<$BlogRSDURL$>

Wednesday, March 31, 2004

Minniskubbur eða kviksyndi?
Ég rakst á stórskemmtilegan pistil eftir Guðmund Gunnarsson vin minn á vef þeirra fjömiðlafræðinema í Eyjafirðinum. Þar talar hann hvernig minniskubburinn í hauskúpunni á honum sé ekki að virka sem skyldi. Lætur hann í það skína að ef ekki væri fyrir minnisleysi þá væri hann gífurlega framtakssamur í heimilisstörfunum. Það er nú óhætt að taka það með fyrirvara, en pistillinn er engu að síður afspyrnu skemmtileg lesning. Slóðin: http://www.landpostur.is/pistlar/nr/378
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Áhorfstækni
Ég hef löngum velt því fyrir mér hvernig faðir minn horfir á imbakassann. Sjálfur get ég státað af mikilli reynslu fyrir framan imbann en þrátt fyrir það, þá skil ég ekki almennilega þá tækni sem hann beitir. Fyrir það fyrsta þá getur hann horft á bíómyndir með því að standa reglulega upp og rápa um húsið, fer kannski inn í eldhús og út á tröppur að kíkja til veðurs. Þá nýtir hann sér gjarnan þá sem eru nálæga, í flestum tilfellum móður mína, og spyr hvað hafi gerst í millitíðinni og hverju hann hafi misst af. Einnig er hann lunkinn við að nýta sér þá sem eru nálægir þó hann sitji sjálfur fyrir framan sjónvarpið. Því þá er hann jafnvel að lesa blað í leiðinni og er rétt hlustar eftir því sem er í sjónvarpinu. Ef hann heyrir út undan sér eitthvað áhugavert þá verður sessunauturinn að gjöra svo vel að setja hann inn í málið.

Annað sem ég get nefnt er að gamla settið er ekki sérstaklega kröfuhart þegar kemur að sjónvarpsefni. Sjálfur get ég nú horft á mikið af því sem í boði er en ég dreg þó línuna við ákveðið efni sem mér líkar ekki. Þau geta hins vegar setið yfir einhverju afskaplega lélegu efni, enda þekkja þau þá tíma þegar einungis ein stöð var á boðstólum og ekkert myndbandstæki. Nú horfir svo við í dag að ef RÚV er með lélega dagskrá þá geta þau sett yfir á aðra stöð eða sett spólu í tækið. En það reynist oft afskaplega erfitt að muna eftir slíku, enda ekki liðinn nema um 20 ár síðan þessar breytingar urðu. Þau horfa því frekar á búlgarska, svart hvíta, dans- og söngvamynd frá sjötta áratugnum á RÚV þó svo að einhver nýleg verðlaunamyndin með Al Pacino sé kannski á Stöð 2 á sama tíma. Þetta finnst mér alveg stórmerkilegt og verðugt rannsóknarverkefni fyrir atferlisfræðinga.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, March 30, 2004

Reynslumikill og upprennandi skemmtikraftur
Er hægt að vera bæði reynslumikill og upprennandi skemmtikraftur? Mjaaa það virðist vera. Ég rak augun í skemmtilega mynd á Víkara.is þar sem forstöðumaður sundlaugarinnar í Bolungarvík; Dr. Gunni (Hallsson), var í miðju gítarsólói á göngum Árbæjar. Samkvæmt áðurnefndu vefriti þá gæti gítarleikur Dr. Gunna orðið að vikulegum viðburði í sundlauginni. Þarna er því á ferðinni comeback hjá einum af ástsælasta skemmtikrafti bæjarins sem áður gerði garðinn frægan í þungarokkshljómsveitinni Berklar. Einnig gat hann sér gott orð sem sviðs- og kvikmyndaleikari á árum áður en hefur lítið látið til sín taka á þeim vettvangi að undanförnu. Þessi endurkoma Drs. Gunna í skemmtanabransann rennir enn frekari stoðum undir þær sögusagnir að hann muni verða næsti vert í Ósvör þar sem nú stendur fyrir dyrum að yngja upp starfsliðið eftir að Geir Guðmunds hætti að gefa kost á sér. Mikilvægt er að fá mann í starfið sem er vanur sviðsljósinu enda starfið ávísun á heimsfrægð eins og oft hefur komið fram.

Þetta minnir mig á það, ég ætlaði alltaf að fá lánaða videóspólu hjá Gunnari. Þarf endilega að muna eftir því í páskafríinu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, March 29, 2004

Sjálfstæðisbarátta
Ég hef það á tilfinningunni að það sé farið að styttast í að Vestfirðingar lýsi yfir sjálfstæði. Mér finnst öll uppátæki Vestfirðinga undanfarið bera þess merki. Þegar er hafin undirbúningsvinna við að raða í helstu embætti og búa til þotulið. Hefur það verið gert á lýðræðislegan máta þar sem hæfileikaríkt ungt fólk hefur getað keppt sín á milli í öllu milli himins og jarðar. Nú síðast var ýtt úr vör leitinni að fyndnasta manni Vestfjarða og verður úr því skorið um páskana að mér skilst. Fegurðarsamkeppni Vestfjarða er einnig á döfinni og er ekki langt síðan að við Vestfirðingar eignuðumst okkar eigin Idol stjörnu. Auk þess er hafin undirbúningur að hinum ýmsu stofnunum eins og Vestfirskum Háskóla. Vinaþjóð okkar Pólland mun væntanlega leggja okkur lið en þeim hefur þegar tekist að læða inn pólskum fréttum á Textavarpið þar sem send eru skilaboð til Vestfirðinga í Austur-Evrópu.

Samkvæmt heimilidum Reynis Traustasonar rannsóknarblaðamanns, þá er áformað að ráðast í sjálfstæðisyfirlýsinguna strax að loknu Vestfjarðamótinu í golfi sem fram fer á Syðridalsvelli seint í júní. Þetta kemur fram á fréttavef hans www.kurekahattur.isbjarnartonn.ön. Reynir telur jafnframt líklegt að baráttan um embætti Forsætisráðherra muni standa á milli þeirra Baldurs Smára Einarssonar og Kristinns Hermannssonar sem báðir hafa drjúga reynslu af sveitastjórnarstörfum og eru taldir eiga mikið fylgi í innsveitum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, March 26, 2004

DV part 2
Ég vorkenni íþróttafréttamönnunum á DV. Af einhverjum ástæðum (vonandi praktískum) þá fer blaðið í prentun klukkan 18:00 á daginn! Hvernig eiga blaðamennirnir á íþróttadeildinni að vinna vinnuna sína þegar flestir leikir fara fram á kvöldin? Um daginn hljóðaði ein setning hjá þeim á þessa leið, en umfjöllunarefnið var undanúrslitaleikur Íslandsmótsins í körfuknattleik karla: "leiknum var ekki lokið er blaðið fór í prentun".
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, March 25, 2004

PapaMug dustar rykið af hljóðnemanum
Mér fannst gríðarlega fallegt að heyra að feðgarnir geðþekku Muggi og Mugison ætli að standa fyrir rokkfestivali í villta vestrinu um páskana. Ekki fannst mér síður skemmtilegt að heyra að PapaMug ætli að troða upp á hátíðinni en samkvæmt heimildum mínum í Malasíu mun hann vera virtasti og dáðasti karókísöngvari í suð-austur-Asíu. Fyrir þá sem ekki vita þá er PapaMug þessi einstaka sinnum kallaður Guðmundur M. Kristjánsson og var hann minn helsti aðstoðarmaður hjá Ísafjarðarhöfn síðstliðið sumar. Annar úr starfsliði mínu á höfninni Halldór Hermannsson hyggst einnig dusta rykið af hljóðnemanum og verður það ekki síður áhugavert. Ég heyrði einmitt í karlinum í útvarpsviðtali um daginn og er mér til efs að nokkurn tíma hafi viðmælandi bölvað jafn mikið á jafn skömmum tíma í Ríkisútvarpinu. Skemmtileg tilbreyting að heyra kjarnyrta vestfirsku í viðtæki Micrunnar. Óhætt er að mæla með þessari skemmtun enda greinilega valinn maður í hverju rúmi.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

DV part 1
Hinum alræmda skeinipappír DV tókst að birta splunkunýja yfirheyrsluskýrslu í heild sinni um daginn. Telja ritstjórarnir þetta vera afskaplega eðlileg vinnubrögð og í sama streng tók Marshallaðstoðin fyrir hönd okkar félagsmanna í Blaðamannafélaginu. Ég get tekið undir þeirra sjónarmið að mörgu leyti varðandi skyldur blaðamanna gagnvart almenningi en ekki í þessu tilfelli. Er það vegna innihaldsins. Grétar nokkur gefur í yfirheyrslunni upplýsingar um skipulagða glæpastarfsemi sem hann telur vera af rússnesku bergi brotna. Þegar DV birtir þetta þá eru þeir búinir að setja fjölskyldu Grétars í lífshættu á nóinu. Nema ef vera skyldi að hann hafi logið þessu, en ekki er hægt að ganga út frá slíku. Mér virðist sem eitt helsta vopn slíkra glæpahreyfinga sé að valda ógn og skelfingu, líkt og Daltónar lögðu upp með í Lukku Láka bókunum. Nú er það opinbert að íslenskur starfsmaður þeirra hafa sagt til þeirra í lögregluyfirheyrslu. Það er því ekki óraunhæft að búast við aðgerðum að þeirra hálfu, því tæplega vilja þau að slíkt verði algengt á meðal starfsmanna og viðskiptavina þeirra. En Illugi Jökulsson og Mikael Torfason hafa auðvitað engar áhyggjur af því að slík fórnun fari fram fyrir málstaðinn þar sem þeir eru réttsýnir menn í leit að sannleikanum.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, March 22, 2004

Endurkoma
Bið lesendur afsökunar á því að ekkert hefur verið uppfært hér um nokkra hríð. Ástæðan er sú að síðuhaldari þurfti nauðsynlega að bregða sér erlendis í viðskiptaerindum, nánar tiltekið til Manchester. Varðandi commentin við síðasta pistli, þá er ánægjulegt að sjá að Diskókóngurinn og driffjöður gleðisveitarinnar Abba Babb; sé farinn að leggja orð í belg á síðunni. Hins vegar huggnast mér ekki jafn vel að sölumaður dauðans G. Björns ætli að nota síðuna mína sem ókeypis auglýsingu fyrir Don Alfredo og aðra kornunga framsóknarmenn. En GB er hámenntaður í markaðsmálum og sér í hendi sér að annar eins lesendafjöldi og hér er ekki í boði annars staðar á alnetinu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, March 16, 2004

Nýfæddum börnum fækkar
Halldór Jónsson rannsóknarblaðamaður á Bæjarins Besta var með athyglisverða fyrirsögn um daginn á BB vefnum; "Nýfæddum börnum fækkar á Ísafirði". Var mér vitanlega mjög brugðið er ég las þessa fyrirsögn og hugsaði með mér hverslags glæpaalda væri að ganga yfir á Fjórðungssjúkrahúsinu. En til allrar hamingju fylgdi frétt þessari einkennilegu fyrirsögn sem útskýrði málið. Hún var á þá leið að minna hefði verið um barneignir á Ísafirði en áður. Það ganga því engir barnaræningjar lausir á Ísafirði.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, March 12, 2004

Álögum létt
Þeim álögum; að Arsenal tapi þegar þeirra heitasti stuðningsmaður Jón frá Seljanesi er á Highbury, virðist hafa verið létt á miðvikudaginn. Strandamaðurinn sterki var mættur til Lundúna og viti menn, Arsenal vann Celta í Meistaradeildinni. Forsaga málsins er sú að Jón hefur nokkrum sinnum áður (þrisvar að mig minnir) séð Arsenal leika á Highbury þar sem liðið tapar helst ekki leik. Þeir hafa hins vegar alltaf tapað þegar hann hefur mætt, eða þar til á miðvikudag. Og ekki alltaf gegn stórum liðum, hann hefur til dæmis séð þá liggja gegn Wimbledon þar sem Walesverjinn lipri Winnie Jones skoraði eina markið. Leikmönnum Arsenal hefur hins vegar liðið ögn betur eftir því sem Jón frá Dröngum hefur færst fjær, því eitt sinn náðu þeir jafntefli gegn Tottenham þegar hann fylgdist með á risaskjá fyrir utan völlinn. En þessum álögum hefur sem sagt verið létt frá og með síðasta miðvikudegi og því virðist allt ætla að ganga upp á Nöllunum á þessari sparktíð. Vert er einnig að geta þess að ekkert var leikið í Meistaradeildinni á þriðjudaginn vegna landsleikja.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, March 11, 2004

Styttist í golftímabilið
Golfvertíðin hefst snemma þetta árið. Ég sá á golf.is að fyrstu mótin á höfuðborgarsvæðinu byrja í lok apríl og maí er víðast hvar undirlagður undir mót. Eins gott að vera klár í bátana ef maður ætlar að lækka forgjöfina eitthvað að ráði. Annars hef ég verið að slá í Sporthúsinu þar sem aðstaða er með besta móti, sérstaklega fyrir stutta spilið. Ég hef aldrei fyrr snert golfkylfu yfir vetrarmánuðina og er spenntur að sjá hvort þetta skili betri árangri. Er reyndar einnig búinn að fara tvisvar til sveiflulæknisins Andrésar Davíðssonar, og það er eins og kennsla í golfvísindum. Þegar maður er að hlusta á hann þá fer maður að velta fyrir sér hvað maður sé eiginlega búinn að vera að gera hingað til. Því þetta virkar allt afskaplega einfalt og lógíst þegar hann er að lýsa meginatriðum golfsveiflunnar. En er kannski örlítið flóknara í framkvæmd, en það kemur allt með kalda vatninu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, March 10, 2004

Meðvitundarleysi Kauphallarinnar
Nú botna ég ekkert í Kauphöll Íslands. Þeir hafa ekki sent frá sér neina fréttatilkynningu varðandi sölu á hlutabréfum mínum í Flugleiðum. Merkilegt að þeir skuli sofa svona á verðinum. Maður hefði haldið að það teldist til tíðinda þegar þekktur maður í þjóðfélaginu segir skilið við svo stórt fyrirtæki. Manni dettur helst í hug að einhverjir með handklæði á hausnum hafi flogið á Kauphöllina. Ekkert hefur heldur heyrst frá fjölmiðlafulltrúa Flugleiða, en þessi aðskilnaður er reyndar gerður í fullri sátt. Kannski að þetta eigi eftir að fá umfjöllun í Frjálsri Verslun.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, March 09, 2004

Farið aftur í tímann
Ég las á mbl.is að skipuleggjendur Live Aid tónleikanna frægu hyggjast selja útgáfuréttinn af tónleikunum. Tónleikarnir voru haldnir árið 1985 sem fjáröflun til þess að fæða sveltandi íbúa Eþíópíu og voru þeir sýndir í sjónvarpi um allan heim. Hins vegar hefur aldrei komið út geisladiskur né myndband af tónleikunum. En þar sem reynt hefur verið að hagnast á sjóræningjaútgáfu á netinu þá hafa tónleikahaldararnir ákveðið að selja útgáfuréttinn. Talið er að útgáfurétturinn muni seljast á ríflega hundrað milljónir króna á uppboði og mun upphæðin renna til góðgerðamála. Fjölmiðlar geta sér þess til að tónleikarnir verði því fáanlegir á DVD fyrir næstu jól. Það gæti orðið afskaplega forvitnilegt að rifja þetta upp fyrir áhugafólk um 80´s tímabilið. Þarna voru að sjálfsögðu Duran Duran ásamt U2, Queen, Bowie, Madonnu og fleiri góðum.

Þessi Live Aid stemning minnir mig á gamla hugmynd sem trommuleikarinn geðþekki Kristján Freyr gaukaði að mér fyrir um tíu árum eða svo. En þá stóð til hjá hópi af afspyrnu skemmtilegu fólki að halda upp á tíu ára afmæli 85'sins. Úr því varð þó aldrei að mér vitandi, að minnsta kosti var þessara tímamóta ekki fagnað sérstaklega. Ég þarf endilega að rölta við hjá honum í Máli og Menningu og viðra við hann hvort ekki væri ráð að fara að huga að 20 ára afmæli 85'sins. Fönklistagengið og Vestfirskir Sleikipinnar gætu þar lagst saman á árarnar.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, March 08, 2004

Hraustir menn
Björn Borg er búinn að leggja til fjölgun í Víkingasveitinni eftir löglegt samráð við lögregluyfirvöld og aðra sem að slíku máli koma. Helgi Hjörvar er á meðal þeirra sem hafa stokkið fram á sjónarsviðið og má vart mæla fyrir hneykslan. Stóð hann þrútinn af réttlætiskennd í pontu á Alþingi og gagnrýndi Björninn sérlega málefnalega, þ.e.a.s vitnaði í gömul viðtal við Björn þar sem hann hafði lýst því yfir á svíðvirðlegan hátt að honum þætti gaman að Bruce Villis. Hins vegar er þetta flókið mál fyrir menn eins og Helga sem eru ekki mjög fastir í ákveðinni þjóðfélagssýn. Vegna þess að á þingi er hann alfarið á móti þessu, en í borgarstjórn eru hann og félagar í Error listanum afskaplega fylgjandi þessu, því fjölga mun í lögregluliði borgarinnar um tíu löggur. En fyrir utan að með þessu sé Lögreglan í Reykjavík styrkt eins og mikið hefur verið kallað eftir, þá er einnig verið að fjölga á Keflavíkurflugvelli um 13 að mér skilst. Sem er ágætt, þar sem að liðsmenn Hells Angels og Bandidos virðast einhverra hluta vegna ekki hræðast barefli íslensku lögreglunnar neitt sérstaklega. Þessi mannvinasamtök eru að reyna að hasla sér völl á Íslandi og íslenskum stjórnvöldum hefur verið ráðlagt af stjórnvöldum nágrannaþjóða að vera með svokallaða "non tolerance" stefnu í þessum málum. Það hefur verið gert og er liðsmönnum þessara samtaka snúið við á punktinum í Leifsstöð. Ekki er langt síðan að upp komu slagsmál á flugvellinum í tenslum við komu þessara manna til landsins og því er augljóslega að færast harka í landvinningatilraunir bifhjólamanna. Með það í huga er sennilega ekki slæmt að hafa fleiri sérþjálfaða menn til taks á Keflavíkurflugvelli.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Friday, March 05, 2004

Í ræktinni
Fyrir ekki svo ýkja löngu síðan var ég beðinn um að skrifa plötudóm. Það eitt og sér er í frásögu færandi en það sem er enn merkilegra er að platan kom út fyrir 20 árum síðan og er löngu uppseld ef út í það er farið. Baldur Smári ritstjóri og einvaldur á www.vikari.is óskaði eftir því að ég skrifaði um plötuna "Í ræktinni" með bolvísku gleðisveitinni KAN sem því miður lagði upp laupana fáum árum eftir útgáfu plötunnar. Hefur hann nú birt dóminn (lofræðuna) á vefnum. Fyrir KAN aðdáendur og aðra 80's þyrsta lesendur þá er hægt að nálgast umfjöllunina á þessari slóð: http://www.vikari.is/index.php?tree=7&page=38

Þar sem endurkomur hljómsveita hafa verið nokkuð tíðar á undanförnum árum þá væri ekki úr vegi fyrir meðlimi KAN að taka upp þráðinn eitt sumarið. Það gæti vakið lukku, sérstaklega á norðanverðum Vestfjörðum. Spurning hvort Baldur hafi verið að reyna að ýta slíkri umræðu úr vör með þessari óvæntu umfjöllun á Víkaravefnum? Einnig má velta því fyrir sér hvort útgáfa í formi geisladisks myndi bera sig, en "Í Ræktinni" er eins og kunnugt er eingöngu til á vínil og segulbandi, nema hjá örfáum sem eru í náðinni hjá Ásgeiri Þór.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Thursday, March 04, 2004

Er Þórður Þreytti skemmtilegur?
Ég sá örlítið af Hlustendaverðlaunum FM á popptv um daginn enda hefur viðburðurinn ekki verið sýndur sjaldnar en 50 sinnum undanfarið. Það vakti athygli mína að einhverjum snillingum tókst að verðlauna Þórð Þreytta sem björtustu vonina, eða besta nýliðann eða eitthvað því um líkt. Kallar hann sig Love guru og tekur einhver gömul lög og mixar þeim einhvern veginn saman í einhvers konar Scooter útgáfu. Samkvæmt mínum heimildum var Þórður þessi eitt sinn starfsmaður í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal og mun vera einhver slappasti starfsmaður sem rekið hefur á fjörur þess. Heimildarmaður minn tjáði mér að þar hefði hann aldrei verið kallaður annað en Þórður Þreytti. Á milli þess að starfa í Hnífsdal og vinna til verðlauna hjá FM þá drap hann fólk úr leiðindum sem útvarpsmaður í fjölda ára. Hengdi sig þar á Pétur Jóhann Sigfússon og lét hann halda sé á floti með skemmtilegheitum. Ég gef ekki mikið fyrir þennan apakött svo það sé á hreinu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Wednesday, March 03, 2004

Afsagaðar haglabyssur
Vopnuð rán hafa verið tíð í borg óttans á undanförnum misserum. Maður kippir sér lítið upp við það þó maður heyri í fréttunum frásagnir á borð við; "ógnuðu ræningjarnir starfsfólki með eggvopnum" eða "þjófarnir voru með lambúshettur og voru snöggir að láta greipar sópa". Þó svo að greint sé frá því að þjófar séu með haglabyssu þá er maður samt furðu dofinn, a.m.k. meðan þeir hafa ekki skotið neitt afgreiðslufólk. En þegar maður heyrir talað um "AFSAGAÐAR haglabyssur" já þá hrekkur maður við í sófanum og sperrir jafnvel annað eyrað. Já það er eitthvað ógnvægilegt við afsagaðar haglabyssur. Haglabyssu tengir maður bara við bónda með kindabyssu, en ef hún er afsöguð þá er þetta orðið allt annars eðlis. Enda tekur maður eftir því að fréttaþulirnir reyna að leggja eins mikla áherslu og þeir geta á orðið "afsöguð" þannig að maður sýpur hveljur. Frásagnir af afsöguðum haglabyssum geta orðið til þess að mann langar einna helst til þess að skríða undir rúm og koma ekki undan fyrr en með vorinu.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Tuesday, March 02, 2004

Schram og hulduherinn
Nú er farinn í gang hin hefðbundna umræða þar sem íslenskir fjölmiðlar velta fyrir sér hver gæti verið ákjósanlegt forsetaefni. Sameiningartáknið er ekki í framboði enn sem komið er og einhverra hluta vegna virðast þeir Ástþór í Friði 2% og Snorri heiðursborgari ekki falla í kramið hjá öllum. Greint hefur verið frá því að hópur fólks sé farinn á stúfana til þess að finna heppilegan frambjóðenda. Fréttablaðið hefur þegar birt nafn sem þykir vel koma til álita sem forsetaframbjóðandi. Er það að sjálfsögðu Ellert B. Schram forseti ÍSÍ sem hirti 6. sætið svo eftirminnilega af Eiríki Bergmanni hjá Bannfylkingunni fyrir Alþingiskosningarnar. Samkvæmt Bók aldarinnar sem Gísli Marteinn og Ólafur Teitur skráðu, er Ellert jafnan efstur á lista þeirra sem leitað er til hverju sinni þegar þarf að gefa kost á sér í eitthvað. Og ég spyr því einfaldlega; hvaða fólk er þetta eiginlega sem á að hafa áhuga á Ellerti B. Schram? Hversu fjölmenn getur þessi Schram ætt eiginlega verið? Má ég þá heldur biðja um Bjarna Fel á Bessastaði.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Monday, March 01, 2004

KFÍ áfram á meðal þeirra bestu
Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar hefur tekist að halda sér uppi í Úrvalsdeild körfuknattleiks karla. Er það virðingarvert eftir mikið stapp í vetur í kringum erlenda leikmenn sem ýmist varð brátt í brók eða þóttu ekki samboðnir félaginu sökum almennra leiðinlegheita. Vil ég nota þetta tækifæri og óska stjórnarmönnunum og vinum mínum Torfa Jó og Dóra Magg til hamingju með árangurinn, well done. Er ég ekki hissa á því að þessir menn skuli hafa verið valdir til þess að starfa saman, enda keimlíkir í útliti og atgervi.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

Þýðandi og þulur er Guðni Kolbeinsson
Eitt af því sem fer í taugarnar á mér þessa dagana eru slakar þýðingar í ljósvakamiðlum. Þeir sem að sjá um að hvolfa hinum ýmsu tungumálum yfir á hið ástkæra ylhýra eru greinilega misjafnlega vaxnir til starfans. Þrátt fyrir að vera mikill heimsmaður þá get ég nú reyndar ekki státað af almennilegri kunnáttu í erlendum tungumálum nema engilsaxnesku. Þau skipti sem ég hef verið að pirra mig yfir slakri eða undarlegri þýðingu einskorðast því við þýðingar úr því tungumáli. Ég fylgdist til dæmis með körfuboltagoðinu og einkavini Sjonna Jóns; Sir Charles Barkley á dögunum þar sem hann var gestur Jay Leno. Sir Charles talaði um að til stæði að fara í gleðskap til Magic Johnsons sem er víðfræður fyrir leikni sína í körfuknattleik og baráttu sína gegn Alnæmi. Eitthvað hefur þessi heimsfrægi einstaklingur þó farið fram hjá þýðanda þáttarins þar sem nafn hans var Mattie Johnson á hinum íslenska texta.

Eins brá mér illilega í gær þegar greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 að kvikmyndin Dulá (Mystic River) hefði fengið tilnefningar til Óskarsins. Mér er algerlega um megn að botna í því þegar Merðir Árnasynir þessa lands telja að tungumálinu sé gerður greiði með því að þýða öll hugsanleg heiti yfir á íslensku, eins og nafn kvikmynda, popplaga og svo ég tali nú ekki um nöfn fólks; svo sem Játvarður! Undantekningin sem sannar regluna er vitaskuld íþróttapistlar Kristinns R. frá Madrid en sá snillingur fær mitt leyfi til þess að leika sér áfram með nöfn íþróttamanna.
Ég þakka þeim sem lásu.
Góðar stundir.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?