<$BlogRSDURL$>

Friday, April 30, 2004

Íþróttaannáll mentorsins
Ég hef lengi ætlað að benda lesendum á ansi merkilegan íþróttaannál fyrir árið 2003 en ekki munað eftir því fyrr en nú. Annállinn er skrifaður af Ólsaranum Gunnari Samloku Sigurðssyni mastersnema í opinberi stjórnsýslu og mentor mínum í stjórnmálafræði. Gunni heldur úti vef sem er misjafnlega uppfærður en þegar eitthvað gerist þá er það jafnan forvitnileg lesning svo ekki sé fastara að orði kveðið. Sé farið inn á síðuna þá er hægt að velja íþróttaannál vinstra megin á síðunni. Þarna er dregin upp fremur dökk mynd af árangri íslensks íþróttafólks á síðasta ári, en fyrir íþróttaáhugamenn þá er þetta óborganleg lesning.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Blogg fólksins mun halda sínu striki
Af auðmýkt og með þakklæti í hjarta færi ég lesendum bloggs fólksins þau gleðitíðindi að síðan mun halda göngu sinni áfram. Aðstandendur síðunnar lögðu í febrúar upp með þá hugmynd að verkefnið yrði tímabundið, þ.e.a.s. að síðan yrði starfrækt út apríl. Til þess að reyna að leggja mat á viðtökurnar, þá var settur teljari á síðuna þriðjudagskvöldið 13. apríl. Teljarinn er nú þegar búinn að sprengja 1000 heimsókna múrinn og telja fyrrum kollegar mínir á mbl.isað það sé nýtt brautarmet. Auk þess setti Aftonbladet undirskriftalista í gang þar sem skorað var á mig að halda blogginu áfram, en þessu sama blaði tókst einmitt að safna undirskriftum sem urðu til þess að Henke Larson mun leika með Svíum á EM í sumar.
Ég þakka þeim sem lásu og gangið á Guðs vegum um helgina.
Góðar stundir.

Wednesday, April 28, 2004

Jói Torfa heiðraður
Óska Jóa Torfa vini mínum til hamingju með að hafa verið sæmdur gullmerki ÍSÍ um helgina sem hann á virkilega skilið. Viðurkenninguna fær Jói meðal annars fyrir stuðning sinn við KR og Manchester United í gegnum tíðina. Á BB vefnum er ágætis mynd af athöfninni þar sem stórpólitíkusinn Ellert B. Schram býr sig undir að næla merkinu í barminn á honum. Heyrst hefur að einnig standi til að Hreppsnefnd Árneshrepps heiðri Jóa sérstaklega fyrir umburðarlyndi, eftir að hann tók Jón Steinar frá Seljanesi mögglunarlaust inn í fjölskyldu sína.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Síðuhaldari og rakakremið
Ég var í heimsókn hjá Einari Þór bróður mínum og Stig um daginn. Þar var einnig vinafólk Einars og eitthvað var verið að ræða málin í stofunni. Það er alltaf gaman að kjafta við Einar, þá fæ ég oft annan vinkil á málin heldur en þá sem blasa við mér. Einar er einnig þeim mikla kosti gæddur að hann er afskaplega hreinskilinn maður og segir það sem honum býr í brjósti. Ég kann vel að meta slíkt og þessi eiginleiki á sér sínar spaugilegu hliðar. Umræðan í stofunni barst einhverra hluta vegna að útlitsþáttum og yngingarmeðölum sem Einar er sérfræðingur í. Þegar við vorum að skiptast á reynslusögum þá segir spyr Einar mig furðu lostinn: Ha, Kristján, notarðu ekki rakakrem?....og kominn á þennan aldur!!! Þegar búið var að útskýra fyrir mér hvað rakakrem væri og notagildi þess, þá minntist ég þess reyndar að hafa séð Trausta Salvar frænda minn klína alls kyns þess háttar meiki í andlitið á sér. En það sem situr meira í mér er þetta með: og kominn á þennan aldur.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Fjölmiðlafrumvarpið
Þar sem annar hver maður í landinu hefur sagt skoðun sína á hinu yfirvofandi fjölmiðlafrumvarpi, þá er sennilega rétt að blogg fólksins leggi eitthvað af mörkum til umræðunnar, enda virðist þessi vefur stefna í að verða vettvangur heilbrigða skoðanaskipta, samanber öll commentin við síðustu færslu. Ekki get ég sagt að mér huggnist þetta fjölmiðlafrumvarp, enda ber það sterkan kratakeim. Samkeppnislög, samkeppnisstofnun og þess háttar afskipti ríkisvaldsins af frjálsum markaði, hafa hingað til verið ær og kýr sósíaldemókrata. Því er það stílbrot að hálfu Sjálfstæðisflokksins að taka þátt í þessu, ef hann vill á annað borð kalla sig hægri flokk. Það að Samfylkingin mótmæli manna hæst er einnig stílbrot á þeirra stefnu, enda hafa slíkar hömlur á frjálsum viðskiptum verið þeim hugleikin. Eins og réttilega var bent á af skríbentum VefÞjóðviljans í gær, þá hafa íslenskir fjölmiðlamenn ekki verið sérlega uppteknir af því að standa vörð um frelsi á Íslandi hingað til. En nú þegar þrengir að þeim sjálfum þá mæta þeir hver af öðrum í fjölmiðla og mega vart mæla fyrir hneykslan. Meira að segja Marshall aðstoðin, einkavinur Lúðvíks Bergvins og fyrrum frambjóðandi Samfylkingarinnar, er brjálaður yfir þessu fyrir hönd okkar blaðamanna.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, April 26, 2004

...og heimsbyggðin fylgist agndofa með
Ég hef fylgst spenntur með BB vefnum í dag. Ekki að ástæðulausu því þar hefur hver stórfréttin rekið aðra. Þetta byrjaði allt saman með dapurlegri frétt um skemmdarverk á grasvellinum á Torfnesi. Varla hafði ég haft tíma til þess að hneykslast á þeirri frétt þegar sú næsta birtist sem fjallaði um slagsmál á Óshlíð! Einhverjir snillingar slógust um borð í leigubíl og enduðu úti í skurði á hlíðinni. Snilldartaktar sem sýna að villta vestrið stendur enn undir nafni. Því næst kom frétt um að heimsendingarbifreið Pizza 67 hefði verið stolið. Afskaplega skiljanlegur glæpur og útpældur væntanlega, enda ekki heiglum hent að komast leiðar sinnar gangandi til Hólmavíkur. Þarna var ég verulega farinn að velta því fyrir mér hvort Cocoa Puffs kynslóðin (Röggi pensill, Biggs ofl.) hefði dottið í það um helgina. En þegar orðið var frekar þungt í mér yfir lestrinum á allri þessari villimennsku, þá skellti Kristinn Hermanns inn stórfrétt sem bjargaði fyrir mér deginum: Bíla-Bergur með nýja Lotusinn á heimaslóðum.
Þarf maður að segja meira?
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Gert upp á milli knattspyrnumanna
Einhverra hluta vegna fer það óhemju mikið í taugarnar á mér þegar kosið er á milli knattspyrnumanna. Fyrir það fyrsta þá finnst mér nægilega erfitt að bera saman leikmenn sem leika ólíkar stöður á vellinum, til dæmis markmann og sóknarmann. Hvað á að leggja til grundvallar þegar metið er hvort er betri? Er mikilvægara að skora mark en að verja mark? Spyr sá sem ekki veit.
Hitt er enn flóknara þegar farið er út í að gera upp á milli knattspyrnumanna á ólíkum tímum. Fyrir skömmu völdu þeir Pele og Platini 125 bestu núlifandi knattspyrnumenn sögunnar fyrir FIFA. Útkoman var að mínu mati arfavitlaus og skartaði listinn leikmönnum sem vart eru hálfnaðir með sinn feril, á meðal gamlir heimsmeistarar hlutu ekki náð fyrir augum þeirra er að valinu stóðu. Og nú er búið að velja 50 bestu leikmenn allra tíma í Evrópu og 150 þúsund manns tóku þátt í kjörinu. Ekki kemur á óvart að leikmaður sem enn er að spila skyldi verða fyrir valinu; Zinedine Zidane. Hins vegar get ég ekki séð að hann sé betri en Platini var, svo bara sé tekinn fyrir annar Frakki. Ekki skil ég hvernig hægt sé að færa sannfærandi rök fyrir því að Zidane sé betri en George Best, Johan Cruyff, Eusebio, Di Stefano eða Puskas voru. Það er bara hallærislegt að vera að reyna að gera upp á milli manna með þessum hætti.
Ég þakka þeim sem lásu og megi Lárus Guðmundsson láta laga á sér skoltinn.
Góðar stundir.

Sunday, April 25, 2004

Hljómsveitanöfn
Ég hef aðeins verið að velta fyrir mér hljómsveitanöfnum undanfarið og hversu fljótur maður er að detta út úr því sem er að gerast í meikbransanum. Þegar maður er á framhaldsskólaaldri þá þekkir maður nöfnin á öllum hljómsveitum, burt séð frá því hvort maður er yfirleitt að hlusta á þær eða ekki. Núna þekkir maður einstaka hljómsveitir sem eru að slá í gegn, og kannast í besta falli við aðra hverja hljómsveit sem kemur til landsins. Og eftir því sem maður eldist þá fær maður minni og minni botn í nöfnin sem sveitirnar bera. Ég hef þó alltaf gaman af því þegar húmorinn í nafngiftinni er augljós, saman ber Róbert Hjálmtýsson kunningja minn sem kallar sig hljómsveitina ÉG. En þannig er þetta bara að maður fylgist minna með og ég er auðvitað ekki einn um þetta. Til að mynda hefði ég verið til búinn að borga fyrir það að verða vitni að því þegar bróðir minn Ásgeir Þór var í jólainnkaupum fyrir unglingsfrænda okkar. Hafði hann fengið fyrirmæli um nafn á hljómsveit sem á að vera gífurlega vinsæl. Líklega hefur verið fremur undarlegt risið á kappanum þegar hann fór búð úr búð og spurði um nýjustu afurð hljómsveitarinnar Puddle of mud !!!
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Golftímabilið hafið
Gleðilegt sumar. Ég fór í mót í Leirunni á sumardaginn fyrsta í blíðskaparveðri. Var óneitanlega spenntur að sjá afrakstur æfinga og leiðsagnar frá áramótum. Þar sem ég hafði eingöngu slegið í net í vetur þá hef ég ekki getað lagt mat á flugið á boltanum. Ég var frekar hissa þegar ég fór að slá og uppgötvaði að ég er farinn að draga boltann lítillega (húkka) sem ég hef aldrei fyrr gert. Hingað til hefur það frekar verið á hinn veginn. En það er óhætt að segja að það hafi verið vorbragur yfir manni og niðurstaðan 95 högg og 26 punktar sem er alveg glatað.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, April 21, 2004

Misnotkun á commentum
Í ljósi ítrekaðra misnotkunar unga framsóknarmannsins á commentakerfinu þá hefur stjórn bloggs fólksins ákveðið að setjast yfir málið og endurskoða þá ákvörðun að hafa commentakerfi á síðunni. Mikil ánægja er á meðal stjórnarinnar með þáttöku lesenda og hafa skemmtilegt comment HáEmm vakið verðskuldaða athygli. Hins vegar þykir verra að G.Bjöss sé að misnota vinsældir vefsins með þessum hætti. Von er á niðurstöðu í málinu á næstu dögum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

21. apríl
Ásgeir Þór bróðir minn og Baldur Smári eiga afmæli í dag. Til hamingju með daginn drengir. Þeir Ásgeir og Baldur eiga glettilega margt sameiginlegt þegar maður fer að velta því fyrir sér. Eru báðir stærðfræðisnillingar (a.m.k. á minn mælikvarða) og eru þeim því hættara við geðveiki en öðru fólki samkvæmt nýjustu rannsóknum. Vona þó að þeim takist að halda sig réttu megin við strikið. Auk þess eru þeir sólgnir í Bakkus og skemmtanir og halda meira að segja báðir á glasinu í vinstri hönd enda báðir örvhentir. Þó ber nokkuð í milli í tónlistarsmekk þeirra félaga, en á meðan Ásgeir hlustar á Alfreð Clausen þá er Baldur aðallega í DJ hopp hopp hopp.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, April 20, 2004

Hármiðaður og hnitbeittur
Var að lesa ansi hreint hressandi grein eftir Kristinn Hermannsson vin minn á Tíkinni. Óhætt er að segja að þetta séu orð í tíma töluð hjá honum þar sem hann hakkar í sig froðusnakk, pólitíska rétthugsun, ríkisafskipti og fleira eins og honum einum er lagið. Magnaður pistill sem ætti að taka inn í skyldulesefnið í Stjórnmálafræðinni.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Orrinn í Víkina
Samkvæmt nýjustu fréttum hefur dótturfyrirtæki Bakkavíkur keypt gamla Orrann ásamt þorsk og rækjukvóta. Þetta hljóta að vera gleðitíðindi fyrir Bolvíkinga og rennir vætanlega betri stoðum undir rekstur framleiðslunnar í Frystihúsinu. Síðuhaldari óskar Agga Ebba, Gumma Addíar og öðrum til hamingju með þetta. Þeir fiska sem róa sagði Einar afi gjarnan og geri ég þau orð hans nú að mínum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, April 19, 2004

Látúnsbarkinn
Ég skellti mér í fermingarveislu í gær hjá systursyni mínum Jóni Friðgeir jr. Þar var á boðstólum tónlistaratriði hjá honum og hljómsveitarfélögum hans, en þeir eru allir í hljómsveitarbrasi og með hár eins og Jónas R. í villtu vinna milljón. Þeir ákváðu að taka þrjú lög, og vildu endilega fá einhvern til þess að syngja með sér í laginu Creep með Radiohead. Af þessum 100 gestum sem þarna voru saman komnir þá einhverra hluta vegna fóru spjótin fljótlega að beinast að mér. Vegna gífurlegrar eftirspurnar þá varð það úr að dúetinn Vanir menn - vönduð vinna sá um sönginn en hann er skipaður síðuhaldara og Guðfinni Ólafi Einarssyni jr. Vakti frammistaða okkar vægast sagt gríðarlega lukku og er söngferillinn því farinn af stað, þó hef ég áhyggjur af því hvernig sagan mun koma út í meðförum nokkura veislugesta eins og þeirra Ásgeirs Þórs Jónssonar, Heimis Jónatanssonar og Haralds Péturssonar svo einhverjir þekktir sögumenn séu nefndir. En í gegnum allt myndavélaflassið þá þóttist ég greina videomyndavél, þannig að sennilega er þetta til á bandi. Nú er bara næsta skref að athuga hvort ég sé nokkuð orðinn of gamall í Idolið. Þeir lesendur sem vilja skora á mig að taka þátt í Idolinu geta skráð nafn sitt á undirskriftalista með því að senda póst á netfangið: hm@ov.is.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, April 16, 2004

Mikill er máttur Ragga Ingvars
Æ færri stuðningsmenn Liverpool leggja leið sína á Anfield Road til þess að fylgjast með liðinu og hafa áhorfendatölur hjá þeim undanfarið verið sögulega lágar. Greinilegt er að mótmælaaðgerðir Liverpool-stuðningsmannsins Ragnars Ingvarssonar hafa náð eyrum ársmiðahafa á Anfield. En þannig er mál með vexti að fyrir áramót fékk ég harðorðan tölvupóst frá Ragga sem hann hafði sent á nokkra þekkta menn úr knattspyrnuhreyfingunni. Þar sagði hann mál að linni og setti stjórn Liverpool afarkosti. Annað hvort yrði Frakkinn hjartveiki Gerard Hollíhú farinn úr landi í janúar ellegar Ragnar myndi láta af áralöngum stuðningi sínum við félagið. Sem hann og gerði, eins og frægt varð meðal annars á liverpool.is. Máttur Ragga er greinilega mikill enda hefur hann ávallt haft lag á því að fá fólk á sitt band. Og nú eru heitustu stuðningsmenn félagsins lagstir á árarnar með honum og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Köstin
Ég hitti mann um daginn sem ég kannaðist við í gegnum handboltann hér á árum áður. Hann spurði mig hvort ég væri hættur að kasta? Ég skyldi ekki alveg spurninguna en sennilega hefur hann dregið þá ályktun að ég væri hættur að hlaupa um á handboltavöllum. En til þess að hafa vaðið fyrir neðan mig þá svaraði ég því til að ég væri hættur að hreyfa mig um leið og ég kastaði, en að ég kastaði reglulega kveðju á fólk og kastaði stöku sinnum upp á sunnudögum. Hann gekk í burtu og hristi hausinn!
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, April 14, 2004

Stærðfræði og geðsýki - bullandi fylgni
Ekki get ég sagt að frétt mbl.is á dögunum, um að mikil fylgni væri á milli góðrar stærðfræðikunnáttu og geðveilu, kæmi mér sérstaklega á óvart. Þessu hef ég lengi haldið fram, þó hef ég ekki gert nákvæmar rannsóknir á þessu heldur er þetta meira tilfinning. Ég hef því ávallt reynt að gæta hófs í stærðfræði sem og öðru og fékk því iðulega 5 í einkunn allar götur síðan ég náði samræmda prófinu hjá Rúnari Vífils.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Teljarinn
Maður er alltaf að fikra sig áfram í heimi tölvunnar. Nú er kominn teljari á síðuna og verður forvitnilegt að fylgjast með renniríinu hérna á bloggi fólksins. Ágætt að hafa einhverja yfirsýn yfir þetta, sérstaklega þegar frá líður.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, April 13, 2004

Aldrei fór ég suður 2004
Eftir einhver ár verður merkilegt að geta sagt "Aldrei fór ég suður 2004? já já ég var þar". Laugardagurinn var skemmtilegur dagur hér í villta vestrinu. Bolungarvík átti 30 ára kaupstaðarafmæli og væntanlega í tilefni af því settu feðgarnir geðþekku Muggi og Öddi saman rokkhátíðina Aldrei fór ég suður. Maður hitti ótrúlega mikið af fólki þarna á tveimur brettum. Ég var við hátíðarhöldin í Víkinni um daginn þar sem mörg gamalkunn andlit voru mætt og var mættur á tónleikana innfrá áður en Dóri Hermanns fór á svið. Sá gamli tryllti lýðinn auðvitað og tók þrjú lög, sérstaklega heimilislegt að heyra hann taka Kötukvæði á samkomu sem þessari. Muggi var næstur og rúllaði upp tveimur þekktum slögurum, hann er greinilega vanari því að syngja en marga grunar. En stemningin á meðan þeir voru að syngja stóð upp úr, þó missti ég af því þegar Biggi Olgeirs tróð upp með númerið sitt en mér skilst að hann hafi fengið mikið klapp. Vona að þið hafið verið hress með Helgu Kress um páskana.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, April 08, 2004

Skákin
Vek athygli lesenda á stórskemmtilegri skáksögu á blogginu hjá Diskókónginum sjálfum Kalla Hallgríms. Ýmsar ályktanir má draga af þessari sögu varðandi innræti okkar þriggja, mín Kalla og Halla Pé. Mig hefur alltaf grunað að Kalli væri ekki jafn strangheiðarlegur og hann hefur viljað vera að láta. En það er stórt skref hjá honum að gera hreint fyrir sínum dyrum á opinberum vettvangi. Skákferill minn varð hins vegar ekki langlífur eftir þetta atvik en sennilega hefur fleira spilað inn í en þessir undarlegu tilburðir andstæðings míns.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, April 07, 2004

Afreksmaðurinn
Ég var alveg rasandi bit þegar ég horfði á frétt Stöðvar 2 í kvöld um leik Arsenal og Chelsea sem fram fór í gærkvöldi á Highbury. Eitthvað hafa fréttamenn stöðvarinnar látið geðshræringuna bera sig ofurliði, því í inngangi fréttarinnar sagði Edda Andrésdóttir að "Eiður Smári væri klárlega fremsti íþróttamaður þjóðarinnar og einn sá allra mesti sem hún hefði eignast". Já það var sko ekki verið að spara stóru orðin, enda lagði tappinn upp sigurmarkið. Þetta hlýtur að vera merkilegasta stoðsending í íþróttasögunni því Höddi Magg hélt áfram í fréttinni sjálfri og hnykkti á sömu setningunni; "Eiður Smári er klárlega fremsti íþróttamaður þjóðarinnar í dag". Ekki er íþróttasaga þjóðarinnar merkileg ef Eiður Smári er á meðal þeirra allra fremstu frá upphafi á þessu stigi ferils síns. Um er að ræða mann sem aldrei hefur unnið neitt. Ekki svo mikið sem einn bikarmeistaratitil, ekki einu sinni á Íslandi, a.m.k. ekki í meistaraflokki. Auk þess eru örfáir mánuðir síðan að íþróttafréttamenn kusu um hver væri klárlega íþróttamaður síðasta árs, og viti menn; ekki varð Eiður fyrir valinu.
Nú er ég ekki að reyna að gera lítið úr hæfileikum Eiðs heldur aðeins að benda á staðreyndir, þ.e.a.s. afrekalistann. Ég gæti einnig talað um að hann hefði aldrei unnið sér fast sæti hjá Chelsea frá því hann kom þangað, en það ætla ég ekki að gera. Það sem mér finnst einkennilegt er af hverju fjölmiðill setur fram órökstudda fullyrðingu eins og þessa hjá Eddu og Herði. Um skoðun hvers er að ræða? Harðar, Eddu, fréttastofu Stöðvar 2, íþróttadeildarinnar eða Norðurljósa í heild sinni? Það kemur ekki fram, heldur er þessu bara varpað fram sí svona, til þess að auka á dramatík fréttarinnar. Það væri hægt að lýsa hæfileikum og landvinningum Eiðs á mun heppilegri og viðeigandi máta, enda maðurinn óhemju hæfileikaríkur og GÆTI orðið okkar fremsti íþróttamaður frá upphafi ef hann hefur nægilega mikinn áhuga á því.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, April 06, 2004

Brúðkaupsafmæli
Gamla settið á 30 ára brúðkaupsafmæli í dag. Til hamingju með það mamma og pabbi. Þetta hlýtur að teljast merkilegt afrek á tímum 50% skilnaðartíðni. Ég held að ég geti sagt með nokkurri vissu að ef það væri ekki fyrir þau þá væri ég ekki hér. Og þá hefðuð þig lesendur góðir ekki þessa vitsmunalegu og hátíðlegu bloggsíðu til þess að ylja ykkur við. Já, maður hefur margt til þess að vera þakklátur fyrir.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Kristinn R - miklu meir
Ég les gjarnan stutta pistla sem eru í boði meðal annars á Netinu, til dæmis á bloggsíðum sem þessari. En þar sem Fréttablaðinu er dreift frítt, þá getur maður einnig gluggað í það reglulega. Þar er töluvert um pistla, eins og Bakþankana á baksíðunni. Ég les þá gjarnan og missi helst ekki af Þráni Bertelssyni enda er hann á meðal fyndnustu sonum þessa lands. Einnig hef ég gaman af Sigurjóni Egilssyni, en skrif hans á bakþönkunum eru yfirleitt persónulegar lífsreynslusögur matreiddar á einlægan og sniðugan hátt. Ég veit ekki hvað ég á að segja um Guðmund Steingrímsson og Eirík Jónsson en pistlarnir þeirra eru oft á tíðum hálf súrir, maður fær það á tilfinninguna að þeir fái sér eina jónu áður en þeir byrja að hamast á lyklaborðinu. Kristín Helga Gunnarsdóttir er slöppust af þessum pistlahöfunum og höfðar ekki til mín. Inni í blaðinu er gjarnan lengri pistlar og þar eru tveir gamalkunnir vinstri menn fastagestir, Guðmundur Andri Thorsson og Þorvaldur Gylfason. Sá fyrrnefndi er löngu orðinn þreyttur pistlahöfundur og er fastur í samsæriskenningum og sá síðarnefndi er enn að predika eitthvað sem hann kallar blandað hagkerfi og á að hafa gefist mjög vel í Bretlandi í stjórnartíð Tony Blairs. Guðbergur Bergsson er einnig með fasta pistla og hann er algerlega óútreiknanlegur, sem gerir hann reyndar svolítið spennandi. En sá sem skarar fram úr er Kristinn R. Ólafsson. Ég hef ávallt haft gaman af útvarpspistlum hans, enda maðurinn mælskur með endæmum og býr yfir ótrúlegri góðri þekkingu á íslenskri tungu. Ég var því spenntur þegar hann byrjaði að skrifa í blöð og hef ekki orðið fyrir vonbrigðum. Maðurinn er óhemju skemmtilegur penni og tekst alltaf að skjóta inn einhverjum fróðleik um Madrid og Spán. En það toppar þó ekkert íþróttalýsingar hans úr spænsku knattspyrnunni. Hverjum öðrum hefði dottið í hug að kalla þá Ronaldo og Rivaldo: Rögnvald reginskyttu og Rígvald gyllinknött? Hann mætti vera meira áberandi mín vegna.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, April 05, 2004

Dómarahneyksli
Það er ekkert minna en hneyksli að Biggi Olgeirs úr MÍ hafi ekki sigrað í söngkeppni framhaldsskólanna. Þó svo að Biggi sé sá eini af keppendunum sem hefur spilað golf með mér, þá get ég sagt af fullkomnu hlutleysi að hann var langbestur í þessari keppni. Hamrahlíð vann og ekki í fyrsta skipti, en ég held að ekki sé á neinn hallað þegar ég fullyrði að þær hafi verið með leiðinlegasta atriði keppninnar. Og hvaða aumingjadýrkun er það að verðlauna fólk fyrir að mæta í hópum í söngkeppni? Það er langmest pressa að standa einn á sviðinu og syngja, en ekki tvö, þrjú eða fleiri saman. Þá er áskorunin algerlega farin úr þessu. Í söngkeppni á fólk að standa eitt og yfirgefið á sviðinu, og reyna að kreysta fram lagvísi í gegnum svitaperlur, magafiðring og hnétitring. Af hverju mætti MH ekki bara með Hamrahlíðarkórinn eins og hann leggur sig? Bara svona til þess að gulltryggja þetta. Þessi dómnefnd er algerlega óhæf og ég trúi ekki öðru en að Arnar Eggert Moggamaður hafi sett Bigga í 1. sæti. Annars var þetta samansafn af menningarvitum plús einn bæjarstjóraræfill og kannski ekki við annari niðurstöðu að búast fyrst að MH bauð upp á trompetleikara með axlabönd.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Kasparov fámáll
Gary Kasparov skákvélmenni frá Bakú var hér á landi á dögunum til þess að vinna eins og eitt skákmót og ná sér í nokkur þúsund dollara í verðlaunafé. Eftir að hafa lagt Englendinginn Nigel Short í úrslitum þá vildi hann lítið ræða málin við Morgunblaðið um mótið. Ég held að hann hafi látið hafa eftir sér nokkrar línur og neitaði frekara viðtali. Gerir maðurinn sér ekki grein fyrir því að með þessu háttalagi á hann það á hættu, að komast í hóp örfárra manna sem hafa komið til landsins og mistekist að ná sér í titilinn Íslandsvinur? Má þar nefna ekki ófrægari menn en Robbie Williams, Jerry Seinfeld, Staffan Olsson og Halim Al.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, April 02, 2004

Til varnar Hannesi part3
Í Fréttablaðinu í dag er frétt um Hannes Hólmstein Gissurarson og mynd af honum. Í fréttinni er greint frá því að nokkrir nemendur í Stjórnmálafræði hafi kvartað undan kennsluaðferðum Hannesar við yfirmenn í Félagsvísindadeildinni. Gott og vel, þetta má heita fréttnæmt að mínu mati. En þetta er hins vegar enn eitt dæmið um það hvernig Hannes er fréttnæmari en annað fólk í þessu landi. Því Fréttablaðið hefur ekki minnst á það einu orði að það er nánast árlegur viðburður í Stjórnmálafræðinni að einhver kennari sé kærður eða undan honum kvartað. Til að mynda voru lokapróf eins kennarans kærð tvö ár í röð án þess að skrifuð væri frétt um það. Þetta er því alls ekki í fyrsta skipti sem nemendur í deildinni hafa einhverjar meiningar um það hvernig hlutirnir séu framkvæmdir og hvernig þeir ættu að vera. Ég verð þó að segja Fréttablaðinu til hrós að þau birtu fyrr á árinu frétt þess efnis að Hannes hefði verið kosinn besti kennari vetrarins af nemendum í stjórnmálafræði á árshátíð félags stjórnmálafræðinema. Þannig að í fréttaflóðinu um Hannes þá eru alltaf einhverjar jákvæðar innan um.

Verum hress með Helgu Kress um helgina.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.




Til varnar Hannesi part2
Þessi merkilega umræða um bók Hannesar hófst löngu áður en hann kláraði hana. Þá voru margir þess full vissir að hann ætlaði sér að skrifa þrjú bindi um rithöfundinn, í þeim tilgangi einum að gagnrýna hann fyrir að hafa verið sósíallista. Undravert að fólk geti komist að slíkri niðurstöðu áður en verkið er klárað hvað þá útgefið. Þegar fólk hafði lesið fyrsta bindið þá þagnaði þessi umræða að mestu. Þó var ég alveg rasandi bit þegar ég sá Guðnýju Halldórsdóttur í sjónvarpsfréttum segja að með bókinni væri Hannes að skopast að minningu föður síns. Ævintýralega heimskuleg niðurstaða, en miðað við baugana undir augum Guðnýjar þá hafði hún eytt einhverjum næturstundum við lestur bókarinnar, þó hún hafi raunar ekki sagst ætla að lesa hana.

Nú hafa óskilgreindir aðilar, sem kalla sig ættingja Halldórs Laxness, látið í það skína í fjölmiðlum að þeir hyggist kæra Hannes Hólmstein fyrir ritstuld úr verkum Halldórs. Það verður fróðlegt að fylgjast með því. Þessir aðilar sem hafa lifað á hræinu, ætluðu fyrrum æðsta presti í Máli og Menningu að skrifa ævisögu Halldórs. Hefði hún væntanlega verið vel ritskoðuð og laus við óþarfa sannleik eins og stundum vill verða í slíkum ritum. Til að mynda hefði tæpast verið greint frá því í bókinni um Jón Sigurðsson, að hann hefði fengið kynsjúkdóm í Köben, ef nánir ættingjar hans hefðu ritskoðað bókina.

Þessir hópur sem kallar sig fjölskyldu Halldórs gerði sig einnig að fíflum síðastliðið haust, þegar þau létu banna öllum nema tveimur persónum aðgang að skjalasafni Halldórs. Hafði þjóðin staðið í þeirri trú að hver sem er gæti skoðað safnið þar sem Landsbókasafninu var gefið það við hátíðlega og hjartnæma athöfn fyrir nokkrum árum. Og hver var gefandinn, jú svei mér þá ef það var ekki fjölskylda Halldórs Kiljans Laxness. Með þeirri gjöf viðurkenndu þau endanlega að maðurinn væri opinber persóna, og því afar einkennilegt að reyna svo allt til þess að koma í veg fyrir að hver sem er geti skrifað bók um þessa opinberu persónu.

Verum hress með Helgu Kress.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Til varnar Hannesi part1
... beiddi Bjarna bónda Þorsteinsson að selja mér 1 tn. af mó. Hann svaraði: „Nei, nei, nei; djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem geta ekki haft að sér hér á haustin, þeir verða að drepast þar sem þeir eru komnir. Nei djöfull þá flöguna að ég læt“. -
Úr Dagbók Magnúsar Hj. Magnússonar, færsla um 28. janúar 1910, varðveitt á Landsbókasafni Íslands. Síðar birt í ritinu Kraftbirtingarhljómi guðdómsins, öðru bindi ritraðarinnar „Sýnisbóka íslenskrar alþýðumenningar", bls. 288.

Þá gekk skáldið að ósk eiginkonu sinnar til hreppstjórans í Stórubervík og sagði að þau vantaði eldivið og fýrspýtur og bað um nokkrar móflögur að láni. Hreppstjórinn svaraði fljótt: Djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem ekki geta haft að sér á haustin verða að drepast þar sem þeir eru komnir.
- Halldór Kiljan Laxness, úr 2. kafla „Fegurðar himins", sem er fjórði hluti Heimsljóss. Hér tekið úr 5. útgáfu Heimsljóss II, bls. 146.

Á undanförnum mánuðum hafa íslenskir fjölmiðlar sent út fréttir af ævisagnaritun Hannesar Hólmsteins eins og um heimsviðburð væri að ræða. Hafa fjölmargir tekið þátt í umræðunni og er þeim mis mikill sómi af. Hingað til hef ég ekki blandað mér í umræðuna en ætla að gera það núna, lesendum mínum til mikillar armæðu væntanlega, þar sem margir eru orðnir leiðir á staglinu. En mér er einfaldlega nóg boðið og finn mig knúinn til þess að verja kennara min og frænda.

Nú hefur Prófessorinn án doktorsgráðu; Helga Kress, skrifað rúmlega 200 blaðsíður um tilttlingaskít, þ.e.a.s. notkun á tilvísunum í bók Hannesar um Halldór Kiljan Laxness. Það er með ólíkindum að einhver beri svo heiftugar tilfinningar í garð annars, að viðkomandi nenni að vinna mánuðum saman að því að klekkja á þessum heimatilbúna andstæðingi sínum. Heimilislíf hennar hlýtur að vera álíka áhugavert og hjá Haraldi pólfara. Þó er umræða um tilvísanir ekki óþekkt hér á landi, til að mynda gagnrýndu þrír fræðimenn (Einar G. Pétursson Sverrir Jakobsson og Sverrir Tómasson) Ólínu Þorvarðardóttur fyrir notkun hennar á tilvísunum í doktorsritgerð hennar. Einhverra hluta vegna höfðu fjölmiðlar engan áhuga á þeirri tilvísunarumræðu, enda nennti enginn að setja saman rúmlega 200 blaðsíðna skýrslu út af slíkum smámunum.

Hafi orðatiltækið að gera úlfalda úr mýflugu einhvern tíma átt við, þá er það í þessari umræðu um vinnubrögð Hannesar. Á tímabili heyrðust sterkari ásakanir opinberlega eins og ritstuldur, en slíkt getur einfaldlega ekki gengið upp að mínu mati þar sem ekki er reynt að stela. Í heimildaskránni er að finna allar heimildir sem stuðst var við og er það óumdeilt. Það hlýtur því að vera erfitt að stela einhverju þegar höfundanna er getið. Hluti af ástæðunni fyrir ónákvæmum ásökunum sem þessum er væntanlega sá að flestir þeirra sem voru hvað hneykslaðastir á innihaldi bókarinnar höfðu ekki lesið hana.

Verum hress með Helgu Kress.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?