<$BlogRSDURL$>

Tuesday, May 31, 2005

Munnmælasögur#25
Í hafnarstjóratíð minni sumarið 2003 var ég stundum að spjalla við Örn Elías Guðmundsson sem þá var byrjaður að færa sig upp á skaftið undir heitinu Mugison. Kallaði hann mig yfirleitt Mini me þar sem ég var Harbours Masters Assistant en það er önnur saga. Var hann að leggja drög að því að koma út plötunni Lonely Mountain í stærra upplagi, hérlendis sem erlendis. Var hann ekki ýkja þekktur hér á landi, nema þá helst á meðal kollega sinna. Ég hafði orð á því við hann að ég gæti reynt að segja Gísla Marteini frá honum - ef hann kæmist í þáttinn hjá honum væri það fín auglýsing. Ég átti svo sem ekki von á því að Ödda finndist það spennandi, sem kom einmitt á daginn því hann gat ekki hugsað sér neitt ófrumlegra en að koma fram í þeim þætti. Ég lét það því alveg eiga sig að segja Gísla frá Mugison þar sem áhuginn var ekki til staðar. En í ljósi þessa er merkilegt að Mugison hefur að minnsta kosti þrisvar komið fyrir í þeim ágæta þætti síðan við áttum þetta samtal!

Hugmyndir D-lista fá hljómgrunn
Hugmyndir D-listans í borginni um breyttar áherslur í skipulagsmálum virðast fá hljómgrunn. Að minnsta kosti hafa margir kverólantar verið að hrósa þessum hugmyndum í fjölmiðlum að undanförnu. Ég skal alveg viðurkenna að ég er ekki mjög áhugasamur um skipulagsmál og oft á tíðum finnst mér sveitastjórnarpólitík lítt spennandi. En ég fylgist með umræðunni upp að einhverju marki og hélt mér væri öllum lokið þegar sjálft fjölmiðlastirnið; Gunnar Smári Egilsson, hrósaði D-listanum fyrir framtakið í Fréttablaðinu um daginn. En því var ekki að heilsa hjá Jónasi Kristjánssyni siðfræðingi og ritstjóra DV sem fann þessum hugmyndum að sjálfsögðu allt til forráttu í því ágæta blaði. Í heimi óvissu er gott til þess að vita að sumt breytist aldrei.
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Um helgina náði Ráðhúsklíkan endanlega öllum völdum í Samfylkingunni og til marks um opin og lýðræðisleg vinnubrögð hennar, þá voru helstu embættismenn Reykjavíkurborgar gerðir að leynifélögum í Samfylkingunni til þess að geta kosið leiðtogann. Starfsmaður á skrifstofu flokksins var meira að segja rekinn úr starfi, grunaður um að hafa upplýst formann flokksins um það hverjir væru í flokknum, og er það nýtt met í flokksstarfi. Aðalástæða þess að Ráðhúsklíkan reiddist starfsmanninum svona mikið mun hafa verið sú, að formaður Samfylkingarinnar fékk að vita að Helga Jónsdóttir borgarritari væri gengin í flokkinn. Ingibjörg Sólrún hafði nefnilega lofað henni leyniaðild svo hún gæti kosið í opna og lýðræðislega umræðustjórnmálaflokknum. Formaður framkvæmdastjórnar, Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi R-listans, rak starfsmann flokksins úr starfi fyrir að hafa hugsanlega átt þátt í þeirri ósvinnu að formaður flokksins fékk að vita að Helga væri í flokknum."
-Vef-þjóðviljinn 23. maí.

Monday, May 30, 2005

Höfnun
Ekki er ykkar ástkæri síðuhaldari í náðinni hjá 365 ljósvakamiðlum. Sótti um starf íþróttafréttamanns sem auglýst var um daginn. Var svo boðaður í prufu. Settist í Sýnarsettið, lýsti þremur leikjum á 5 mínútum, las inngang að fréttum og svaraði skriflegu prófi. Ekkert stórmál svo sem. Fékk svo tölvupóst í dag um að búið væri að ráða í starfið. Spennandi að sjá hvaða snillingur hefur verið ráðinn núna, síðast þegar auglýst var réðu þeir Hörð og Þorstein.
Gangið á Guðs vegum.

Digríður Sögg
Mér finnst alveg magnað að fylgjast með því hvernig reynt er að gera Sigríði Dögg á Fréttablaðinu að einhverri stjörnu. Þetta byrjaði nú með því að hún var einhverra hluta vegna tilnefnd til árlegra verðlauna blaðamannafélagsins. Sem var einfaldlega skandall enda var rökstuðningurinn nánast engin. Fyrir áhugaverðar fréttaskýringar eða eitthvað álíka. Núna eru lesendur blastaðir með með hverri greininni á fætur annari þar sem hún þykist vera að kryfja einkavæðingu bankanna. Mestur hluti greinanna er upp úr skýrslu ríkisendurskoðunnar en þó ljáðist alveg að geta þess, þar sem því er haldið að lesendum að þarna sé sérstök rannsóknarblaðamennska á ferðinni. Stór hluti greinarinnar er svo rógburður og langsóttar kenningar. Sannleikskorn leynast á nokkrum stöðum sem hlýtur að teljast lágmarkskrafa og á vart að þurfa að taka fram. Sigríður Dögg hefur hingað til verið vægast sagt andsnúinn stjórnarflokkunum og ríkisstjórninni í skrifum sínum í blaðið. Hefur heldur ekki dregið neitt af sér í þeim efnum í umræðuþáttum. Maður spyr sig þess vegna hvort það sé með slíkt í huga sem hún er látin skrifa þessa grein en ekki einhver af þeim sem skrifa í sérstakt viðskiptablað sem fylgir Fréttablaðinu einu sinni í viku. Þar eru menn á borð við Hafliða Helgason og Björgvin Guðmundsson sem hafa góða innsýn í tengsl og hagsmuni fólks í viðskiptalífinu.

Þessi grein virðist því vera hugsuð frekar sem enn ein pólitísk árásin frá Fréttablaðinu, sem mér fannst satt að segja hafa skánað töluvert með tilkomu Kára Jónasonar. En það er eitthvað að breytast á nýjan leik. Sigríður var til dæmis með frétt um setningu á landsfundi Samfylkingarinnar. Mjög falleg frétt um komandi samstöðu að formannskjöri loknu. En hún minntist ekki einu orði í blaðinu á þá samstöðu sem myndaðist milli keppinautanna í varaformannskjörinu að niðurstöðu fenginni. Ekki einu orði, á meðan allir aðrir fjölmiðlar minntust þó alla vega á gífurlega gagnrýni Lúðvíks á nýkjörinn varaformann. Þessari þrúgandi þögn Sigríðar lauk með fréttaskýringu Jóhanns Haukssonar nokkru eftir landsfund, þar sem komið var inn á þetta.

Einnig hefur dagskrárliðurinn Maður vikunnar aðeins verið að pirra mig. Þar er teiknuð mynd af viðkomani og fjallað um hann frá báðum hliðum með tilvísunum í meinta vini og samstarfsmenn. Þar eru gjarnan báðar hliðar dregnar fram þar til í síðustu tvö skiptin. Annars vegar var fjallað um að Ágúst Ágúst Ágústsson væri málefnalegur hugssjónamaður og hins vegar hvað íslenskt viðskiptalíf væri heppið að eiga Ólaf Ragnar sem forseta.
Gangið á Guðs vegum.

Friday, May 27, 2005

Munnmælasögur#24
Læknir Micrunnar; Dr. Haraldur, kom að máli við mig á dögunum og sagði farir sínar ekki sléttar varðandi Morgunblaðið. Bað hann mig um að tala sínu máli við Morgunblaðsmenn. Vandamálið snérist um að Haraldur fær reglulega send SMS í símann sinn frá mbl.is. Hefur hann á einhvern ótrúlegan hátt lent inn í grúbbu með ljósmyndurum Morgunblaðsins og fær reglulega skipanir frá þeim sem er á vakt í ljósmyndadeildinni. Ég get rétt ímyndað mér svipinn á bifvélavirkjanum þegar hann fær skipanir í símann sinn um að vera vakandi fyrir fallegum sumarmyndum fyrir baksíðuna! Eða þegar hann er beðinn um að leita að tombólumynd sem tekin var af þremur stelpum fyrir nokkrum dögum! Ég bar þetta upp við Einar Fal yfirmann ljósmyndadeildarinnar og tók hann bón minni blíðlega. Dr. Haraldur ætti því ekki að verða fyrir frekara ónæði frá ljósmyndadeild Morgunblaðsins.

Thursday, May 26, 2005

Súrrealískt í Istanbúl
Hvað getur maður skrifað eftir svona leikrit eins og í Istanbúl? "Meant to be" segir Raggi Ingvars. Hann segir jafnframt að Liverpool hafi náð í Dagbjörtu og Rúnu um leið og þeir náðu í bikarinn. Ekki hefur náðst í Halim Al vegna þessara fullyrðinga.
En ég ætla bara að láta fylgja þessari færslu bút úr pósti sem ég fékk frá yfirmanni menningarblaðs Moggans:

"Veit ekki um ykkur en ég hélt ég hefði nú séð allt í fótbolta. Greinilega ekki. Þvílíkur gjörningur þarna í Istanbul. Hef Elísabetu Jökuls grunaða um að hafa farið þarna niður eftir til að leikstýra þessu súrrealíska verki. Að vinna upp þriggja marka forystu AC Milan á sex mínútum. Hvurslags eiginlega kex er þetta? Dario Fo dytti ekki einu sinni svona vitleysa í hug. Þegar Jamie Carragher stóð upp eftir akút krampameðferð og blokkaraði fyrirgjöf fannst mér ég bara vera staddur í miðjum Íslendingasögunum. Gunnar Hámundarson væri upp risinn. Á hvaða lyfjum eru þessir menn?"

Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, May 24, 2005

Ljóðahornið Mósaiksglugginn#7
Þessi limra var ort af Trausta úr Vík eftir að pottamálið alræmda reið yfir Víkina. Var þessi kveðskapur vitanlega birtur á vikari.is:

Laugalimra

Í Víkinni varir sú hefðin.
Að læðast í pottinn nakin(n).
Svo ljúft og gott,
heitt og vott,
að elskast þannig drukkin(n).

Hjá þremenningum var upplagt,
þar sem enginn var á vakt.
Að slett´úr klaufum,
með tveimur skaufum,
og elskast öll í takt.

En á þau starði stóri bróðir.
Sem á allar þessar laugarlóðir.
Það vakti því furðu,
þegar vaktmenn urðu,
allir rjóðir og móðir.

Á myndbandið stíft þau störðu.
Starfsfólk og sundlaugarvörður.
En fékk ekki þá,
showið að sjá,
nýhættur aumingja Hörður?

Strákarnir af þessu læra.
Og sig eflaust einnig stæra.
Ég því ekki skil,
hvað þeim gekk til,
þegar folarnir ákváðu að kæra?

Dazzi fórnarlamb Páls Hjarðar
Dazzi vinur minn frá Akranesi komst heldur betur í umræðuna í dag er DV birti við hann stutt viðtal vegna Páls Hjarðar varnarmanns ÍBV. Þannig háttar til að Dazzi er einn þeirra sem Páll hefur fótbrotið á sínum ferli en Dazzi lék þá með Bruna. Óneitanlega skemmtilegt að lesa viðtalið við Davíð fórnarlamb undir fyrirsögninni "Batt enda á feril Davíðs".
Gangið á Guðs vegum.

Egill Helga styður Gísla Martein
Meintur tvífari minn Egill Helga var með einhvers konar hálfkærings stuðningsyfirlýsingu við Gísla Martein sem borgarstjóraefni í einum af pistlum sínum á Vísi.is. Þetta kemur ekkert á óvart. Egill hefur verið iðinn við að gagnrýna R-listann og hefur lýst því yfir að hann muni ekki greiða honum atkvæði sitt. Gísli verður góður borgarstjóri ef hann fær tækifæri til þess, þó enginn sé öfundsverður af því að taka við borginni í því standi sem fjármálin eru þar nú. En talandi um þetta þá hjó ég eftir nýjasta R-lista frasanum hjá Borgarstjóra um daginn; "eftirsóknarverðar skuldir". Hún vildi sem sagt meina að skuldir Reykjavíkurborgar (Um 60 milljarðar) og þar af leiðandi íbúa Reykjavíkur væru "eftirsóknarverðar". Ætli einhver einstaklingur sem skuldar fjármuni myndi segja í viðtali að skuldir sínar væru eftirsóknarverðar?
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Meðferð fjölmiðla á úrsögn Gunnars Arnar Örlygssonar úr Frjálslynda flokknum og inngöngu hans í Sjálfstæðisflokkinn hefur verið athyglisverð. Hingað til hafa íslenskir fjölmiðlar lítt hirt um að láta stjórnmálamenn standa við fyrri orð sín og yfirlýsingar. Það hefur jafnvel þótt ómálefnalegt „skítkast“ og „neikvæður áróður“ að rifja fyrri skoðanir manna upp þegar þeir hafa hlaupist frá þeim. Enginn hefur heldur verið látinn gjalda þess að skipta um flokk og Íslandsmetshafinn í þeim efnum er nú forseti lýðveldisins. Þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta hurfu jafnvel heilu ritstjórastörfin úr fortíð hans án þess að fjölmiðlar hefðu nokkuð við það að athuga. En nú er þetta allt breytt. Hvert orð sem hrotið hefur af vörum Gunnars Arnar Örlygssonar fram til þessa hefur nú verið birt að nýju honum til háðungar. Fréttamenn Ríkisútvarpsins og Fréttablaðsins virðast skyndilega hafa farið á námskeið hjá Norræna blaðamannaskólanum í notkun Google og leitarvélar Alþingis og standa sig nú með mikilli prýði í notkun þeirra. Allt gott um það að segja ef að þessi góða kunnátta verður ekki með öllu gleymd næst þegar eitthvað gerist."

-Vef-þjóðviljinn 17. maí 2005.

Ný hártíska?
Þessi hárgreiðsla er allrar athygli verð. Það eru ekki margir sem næðu að leika þetta eftir. Ég hef þó trú á því að Raggi Óskars vinur minn gæti náð þessum hæðum í krullunum sínum. Og jafnvel Sveppi vinur hans. Maður bíður með endurnar í hálsinum að einhver leiki þetta eftir og geri þetta þar með að næsta hártískutrendi hérlendis.
Gangið á Guðs vegum.

Monday, May 23, 2005

Orðrétt
"Rétt í þessu tilkynnti formaður kjörstjórnar Samtaka Tækifærissinna að Ingi(björg) Gísla(dóttir) væri réttkjörin formaður samtakanna til næstu tveggja ára. Ingi(björg) er fyrsti klæðskiptingurinn sem stýrir stjórnmálaflokki hér á landi síðan Steingrímur Hermannsson stýrði Framsóknarflokknum. Þetta er mikið áfall fyrir fráfarandi formann þeirra Össur Skarphéðinsson sem hafði einnig sóttst eftir embættinu en þau Ingi eru mávar."
-Baggalútur 21. maí.

Endurbættur EKG
Vek athygli á því að Einar Kristinn er búinn að breyta heimasíðu sinni ekg.is. Ágætlega heppnaðar breytingar sýnist mér. Meira efni en áður og útlitið nokkuð hressilegt. Meiri pressa á honum núna að vera duglegur að uppfæra. Hann hefur reyndar staðið sig ágætlega í því. Annað en margir þingmenn þar sem síðasta færsla þeirra er eitthvað á þessa leið; "Þakka fyrir stuðninginn í prófkjörinu".
Gangið á Guðs vegum.

Orðrétt
"Hvað er þetta forsetapuntstrá okkar að paufast til Kína ásamt stífbónuðum erkikanónum íslensks viðskiptalífs, púkkandi upp á þessa drambfylltu risaeðlu, sem sennilega er sú eina sem att getur kappi við Bandaríkin í fokkmerkjasendingum til annarra þjóða? Hvurn þremilinn höfum við að gera með aukin samskipti við þessa sjálfumglöðu roðamaura? Er ekki bara hægt að auka í staðinn samskiptin við Lúxembúrg — eða Guam? Nei. Vitanlega ekki. Það þarf auðvitað að fljúga öllum pottum, pönnum og kastarollum íslensks viðskiptalífs á einhvern fornfrægan, útvatnaðan hrísgrjónaakur í Asíu til að mynda þar einhver kagfruggin viðskiptasambönd — gera bísniss. Taka í spaðann á nokkrum rauðgylltum tyllikommum og biðja þá endilega að hætta að drepa óvini ríkisins um hábjartan dag. Gegn því auðvitað að við kaupum af þeim fleiri, hva, jogginggalla? kínaskó? eyrnapinna? Hvað veit ég?

Andskotann ætli Kínastjórn taki mark á einhverri frosetalufsu frá Íslandi, einhverjum valdalausum gullinkambi sem tístir upp þrautleiðinlegri land­kynningartuggu um mannréttindi, slor og ál. Og af hverju ættu þeir líka að eyða tíma í að hýsa, næra og ómaka sig í samræður við 1. herfylki íslensks atvinnulífs? Er það af því þá bráðvantar lýsi eða máski lopapeysur? Þykja þeim íslenskar jarð­skjálfta­rannsóknir svona ferlega kúl — eða finnst þeim Óli og Björgólfur einfaldlega bara svona sætir og skemmtilegir? Varla. Þetta eru samviskurotnir litlir karlfauskar sem halda sig geta keypt vináttu og syndaaflausn í krafti markaðsflæmis og viðskiptagylliboða — og við eigum einfaldlega ekki að láta þá komast upp með það.

Ég vil bara ekki hafa það að þessum falskímandi undirokunarrauðrófum sé boðið af íslenskum stjórnvöldum í líttspjallaða jómfrúarsæng íslenskrar markaðssóknar og fái þar að þukla og þreifa að vild með blóðugum lúkunum. Drullist þið aftur heim."
-Leiðari á Baggalúti 17. maí 2005.

Munnmælasögur#23
Eins gott að halda áfram með Munnmælasögurnar. Gísli Hjartar er kominn með um 700 sögur þannig að ég er langt á eftir honum. Saga númer 23 er splunkuný og átti sér stað í Borgarnesi þar sem Orri badmintonstrumpur hefur sest að. Eftir að hann hóf störf hjá verkfræðistofu í bænum fannst honum rétt að splæsa á sig fasteign á svæðinu. Keypti hann einbýlishús fyrir um 4 milljónir. Sagði reyndar að það þyrfti að vinna svolítið í því til þess að koma því í betra stand. Að öðru leyti væru þetta kjarakaup. Smiður allra landsmanna Jón Steinar frá Seljanesi óð upp eftir til þess að leggja Orranum lið við uppbyggingu kastalans. Var Jóni nokkuð brugðið er hann sá herlegheitin, en er hann hafði jafnað sig héldu þeir félagar í Húsasmiðjuna í plássinu. Þar afgreiðir þá lifaður heimamaður sem fer að inna þá eftir því hvar þeir séu að byggja. Orri ber sig mannalega og segir stoltur: "Brákabraut 11a". Ekki kannaðist afgreiðslumaðurinn við þá adressu þó hann væri fæddur og uppalinn Borgfirðingur. Orri lýsir fyrir honum staðháttum og helsta nágrenni og þá hrópar afgreiðslumaðurinn upp yfir sig; "Keyptirðu Hjallinn" ?? Á þessum tímapunkti þurfti Jón að bregða sér frá vegna ört aðkallandi hláturskasts. Orri spyr hvað maðurinn meini með þessu og afgreiðslumaðurinn svarar: "Ég hef búið hér alla mín hundstíð og þetta hús hefur aldrei verið kallað annað en Hjallurinn. Hefur það aðallega verið notað til hassreykinga undanfarna áratugi". Orri hafði nú ekki eins gaman af þessari búðarferð og Jón.

Líflegt hjá Samfylkingunni
Það virðist hafa verið líf og fjör hjá Samfylkingunni um helgina. Lúðvík Bergvins og fleiri saka Ágúst Ágúst um að hafa eytt nokkrum milljónum í að borga þinggjöld fyrir stuðningsmenn sína. Forvitnilegt verður að vita hvort hinn meðvitaði Ágúst muni svara þessu. Séra Stefán Jón hlaut ekki kosningu í eitthvað forystuembættið. Það kemur mér nú frekar á óvart þar sem hann hefur verið innsti koppur í búri hjá flokknum á flestum vígstöðum. Ingibjörg orðin formaður. Það er fínt. Ekki mun hún taka fylgi frá Sjálfstæðisflokknum alla vega. En þetta verður örugglega allt saman afskaplega nútímalegt og lýðræðislegt hjá henni. Samræður og nútímalegir stjórnunarhættir. Hærri skattar á fyrirtæki og fjölþrepa skattkerfi.
Gangið á Guðs vegum.

Thursday, May 19, 2005

Forgjafalækkun
Ég skellti mér í mót upp á Skaga með Jóni Steinari (það er þessi sem má ekki koma nálægt fótboltaleikjum innan landhelginnar) á mánudag. Við vorum sniðugir í þessu móti og fengum fína lækkun. Jón var á 80 höggum, fékk 41 punkt og lækkaði úr 11,9 niður í 10,7. Ég var á 81 höggi, 43 og 38, fékk 40 punkta og lækkaði úr 11,4 í 10,6. Þannig að sveiflan kemur syngjandi skagfirsk undan vetri.
Gangið á Guðs vegum

Wednesday, May 18, 2005

Tímafrek heimasíðugerð
Opnuð hefur verið heimasíða fyrir forsetaembættið. Það þarf kannski ekki að koma svo ýkja mikið á óvart þar sem það var kosningaloforð hjá Ólafi Ragnari að hann myndi beita sér fyrir því að koma slíkri síðu á koppinn. Síðan er ítarleg og vel að gerð hennar staðið. En þegar vandað er til verks þá getur það líka tekið sinn tíma. Í þessu tilefelli hefur til dæmis tekið 9 ár að búa til síðuna, enda var þetta baráttumál Ólafs í kosningabaráttunni 1996. Það ætti því að vera óhætt að gera kröfur um að síðan sé í lagi. En því má velta fyrir sér hvort sömu aðilar hafi staðið að heimasíðugerðinni og stóðu að endubótum á Þjóðleikhúsinu.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, May 17, 2005

Munnmælasögur#22
Maður er nefndur Gísli Einarsson, stundum þekktur undir nafninu veislustjóri Íslands. Gísli þessi hefur ritstýrt Skessuhorninu og verið fréttamaður fyrir RÚV á Vesturlandi. Gísli er maður sérlega orðhepinn og húmor hans í bland við góð tök á íslenskri tungu er oft á tíðum hin mesta skemmtun. Síðasta sumar var síðuhaldari staddur ásamt Gísla í blaðamannastúkunni á heimavelli Skagamanna þar sem þeir léku gegn Fram. Síðuhaldari skrifaði fyrir Morgunblaðið en Gísli lýsti leiknum fyrir Rás2. Úr varð lélegasta frammistaða ÍA það sumarið og er leikmenn gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 0:2 fyrir gestina. Kvað Gísli þá svo að orði: "Og ef ég þekki vin minn Ólaf Þórðarson (þjálfara Skagamanna) rétt þá verður hurðinni á búningsherbergi heimamanna hrundið snögglega upp og mun hún falla þétt að stöfum" !!!

Sunday, May 15, 2005

Spá fyrir Landsbankadeildina 2005
Þá er komið að árlegri spá bloggs fólksins fyrir Landsbankadeildina í boltasparki en spá síðasta árs vakti mikla athygli þar sem KR var spáð 7. sæti. Annars var nú upp og ofan hvernig sú spá gekk en það má skoða í mai færslum fyrir árið 2004. Spáin lítur svona út að þessu sinni:

1. KR
2. FH
3. ÍA
4. Valur
5. Fylkir
6. Keflavík
7. ÍBV
8. Grindavík
9. Fram
10. Þróttur

Rökstuðningur:
Magnús Gylfason mun blása lífi í KR-liðið sem mun tryggja sér titilinn með Grétar Hjartarson í fantaformi. Fram mun koma nýr leiðtogi sem vantað hefur frá því að Móði hætti. FH-ingar munu ekki standa undir þeirri pressu sem fylgir því að verja titilinn. Miklu er búist við af liðinu sem mun berjast um titilinn en skorta andlegan styrk. Skagamenn verða baráttuglaðir og erfiðir heim að sækja. Varnarleikurinn verður góður en markaskorun mun há liðinu eins og í fyrra, þó Dean Martin reynist liðinu góður liðssauki. Valsmenn munu geta unnið hverja sem er að góðum degi en munu falla niður á lagt plan þess á milli. 4. sæti er ásættanlegt fyrir þá í þessari atrennu. Danni og G.Ben munu ná vel saman. Fylkir mun spila vel í fyrri umferðinni og illa í þeirri síðari. Sem sagt ekkert óvænt þar. Keflavík mun hins vegar spila illa í fyrri umferðinni sem skiljanlegt er en munu fikra sig upp töfluna í síðari umferðinni. ÍBV mun ná í mörg stig heima en fá stig á útivelli. Dugir til þess að halda sér í deildinni. Grindavík mun enn einu sinni bjarga sér á ótrúlegan hátt. Líklega með marki frá Kekic á lokamínútum lokaumferðarinnar. Loksins munu Framarar falla þrátt fyrir að vera með frambærilegan þjálfara. Boginn veðrur spenntur of hátt og lélegur mórall mun verða liðinu að falli. Þróttarar munu leika skemmtilega knattspyrnu en skortur á skynsemi og breidd verða til þess að liðið mun verma botnsætið. Liðið mun þó verða með skemmtilegustu stuðningsmennina.

Friday, May 13, 2005

"Kom mér verulega á óvart"
-Golffélagi Guðjóns í einkaviðtali við Blogg fólksins


"Þetta kemur mér verulega óvart" sagði Hlöðver Tómasson golffélagi Guðjóns Þórðarsonar um tíðindi dagsins í einkaviðtali við hasarfréttadeild Bloggs fólksins. "Ég er mjög undrandi á því að Guðjón skuli ekki hafa látið mig vita af þessu áður en hann sendi frá sér fréttatilkynningu. Ég hafði ekki orðið var við neina óánægju hjá honum í Keflavík en það verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldinu" sagði Hlöðver.

Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið
Fréttastofu Bloggs fólksins voru að berast stórtíðindi nú rétt í þessu. Gaui Þórðar hættur hjá Keflavík. Hvorki hefur náðst í Guðjón Þórðarson né Borgar Þór Einarsson vegna málsins. Golffélagi Guðjóns; Hlöðver Tómasson, verður þó í viðtali vegna málsins hér á síðunni síðar í dag.
Gangið á Guðs vegum.

Útrýmingarbúðir Nýnasista
Síðuhaldari er lentur í útrýmingarbúðum Adolfs Péturssonar fyrrum Lauganema í SS- porthúsinu. Þar er síðuhaldara hent upp á hlaupabretti með blökkumönnum, gyðingum og pólverjum og eru allir látnir hlaupa þar til þeir detta niður dauðir. Það er verið að spara gasið. Ef mönnum tekst að lifa þetta af þá fá þeir eingöngu vatn og brauð sem næringu.
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, May 11, 2005

Maltviskí kvölds og morgna
Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að Viskíþamb væri ekki bara göfugt heldur líka fyrirbyggjandi gagnvart hinum ýmsu kvillum. Það hefur nú komið á daginn. Ég rakst á umfjöllun í Fréttablaðinu í dag þar sem greint er frá niðurstöðum einhvers fræðimanns sem ganga út á það að neysla Maltviskís komi í veg fyrir krabbamein. Þar hafið þið það börnin góð. Maltviskí kvölds og morgna, ágætt að taka það inn með tannburstuninni. Trausti Salvar hefur þegar fjallað um málið.
Gangið á Guðs vegum.

Tuesday, May 10, 2005

Jónas í hnapphelduna
Fór í brúðkaup hjá Jónasi Guðmunds og Hrönn á laugardaginn. Ég og Kristján Arason og þessir helstu. Er líða fór á dagskrána fór gömul athyglissýki að gera vart við sig sem endaði með óundirbúinni skálarræðu í pontu. Það blessaðist nú alveg. Skaðaði engann með því og fór svo á tjúttipútt með stórsveit Stefáns stjórnmálafræðinema á NASA.
Gangið á Guðs vegum

Friday, May 06, 2005

Orðrétt
"Alveg er mér fyrirmunað að skilja að ríkisvaldinu beri skylda til að styðja einhvern hóp fólks sem hefur stofnað klúbb og kallað það Mannréttindaskrifstofu. Ég hefði haldið að það væri einmitt kostur við svona hugsjónastarfsemi áhugafólks að hún væri alveg óháð ríkinu, þyrfti ekki sífellt að herja á það um peninga. Getur þessi hópur ekki selt jólakort eða haldið basar eins og aðrir? Ég segi líka eins og Davíð Oddsson í þinginu í dag: Hvað hefur þessi skrifstofa lagt svona merkilegt til málanna?"
-Egill Helgason í pistli á Vísi.is.

Munnmælasögur#21
Gerð var símakönnun í Bolungarvík á dögunum þar sem fólk var spurt um hvað því fyndist um frammistöðu hinna og þessara fyrirtækja og stofnana. Frændi minn Elías Jónatansson mun hafa lent í úrtakinu en Elías hefur mörgum hnöppum að hneppa, í vinnu og félagastörfum. Fékk hann meðal annars eftirtaldar þrjár spurningar; Hvernig honum líkaði stöf Bæjarstjórnar. Mun hann hafa sagt að sér líkaði þau ágætlega. Því næst var spurt um starfssemi Lífeyrissjóðsins í Bolungarvík, og svarið var á sömu lund. Enn fremur var spurt um hvort hann væri sáttur við dreifingu og þjónustu Íslandsspósts á svæðinu. Sagðist hann vera alveg ágætlega sáttur við hana. Þess má geta að Elías er Forseti Bæjarstjórnar, situr í stjórn Lífeyrissjóðsins og er einnig stjórnarmaður í Íslandspósti.

Orðrétt
"Hún er einstakur íþróttamaður og mikil íþróttakona"
-Gaupi á Sýn.

Thursday, May 05, 2005

Grein eftir síðuhaldara
Afspyrnu gáfuleg grein eftir síðuhaldara á sus.is í dag. Alveg til háborinnar fyrirmyndar. Ágætis tvíbökur. Kíkið á þetta.
Gangið á Guðs vegum.

Wednesday, May 04, 2005

Tölfræðin hjá Bretunum
Var ég nokkuð búinn að segja þér frá tölfræðinni sem Bretarnir voru búnir að
grafa upp fyrir fyrri leik Chelsea-Liverpool? Liverpool eru pottþéttir að
þeir vinni Meistaradeildina. Vegna þess að síðast þegar þeir unnu Evrópukeppni Meistaraliða (gegn Roma í vítaspyrnukeppni 84) þá dó Páfi og Karl prins gifti sig!! Stuðningsmenn Liverpool eru því handvissir um að þetta sé þeirra ár!!
Gangið á Guðs vegum

Tuesday, May 03, 2005

´76 árgangurinn á Netinu
Ég vil benda á að ´76 árgangurinn úr Víkinni er með bloggsíðu í tilefni af 15 ára fermingarafmæli. Þar er búið að setja inn nokkrar skemmtilegar myndir og er víst von á fleirum.
Gangið á Guðs vegum

Monday, May 02, 2005

"Mannlaus bíll braut rúðu"
Hálfdán Bjarki Hálfdánarson blaðamaður, rokkari og tengdasonur EG fjölskyldunnar náði nýjum hæðum í skrifum sínum á vef BB í dag. Af öllum skemmtilegum fyrirsögnum sem ég hef rekist á í fjölmiðlum í gegnum tíðina, þá set ég þessa fyrirsögn umsvifalaust inn á topp 10: "Mannlaus bíll braut rúðu". Og ekki er fréttin sjálf til þess að valda manni vonbrigðum; "Mannlaus bíll ók á rúðu í skóbúð í miðbæ Ísafjarðar rétt upp úr hádegi í dag. Málsatvik voru með þeim hætti að ökumaður steig út úr bílnum, sem er sjálfskiptur, en láðist að taka bílinn úr gír. Lagði bíllinn því af sjálfsdáðum af stað og endaði á húsinu með þeim afleiðingum að stór rúða brotnaði. Engan sakaði."
Hálfdán Bjarki fær 9,5 fyrir þetta.
Gangið á Guðs vegum.

Eiríkur enn betri á norsku
Hef fylgst spenntur með samnorrænu Eurovision þáttunum. Svona samnorræn consept eru alltaf mjög skemmtileg eeeehemmm. En það er bara eitthvað geysilega fallegt við það að heyra Eiríki Hauksson tala norsku. Talandi um þetta; eru lesendur búnir að heyra framlag Norðmanna. Þvílík löðrandi snilld. Fyrirtaks glysrokk með David Lee Roth fíling. Mæli með þessu stöffi. Reynda finnst mér íslenska lagið líka alveg ljómandi fínt, ég hef alltaf verið skotinn í Selmu.
Gangið á Guðs vegum.

Kristinn hamrar á embættismönnum
Kristinn Hermanns mastersnemi í Maastricht (stuðlað) er lesendum Bloggs fólksins að góðu kunnur. Hann stakk á dögunum niður penna á heimasíðu Hadda bæjó á Ísó (rím). Merkileg grein fyrir margra hluta sakir en hressilegast fannst mér þegar hann í niðurlagi greinarinnar lætur stétt embættismanna hafa það óþvegið.
Gangið á Guðs vegum

Sunday, May 01, 2005

Chelsea meistari
Chelsea enskur meistari. Fyllilega verðskuldað. Set þó smá spurningamerki við það þegar talað er um að Eiður sé fyrstur Íslendinga til þess að verða enskur meistari. Ég veit ekki betur en Siggi Johnson hafi verið í herbúðum Arsenal er þeir urðu meistarar 1991. Hann spilaði svo sem ekki mikið vegna meiðsla og fékk ekki pening þar sem þurfti tíu deildarleiki til þess. En ég veit ekki hvort hann spilaði einhverja deildarleiki það tímabil. Kannski að einhverjir Arsenal-dólgar sem lesa síðuna geti upplýst um það.
Gangið á Guðs vegum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?