<$BlogRSDURL$>

Friday, March 31, 2006

Stórfréttir á fasteignamarkaði
Við rjúfum nú dagskrá Bloggs fólksins til þess að flytja ykkur stórfréttir af íslenskum fasteignamarkaði. Laust eftir hádegi í dag festi sveitarfélagið Borgarbyggð kaup á eigninni Brákarbraut 11a, sem stundum hefur þekkt undir nafninu "Skókassinn" og enn oftar undir nafninu "Hjallurinn". Seljandi er enginn annar en wannabe Bolvíkingurinn, Orri Örn Árnason frá Hjalli. Samkvæmt heimildum Fasteignasjónvarpsins hefur verð eignarinnar hækkað um rétt tæp 100% í höndum athafnamannsins örfhenta, sem þáttakendur á markaði telja hæfilegt ef mið er tekið af öllum skemmtisögunum sem þessi fasteignakaup hafa látið eftir sig. Við þetta tækifæri er rétt að rifja upp orð stolts eiganda í byrjun júní síðastliðinn, er síðuhaldari og Doddi Tangó fengu grand tour hjá honum. Eigandinn stóð þá sigri hrósandi, ber að ofan í jogging buxum með hárblásara sem hitaveitu, og mælti þessi ódauðlegu orð: "Strákar þetta hús á eftir að gera mig ríkann" ! Eins og annað sem Orri hefur lofað þá hefur þetta staðið eins og stafur á bók og rétt að óska honum til hamingju söluna. Um leið er við hæfi að síðuhaldari éti ofan í sig allar háðsglósurnar með bestu lyst, enda veitir honum ekki af aukaforða. Sögunni fylgja reyndar öllu sjokkerandi fréttir, en til stendur hjá bæjaryfirvöldum að rífa eignina. Það er því rétt að benda lesendum á að koma við á Brákabraut 11a ef þeir eiga leið hjá, og bera húsið augum áður en það er um seinan. Þið spyrjið bara á bensínstöðvunum hvar Hjallinn sé. En að endingu getur maður ekki annað en vitnað í Kaupfélagsstjórann á Ísafirði: "Hver eeer þessi Orri?"
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 30, 2006

Orðrétt
"Keppnin í tvíliðaleik karla verður án efa mjög skemmtileg enda mörg sterk lið skráð til leiks. Íslandsmeistararnir frá því í fyrra, Broddi Kristjánsson og Helgi Jóhannesson, fara þar fremstir í flokki ásamt Nyrði Ludvigssyni og Magnúsi Inga Helgasyni sem hafa unnið flest mótin hér heima í vetur. Einnig verða að teljast mjög sterkir þeir Sveinn Logi Sölvason og Tryggvi Nielsen en þeir hafa unnið fjóra Íslandsmeistaratitla saman í tvíliðaleik. Þorsteinn Páll Hængsson og Orri Árnason eru einnig par sem gæti komið á óvart en Þorsteinn Páll hefur fimm sinnum hampað Íslandsmeistaratitli í tvíliðaleik karla."
- Frétt á Badminton.is í dag.

Wednesday, March 29, 2006

Vissir þú.....?#6
Vissir þú að bók Ólafs Teits Guðnasonar: Fjölmiðlar 2004, fékk hvergi ritdóm opinberlega nema í tímaritinu Þjóðmál? Getur verið að hinir faglegu íslensku fjölmiðlar hafi sniðgengið bókina einmitt vegna þess, að hún er safn pistla Ólafs úr Viðskiptablaðinu, þar sem fjallað er á gagnrýninn hátt um vinnubrögð í íslenskum fjölmiðlum? Fjölmiðlar 2005 mun vera væntanleg og þá fá íslenskir fjölmiðlar annað tækifæri til þess að minnast eitthvað á pistlana, þó ekki væri nema rétt aðeins.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 28, 2006

Kynþokki í EG ættinni
Já það er ekki að sökum að spyrja. EG ættinni hefur tekist að troða sér inn í val á kynþokkafyllsta manni Vestfjarða. Á meðal þeirra fimm kyntrölla sem tilnefnd eru af lesendum BB, er enginn annar en Guðfinnur Ólafur Einarsson, sem er titlaður ráðherrasonur. Er þetta spurðist út ákvað Guðfinnur að fara úr landi með fjölskyldu sína á meðan mesti móðurinn rynni af aðdáendum hans, en alþekkt er að kynþokkafyllsta fólk landsins verði fyrir ýmis konar ónæði. Síðasta sást til Guðfinns á spjalli við Herra Jón Friðgeir og Frú Margréti í Leifsstöð og talið er að hann hafi ætlað að láta sig hverfa í fjöldann í Lundúnum, ásamt því að taka að sér gæðamat á fiskmarkaði í Grimsby. Blogg fólksins náði þó tali af Guðfinni eftir ítrekaðar tilraunir og vildi hann sem minnst gera úr tilnefningunni, en hafði þó þetta um málið að segja: "Kynþokki er mjög greinilega mjög afstætt concept(tekið úr engilsaxneskri tungu, innskot síðuhaldara) og margar breytur sem hafa áhrif á hann. Efast þó um að grófur þokki minn hafi verið ástæða tilnefningarinnar", sagði Guðfinnur af stórmannlegu lítillæti. Spekingar telja að Guðfinnur sé afar sigurstranglegur í kjörinu en heyrst hefur að smölunarmaskína Bolla Thoroddsen sé farinn að setja sig í stellingar auk þess sem karlmenn í EG ættinni hafa löngum þótt öðrum fremri í útliti og atgervi.
Passið ykkur á myrkrinu

Monday, March 27, 2006

Sperning
Á þessari síðu eru sjaldnast sperningar eða getraunir. Í tilefni mánudags ætla ég að skella inn einni fótboltasperningu fyrir fótboltafíklana sem lesa þessa síðu. Árangurstengd verðlaun gætu verið í boði fyrir rétta aðilann. Víðir Sigurðsson blaðamaður á Mogganum er gjarnan nefndur til sögunnar sem helsti sparkspekingur landsins, enda höfundur bókanna um íslenska knattspyrnu. Með hvaða liði heldur þessi geðþekki sérfræðingur í enska boltanum? Rétt svar leynist í einum af valmöguleikunum hér að neðanverðu:

a) Arsenal
b) Aston Villa
c) Chelsea
d) Derby County
e) Ipswich Town
f) Liverpool
g) Manchester United
h) Nottingham Forest
i) Tottenham Hotspur
j) West Ham United

Svörum er hægt að skutla inn á commentakerfið á mettíma.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, March 26, 2006

Ný grein
Síðuhaldari var eitthvað að þenja sig á vefnum Hugsjónir. Raunar hefur verið óskað eftir því að síðuhaldari þenji sig þar reglulega. Eftirspurnin er til staðar en það er spurning með framboðið. Ætla að sjá til, maður er orðinn svo rólegur í þessu í ellinni.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, March 24, 2006

Fyrsta landslið Alla Gísla
Alfreð Gíslason er búinn að velja sinn fyrsta landsliðshóp, 20 manna hóp sem á að undirbúa sig fyrir Svíaleikina í júní. Alfreð velur krullhærðan Breiðhylting, Ragnar nokkurn Óskarsson, sem stóð sig vel á videocamerunni hjá Gumma Gumm. Einnig er í hópnum samstarfsmaður skáktöffaranna Magnúsar Pálma og Gumma Daða: Sverrir Björnsson. Reiknað er með að þeir kenni honum Sikileyjarvörn til þess að eiga við Svíana. Hún felst fyrst og fremst í hótunum á líkamsmeiðingum að hætti ítölsku mafíunnar sem á rætur á Sikiley. Annars er ekki margt óvænt í þessu hjá Alfreð eins og er, en spurning hvernig hann sker hópinn niður þegar þar að kemur.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 23, 2006

Orðrétt
"Eins og dyggir lesendur Tíkarinnar vita þá er Össur Skarphéðinsson alþingsmaður einn helsti talsmaður vefritsins og annað veifið beinir hann skrifum sínum í átt til okkar tíka. Fögnum við að sjálfssögðu allri athygli sem hann beinir að síðunni okkar.Í kjölfar pistils Össurar á ossur.hexia.net vill ritstjórn Tikin.is fullvissa Össur um að hann þarf ekki að segja brandara um að ná ekki í sætustu stelpuna til að við skrifum álnarlanga dálka um hann. Það er í raun alveg nóg að hann sé í Samfylkingunni.
Ritstjórn finnst rétt að taka fram að henni þykir samlíking formanns Sjálfstæðisflokksins vissulega óheppileg en þó hjákátleg. Ritstjórn Tikin.is telur engan veginn að þetta framlag endurspegli viðhorf formannsins til kvenna og hvað þá stöðu þeirra innan Sjálfstæðisflokksins, við þekkjum okkar jafnréttissinnaða (for)mann.
En þar sem langt er síðan álnarlangur dálkur hefur birst um Össur hér á Tíkinni þá býður ritstjórn Össuri að vera næsti gestapenni vefritsins. Við bíðum spenntar eftir svari frá alþingsmanni Samfylkingarinnar."
-Ritstjórn Tíkarinnar á www.tikin.is.

Wednesday, March 22, 2006

Munnmælasögur#45
Maður er nefndur Halli Mello og er trúbador og leiklistarnemi. Þessi geðþekki Skagamaður er haldinn ólæknandi fóbíu fyrir tannlæknaheimsóknum. Þetta vandamál er ekki óalgengt og því hafa forsjálir tannlæknar komið sér upp hjálpartækjum til þess að róa þá viðskiptavini sína sem líður hvað verst. Eitt sinn þegar Halli varð að komast til tannlæknis þá tjáði hann tannlækni sínum frá vandanum. Hún sagðist vera vön slíkum málum og lét hann hafa þessar fínu kæruleysispillur sem hann átti að taka hálftíma fyrir aðgerðina. Þar sem Halli var viss um að fóbía sín væri meiri en gengur og gerist, þá tók hann tvær svona til öryggis, þó svo fagmaðurinn hafi sagt honum að taka bara eina. Þegar frá líður er Halli farinn að ganga um golf, kófsveittur af stressi því töflurnar höfðu akkúrat engin áhrif, að honum fannst. Hann skellti því þeirri þriðju í sig, svona til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig. Hér er rétt að skjóta því inn að Halli Mello er ekki óreglumaður eða mikill pillugleypir. Skemmst er frá því að segja að hann man ekki eftir þessari tannlæknaferð. Þegar hann ráfaði fram úr tannlæknastólnum bannaði ritarinn honum að keyra heim og hringdi í konuna hans og lét sækja manninn.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 21, 2006

Stormskerið fíflaði Hér og Nú
Tónskáldið Sverrir Stormsker fíflaði Hér og Nú hressilega á dögunum. Þetta virðulega blað setti sig í samband við hann þar sem þeim fannst hann lítið hafa sést á klakanum undanfarið. Þeir þóttust vita að hann væri erlendis og vildu endilega vita hvar. Ekki stóð á svarinu hjá Storminum sem sagðist vera í Kína að kaupa hurðir og væri kominn með kínverska kellingu. Þessu var vitaskuld slegið upp sem viðtali og með tilvísun á forsíðu svo ekkert færi á milli mála. Viðtalið var stórskemmtilegt að mér skilst, sérstaklega í ljósi þess að Stormurinn er alls ekki í Kína og þaðan af síður með kínverska kellingu og enn síður að kaupa hurðir. Svona hrekkir eru hressandi. Ljómandi fínar tvíbökur.
Passið ykkur myrkrinu.

Monday, March 20, 2006

Speki úr byggingabransanum
Gamla settið er í bænum. Ásgeir og Ása skírðu Ásgerði Margréti í gær og svona. Á móti íbúðinni á Grandaveginum er verið að rífa Lýsisfabrikuna. Pabbi hefur verið að virða þetta fyrir sér og þykir verkið ganga bæði seint og illa. Helvítis jólasveinar í þessari sódómu fyrir sunnan, hugsar hann sennilega. Búið er að rífa töluvert af húsinu að neðanverðu. Þá lét gamli byggingameistarinn þetta falla: "Ég þurfti nú oft að rífa hús í gamla daga. Þá þótti betra að byrja á að rífa það að ofan verðu svo það myndi ekki hrynja ofan á mann." Nokkuð til í því.
Passið ykkur á myrkrinu.

Ástand í bloggheimum
Nú er bleik brugðið. Þessi bloggsíða hefur verið dáðasta afkvæmi blogspot fyrirtækisins sem réði ekki við álagið, með þeim afleiðingum að varla hefur kjaftur komist inn á síðuna undanfarna daga. Tæknilegur Guðfaðir síðunnar; Baldur Smári Einarsson, tók svo í taumana í dag og hringdi í höfuðstöðvar Blogspot í Hong Kong. Baldur, sem jafnframt eru endurskoðandi Blogspot fyrirtækisins, setti fyrirtækinu afarkosti og kippti fyrirtækið málunum í liðinn hið snarasta. Siðan er því í lagi sem stendur og við skulum vona að hún haldi. Guð láti gott á vita.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, March 17, 2006

Orðrétt
"Afskaplega ánægður. Nú hlakkar mig til prófa."
Valdimar Gunnarsson ÍSLENSKUKENNARI við Menntaskólann á Akureyri í fréttum Stöðvar2 í gærkvöldi.

Thursday, March 16, 2006

Glitnir
Fólk virðist hafa voðalega miklar og sterkar skoðanir á því að Íslandsbanki breyti um nafn. Ég sef nú alveg jafn fast og fyrr eftir nafnbreytinguna. Það kom víst til greina að hafa andlit bankans í lógóinu, þá Hálfdán Gíslason og Lárus Pál Pálsson, en þeir voru víst uppteknir í annari myndatöku. Var samt frekar hissa þegar ég fékk þennan geisladisk frá þeim því ég minnist þess ekki að hafa átt í viðskiptum hjá þeim. Fengu sem sagt öll heimili diskinn frá þeim? Annars var þetta frekar kómískt á stöð2 um daginn. Ég sat í sakleysi mínu og horfði á fréttir þegar Brynhildur horfir alvarleg í myndavélina og segist ætla að skipta snarlega yfir á Hauk Hólm sem staddur sé í Háskólabíói. Haukur var mjög hátt stemmdur og tilkynnti að rétt í þessu hefði verið tilkynnt um nýtt nafn Íslandsbanka. Við blasti Bjarni Ármannsson á sviðinu, með nýja lógóið í baksýn, fullan sal af klappandi fólki og Beautiful Day með U2 í botni! Það var eitthvað mjög súrt við þessa sjón. Ætla rétt að vona að barinn hafi verið opinn.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 14, 2006

Munnmælasögur#44
Blogg fólksins hefur ákveðið að koma til móts við alþjóðavæðinguna og vera í fyrsta skipti með munnmælasögu sem gerist á erlendri grundu. Hún hefur reyndar birst í fjölmiðlapistli hjá Óla Teiti, en skítt með það, þeir eru hvort eð er alltof lítið lesnir.

Í upphafi árs 2005 voru hin ýmsu tímarit að velja hitt og þetta sem merkilegt þótti á árinu 2004. Eitt af þessum tímaritum var Time magazine, sem valdi Bandaríska hermanninn "mann ársins 2004". Til þess að árétta að nú væri ekki verið að velja einn ákveðinn úr herbúðunum þá voru þrír hermenn á forsíðu blaðsins ásamt fyrirsögn sem vísaði í valið. Stjórnandi morgunsjónvarps NBC sjónvarpsstöðvarinnar, Katie Couric, mætti útþaninn af rétttrúnaðarsjónarmiðum á skrifstofu blaðsins og tók viðtal við ritstjórann í beinni. Í útsendingunni horfði Couric rannsakandi á forsíðu blaðsins sem lá á skrifborðinu fyrir framan þau. Benti síðan á myndina og spurði ásakandi: "Hvers vegna er enginn kona á myndinni?" Ritstjórinn hikaði örlítið við þessa spurningu, benti síðan á einn hermanninn á myndinni og sagði varlega: "Jaaa, þetta er kona." Úúúppppssssss!

Sunday, March 12, 2006

Orðrétt
„Jú það er rétt, við vorum rétt að ljúka þessu. Síðasta verkið var að skipta ljóðunum út fyrir þýdd sérfræðirit um munalosta,“ sagði Albert Másson, bókasafnsfræðingur en hann hefur haft yfirumsjón með klámvæðingu Þjóðarbókhlöðunnar, sem staðið hefur yfir í rúm tvö ár. Alls hefur þá verið skipt út ríflega 230.000 titlum af alþjóðlegum fræðiritum, skáldsögum, námsritgerðum og þjóðlegum fróðleik fyrir efni sem samkvæmt grófri stöðlun menntamálaráðuneytis flokkast sem 'stílfærð túlkun á mökunarháttum og kynbundnu atferli æðri spendýra hvort heldur er í máli eða myndum', eins og það er orðað. Breytingarnar hafa mælst vel fyrir og hafa meir að segja tvö ný bókasafnskírteini verin gefin út í vikunni, en það er u.þ.b. 100% aukning frá árinu 2005."
-Baggalútur þann 8. mars 2006.

Ljóðahornið Mósaíksglugginn#10
Aldrei hefði ég trúað því að þessi dagskrárliður næði tíu uppfærslum. Þetta kvæði orti Ásbjörn Morthens fyrrum starfsmaður JFE (að eigin sögn). Þetta er birt í tilefni af umræðu um fegurðarsamkeppnir og kynþokka á Vestfjörðum og er að sjálfsögðu gert með góðfúslegu leyfi eigandans: Sjóvá.

" Úngfrú Heimur heilsar þér,
í Heimsmynd sendir þér uppskrift af sér.
Strákarnir frjósa og finna þá kvöð,
falla fyrir mýtunni, standa í röð.
Skapar fegurðin hamingjuna?"

Thursday, March 09, 2006

Orðrétt
"þið ætlið að kenna okkur í dag hvernig maður á að bregðast við ef maður kemur að einhverjum sem hefur drukknað“.
-Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir í Kastljósinu í gærkvöldi.

Skapar fegurðin hamingjuna?
Það er kunnara en frá þurfi að segja að síðuhaldari hlaut glæsilega kosningu sem "Herra skólans" á sal Grunnskóla Bolungarvíkur vorið 1992. Þótti síðuhaldari vel að titlinum kominn en kjósendur höfðu sætt færis og greitt honum atkvæði sín eftir að Raggi rúsína var útskrifaður. Úngfrú skólans var Una frænka mín sem síðar lagði allt í sölurnar og keppti í Ungfrú Vestfirðir. Ástæða þess að þetta er nú allt saman rifjað upp á þessari virðulega bloggsíðu er sú að á undanförnum dögum skóku tvær fréttir Vestfjarðakjálkann. Sú fyrri er sú staðreynd að ekki verður keppt í fegurð á meðal vestfirskra kvenna þetta vorið. Í beinu framhaldi kom svo frétt þess efnis að bb.is ætli að standa fyrir vali á þeim vestfirðingum sem þykja standa öðrum framar í kynþokka. Ekki veit ég hver ástæðan er fyrir því að Fegurðarsamkeppnin hefur verið lögð niður en líklega þykir vestfirskum konum þetta vera full hallærislegt fyrir sinn smekk. Hvort fólki þyki kynþokkavalið vera heppilegra veit ég ekki en kalt mat síðuhaldara er að hann og Una hljóti að vera þar sigurstrangleg vegna fyrri afreka. Það fréttist meira að segja af Unu í ræktinni á dögunum þannig að líklega ætlar hún sér stóra hluti. Nú þýðir hins vegar ekkert fyrir síðuhaldara að bíða eftir því að Raggi rúsína útskrifist, og það gæti því orðið við rammann reip að draga.
Passið ykkur á myrkrinu.

Orðrétt
„Komi maður að manneskju sem hefur drukknað er mikilvægt að bregðast hratt og rétt við.“
-Þórhallur Gunnarsson í Kastljósinu í gærkvöldi.

Horfur í "Meistaradeild"
Nú eru níu lið eftir í hinni svokölluðu Meistaradeild, þó svo að um helmingur þeirra séu ekki meistarar. Nú ætlar síðuhaldari að sleppa spádómsgáfunni lausri og spá Juventus sigri. Til vara þá spái ég því að Lyon komi á óvart og vinni þessa keppni. Síðuhaldara finnst Thierry Henry góður í fótbolta. Þessi Ronaldinho er eins og flóðhestur í samanburðinum við Henry. Magnús Pálmi sérfræðingur og umboðsmaður Nasdaq sagði við mig fyrir 16-liða úrslitin að það væri ekki nóg að vera með Henry frammi og tíu lélega fyrir aftan hann. Það reyndist rangt. Henry er nóg. Þetta minnir mann svolítið á þegar íslenska landsliðið í körfubolta leikur listir sínar: Ef andstæðingarnir tefla fram manni sem er hærri en 2,15 þá er leikurinn tapaður. Fyrir þá sem misstu af mörkunum í 16-liða úrslitunum þá bendi ég lesendum á að kíkja á sigurmark Juve gegn Bremen.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, March 08, 2006

Orðrétt
"Árni Magnússon hefur ákveðið að láta af embætti félagsmálaráðherra til að einbeita sér að flokkun handritasafns síns. Hann sagði í samtali við fréttamenn í gær að stjórnmál væru „heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti“. Það væri hann ekki lengur og vildi hann því víkja fyrir framtíðarmanni sem væri „fullur eldmóði“ og myndi gefa sig allan í baráttuna. Við starfi hans tekur Jón Kristjánsson."
-Vef-þjóðviljinn mánudaginn 6. mars 2006.

Tuesday, March 07, 2006

Bolungarvik.is
Ég verð að lýsa ánægju minni með hvernig til hefur tekist við útfærslu á vef Bolungarvíkurkaupstaðar; www.bolungarvik.is. Ég held að þetta hafi verið mjög smekklega unnið og hann virðist ætla að verða töluvert mikið uppfærður. Hins vegar er spurning hver þörfin verður fyrir Víkara.is í framhaldinu. Maður er nú víst stofnandi í áhugamannafélagi sem setti Víkarann á koppinn. Reyndar finnst mér margt í nýja Bolungarvíkurvefnum svipa til þátta sem ég setti fram í einhverri þarfagreiningu hér um árið, en hún var að mig minnir vegna framtíðar Víkara.is frekar en Bolungarvíkur.is nema hvort tveggja sé. Baldur yfirritstjóri man þetta kannski betur.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 06, 2006

Beggi Óla í Vasagöngunni
Sé ekki betur en að Beggi Óla félagi minn (Jakob Falur II) hafi sloppið lifandi frá Vasagöngunni. Þannig er mál með vexti að Beggi hafði aldrei stigið á gönguskíði á ævinni þegar hann ákvað fyrir 4-5 mánuðum að skella sér í Vasagönguna. Ísfirðingurinn Danni Jakobs hefur þjálfað hann fyrir dæmið. Ég sé ekki betur en að kappinn hafi klárað gönguna þó hann hafi ekki stigið oft á gönguskíði. Síðuhaldari tekur lyklaborðið ofan fyrir Begga að þessu tilefni en Vasagangan er 90 km.
Passið ykkur á myrkrinu.

Alli Gísla ráðinn
Síðuhaldari er sáttur við ráðningu Alfreðs Gíslasonar sem landsliðsþjálfara í handkasti. Miðað við árangur hans í Magdeburg þá er hann einn sigursælasti þjálfari sem Íslendingar hafa átt. Gott að fá mann með svona reynslu og sjálfstraust fyrir Svíaleikina. Það verður magnað að mæta Svíum í seinni leiknum á þjóðhátíðardaginn og vinna þá í fyrsta skipti síðan Egill Skallagríms og Gunnar á Hlíðarenda voru í vörninni. Alli ætti líka að geta náð upp ákveðinni stemningu í kringum liðið, fá meira fjármagn inn í HSÍ og þess háttar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 02, 2006

Umræðustjórnmálin að taka á sig sérkennilega mynd
Hinir og þessir völdu um daginn hver yrði borgarstjóraefni Samfylkingar og óháðra (hverjir sem það nú eiga að vera) í vor. Ekki verður það sitjandi borgarstjóri heldur Dagur Bergþóruson Eggertsson. Hann felldi léttilega sitjandi borgarstjóra og sýndi þar með styrk sinn meðal félagshyggjufólks. En auðvitað fór engin umræða í gang um að þetta væri áfall fyrir konur, hlutur kvenna væri rýr eða Reykjavík kölluð Karlavík. Eins og við vitum þá eltast íslenskir fjölmiðlar ekki við svoleiðis umræðu þegar kemur að prófkjörum, því þeir vita að heppilegast er að velja hæfustu einstaklingana frekar en að velta fyrir sér hvort af hvaða kyni frambjóðendur eru. Reyndar hafa þó fjölmiðlar farið í miklar vangaveltur um hlut kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, Ísafirði, Akureyri og Seltjarnarnesi. En það hljóta þá að vera merkilegri viðburðir en að sjálfur borgarstjórinn hafi tapað fyrir karlpungi.

Dagur lét meðal annars hafa eftir sér að hann gæti ekki beðið eftir því að takast á við oddvita Sjálfstæðismanna enda nútímalegur umræðustjórnmálamaður. Eitt af hans fyrstu verkum sem oddviti Samfylkingar og óháðra var vitaskuld að neita því að mæta oddvita Sjálfstæðismanna í umræðum um lóðó í Kastljósi mánudagskvöldið 24. febrúar. Í hans stað var sendur Don nokkur Alfredo sem hefur nákvæmlega ekkert með kosningarnar í vor að gera enda á útleið úr borgarpólitík. Ég hef ekki orðið var við að Ríkissjónvarpinu hafi fundist þetta neitt tiltökumál þó svo að Dagur væri formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og lóðarí þeirra brynni verulega á fólki Þegar uppáhaldsmiðill Dags, Fréttablaðið, leitaði til hans þá stóð hins vegar ekki á okkar manni að ræða um mál sem ekki síður brenna á fólki. Mánudaginn 24. febrúar sagði Dagur lesendum blaðsins frá draumahúsinu sínu og pípulögnum heima hjá sér. Daginn eftir gaf Dagur lesendum blaðsins svo þau ráð að sofa vel og slaka á í öxlunum, það væri nefnilega vanmetið.

Dagur vildi heldur ekki tjá sig um málið þegar Vefþjóðviljinn náði nútímalegu og spennandi tali af honum í fersku og dýnamísku þekkingarþorpi í heilbrigðri Vatnsmýri. Hann sagðist vera upptekinn við átakið „Samráð gegn frösum - skýrt skiljanlegt mál, gagnort, greinargott, knappt,“ sem hann hefði nýverið hleypt af stokkunum.

Passið ykkur á myrkrinu

Menningarpóstur
Fór í gær á ljósmyndasýningu með Möggu systur í Gerðasafni þar sem verið er að sýna helstu íslensku ljósmyndirnar á síðasta ári. Margar magnaðar fréttamyndir á sýningunni, Ástþór með tómatsósuna og svona. Maður er svoddan menningarpóstur að maður er alltaf rápandi inn og út af öllum þessum söfnum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, March 01, 2006

Sól frá morgni til kvölds?
Ég er nú farinn að hafa verulegar efasemdir um þessa vefmyndavél í Bolungarvík sem hálfur heimurinn er víst búinn að skoða. Ég hef ekki skoðað viðfangsefni þessarar myndavélar án þess að við blasi brakandi blíða. Mér sýnist að Baldur hafi eitthvað átt við þetta og sé með einhverja staðlaða júlímynd í gangi. Annars minnir þetta mig á auglýsingu sem ég sá frá einhverjum fasteignasalanum í morgun þar sem taldir voru upp kostir eignarinnar sem selja á: "sól frá morgni til kvölds" !
PassiÐ ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?