<$BlogRSDURL$>

Wednesday, March 30, 2005

Post-modernismi
Einstaklega Post-modernískt ástand sem skapaðist hér á dögunum þegar stórmarkaðir fóru að gefa mjólk og lækka verð á nauðsynjavörum eins og kóki. Fólk gekk inn í nútímalegar matvöruverslanir en rak sig síðan á gamaldags skömmtunarkerfi. Bannað að yfirgefa búðina með meira en tvo potta af mjólk, alveg burt séð frá því hvort fólk væri tilbúið til þess að borga tvöfalt upphaflegt verð. Ég frétti að Ásgeir Þór hefði verið hætt kominn í innkaupum sínum fyrir fjölskylduna þegar rokfínn jakki hans festist í kerru einnar húsmóðurinnar. Í látunum sem sköpuðust hættu húsmæðurnar nefnilega að ganga með kerrurnar heldur hlupu með þær. Þessi ágæta kona tók á rás, með Ásgeir í eftirdragi, sem þeyttist eins og Mary Poppins eftir allri búðinni, fastur við innkaupakerru konunnar. Til marks um æsinginn í konunni þá má benda á að Ásgeir er tæplega 190cm og rúmlega 100kg. Þegar hún hægði örlítið á sér til þess að kasta mæðunni, þá náði Ásgeir á diplómatískan hátt að benda henni á að jakkinn væri fastur í kerrunni og losnaði hann þar með úr prísundinni.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 29, 2005

Fótboltalandsliðið
Bragi móðurbróðir minn benti mér á fyndinn punkt í dag í tilefni af rasskellingu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Króatíu. Forysta KSÍ hlýtur að grípa í taumana og reka landsliðsþjálfara kvennaliðsins!!!
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 28, 2005

Orðrétt
Mugison er fáviti. Ekki hlusta á hann.
-Smári Karlsson á sviði á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður.

Aldrei fór ég suður 2005
Skellti mér á Aldrei fór ég suður annað árið í röð. Óhemju skemmtilegur viðburður og stemningin eftir því. Mugison var frábær og rosaleg stemning þegar hann var að spila. Ég hafði gaman af The nine elevens sem vekja alltaf athygli. Geiri og Valdi voru byrjaðir í þessu stússi í gaggó, og eru að gera svipaða hluti í dag. Þeir eru bestir í þessu. Þeir hafa sterka nærveru á sviði af því að þeir fara með þungarokksdæmið alla leið, útlit, klæðaburður, framkoma. (Þetta er svona Heiðars snyrtis lýsing). Ragnar Kjartans var sturlaður, hlýtur að gera tilkall til þess að vera steiktasti maður á Íslandi. Gaman að því. Skrúfað var niður í sumum hljómsveitum og nokkrar fengu minni tíma heldur en áætlað var; eins og Reykjavík og Húsið á sléttunni. Eðlilegt að þeir séu fúlir yfir því en menn hljóta að sýna þessu skilning. Stafrænn Hákon vinur minn var fúll yfir því að tölvan klikkaði hjá honum og tvö lög klúðruðust út af því. En hann ætlar að snúa aftur að ári. Ég hef heimildir fyrir því hjá guðföður þessarar hátíðar að grundvöllur sé fyrir því að gera þetta að árlegum viðburði og það sé komið á teikniborðið. Skál fyrir því.
Þetta er Kristján Jónsson sem bloggar fyrir Blogg fólksins úr Villta vestrinu.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, March 27, 2005

Orðrétt
Nú er mikið talað um samþjöppun á eignarhaldi í fjölmiðlun. Ægivald Baugs stingur marga í augu. Við stjórnmálamenn gætum vafalítið bent á dæmi um það hvernig vild Baugs virðist stundum birtast í sérstakri umhyggju fyrir þeim stjórnmálamönnum og konum sem Baugur hefur velþóknun á. Í atvinnulífinu kvarta menn hástöfum undan því að Baugsmiðlarnir hygli fyrirtækjum sem þeim tengjast með fréttum og umfjöllun [um þá] sem þeir eiga í eða hafa tengsl við.
-Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar á heimasíðu sinni.

Wednesday, March 23, 2005

Sir Alex ætlar að eyða ævikvöldinu á Old Trafford
Sir Alex var víst að lýsa því yfir að hann ætlaði að stjórna Manchester United næstu tuttugu - þrjátíu árin eða svo. Ég hef ákveðnar efasemdir um ágæti þess. Í mér blundar sem sagt fól. En það má orða það svona; ef hann hefur ekki vit á því að kaupa markmann í almennilegum klassa í sumar þá er hans dómgreind endanlega farin í hundana og hestana: þ.e. veðreiðarnar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 22, 2005

Halló... Forsetinn fer líka með löggjafarvaldið!
Vef-þjóðviljinn bendir á skemmtilegan hlut í dag en hann er sá að þeir fjölmiðlar sem mestu ítrekuðu síðasta sumar að Forseti Íslands færi með hluta löggjafarvaldsins virðast nú vera búnir að gleyma því. Að minnsta kosti fullyrtu fjölmiðlar í gær að Fischer væri orðinn Íslendingur. Til dæmis segir Fréttablaðið í dag á forsíðu: "Bobby Fischer er kominn með íslenskan ríkisborgararétt." Fréttablaðið er nú að gera fulllítið úr hlutverki sonar Gríms rakara með þessu, en hann þarf jú að skrifa undir þetta eins og annað. Kannski að hann móðgist yfir þessum fréttaflutningi og synji þessu svona til þess að minna á sig, eða sleppi einhverjum stórum atburði hjá einhverri frændþjóð okkar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 21, 2005

Íslendingar og heimsmenningin
Ég verð oft var við að fólk reynir að halda því fram fullum fetum að helgarfyllerí tíðkist hvergi annars staðar á byggðu bóli nema á Íslandi, kannski Grænlandi og Færeyjum. Þeir sem halda þessu fram, telja sig merkilega ef þeir tala um að Íslendingar kunni ekki eitthvað, eða Íslendingar eigi nú eftir að læra eitthvað o.s.frv. Það er fátt eins aumkunarvert eins og þegar einhver heldur að úthúðun á samlöndum sínum geri hann að heimsmanni. Ég er alltaf að reka mig betur og betur á það að helgarfyllerí tíðkast víða annars staðar en í Skandinavíu. Til dæmis víða í Englandi og þar er unglingadrykkjan þannig að krakkarnir skella sér yfir sundið og detta í það í Amsterdam. Það kom fram hjá mörgum Bretum í þættinum How do you like Iceland að þeir þekktu unglingadrykkju og helgarfyllerí vel frá heimahögum sínum. Og núna var ég að lesa færslu hjá Óla Stef undrabarni um hvernig spænska vísitölufjölskyldan dettur í það á sunnudögum. En kannski ágætt að taka það fram að vínmenningin hefur breyst á Íslandi, þar sem hún er að færast úr sterku yfir í létt.
Passið ykkur á myrkrinu.

Sunday, March 20, 2005

Munnmælasögur#15
Fyrir nokkrum árum fór ég í ferð með samnemendum mínum í stjórnmálafræði til Brussel í Belgíu þar sem helgustu vígi Evrópusambandsins og NATO eru til húsa. Nemendur í stjórnmálafræði við HÍ hafa farið þarna á hverju ári og skoðað sig um. Ég var með vini mínum Gunnari Sigurðssyni frá Ólafsvík í herbergi, en hann er nú orðinn landsfrægur fyrir leiksigur sinn í auglýsingunum um enska boltann á Skjá1, þar sem hann leikur útgáfu af hliðarsjálfi sínu. Ekki er vitað til þess að það hafi gerst í öðrum slíkum ferðum að einhverjum hafi verið stungið í steininn, en í ferðinni sem ég fór þá gerðist það einmitt að yfirvöld í Brussel sáu þann kostinn vænstan að taka Gunnar höndum. Eftir fjörugt heimboð íslenska sendiherrans var haldið á pöbbarölt um miðnættið á miðvikudagskvöldi. Gunnar hafði gert kjarakaup í einni tyrknesku kjörbúðinni og keypt sér lambúshettu sökum mikils kuldakasts sem þarna reið yfir meginlandið. Bar hann hana á höfði er við vorum á leið á írskan pöbb og er við gengum fram hjá einhverri verslun þá danglar Gunnar aðeins með fætinum í grindina sem dreginn er fyrir gluggana eftir lokun. Akkúrat í þann mund rennur lögreglubifreið upp að sem líklega hafði runnið á hljóðið frá baráttusöngvum Ipswich Town sem Gunnar hafði sungið hástöfum. Ekki veit ég hvað er kennt í lögregluskólum í Belgíu, en ég get mér þess til að heppilegt sé talið að grípa inn í þegar maður með lambúshettu sparkar í öryggisgrind verslunnar að næturlagi. Var Gunnar hýstur í litlum fangaklefa um nóttina og var sleppt á hádegi daginn eftir, þegar Gunnar Snorri sendiherra hafði hringt á lögreglustöðina. Hafði þá verið búið að finna enskumælandi lögreglumann sem tók skýrslu af Gunnari. Kom nokkuð fát á hann þegar hann heyrði hjá hverjum Gunnar hafði verið að drekka áfengi kvöldið áður. Hann vildi fá að vita hvað Gunnar hefði nákvæmlega innbyrt, en þegar upptalningin var hálfnuð þá hætti hann við og skrifaði í skýrsluna: "He had a lot to drink" en ekki þarf að taka fram, að barinn var vel útilátinn hjá sendiherranum og þurfti Gunnar því að smakka á hinum ýmsu tegundum hjá pakistönsku þjónunum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, March 18, 2005

DV forsíður Baggalúts
Það er ekkert eðlilega fyndið þegar Baggalútur birtir DV forsíðurnar sínar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Undirhandarpælingar hjá Óla Stef
Óli Stefáns er að missa sig í heimspekinni. Komst yfir slóðina á bloggsíðunahans og lestur er sögu ríkari. Maðurinn er djúpur þessa dagana og áhugavert að kíkja á pælingarnar hans. Það detta líka inn hjá honum vangaveltur um boltann, eins og til dæmis; er nóg hjá mér að vera bestur í heimi eða á ég að bæta við 200 magaæfingum á dag?
Passið ykkur á myrkrinu.

Köttari bloggar
Maður er nefndur Ægir Eysteinsson og er Köttari. Skemmtilegur maður Ægir. Hann er kominn af stað með bloggsíðu þar sem hægt er að finna skemmtilegar færslur um menn og málefni. Ægir hefur verið að dunda sér í Háskóla Eyjafjarðar og er í platónskri sambúð með Trausta Salvari. Ég hjálpaði Gísla bróður hans í gegnum einhverja áfanga í Ármúla á sínum tíma. Mæli með þessari síðu og þá sérstaklega færslunni sem heitir we are the children.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 17, 2005

Minning Önnu Lindh heiðruð.
Nei hætti nú alveg að snjóa. Það er nú ekki alveg í lagi með þetta fólk. Þið munið eftir Önnu Lindh, utanríkisráðherra Svía sem var myrt í verslunarmiðstöð. Búið er að heiðra minningu hennar, eða þannig.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, March 16, 2005

Talsmaðurinn
Það er gott til þess að vita að við eigum stórgreindann talsmann úti í hinum stóra heimi sem er glæsilegur fulltrúi stoltrar þjóðar eins og þessi frétt ber með sér.
Passið ykkur á myrkrinu.

Ruslpóstur
Fólk kvartar gjarnan yfir því mikla magni ruslpósts sem það fær sent í tölvupósti. Til dæmis þegar Nígeríumenn eru í tímabundnum vandræðum með milljarðana sína. Ég fæ einnig mikið af alls konar ruglpósti á háskólanetfangið mitt, og þá sérstaklega frá deildum innan háskólans. Við skulum grípa niður í bréf sem ég fékk í dag:

"Þann 21. mars næstkomandi verður haldin stofnfundur Balkanfélagsins á Íslandi. Balkanfélagið er áhugafélag um málefni Balkanskagans, náttúru, mennigu og sögu þeirra þjóða sem þar búa. Með stofnun félagsins gefst félagsmönnum tækifæri til að fá innsýn í málefni Balkans á mjög góðan og nærtækan hátt.

Í tilefni stofnfundarins mun Örjan Sturesjö lektor í Austur-Evróskum fræðum við Háskólan í Uppsölum halda fyrirlestur. Hann mun m.a. fjalla um ferð sem búið er að skipuleggja og farin verður til Serbíu, Svartfjallalands og Albaníu í lok maí. Örjan Sturesjö er talin meðal fremstu sérfræðingum um Balkan í dag. Hann hefur unnið við rannsóknir á Balkanskaganum í yfir þrjátíu ár og þar af búið í meira en tíu ár á svæðinu. Á þeim tíma hefur hann kynnst öllum helstu ráðamönnum og framámönnum Balkanlandanna bæði fyrr og nú og þannig náð einstakri innsýn í málefni þeirra. Örjan heldur fyrirlestur sinn á ensku. Fundurinn er haldin í húsakynnum ferðaskrifstofunar Primu Emblu að Stangarhyl 1 og hefst kl 20.00 mánudaginn 21. mars nk."

Þegar ég fæ svona póst þá langar mig til þess að skjóta mig í hausinn.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 15, 2005

Ljóðahornið Mósaiksglugginn#5
Jæja, best að halda áfram að gera þetta blogg menningarlegt. Þessar línur eru úr laginu Dánarfregnir og jarðarfarir eftir Stormskerið:

Já fluttar eru fréttir,
sárt fá sumir grátið.
Hundruð láta lífið,
en hvert er lífið látið.

Það bíður upp á betra,
að bíða en ana.
Það bíður þess enginn bætur,
sem bíður bana.

Passið ykkur á myrkrinu.

Nýr diskur frá Gylfa Ægis
Einlægt viðtal við Gylfa Ægis í sunnudagsblaði Fréttablaðsins þar sem fram kemur meðal annars að hann sé að koma með nýjann disk. Í viðtalinu segir hann öruggt að lag númer 3 verði vinsælt ef það verði spilað á útvarpsstöðvunum. Einnig er mjög athyglisverður punktur þar sem hann skýrir frá því sem hann las út úr flís á baðherberginu sínu. Commentari ársins HáEmm tjáði mér að Gylfi hefði sett sig í samband við Orkubú Vestfjarða í síðustu viku en erindið er víst leyndarmál sem varðar þjóðaröryggi.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 14, 2005

Munnmælasögur#14
Eitt sinn á mínum sokkabandsárum vorum við Ásgeir einir heima eins og stundum kom fyrir. Sat hann að sumbli ásamt Dóra Magg og Einar Guðmunds og þegar þá vantaði skyndilega bland þá var ég sendur, en Ásgeir hafði gleymt að gera ráð fyrir því að Einar blandaði alltaf í Sprite. Ásgeir lét mig hafa fimm þúsund kall, ég skutlaðist á Shell-skálann og keypti 2 lítra af Sprite. Eitthvað fórst það fyrir hjá mér að láta hann hafa afganginn, enda fannst mér þetta vera hæfileg þóknun fyrir viðvikið. Þegar líða tekur á kvöldið er ég að kjafta við vini mína Halla Pé og Ragga Ingvars fyrir framan sjónvarpið, en þremenningarnir sátu hins vegar inni í stofu. Ræddu þeir Einar, Ásgeir og Dóri landsins gagn og nauðsynjar en þegar talið barst að fjármálum þá galar Ásgeir: "Vel á minnst. Kristján, kostuðu 2 lítrar af Sprite sléttar fimm þúsund?"

RÚVarar og prinsippin
Fréttamenn á RÚV eru brjálaðir út af því að einhver maður var ráðinn fréttastjóri. Ég get alveg skilið það, þessi maður virðist ekki hafa verið með mikla reynslu af fréttamensku. Það er skiljanlegt að fréttamenn séu með uppsteit. Að sama skapi er illskiljanlegt af hverju slík uppsteit voru ekki til staðar þegar Helgi H. Jónsson var ráðinn fréttastjóri sjónvarpsins í aðdraganda borgarstjórnarkosninga 98. Þá heyrðist ekki orð þrátt fyrir að gengið væri framhjá áliti Boga Ágústssonar sem hafði mælt með Elínu Hirst. Sjálfstæðismenn í útvarpsráði greiddu henni atkvæði í samræmi við álit Boga, en fulltrúar R-lista flokkanna í útvarpsráði mynduðu meirihluta og greiddu atkvæði með Helga, en svo óheppilega vildi til að eiginkona hans var Borgarritari og nánasti samstarfsmaður Borgarstjóra; Ingibjargar Sólrúnar. Hvar voru prinsippin hjá fréttamönnum RÚV þá? Núna þykir það hinn versta hneisa að ekki sé farið eftir áliti Boga, og vinstri menn í útvarpsráði telja meira að segja að þeir eigi ekki að mæla með fólki, eins og þeir gerðu gagnvart Helga. Þetta er fullkomlega óskiljanlegt, eða hvað? Ég nenni ekki að pæla meira í þessu þar sem ég hef verið þeirrar skoðunnar í nokkurn tíma að ríkisvaldið eigi ekki að vera að vasast í fjölmiðlarekstri. Sú skoðun mín breytist ekki við svona ráðningar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Barnapössun
já það var í sambandi við þessa barnapössun á föstudagskvöldið. Það er alveg hægt að sleppa heill frá þessu ef þetta er eitt skipti á ári, en þetta er ekki leggjandi á nokkurn mann frá degi til dags. Eitthvað hafði kappinn litla matarlyst sem hefur líklega bjargað mér frá bleyjuskiptum, enda stendur í Kóraninum; Ekki er gott að skipta um bleyjur á annara manna börnum. Sennilega myndi maður ekki borða svo ýkja mikið sjálfur ef það ætti að pína ofan í mann skólajógúrt og banana. Ég vantreysti mat sem ekki er mældur í tommum. En Ásgrími hafði verið haldið skipulega vakandi fyrr um daginn svo hann myndi lognast snemma út af. Gott og vel, hann var orðinn verulega þreyttur frekar snemma um kvöldið og ég setti hann í náttfötin (ekki Liverpool náttfötin sem HM gaf honum) og hitaði vatnið. Hann var í stofunni meðan ég brá mér frá í 30 sekúndur. Þegar ég kem aftur er hann búinn að sturta ofan í sig kókglasinu sem ég var með og var að sleikja leifarnar. Þetta hefur hann úr föðurættinni. Koffínið og sykurinn hafði mikil áhrif á þennan litla búk, því í stað þess að halda áfram að vera syfjaður þá bara skríkti hann í hálftíma, líkt og stjórnmálafræðinemarnir gerðu þegar þeir voru að reykja skrítnu sígaretturnar í Amsterdam. En ég segi nú bara eins og Halldór Magnússon sagði þegar hann var spurður að því hvað hann myndi taka fyrir að vinna á leikskóla: "800 á mánuði og ekki krónu minna".
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, March 12, 2005

Skál fyrir Cheers
Skjár 1 fær prik frá síðuhaldara fyrir að sína þættina Cheers frá byrjun. Allt að því goðsagnakenndir þættir og mikinn fróleik hægt að læra af þeim Cliff og Norm þegar flæðir upp úr þeim viskan. Það er költ hjá mörgum að muna Cliff og Norm brandara. Ég man einn hjá Norm þegar þeir voru að ræða um konur: "Wimen; can´t live with them - pass me the beernuts" !!
Passið ykkur á myrkrinu.

Friday, March 11, 2005

Alice Cooper boðar komu sína
Stórrokkarinn Alice Cooper mun að öllu óbreyttu halda tónleika 13. ágúst í Kaplakrika. Ég er mikill aðdáandi hans enda skemmtileg týpa og alvöru rokkari. Þetta er ekki svona soft gutl eins og Iron Maiden og hvað þeir heita nú þessir stuttklipptu flugmenn. Fyrirtæki Einars Bárðar flytur hann inn og hefur Bárðarson hækkað í áliti hjá mér við þessi tíðindi. Fyrir utan músíkina þá var Alice Cooper einnig frægur fyrir að setja á svið mikið show en spurning hvort það hafi eitthvað dregið af honum með aldrinum. Cooper heitir réttu nafni Vincent og er frá rokkborginni Detroit. Þótt ótrúlegt megi virðast var faðir hans prestur! Vincent varð fljótlega nokkuð uppsigað við vald og var rekinn átta sinnum úr Grunnskóla sem kemur ekki á óvart. Það sem er undarlegt er að honum hafi verið hleypt inn aftur sjö sinnum! Daníel Ólafsson sagði í Dalalíf þegar breakdanskeppnin var á Óðali: "Ég ætla sko ekki að missa af því". Geri ég þau orð hans nú að mínum.

Og nú að allt öðru. Eitthvað var verið að kvabba um það á Bylgjunni í dag að Duran Duran ætti að koma hingað í maí. Tek það með fyrirvara. Ef þeir væru væntanlegir væri Ómar Dadda búinn að segja manni frá því.
Passið ykkur á myrkrinu.

Lagt inn í reynslubankann
Mun taka að mér óvenjuleg störf í kvöld. Ekki hefur mér oft verið treyst fyrir barnapössun en breyting verður á því í kvöld. Mér hefur verið treyst fyrir eins og hálfs árs gömlum púka hjá Ásgeiri og Ásu. Einhverra hluta vegna hefur vinafólk mitt aldrei beðið mig um passa, skil ekki hvernig á því stendur. Hef haft pat af því að Ásgeir sé búinn að vera í alls kyns hringingum í næstu hús til þess að hafa fólk í viðbragðsstöðu. Það er gott að manni er treyst. En þetta gæti orðið forvitnileg reynsla sem lesendum verður betur greint frá um helgina.
Passið ykkur á myrkrinu.

Thursday, March 10, 2005

Pensillinn að meikaða
Rögnvaldur Magnússon aðstoðarpensill hjá Halla málara var að gera það gott í söngvakeppni MÍ þar sem hann varð í 2. sæti með gömlu Fóstbræðralagi sem heitir Birgir þú átt von. Það virðist vera að Biggi Olgeirs sé orðinn svo stórt nafn í bransanum að menn þurfi ekki annað en að vera með nafn hans í lagatitlinum og það er ávísun á árangur. Hægt er að nálgast demo útgáfu af laginu á heimasíðunni hjá Jóni Góða og var lagið með mikla downlodun (eins og unga fólkið kallar þetta) í síðustu viku. Fréttavefurinn Víkari.is gerði málinu skil eins og sjá má hér.

Wednesday, March 09, 2005

Ritstjóri Bloggs fólksins ryðst fram á ritvöllinn
Vek athygli ykkar á því að gríðarlega skemmtilega grein eftir ritstjóra Bloggs fólksins er nú að finna á sus.is. Hún var birt í gær og ber nafnið "Lögregla hefur afskipti af pistlahöfundi". Ágætis afþreying ef þið hafið ekkert betra að gera.
Passið ykkur á myrkrinu.

Monday, March 07, 2005

Frjálslyndið hjá Frjálslyndum
Blogg fólksins lýsir eftir frjálslyndinu í ályktunum og stefnu Frjálslynda flokksins sem hvergi er sjáanlegt nema þá í tillögu um frjálsari klæðaburð á Alþingi. Líklega væri eðlilegra að flokkurinn breytti bara þessu nafni sínu sem er afskaplega óviðeigandi miðað við skoðanir flokksmanna. Ef eitthvað er að marka Gunnar Örlygsson (Görl), þá lagði flokkurinn upp með á sínum tíma að vera hægra megin við miðju. Eitthvað hefur það nú farist fyrir hjá þeim því erfitt er að greina þá frá hinum stjórnarandstöðuflokkunum sem báðir skilgreina sig vinstra megin við miðju.
Passið ykkur á myrkrinu.

Saturday, March 05, 2005

Grein um menntamál
Ágætis grein á einhverjum vef sem heitir Vísir.is um skólamál í Garðabæ, þar sem almenn ánægja virðist ríkja á meðal foreldra um valfrelsi á grunnskólastigi. Það er nú ekki of algeng að fjallað sé um valfrelsi í skólakerfinu fordómalaust og því full ástæða til þess að vekja athygli á þessari umfjöllun sem kallast: "Hljóðlát bylting Ásdísar Höllu" og er skrifuð af Fréttablaðsmanninum Guðmundi Magnússyni.

Friday, March 04, 2005

Munnmælasögur#13
Hagbarður Marínósson er maður orðheppinn með eindæmum eins og sjá má í Munnmælasögu nr. 1 frá 30. september síðastliðnum. Eitt sinn var ég staddur með Barða á golfvellinum í Bolungarvík á sólríkum sunnudegi á Jónsmessu 2003. Á Jónsmessunni var ákveðið að á laugardagskvöldi yrði miðnæturganga upp á Bolafjall og var það auglýst með áberandi hætti. Ég spurði því Barða daginn eftir hvort hann hefði skellt sér í gönguna og ekki stóð á svarinu: " Stjáni, er ekki örugglega allt í lagi með þig? Ég ætti ekki annað eftir en að eyða heilu kvöldi í príla upp á einhvern hól sem ég get komist á 5 mínútum á bíl. Ég fæ hausverk bara af því að hugsa um þetta."

Thursday, March 03, 2005

Fischerfrelsararnir með puttann á púlsinum
Tæknilegur Guðfaðir þessarar bloggsíðu hefur nú sett inn á hana lítinn punkt sem hægt er að smella á. Þá kemur í ljós teljari með ýmsum útlistunum á því hve margir heimsækja bloggið á degi hverjum og hvaðan o.s.frv. Í dag tók ég eftir að Blogg fólksins er með tvær heimsóknir frá Japan. Það er greinilegt að Sæma Rokk leiðist á hótelinu og hefur ákveðið að kíkja á kallinn enda Fischerinn kominn í einangrun!
Passið ykkur á myrkrinu.

Pennar
Baldur Smári er búinn að henda inn sperningu á Sleikipinnavefinn þar sem spert er hvor sé betri penni, ég eða Trausti Salvar. Ég verð nú að viðurkenna að það er ekki ýkja auðvelt að keppa við Trausta í svona Baggalútsstíl en við sperjum að leikslokum.
Passið ykkur á myrkrinu.

Wednesday, March 02, 2005

Fjölmiðlafulltrúa takk
Ég fylgdist með talsmönnum Bónus og Krónunnar rífast í Íslandi í gær í gær. Mér fannst þeir ekki komast vel frá þessu og velti því fyrir mér af hverju slík stórfyrirtæki eru ekki með fjölmiðlafulltrúa til þess að vaða í svona verkefni. Má ég þá stinga upp á því að þeir ráði menn eins og mig sem kunna ekkert annað en að rífa kjaft í ræðu og riti.
Passið ykkur á myrkrinu.

Samtök um bætta vínmenningu
Bjórdagurinn var í gær, þ.e.a.s bjórbanninu var aflétt 1. mars 1989. Í dag verða stofnuð samtök um bætta vínmenningu á Íslandi. Þetta verður að teljast fagnaðarefni, sérstaklega í ljósi þess að stofnfélagar samtakanna hyggjast beita sér fyrir því að höft á áfengissölu verði afnuminn, eða reglurnar rýmkaðar að minnsta kosti. Stofnfundurinn verður í Iðnó en þrír þingmenn verða gestir fundarins og bendir gestavalið til þess að félagið sé þverpólitískt: Guðlaugur Þór Þórðarsson, Ágúst Ágúst Ágústson og Gunnar Örlygsson. Skil ekki hvers vegna þekktum heimsmanni og fagurkera eins og mér er ekki boðið að halda framsögu á þessum fundi. Sperning um að beina þessu fólki í Vín Hússins á meðan ríkiseinokunin er enn til staðar.
Passið ykkur á myrkrinu.

Tuesday, March 01, 2005

Óli Örn á Rokkhátíð alþýðunnar 2005
Ég sé að búið er að bóka Stafrænann Hákon á Rokkhátíð alþýðunnar um páskana. Stafrænn Hákon er Ólafur Örn Jósephson. Ákaflega mætur og skemmtilegur maður sem ég spilaði handbolta með bæði hjá ÍR og Fylki. Hann er góður vinur Péturs Magg og afrekaði einnig að vinna á lagernum í Tæknival með Ragga Ingvars. Ég er spenntur að sjá hann á sviði, hef ekki upplifað það fyrr enda er maðurinn meira og minna í Danmörku.
Passið ykkur á myrkrinu.

Systir mín langt á undan sinni samtíð
Fyrir nokkrum árum fór Einar Bárðar með lagið Birtu í Eurovision. Magga systir var handviss um að lagið myndi vinna og bauð í sigurveislu að heimili sínu því einungis formsatriði var að bíða eftir úrslitunum. Ég hafði nú mínar efasemdir þegar sólgleraugnamaðurinn og broskallinn byrjuðu að dilla sér á sviðinu. En hvað um það, nú nokkrum árum seinna er lagið víst komið í 2. sæti sænska vinsældarlistans í sænskri útgáfu og smáskífan selst í bílförmum. Þetta sýnir að Magga er langt á undan sinni samtíð.
Passið ykkur á myrkrinu.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?