fá fiskinn sendan út roðlaust og beinlaust, þá var vitaskuld brugðist við því í Víkinni. Margir af eldri sjómönnunum botnuðu lítið í þessu pjatti hjá útlendingunum og höfðu einnig áhyggjur af kostnaðinum sem þessari vinnslu fylgdi. Skömmu eftir að þessar breytingar skullu á rakst Einar afi á Guðjón Jónsson, sem var einn reyndasti og duglegasti sjómaðurinn í Víkinni á þeim tíma. Guðjón segir við afa: "Merkilegir þessir Kanar. Þeir eru orðnir svo latir, að fyrr en varir þurfum við að fara að tyggja fiskinn fyrir þá líka" !

Monday, January 07, 2008

Hver verður Dúllan 2007 ?
Við áramót virðist vera siður að kjósa fólk ársins í öllum mögulegum flokkum. Skemmtilegasta kosningin er að mínu mati kosningin "Dúllan 2007" sem Konráð Jónsson stendur fyrir. Nokkrir voru tilkallaðir og eftir því sem ég best veit er komið að undanúrslitum keppninnar. Hér er hægt að kíkja á keppendur en síðuhaldari vonar að Sigurður H. Richter taki þetta enda einstaklega mikil dúlla þar á ferð.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, January 06, 2008

Orðrétt
"Við lögðum Dani í eftirminnilegum leik í Danmörku fyrir Evrópumótið árið 2000."
- Adolf Ingi fjallar um landsleik Dana og Íslendinga fyrir Heimsmeistaramótið 1997 í spjalli við Aron og Atla Hilmars í Sportinu á RÚV í dag.

Friday, January 04, 2008

Munnmælasögur#72
Síðuhaldari gerði sér dagamun fyrir jólin og fór á b(ölstofuna). Þar hitti hann gamlan Víkara sem var að undrast hversu mjúkum höndum hefði verið farið um Ólaf Sigurðsson í þessum dagskrárlið. Úr því verður nú snarlega bætt.

Óli Veltir var einu sinni sem oftar að skemmta sér í Sjallanum á Ísafirði með Vesfirsku Gleðipinnunum og höfðu þeir verið að fylgjast með fegurðarsamkeppni. Aldrei slíku vant ákveður Óli að skella sér á barinn og þá gala HáEmm og allir hinir á eftir honum og biðja Óla um að kaupa fyrir sig í leiðinni. Óla leiddist þetta óskaplega og til þess að sleppa við fleiri svona snúninga, þá keypti hann bara tuttugu og fimm stykki af tvöföldum í kók. Drykkjunum var öllum komið fyrir á einum bakka og sá Óli sér þarna leik á borði til þess að gera eins og þjónarnir í bíómyndunum. Kom hann því bakkanum fyrir á traustum fingrunum og hóf bakkann á loft í rúmlega tveggja metra hæð og rölti af stað. Í litlu tröppunum í Sjallanum mætir hann vinkonu sinni sem var í sínu fínasta pússi. Óli þurfti að beygja sig aðeins fram til þess að heyra hvaða ástarorðum hún vildi hvísla í eyra hans. Afleiðingarnar urðu þeir að um leið og hann beygði sig fram, fékk vinkonan um átta glös yfir sig af tvöföldum í kók. Óli er annálaður séntilmaður og lét þetta smáræði ekki slá sig út af laginu heldur sagði strax: "Þetta er allt í lagi -hafðu engar áhyggjur. Ég skal borga glösin" !!

Thursday, January 03, 2008

Áramótaútgáfa Vef-þjóðviljans
Það er orðin hefð fyrir því á þessu annars ágæta bloggi að birta vel valda kafla úr áramótaútgáfu Vef-þjóðviljans:

Yfirlæti ársins:Íslenska landsliðið í fótbolta ofmetnaðist eftir að hafa náð jafntefli við Liechtenstein á heimavelli og steinlá fyrir þeim úti. Enda völlurinn í Vaduz kunn ljónagryfja þar sem meira að segja san-marínóska vélin hefur stundum hikstað.

Sprell ársins: Skemmtilegur strákur á Akranesi plataði Hvíta húsið og var næstum lentur á kjaftatörn við forseta Bandaríkjanna. Íslenskum fréttamönnum þótti þetta mjög skemmtilegt.

Ósvífni ársins: Pörupiltur á Akranesi plataði fréttastofu Stöðvar 2 til að taka viðtal við rangan mann. Þannig eyddi hann dýrmætum tíma fréttamanna, sem eru mikilvægir menn. Fréttamönnum þótti þetta mjög alvarlegt.

Landkynning ársins: Stöð 2 fagnaði því að "milljónir bítlaunnenda" hefðu fengið þau skilaboð frá Yoko Ono, ekkju tónlistarmannsins Johns Lennons, að þeir ættu endilega að fara í heimsókn til Íslands. Bítlaunnendur eru einmitt svo ánægðir með Yoko Ono og framlag hennar til Bítlanna.

Snarræði ársins: Faglegir stjórnendur bresku lögreglunnar gátu naumlega hindrað tvo lögregluþjóna í að bjarga drukknandi dreng úr tjörn. Lögreglumennirnir höfðu ekki lokið viðeigandi námskeiði og höfðu því ekki fullnægjandi fagleg réttindi til að bjarga úr tjörnum. Drengurinn drukknaði að vísu, en verkferlum var fylgt og það er fyrir mestu.

Viðskiptabann ársins: Bandaríska bóksölukeðjan Borders tilkynnti að framvegis yrði hin ógeðfellda bók, Tinni í Kongó, ekki lengur boðin þar til sölu. Viðskiptavinirnir verða þá að láta sér nægja bækur eins og Kommúnistaávarpið og Mein Kampf, sem áfram verða seldar.

Principmenn ársins: Í ljós kom að Stöð 2 hafði þegið fjárstyrk frá álverinu í Straumsvík til að senda út umræðuþáttinn Kryddsíld. Steingrímur J. Sigfússon hafði verið í þættinum og lýsti því yfir að það væri "sérstaklega óviðeigandi" að fá slíka kostun frá "stórfyrirtæki sem stendur fyrir mjög umdeildum áformum". Ögmundi Jónassyni var ekki meira skemmt heldur sagði að slegið hefði verið met "í óskammfeilni og smekkleysu að stjórnmálaforingjar sitji frammi fyrir þjóð sinni í boði Alcan í kjölfar álinnpakkaðrar mútugjafar til Hafnfirðinga."

Fjársafnarar ársins: Á sama tíma barst álverinu bréf þar sem beðið var um fjárstyrk á útgjaldafrekum kosningavetri. Undir bréfið ritaði, fyrir hönd hins áruhreina flokks, Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon.

Áhugamenn ársins: Fréttamenn höfðu nákvæmlega engan áhuga á því að vinstrigrænir leituðu sjálfir eftir fé hjá því sama fyrirtæki og þeir fordæma aðra fyrir að skipta við.

Virðingarröð árins: Morgunblaðið upplýsti að hollenska hirðin hefði þann hátt á, að þar kæmi "Willem-Alexander fram fyrir hönd móður sinnar, Beatrix drottningar, en ekki eiginmaður hennar, Claus prins." – Þetta eru ánægjuleg tíðindi enda væri ekki fallega gert af Hollendingum að draga blessaðan prinsinn fram með konu sinni, nú fimm árum eftir andlát hans.

Refur ársins: Stefán Jón Hafstein nennti ekki að hanga í minnihluta í borgarstjórn og flutti til Malaví.

Fagmennska ársins: Náttúrugripasafn Íslands réði ekki við að geyma geirfugl með öruggum hætti, en fugl safnsins fór illa út úr raka þegar flæddi inn á gólf í safninu. Eins gott að það er auðvelt að fá annan.

Samningsaðilar ársins: Hinn 23. febrúar tilkynnti Hótel Saga að það myndi ekki hleypa umræddu fólki inn á hótelið, þrátt fyrir samning við það um gistingu.

Framlag ársins: Nokkru síðar ákvað hótelið að greiða hópnum nokkrar milljónir króna. En tók skýrt fram að það væru ekki skaðabætur fyrir samningsrof. Greiðslan skoðast því sem frjálst framlag til klámmyndagerðar og sýnir að íslenskir bændur, sem reka hótelið, eru óþreytandi í leit sinni að nýjum búgreinum.

Áramótasilfrið
Meintur tvífari var með áramótaþátt um daginn sem síðuhaldari sá að hluta til. Þrennt sem vakti athygli mína:

- Eins og jafnan um áramót var fólk út í bæ spurt um hitt og þetta sem upp úr stóð á árinu. Stéttarfélagsforinginn á Húsavík las sín svör af blaði.

- Álitsgjafarnir reka sig oft á furðulegar tilviljanir. Ólína Þorvarðardóttir var sú eina sem nefndi þvagprufu á Selfossi sem eftirminnilegan atburð. Sýslumaður þar á bæ er Ólafur Helgi Kjartansson, en hann var sá eini í skólanefndinni á Ísafirði sem greiddi atkvæði með öðrum umsækjanda en Ólínu, þegar hún var ráðinn skólameistari MÍ á sínum tíma.

- Enn eru til menn sem eru með Davíð Oddsson á heilanum í pólitísku samhengi eins og t.d. Hallgrímur Helgason. Spurning um að fara að snúa sér að nýju viðfangsefni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?