<$BlogRSDURL$>

Saturday, May 29, 2004

Ofurtölvan
Skemmtileg frétt á Baggalúti um ofurtölvuna Kristján. Ég verð nú að segja að þeir hafa verið í essinu sínu að undanförnu á þessari snilldarsíðu. Þó tók það mig smá tíma að venjast þeim í útvarpspistlunum, en þeir eru verulega að slípast til þar. Óhætt að mæla með þeim þó spaugið virðist henta þeim betur í ritformi.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Hitabylgja
Skellti mér úr rigningunni í borg óttans í hitabylgjuna í Villta vestrinu í gærmorgun. Er lentur hérna í algeri bongóblíðu og verð yfir Hvítasunnuhelgina, kíki í eina fermingarveislu og svona. Spilaði 18 holur í dag, og mót í Víkinni á mánudag.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, May 27, 2004

Mun Töfting láta finna fyrir sér á EM?
Ekki er öll nótt úti enn varðandi endurkomu Stig Töfting í danska landsliðið. Samkvæmt Mbl í dag þá er líklegt að Töfting verði valinn í EM-hópinn vegna meiðslavandræða á meðal danskra miðjumanna. Það myndi gera keppnina mun skemmtilegri ef Töfting verður með enda algerlega óútreiknanlegur geðsjúklingur. Danir geta því teflt fram einhverju óhugnanlegasta miðjumannapari sögunnar síðan ég og Jón Steinar vorum í 3. flokki, þ.e. Gravesen og Töfting, sem þeir gerðu reyndar á HM 2002. Töfting er víst að spila í Danmörku núna eftir fangelsisvist en það var einhver þjónn að pirra hann og fékk á kjammann fyrir vikið. Gaman væri að heyra frá Hjalta Þór Vignissyni fréttaritara bloggs fólksins í Baunalandinu, um hvernig hugsanleg endurkoma Töfting leggist í Danann.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, May 26, 2004

Blaðamenn og hlutleysið
Eru blaðamenn einhvern tíma hlutlausir? Þessari spurningu hef ég nokkuð verið að velta fyrir, og sennilega er svarið nei. Sjálfsagt hefur það alltaf eitthvað að segja hver skrifar fréttina. Sá ákveður nálgunina á efnið, hvar hann leitar fanga o.s.frv. Þetta er eitthvað sem verður vart umflúið og er það þá á könnu yfirmanna viðkomandi að yfirfara efnið. Ég kannast við það sjálfur sem blaðamaður, að það er ekki ýkja auðvelt að útiloka sínar skoðanir frá viðfangsefninu.

Hins vegar þykir mér það vera orðið óeðlilegt þegar blaðamenn sem fjalla um innlend stjórnmál í skjóli hlutleysis, mæta í löngum bunum niður á Austurvöll til þess að mótmæla frumvarpi sem þeim mislíkar. Þegar þeir eru búnir að mótmæla fara þeir aftur í vinnuna og skýra þjóðinni frá málinu. Svo fara þeir á netið eða í spjallþætti og hvetja fólk til þess að fara á áskorun.is. Þá er aftur haldið í vinnuna til þess að fjalla um áskorun.is og segja frá hve margir hafi nú skráð sig.

Nú er búið að gera könnun, að ósk Norðurljósa, um hversu miklu púðri fréttastofur sjónvarpsstöðvanna hafa eytt í að fjalla um fjölmiðlafrumvarpið. Umsjónarmaður verksins hefur nú tekið það að sér að túlka niðurstöðurnar og er túlkun hans umdeilanleg, miðað við það sem fram kemur í könnuninni og er búið að taka þetta fyrir á Vefþjóðviljanum. En burtséð frá því að þá segir þetta auðvitað ekki alla söguna um meðferð málsins hjá fréttamönnum Stöðvar2. Þó þeir sitji á sér í sjálfum fréttatímanum, þá eru þeir úti um allan bæ að beita sér í málinu. Í spjallþáttum, á press.is og svo mæta þeir í síðdegisútvparp á Bylgjunni og hvetja fólk til þess að fara á áskorun.is. Til að mynda þá bauð Íslenska Útvarpsfélagið öllum M12 áskrifendum í Húsdýragarðinn um daginn. Afskaplega vel til fundið og höfðinglegt, og einnig alveg upplagt til þess að sitja fyrir fólki við innganginn og ota að því undirskriftarlistum fyrir áskorun.is.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, May 24, 2004

Raggi í liði ársins í Frakklandi
Raggi Óskars var valinn í lið ársins í Frakklandi af þjálfurum og leikmönnum deildarinnar eftir frábært tímabil með Dunkerque. Á þeim fjórum tímabilum sem Raggi hefur leikið með liðinu hefur hann þrisvar verið miðjumaður ársins, en hann missti af einu tímabilinu vegna meiðsla. Valið fer þannig fram að landsliðsþjálfari Frakka á hverjum tíma, velur þrjá bestu menn í hverri stöðu og síðan velja leikmenn og þjálfarar hið endanlega lið ársins. Það eru engir slordónar með Ragga í liði ársins: fyrrum heimsmeistarar Frakka; Gueric Kervadec, Stéphane Stoecklin og Gregory Anquetil. Einnig aðal markvörður Frakka Thierry Omeyer og efnilegasti leikmaður þeirra Nikola Karabatic. Blogg fólksins óskar krulla til hamingju.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Saturday, May 22, 2004

And the Reds go marching on...
Rauðu djöfsarnir sýndu smá lit í dag og lönduðu enska bikarnum á sannfærandi hátt enda andstæðingurinn með þeim veikari sem slysast hafa í bikarúrslit. Þetta er kannski smá sárabót eftir tímabil mannlegra mistaka og rangra ákvarðana. Ja sárabót; varla það, meira svona hnésbót, ja varla það meira svona hnésbótarsin kannski. Ronaldo átti skemmtileg tilþrif, en hefði viljað sjá Solskjær spila meira.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, May 21, 2004

Mikilmenni ávarpar þjóðina
Snorri Ásmundsson listamaður hefur dregið framboð sitt til Forseta Íslands til baka, þó hann hafi aldrei farið formlega í framboð, svona tæknilega séð. Líkar mér þetta illa þar sem hann stefndi í að vera langfyndnasti frambjóðandinn. En hann endaði baráttuna á svipuðum nótum og hann hóf hana, er hann ávarpaði þjóðina á heimasíðu sinni og greindi frá því að hann færi ekki fram. Þetta hátíðlega ávarp má nálgast hér.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Liðsstyrkur
Mannlífsflóran á Ísafirði hefur fengið góðann liðsstyrk en vinur minn Pétur Pókus Magnússon mun vera fluttur búferlaflutningum í Hafraholtið, þar sem hann verður Au pair hjá HáEmm. Pétur kann ýmislegt fyrir sér, en auk þess að fara með spilagaldra að þá getur hann farið í splitt og spígat í fullum herklæðum, þ.e. jakkafötum. Blogg fólksins sendir Pésa góðar kveðjur í Vestrið og vonast til þess að hann fari að sjá sóma sinn í því að commenta hér á síðunni.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, May 19, 2004

Pálmi Gests og Bolunga(r)víkin
Pálmi Gestsson frændi minn hefur löngum verið einn helsti ambassador okkar Bolvíkinga í borg óttans. Ég var að lesa athyglisverða grein eftir hann á Víkara þar sem hann fjallar um hvort nafn staðarins sé Bolungavík eða Bolungarvík. Þetta er áhugavert lesefni fyrir Bolvíkinga og áhugafólk um málfar.

Ég man eftir einni skemmtilegri sögu sem Pálmi sagði einhvern tíma og læt hana fylgja með. Eftir að Pálmi var orðinn nafntogaður leikari og farinn að verja flestum stundum sínum í Þjóðleikhúsinu, þá skaust hann einhverju sinni heim til Bolungarvíkur með litlum fyrirvara til að heimsækja ættingja og vini. Er hann kom í bæinn fór hann strax að heimsækja afa sinn og ömmu, Sigurgeir og Möggu, sem ekki vissu af honum í bænum. Er Pálmi heilsaði upp á þau var það fyrsta sem Sigurgeir sagði; "Nei Pálmi minn ert þú hér. Hver er þá að gretta sig fyrir sunnan?"
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, May 18, 2004

Steinerinn í urrandi gír
Maður er nefndur Vésteinn Ingibergsson. Vésteinn þessi er Stjórnmálafræðingur og stundar nú framhaldsnám af kappi við hinn kunna Essex háskóla í Englandi. Vésteinn býr á Vatnsenda en þar var platan Verkstæði Jólasveinanna tekin upp í ró og næði. Talið er að Vésteinn sé kominn í beinan karllegg af Vésteini mági Gísla Súrssonar sem veginn var í skjóli nætur á heimili Gísla. Vésteinn þykir allra manna fróðastur um reiknishlutann í Aðferðafræði I. Vésteinn hefur auk þess getið sér orð fyrir stuðning sinn við Bakkus, Fylki í Árbæ og sósíalisma. Ekki hefur Vésteinn þó verið þekktur hingað til fyrir söng en þó náði ljósmyndari bloggs fólksins þessari mynd af honum á Þorrablóti Íslendingafélagsins í London.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Stormur í vatnsglasi eða Stormur á skeri?
Höfuðmeistarinn og tónskáldið Sverrir Stormsker var í Fréttablaðinu um daginn þar sem hann var spurður út í heimildarmyndina um sig. Ég er búinn að komast yfir það sem hann sagði í Fréttablaðinu í sinni hreinustu og óritskoðuðu mynd. Er það ansi skemmtileg lesning eins og kannski við var að búast, en þar sýnir hann fram á að undarlegur tilgangur hafi legið að baki þessum vinnubrögðum hjá höfundi myndarinnar. Kannski best að láta hér heimspekilegt ljóð úr ljóðabók hans Með ósk um bjarta framtíð fylgja með:
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Hver birgðar maður ber,
reynir í bakkann hver
að klóra.
Í sannleika segi ég þér,
tilgangur lífsins er
að tóra.

Syðridalsvöllur vekur verðskuldaða athygli
Vinur minn Baldur Smári tjáði mér að fjallað væri um Syðridalsvöll Golfklúbbs Bolungarvíkur í nýjasta hefti tímaritsins Golf á Íslandi sem GSÍ gefur út. Blaðinu er dreift til meðlima í öllum golfklúbbum landsins, þannig að þetta ætti að vera góð auglýsing fyrir völlinn og klúbbinn. Miðað við þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa á (á)standi vallarins þá er þessi athygli verðskulduð. Nú þarf að markaðssetja hann frekar sem alvöru strandvöll (links) og skapa honum þannig ákveðna sérstöðu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, May 17, 2004

Miðnæturhugvekjur Magnúsar
Ég spyr hvað í himinháu helvíti hefur forsætisráðherra sem árlega sýgur milljónir útúr ríkiskassa Íslands í laun, er nýbúinn að setja sjálfur lög þannig að hann geti drepist sæll og glaður, spikfeitur og forríkur á kostnað þjóðarinnar; - hvaða efni hefur þessi maður á að ybba gogg og neita að mæta fyrir þingnefnd þó það sé helgi?
Magnús Þór Hafsteinsson Alþingismaður á málefnin.com þann 9. maí 2004 klukkan 24:34.

Það er mikið fagnaðarefni fyrir þjóðmálaumræðu í landinu að Magnús Þór Hafsteinsson skuli vera búinn að endurvekja miðnæturpistla sína á spjallrásinni á málefnin.com. Eitthvað breytti hann um stíl á tímabili og hætti að skrifa á nóttunni, í kjölfar þess að einhverjum viðkvæmum sálum þótti ekki tilhlýðilegt að Magnús segðist á spjallinu vilja sprengja Forseta Alþingis í loft upp. Miðað við skrifin hér að ofan þá virðist þessi fyrrum hlutlausi fréttamaður nú vera kominn í miðnæturgírinn á nýjan leik.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Júróvísa
Horfði á Júróvísu á laugardaginn eins og svo margir aðrir. Keppnin hefur nú oft verið fyndnari en framlag Makedóna stóð þó fyrir sínu, sérstaklega byrjunaratriðið. Jón Jósep kláraði sitt atriði ágætlega og hélt lagi í erfiðu tónunum í lokin. Hins vegar virðist eitthvað hafa skort á landamæratengsl við Balkanskagann í atkvæðagreiðslunni. Spurning hvort við ættum að setja á laggirnar söngvakeppni eyríkja.

Hinn kosturinn er að senda Stormskerið aftur í keppnina en ég tel ekki fullreynt með hann í þessari keppni. Sá reyndar skelfilega illa unna heimildarmynd um meistarann á dögunum og er hún þessum Jónasi Knútssyni höfundi hennar ekki til mikils sóma. Enda hefur það komið á daginn hjá tveimur viðmælendum hans að viðtöl við þá voru sundurklippt til þess að láta Skerið koma illa út. En sem betur fer gerði Jón Vansæll þátt um Skerið í Sjálfstæðu fólki í fyrra, og var það mun skemmtilegra og hlutlausara sjónvarpsefni.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, May 13, 2004

Ferðastyrkur...aðra leiðina
Hinn meðvitaði og þvoglumælti þingmaður Ágúst Ágúst Ágústsson var í léttu spjalli við Fréttablaðið á sunnudaginn, undir liðnum næsti áfangastaður eða eitthvað því um líkt. Ágúst, sem einmitt var kosinn júlí ársins 2003 af vefritinu andriki.is, ljóstraði því upp í spjallinu að hann hefði lengi dreymt um að komast á eyðieyðu. Styð ég þau plön hans fullkomlega og er tilbúinn til þess að leggja mitt af mörkum til þess að draumurinn megi verða að veruleika. Hann fullvissaði reyndar lesendur um að hann stefndi að þessu í nánustu framtíð, og hefði Fíjí til vara ef ekki fyndist hentug eyðieyja.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, May 12, 2004

Landsbankadeildin #3
Þá eru það verðlaunasætin:

1. ÍA
2. FH
3. Fylkir

Rökstuðningur:
Fylkismenn verða sprækir framan af móti en springa á limminu þegar taugarnar fara að segja til sín. Hafa mannskapinn til þess að fara alla leið enda kaupa þeir mest af mönnum á ári hverju, en sálartetrið hjá þeim er í molum. Reyndar með nýjan þjálfara sem leggur áherslu á að spila skemmtilegan bolta.

FH-ingar verða álíka sterkir og í fyrra þar sem þeir fóru langt bæði í deild og bikar. Eiga mikið af sóknarmönnum og eru nokkuð traustir til baka. Eiga að einbeita sér að því að koma boltanum til Heimis Guðjóns sem sér um að mata sóknarmennina. FH mun eiga góða möguleika á titli en ég held að skortur að sigurhefð verði þeim að falli, líkt og Fylki. En eitt er hægt að bóka; FH vinnur alltaf heimaleikinn gegn KR sem núna fer fram í 1. umferð.

Skagamenn skoruðu mörkin en í sumar vinna þeir mótið á góðri vörn og markvörslu. Litlar breytingar síðustu ár sem hjálpar mikið. Hafa hefðina fram yfir FH og Fylki. Sterkir á heimavelli og flestir leikmenn með góða reynslu. Hafa fengið Harald Ingólfs heim sem hjálpar þeim að skapa fleiri færi en í fyrra. En reyndar er lykilatriði að þeirra besti maður Grétar Steinsson verði búinn að jafna sig af hnémeiðslunum. Mér sýnist að Skagamenn hafi réttu mennina í þeim lykilstöðum sem þarf, Þórður í markinu, Gunnlaugur stjórnar vörninni, Grétar inni á miðjunni og Stefán í framlínunni.

Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

X-Baldur
Í dag bættist Baldur nokkur Ágústsson í fríðan flokk forsetaframbjóðenda. Þessar kosningar stefna í að verða bráðskemmtilegar. Þrátt fyrir að Ástþór sé skemmtilegur, og þessi Baldur lofi óneitanlega góðu þá finnst mér samt sem áður Snorri listamaður skara fram úr. Reyndar hefur lítið heyrst frá honum undanfarið en ég geri ráð fyrir að Mogginn eigi eftir að koma með greinaflokka um hann eins og forsetaframbjóðandann Ólaf Ragnar Grímsson. Ástþór passar nú upp á að allir frambjóðendur fái jafna umfjöllun.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, May 11, 2004

Varamanni skipt inn á
Samfylkingin skipti inn á varamanni á dögunum, er Ingibjörg Sólrún tók sæti Guðrúnar Ögmunds (sambýliskonu Halla Pé) á Alþingi. Dag einn sást Guðrún hakka í sig gúllasið í hádeginu í mötuneyti þingsins og um kaffileytið sáust hún og Ingibjörg fara í reyk. Að loknum þeim vinnudegi var tilkynnt að Guðrún hefði veikst af salmonellu. Gott og vel, Guðrún fór sem sagt heim með skitu. En ekki er hægt að segja að henni hafi orðið mjög brátt í brók, því þingmönnum var tjáð að veikindin væru rakin til ferðar hennar í Azerbaijan. Guðrún mun hafa verið þar stödd í október síðastliðinn, og því virðist líkamsstarfssemi hennar ekki eiga sér hliðstæðu. Einhverra hluta vegna hafa þeir fjölmiðlar, sem gjarnan berja sér á brjóst fyrir að veita stjórnmálamönnum aðhald, ekki sýnt þessu máli mikinn áhuga.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, May 10, 2004

Landsbandadeildin #2
Þá eru það liðin í næstu þremur sætum:
4. Keflavík
5. Grindavík
6. KA

Rökstuðningur:
KA liðið hefur haft baráttuna og viljann til þess að hreiðra um sig í efstu deild. Mér finnst þeir líklegir til þess að vera fyrir ofan fallsvæðið. En til þess þurfa þeir að safna stigum á heimavelli og lykilmenn á borð við Dean Martin, Jóhann Þórhalls og Atli Sveinn Þórarinsson verða að eiga gott tímabil.

Grindavík er með nægilega sterkt byrjunarlið til þess að vera í efri hlutanum. Hins vegar er breiddin mjög lítil þetta tímabilið og því mega þeir ekki við neinum áföllum. Sóknarleikurinn stendur og fellur með Grétari Hjartar sem er líklegur til þess að skila um 10 deildarmörkum miðað við vorleikina. Ef þeir verða óheppnir með meiðsli og leikbönn þá verða þeir í fallbaráttu. Þekki Zeljko þjálfara þeirra og hann er mjög hæfur og gæti komið með nýjunar í leik liðsins.

Keflavík verða spútnikliðið í ár, en þrátt fyrir að vera nýliðar þá gera flestir sér grein fyrir því hvað þeir eru með sterkan hóp. Jankovic er örugglega góður þjálfari og liðið spilaði vel í fyrra. Ég á ekki von á því að þeir geri atlögu að titlinum en þeir geta unnið hvaða lið sem er. Mikið af hæfileikaríkum strákum í liðinu sem ég er spenntur að fylgjast með eins og Hörður Sveins og Magnús Þorsteins.

Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, May 07, 2004

Boðflennan #1
Föstudagar eiga að vera skemmtilegir. Það er því alveg rakið að dagskrárliðurinn Boðflennan verði á föstudögum. Eins og fram hefur komið er þar um að ræða gestapenna úr öllum áttum þjóðlífsins. Á vaðið ríður Ólsarinn Gunni Samloka og hefur hann áður verið kynntur rækilega hér á bloggi fólksins. Hér birtist pistill hans eins og hann kom af kúnni enda síðuhaldari ekki hallur undir ritskoðun.
Ég þakka þeim sem lásu og verið hress með Helgu Kress um helgina.
Góðar stundir.

Sæll eilífðarstúdent og takk fyrir fjögur orð í garð síðuhalds míns. Verð þér að segja að þó slíkt teljist ekki til íþróttar, þá varð ég vitni að
svo stórmerkilegum atburði s.l. fimmtudag að ég sé mér ekki annað kleift en að snúa mér enn frekar að Bakkusi. Þannig æxlaðist það að síðuhaldari var staddur í Laugadalnum sér til mikillar undrunar. Samkvæmt skilyrtum hugsunum síðuhaldara þá lá leiðin á bikarúrslitaleik í einhverri íþrótt, jahhh í bezta falli á stjörnuleik Ómars Ragnarssonar í einhverri íþrótt, kannski var jú Flösi Vala og dóttir hans Völt Flasa, hin ítursænska og hástökkshoppari með stöng, í stemningu með Erekki Núll tugþrautarEistanu, Jón Fugli tvíþrautarkappa Breiðabliks, Hóran GrEdda súluhoppari og prikavinur Flösudóttur, á íslandsmeistaramóti ÍR í frjálsum, án atrenu.
Nei minn kæri Bol C vikki (Bolungur! var það landnámsmaður ykkar sveitar)SÍÐUHALDARI varð vitni að einstökum atburð, sem jú...kannski...já..nei, má tengja til íþótta að mati allavega Sammúls Garnar, íþróttafréttakonu Rúf. Íþróttaviðbjóðurinn sem boðið var upp á í höll Lauga Dal var listdans á háum hælum. Samlókur síðuhaldari settis á bekk 41 í 12. röð stúku M og var því nánast fyrir miðju. Eftir dágóða bið tók ég eftir því að meðalaldurinn þarna inni var um 50 ár og síðuhaldari eins og blökkumaður í eggjatýnslugengi LátraBjargsmanna, einn meðal 4000 50 ára gamalla kvenna. Fór þá hrollur um grannan mann. Síðuhaldari missti síðan legvatn þegar stjörnótt hetja kvöldsins steig fram. Mexíkanskur dvergur í háhælum skóm, með sítt hár (eða stutt v/stærðar hans) og magavöfð (sem leit út eins og sexpakki á venjulegum manni um 160 cm).
Kvöldið leið og leið og aldrei hætti mexíkaninn að stinga niður háum hælum sínum hratt í gólfið við undirleik spænskra tónlistarmanna og gaulara. Til að undirstrika smæð mexíkanans þá setti húsvörður hallar Lauga í Dal uppstórskjái sem sýndi dverginn í stækkaðri mynd. Allt ætlaði samt um koll að keyra þegar dvergurinn fór úr að ofan, vegna hitamollu og raka frá 4000 50 ára gömlum konum og einum grönnum síðuhaldara. Og ekki leiddist tittinum uppklapp áhorfenda. Stangaði hann niður háum hælum sínum svo hratt að ógerlegt var að sjá hvort smávaxni dverguxinn í háu hælunum væri í miklu flogaveikiskasti eða gjörsamlega við það að missa saur í buxur sínar (stuttbuxur á venjulegum manni um 160cm). Síðuhaldari finnst þessi íþrótt leiðinleg með eindæmum og ráðleggur smávöxnu fólki að snúa sér frekar úr
hálslið. Kvöldið endaði eins og það einkenntist af...helvítis góli og klappi. Síðuhaldari launar ekki manni sem borðar mikinn ís með ís og lét
það því ógert að klappa fyrir mexíkanska dvergnum, í háhælu skónum, og spænsku ræsisvinum hans. Fyrir þetta missti síðuhaldari af stórgóðum texta í bók stjórntæki stjórnvalda, The Tools of Government (Kynfæri Paul Ince).
Síðuhaldari þakkar fyrir að fá að rista pistil sinn á bjarg Bol c vikkans.
guð gefi mér frið í hjartanu og þökk fyrir stærð sína og val á skóm.
þinn einlægur Samlókur Síðuhaldari

Thursday, May 06, 2004

Spá fyrir Landsbankadeildina #1
Ég ætla að spá fyrir um niðurstöðuna í Landsbankadeild karla í sumar í þremur færslum. Fyrst verða fjögur neðstu liðin birt, svo næstu þrjú og loks þrjú efstu. Svona lítur spáin út fyrir neðstu sætin.

7. KR
8. ÍBV
9. Víkingur
10. Fram

Rökstuðningur:
Framarar hafa verið við það að falla undanfarin ár og það gæti orðið þeirra hlutskipti í ár. Ágætlega mannaðir en breytingar á milli ára eru sennilega of miklar núna, þó Ríkharður og Makan séu góðir. Auk þess skortir stemningu í félagið og í kringum liðið.

Víkingar þurfa að sanna sig í sumar, fáir þeirra leikmanna hafa reynslu úr deildinni. Eiga athyglisverða leikmenn eins og Daníel Hafliða, Daníel Hjalta, Stefán Örn og svo nokkra unga KR-inga. Siggi Jóns er góður þjálfari en hann þarf að kokka eitthvað sérstakt til þess að þetta lið haldi sér uppi.

Miklar breytingar hjá ÍBV liðinu. Hjalti og Ingi eru hættir, Einar Þór og Jón Skapta komnir í staðinn. Lykilmenn eins og Steingrímur og Birkir eru á síðasta snúningi og ég held að liðinu skorti breidd til þess að halda almennilegu dampi. Verða sterkir heima og munu halda sér uppi. Vona að Pétur Run fái eitthvað að spila.

Sennilega eru margir hissa á því að ég spái mínum mönnum í KR fallbaráttusæti. En það er einfaldlega það sem mér sýnist blasa við. Liðið er eins og höfuðlaus her eftir að Móði hætti og sárvantar nýjan leiðtoga. Titillinn í fyrra var tryggður með einstaklingsframtaki örfárra manna og lélegri frammistöðu annara liða. Breiddin er ekki sú sama og áður og ungir leikmenn fá ekki tækifæri nema í vorleikjum enda eru margir þeirra farnir í önnur lið. Veigar, Einar Þór, Þórhallur og Sigursteinn eru farnir, auk þess sem Sigurvin leikur ekki næstu tvo mánuðina. Arnar og Bjarki eru spurningarmerki, bati Hilmars Björnssonar gengur hægt og þannig mætti lengi telja. Jákvætt að fá Bjarna Þorsteins, Sigmund frá Hollandi og ljósið í myrkrinu er að G. Ben er byrjaður að æfa aftur.

Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, May 05, 2004

There's only one Maradona
Argentíska undrabarnið Diego Armando Maradona er skemmtilegur karakter. Hann mun víst vera orðinn spítalamatur á ný samkvæmt erlendum fréttamiðlum. Hann lá á spítala á milli heims og helju í nokkra daga, sleit sig þá lausann úr prísundinni og fór beint út á golfvöll þar sem paparazzar (Dóri Sveinbjörns og fleiri) ljósmynduðu hann í bak og fyrir. Það eru innan við tólf dagar síðan hann útskrifaði sjálfan sig af spítalanum. Kappinn hefur lifað hratt og hátt og verður tæplega langlífur, enda hefur hann lengið verið hallur undir Bakkus og þaðan af verri anda. Eitt af hans furðulegustu uppátækjum (og er þar af nógu að taka) var að skella sér í afeitrun til Kúbu, en þar mun vera hægt að hrasa um ýmsar freistingar þegar kemur að eiturlyfjum samkvæmt heimildum síðuhaldara. Maradona taldi að Fidel Kastró myndi koma hlaupandi um leið og hann myndi lenda á flugvellinum af því að hann er með Che Guevara tattú á skrokknum á sér.

Það mun víst vera til sérstök Maradona kirkja í Argentínu þar sem meðlimir leggja stund á sérstök trúarbrögð tengd hans persónu. Einhverjir Íslendingar eru þar skráðir og kæmi mér ekki á óvart ef ÍR-ingurinn Robbi Hjálmtýs kunningi minn væri þeirra á meðal. En hann notar yfirleitt nafnorðið Maradona sem lýsingarorð um þá sem honum finnst skara fram úr í einhverju. Ég hef alltaf haft gaman af óvenjulegum karakterum sem skera sig úr hópnum með undarlegri hegðun, eins og Maradana, Georgie Best, Tyson, Rodman og Finna Jóhanns.

Ég gleymi aldrei þegar ég sat 9 ára gamall fyrir framan sjónvarpið og sá Maradona sóla sex landsliðsmenn Englendinga og skora í 8 liða úrslitum á HM í Mexíkó 86. Þá ákvað ég að ég ætlaði líka að verða feitur þegar ég yrði stór.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, May 04, 2004

Éljasamt inn til landsins
Það snjóar í borg óttans í þessum skrifuðu orðum. Snjókoma utandyra og Aðferðafræði innandyra. Lífið gerist ekki mikið sveittara en þetta. Að loknu Aðferðafræðiprófinu á föstudag mun ég kynna stefnumótun mína um tölustafalaust menntakerfi sem ber nafnið "Ekki reikna með mér." Megin markmið þess er að forða heilbrigðu fólki frá óþarfa stærðfræði og þessa háttar heilabrotum. Áhugasömum um stærðfræði verður væntanlega ekki bjargað úr þessu og þeim verður heimilt að velja sér Aðferðafræði og önnur leiðindi ef þeim sýnist svo. Varðandi sjálfan mig þá tel ég mig hafa toppað of snemma í stærðfræði. Allar götur síðan að ég fékk 10 í stærðfræði hjá Betu í 4. bekk Grunnskóla Bolungarvíkur hefur reikningsleiðin legið hægt en örugglega niður á við.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Gestapenninn
Ágætu lesendur. Nú hyggst blogg fólksins færa út kvíarnar og bæta nýjum dagskrárlið við síðuna. Hann mun bera nafnið "Boðflennan" þar sem útvöldum góðborgurum og þekktu fólki í þjóðfélaginu verður boðið að stinga niður penna á síðunni. Er að gera mér vonir um að liðurinn verði uppfærður á um það bil tveggja vikna fresti, þangað til ég verð farinn að ganga illilega á kunningjahópinn. Fyrsti pistillinn hefur skilað sér í hús og verður hann birtur á næstunni. Það fer vel á því að mentor minn í stjórnmálafræðinni og herbergisfélagi í Brusselferðinni, Gunnar Samloka Sigurðsson frá Ólafsvík, ríði á vaðið í þessum nýja dagskrárlið. Gunnar er penni góður og margrómaður fyrir hnittni sína og kímnigáfu þar sem hann á giftusaman feril að baki sem uppistandari. Hann hefur látið til sín taka í heimasíðubransanum og er auk þess á meðal okkar lærðustu manna, en hann leggur nú stund á mastersnám í opinberi stjórnsýslu. Ég ráðlegg lesendum að fylgjast vel með þessum dagskrárlið og vona að hann muni leggjast vel í mannskapinn.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Eiríkur Hauksson finnur fjölina
Ég hef haft afskaplega gaman af upphitunarþáttunum fyrir Eurovision svo ekki sé meira sagt. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með þessu úrvals sjónvarpsefni, þá er þetta eitt af þessum sígildu samnorrænuverkefnum. Þarna eru samankomnir eurovisionsérfræðingar frá Norðurlandaþjóðunum að Færeyjum undanskildum. Og fulltrúi Íslands er enginn annar en rauðhærða undrið Eiríkur Hauksson sem tjáir sig reiprennandi á skandinavisku, enda búinn að taka þátt fyrir Noreg í keppninni auk Íslands. Í þáttunum er sýndur bútur úr öllum lögunum og sérfræðingarnir meta möguleika þeirra. Síðasti þátturinn er á laugardaginn og þá verður íslenska lagið meðal annars tekið fyrir. Ég bíð spenntur þar sem hreinskilnin hefur ráðið ríkjum í þáttunum hingað til, og þar er Erik Hawk enginn eftirbátur hinna. Ef ekki er rokk and rol í laginu og enginn með sítt hár í leðurjakka í myndbandinu, þá svívirðir hann viðkomandi lag og alla sem frá því landi koma.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?